Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 22:13:00 (2450)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Kannski fyrst aðeins út af þessu margumrædda bréfi. Það var eftir mikinn eftirgang og kröfuhörku hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hv. efh.- og viðskn. fékk að berja þetta merkilega bréf augum og reyndar tvö önnur bréf líka. Og ég verð að segja eftir að hafa lesið þau var mér það alveg hulin ráðgáta hvers vegna það þurfti þennan eftirgang við ráðuneytið til að fá að sjá þessi bréf. Ég gat ekki séð að í þeim væri nokkur skapaður hlutur sem ekki þyldi dagsins ljós. Það bíður ekki mikið hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann fær, og hann fær það vafalaust, að lesa það bréf í utanrmn. Þannig ég skil ekki af hverju mátti ekki sýna þetta bréf.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hóf hér ræðu sína áðan á því að segja að hann hefði leyft sér að taka hæstv. utanrrh. alvarlega á síðasta þingi varðandi jöfnunargjaldið. Ég held ég verði að nota sömu orð og segja að ég leyfði mér líka að taka hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson alvarlega þegar hann lét þá skoðun í ljós á síðasta þingi að jöfnunargjaldið ætti að falla út við þessi áramót. Þess vegna urðu það mér vonbrigði núna þegar hv. þm. hefur lýst því yfir að hann sé hugsanlega reiðubúinn að styðja þetta gjald áfram.
    Það hefur verið lögð fram brtt. við jöfnunargjald í þá veru að það verði framlengt úr sex mánuðum í níu mánuði sem kemur mér nokkuð á óvart. Ég var að sjá það núna fyrst á borði mínu hér í þingsalnum og harma að svo skuli vera.
    Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við ræðu frsm. 3. minni hluta að bæta öðru en því að þetta gjald er núna orðið eitt af þessum tímabundnu gjöldum sem er framlengt ár eftir ár og endurnýjað ár eftir ár svona svipað og skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þetta er gjald sem átti að falla út við upptöku virðisaukaskatts en er núna endurnýjað ár eftir ár og orðið einn af þessum föstu liðum, því miður.
    Hér hafa menn verið að berja sér á brjóst og segjast vera vinir atvinnulífsins í hinum og þessum málum. Ég vil benda mönnum á að verslun í landinu er líka hluti af atvinnulífinu í landinu og hún á sér fáa málssvara hér innan þessara veggja. Að maður tali nú ekki um neytendur sem þessi skattlagning lendir á. Menn vita að við innflutning leggst

þetta gjald ekki bara á vöruverðið, það leggst á flutningsgjald, það leggst á pökkun, tryggingu og aðra slíka hluti og endar síðan að sjálfsögðu út í verðlaginu með hækkuðu verði sem auðvitað lendir á neytendum.
    Hér hefur aðeins verið minnst á þá samninga sem við höfum gert sem eru náttúrlega marklausir. Við virðum þá einskis og hér sagði frsm. 1. minni hluta að við ættum að halda áfram að brjóta þá á meðan við komumst upp með það. Það er að sjálfsögðu mjög góð tekjuleið fyrir ríkissjóð. Auðvitað tökum við bara tollskrána okkar og vinnum hana upp og brjótum tollasamninga og leggjum á tolla þar sem við höfum samþykkt að hafa enga tolla svo lengi sem við komumst upp með það. Þetta eru náttúrlega alveg fáránleg rök og ekki sæmandi. Enda þekkjum við þess dæmi núna að samviskan er ekki mjög góð. Einn aðili hefur gert athugasemdir við jöfnunargjald, hið svokallaða reipamál. Samviskan var náttúrlega það slæm hjá ráðuneytinu að það vafðist ekkert fyrir því hvað átti að gera, það átti auðvitað að fella jöfnunargjaldið strax niður og það var gert. Auðvitað er þetta gott fordæmi. Það er kannski það sem Verslunarráðið á frekar að gera en fara í beina málssókn, það er að benda öllum sínum umbjóðendum á það að gera athugasemdir við ráðuneytið því viðbrögð ráðuneytisins eru alveg skýr, þeir þora ekki --- og vita að þetta þolir ekki dagsins ljós. ( ÓÞÞ: Það er nú mest samþykkt á nóttunni hér.) Já, það eru myrkraverk víða og þetta er eitt af þeim.
    Hæstv. forseti. Ég stend að áliti 3. minni hluta og ef þingheimur er, eins og ég sagði áðan, mjög vinveittur atvinnulífinu --- og ég vona að það komi hér fram á eftir --- þá vona ég að hann taki undir okkar skoðun að þetta gjald beri að leggja niður, það sé óréttlátt og það eigi alls ekki rétt á sér með tilliti til þeirra samninga sem við höfum gert. Og af því að ég var aðeins hér að vitna í hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson áðan þá er nú best að vera sanngjarn. Hann talaði fyrir því að þetta gjald yrði lagt niður um þessi áramót, það gerði auðvitað núv. hæstv. fjmrh. líka.