Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 22:09:00 (2448)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga hefur ekki verið synjað um að sjá umrædd bréf, eins og fram kom hér í frammíkalli hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. Viðkomandi þingnefnd, efh.- og viðskn., var heimilað að berja augum texta þessara bréfa. Þannig að trúnaðarmenn Alþingis, sem um málið hafa fjallað og þar með trúnaðarmenn þingflokka, hafa séð bréfin. Það er ekki til siðs að dreifa þessum bréfum sem þingskjölum eins og hv. þm. veit né heldur afhenda þau í ræðustólinn. En meginefni spurningar hans var um að hvers vegna Alþingi hefði verið synjað um að sjá efni þessara bréfa og svarið við því er: Því var ekki synjað.
    Niðurstaða þessa máls er einföld. Hún er sú að hv. 8. þm. Reykn. hefur orðið að þeirri ósk sinni sem baráttumanni fyrir framlengingu þessa gjalds að það er orðin staðreynd. Hv. þm. sagðist ætla að meina sjálfum sér að spyrja hvaða rökstuðningur yrði notaður á erlendum vettvangi til að réttlæta það en það er ekkert leyndarmál, það var upplýst í umræðum í hv. nefnd. Rökstuðningurinn er aðallega sóttur í grg. með frv., hæstv. fyrrv. fjmrh., um hvers vegna uppsöfnunaráhrif eru enn viðvarandi.