Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:41:00 (2442)

     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Herra forseti. Þau tíðindi gerðust við afgreiðslu þessa máls í efh.- og viðskn. að nefndin þríklofnaði þrátt fyrir það að hér sé á ferðinni mál sem hefur verið afgreitt í þinginu ár eftir ár. Og það vill svo til að við sem tilheyrum stjórnarandstöðunni skipum 1. minni hl., en það eru auk mín Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Á þskj. 347 er nál. frá 1. minni hluta efh.- og viðskn. og það er svohljóðandi, herra forseti:
    ,,Nefndin ræddi á tveimur fundum frumvarp til laga um árlega framlengingu á jöfnunargjaldi sem hér hefur verið innheimt frá árinu 1979. Í frumvarpinu er lagt til að innheimta gjaldsins verði nú aðeins framlengd um sex mánuði. Jöfnunargjaldið nær til innflutnings á sams konar iðnaðarvörum og framleiddar eru hér á landi.
    Í umræðum um jöfnunargjaldið hefur verið dregið í efa að áframhaldandi gjaldtaka samræmist þeim fríverslunarsamningum sem Íslendingar eru aðilar að og einnig hefur verið bent á að rök skorti til að framlengja þessa innheimtu. Undirritaðir nefndarmenn eru á annarri skoðun. Þeir telja að enn séu gild rök til staðar fyrir innheimtu jöfnunargjaldsins.
    Í fyrsta lagi gætir enn áhrifa uppsafnaðs söluskatts. Í öðru lagi er staða íslensks iðnaðar með þeim hætti að hann þolir ekki versnandi samkeppnisstöðu. Í þriðja lagi kallar mikill viðskiptahalli á aðgerðir sem draga mega úr innflutningi. Þá mætti bæta við að hér er um mikilvægan tekjustofn að ræða fyrir ríkissjóð og að jöfnunargjaldið er mun geðfelldari tekjulind en margt það sem ríkisstjórnin seilist í þessa dagana.
    Meðan ekki sannast að um brot á samningum sé að ræða og helstu viðskiptaþjóðir okkar láta ógert að mótmæla þessari gjaldtöku er sjálfsagt að nýta þennan tekjustofn.
    Undirritaðir nefndarmenn telja því rétt að halda innheimtu jöfnunargjaldsins áfram. Verði það gert á annað borð er eðlilegt að sú tilhögun gildi allt árið. Frumvarp ríkisstjórnarinnar er hálfkák og betra að fella gjaldið niður strax en að standa uppi um mitt ár án slíks tekjustofns. Treysti stjórnvöld sér til að rökstyðja sex mánaða framlengingu`` --- og reyndar níu mánuði samkvæmt allra nýjustu tillögum --- ,,er vandséð að ekki sé hægt að bæta sex mánuðum þar við`` --- eða þremur nú. ,,Því leggur 1. minni hluti til að lögin verði framlengd um eitt ár og að 1. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að í stað 30. júní komi: 31. desember. Með þessari breytingu ættu 700--800 millj. kr. að renna í ríkissjóð.``
    Af þessu leiðir, herra forseti, að ríkisstjórnin þarf að senda enn eitt bréfið til Efnahagsbandalagsins. Það er nefnilega búið að tilkynna í tvígang að þetta gjald verði fellt niður, það var gert í fyrsta sinn á miðju ári 1990 og síðan í annað sinn í janúar 1991 vegna þess að það hefur staðið til ár eftir ár að fella þetta gjald niður. Nú verða bréfaskriftirnar að hefjast enn á ný. Og það verður að koma í ljós síðar hvort þeir aðilar, sem við eigum viðskipti við á erlendri grund, samþykkja þessa framlengingu.
    En á þskj. 358 flytjum við, 1. minni hl., brtt. í samræmi við það sem fram kom í nál. Hún er svohljóðandi, herra forseti:
  ,,1. Við 1. gr. Í stað orðanna ,,30. júní 1992`` í niðurlagi greinarinnar komi: 31. desember 1992.
    2. Við 3. gr. Í stað orðanna ,,1. júlí 1992`` í síðari málsgrein komi: 1. janúar 1993.``
    Þessi brtt. er í samræmi við það sem ég áður sagði að við leggjum til að jöfnunargjaldið verði framlengt í eitt ár. Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja það frekar. Eins og ég sagði þá er hér um heldur geðfelldari tekjuöflun að ræða en t.d. það sem hér var til umræðu rétt áðan, sjómannaafsláttur og barnabætur, betra er að nota hina almennu neyslu til þess að afla tekna en að leggjast á ákveðna hópa.