Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:54:00 (2446)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. á frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga á þskj. 361 frá félmn.
    Nefndin kom saman að nýju til að fjalla um 7., 8. og 14. gr. frumvarpsins. Nefndin fékk á sinn fund Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu.
    Nefndin mælir með því að gerðar verði breytingar á framangreindum greinum og flytur um það tillögur á sérstöku þingskjali. Breytingar nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Við 7. gr. er gerð tillaga um orðalagsbreytingu til að taka af öll tvímæli um að upphæð vatnsgjalds skuli miðast við að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitna og því sé gjaldtaka umfram þann kostnað óheimil. 1. málsl. fyrri mgr. 7. gr. orðast þá svo:
    Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitna.
    Við 8. gr. er bætt ákvæði um að hámark aukavatnsgjalds skuli tilgreint í reglugerð er félmrh. setur. Og við 14. gr. er gerð tillaga um að fimm árum eftir gildistöku laganna beri sveitarstjórn að yfirtaka heimæð sé þess óskað af fasteignareiganda, en fram að þeim tíma komi aðeins til yfirtaka sveitarstjórnar ef samkomulag verði um það milli hennar og fasteignareiganda. Þó er kveðið á um að á þessu fimm ára tímabili skuli sveitarstjórn annast á eigin kostnað viðhald framangreindra heimæða. Breytingin er til að tryggja að þeir fasteignaeigendur, sem ekki ná samkomulagi við sveitarstjórn eða er ókunnugt um ákvæði laganna, verði ekki fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna viðhalds heimæðar. Jafnframt er sett ákvæði í greinina er skyldar sveitarstjórn til að kynna fasteignaeigendum ákvæði hennar.
    Einar K. Guðfinnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir nefndarmenn, Rannveig Guðmundsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson, Eggert Haukdal, Gunnlaugur Stefánsson og Guðjón Guðmundsson skrifa undir álitið og eru sammála þeim brtt. sem eru tilgreindar og ég hef hér mælt fyrir á þskj. 362.