Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:14:00 (2435)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er búið að segja margoft að ég hafi ætlað að selja hlutabréf Búnaðarbankans á hálfvirði. Það sem ég sagði, ef það skyldi nú verða mönnum til upplýsinga, var það að ég ætlaði að bjóða öllum landsmönnum hlutabréf í bankanum á hálfvirði. Það segir auðvitað ekkert um það hve mikils virði bankinn er. En síðan var sagt að ef landsmenn kærðu sig ekki um að kaupa á niðursettu verði bréf bankans yrðu þau bréf seld hæstbjóðendum. Þetta var sagt að sérstöku gefnu tilefni og á það bent jafnframt að þessi leið hefði víða verið farin. En nú ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það mál.
    Vegna orða síðasta hv. ræðumanns þá vil ég sem mikill áhugamaður um hlutabéfamarkaðinn og verðbréfamarkaðinn íslenska þakka þann mikla víðtæka stuðning sem hér hefur komið fram frá fulltrúum flestra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, við það mál og vænti þess að eiga þar hauk í horni þegar að því kemur að taka þurfi á skattalagabreytingum sem áhrif hafa á verðbréfa- og hlutabréfamarkaðinn í framtíðinni. Ekki síst vegna þess að sú hv. ríkisstjórn sem nú starfar hefur sett sér það markmið að einkavæða opinber fyrirtæki og til þess að það geti gengið sem snurðulausast fyrir sig þá er afar nauðsynlegt að víðtæk samstaða sé þar um. Þess vegna þakka ég hv. áhugamönnum, sérstaklega þeim nýjustu í hópnum, fyrir þann mikla áhuga sem þeir hafa sýnt að þroska áfram hlutabréfa- og verðbréfamarkaðinn hér á landi.