Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:16:00 (2436)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjmrh. kynnti fjárlagafrv. í haust sagði hann að þetta fjárlagafrv. ætti að vera grundvöllur kjarasamninga. Ég minnti hæstv. fjmrh. á það við 3. umr. fjárlaga fyrr í dag að þegar við erum komin að afgreiðslu fjárlaganna er ljóst að þetta fjárlagafrv. er einn helsti þröskuldurinn við gerð kjarasamninga sem þurfa að fara fram hér upp úr áramótum. Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þeirra samtaka sem fjmrh. á að semja við, hafa lagt það á sig að koma hér í Alþingishúsið síðla á laugardagskvöldi til að fylgjast með þessari umræðu. Hvers vegna er það, hæstv. fjmrh.? Það er vegna þess að með því frv., sem hér er verið að ræða, er verið að taka af launafólki, barnafólki, innan BSRB ígildi 4.000 kr. á mánuði. Þetta frv. er hreint kjaraskerðingarfrv. ríkisstjórnar gagnvart launafólki innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem er barnafólk. Heldur hæstv. fjmrh. að þetta sé skynsamleg leið til að ná kjarasamningum og stöðugleika í íslensku efnahagslífi? Þessi aðgerð með barnabæturnar er álíka vitlaus, álíka heimskuleg gagnvart launafólkinu í landinu og það ákvæði sem hér hefur verið til umræðu gagnvart atvinnulífinu. Það er satt að segja alveg furðuleg skammsýni þegar hæstv. fjmrh. á kost á því að leggja hér á hátekjuskatt í tekjuskatti og hefði verið studdur af stjórnarandstöðuflokkunum líklegast velflestum ef ekki öllum til þeirra verka hér á þingi að þá skuli hann hafna þeirri leið en kjósa í staðinn að taka 4.000 á mánuði frá því fólki sem er með miðlungstekjur og á tvö, þrjú eða fjögur börn. Þegar vinnumarkaðurinn leysist upp í átök eftir áramót, hæstv. fjmrh., þá er nauðsynlegt að þú gerir þér grein fyrir því að það ert þú, hæstv. fjmrh., og ríkisstjórnin sem ber meginsök á því. Við sögðum í sumar að í þessu fjárlagafrv. yrði að leggja grundvöll að kjarasamningum með því að breyta skattalögunum á þann veg að auka ráðstöfunartekjur venjulegs launafólks í gegnum skattabreytingar og taka það með peningum sem eru sóttir til hátekjufólksins og fjármagnseigenda. Í þessu frv. er notuð þveröfug aðferð. Fjármagnseigendur og hátekjufólk er látið í friði en í staðinn er farinn sérstakur leiðangur til að rýra kjör launafólks með miðlungstekjur og nokkur börn á framfæri sínu. Þetta hefur auðvitað komið fram við þessa umræðu en það er nauðsynlegt að minna hæstv. fjmrh. á það að þessa dagana hafa birst áskoranir frá þeim samtökum launafólks sem hann á að semja við, þar sem þingheimur hefur verið hvattur til þess að hverfa frá þessum gerningi. Við hverja ætlar hæstv. fjmrh. að semja með þessum aðferðum eftir áramótin? Maðurinn sem stóð hér í stólnum á síðasta þingi og hafði uppi fögur orð um nauðsyn þess að eiga góða sambúð við launafólk af hálfu fjmrh. og ríkisstjórnar.
    Hæstv. fjmrh. ætti að minnast þess í byrjun næsta árs að þetta kvöld, laugardagskvöld, þegar við göngum til atkvæða um þetta frv. og um fjárlögin er það forustusveit þeirra samtaka, sem hann á að semja við, sem sérstaklega hefur gert sér för hingað í þinghúsið til þess að fylgjast með því hvað hér er að gerast. Þessi ríkisstjórn stefnir að því að hleypa öllu upp eftir áramótin, stefnir að ófriði á vinnumarkaði, áframhaldandi háum raunvöxtum og gífurlegum halla á ríkissjóði. Það er ekkert í þeim skattabreytingum sem hér á að fara að samþykkja sem hjálpar atvinnulífinu, ekki neitt. Það er fjöldi ákvæða sem rýrir getu atvinnulífsins til þess að vaxa. Í þessu skattafrumvarpi er ekkert sem hjálpar launafólki til að leysa þá erfiðu þraut að ná nýjum kjarasamningum. Þvert á móti er fjölmargt sem gerir launafólki mjög erfitt fyrir að ná kjarasamningum. Er það virkilega hlutverk þessarar ríkisstjórnar að magna þau vandræði og þá erfiðleika sem við er að glíma í okkar þjóðfélagi? Það er stór ábyrgð og mikil sök og þess verður minnst, hæstv. fjmrh., lengi hver verkin verða hér í kvöld og í nótt.