Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:46:00 (2443)

     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 348 um frv. til laga um breytingar á lögum um jöfnunargjald, frá 2. minni hluta efh.- og viðskn.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, Svein Á. Björnsson frá utanríkisráðuneytinu, Ólaf Davíðsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra iðnrekenda, Indriða H. Þorláksson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, og Jónas Friðrik Jónsson frá Verslunarráði Íslands. Erindi barst frá Verslunarráði Íslands.
    Annar minni hluti nefndarinnar telur að sú álagning jöfnunargjalds, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, sé nauðsynleg vegna þeirra erfiðleika sem nú steðja að íslensku efnahagslífi og vegna þess að enn gætir uppsöfnunaráhrifa söluskatts. Því er lagt til að frumvarpið verði samþykkt án breytinga.``
    Undir nál. skrifa Rannveig Guðmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir og Guðjón A. Kristjánsson. En ég vil láta það koma fram að mér er fullkunnugt um þá brtt. sem hefur komið fram á þskj. 360 og mun styðja hana.