Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 22:19:00 (2451)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Fáein orð í viðbót vegna bréfaskrifta sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni og þáttar undirritaðs í þeim. Það er alveg rétt að ég gekk nokkuð fast fram í því að fá umrædd bréf í hendur og kynna mér efni þeirra. Nú var það svo að af vissum ástæðum vissi ég um tilvist a.m.k. eins af þessum bréfum, þau eru reyndar þrjú. Og ég hafði ástæðu til að ætla að í þeim væru engin þau stórkostlegu leyndarmál að miklu máli skipti í sjálfu sér hvort þau lægju fyrir, lægju frammi eða okkur væri efni þeirra kunnugt, það mundi ekki breyta miklu í afstöðu okkar til málsins. En á hinu var ég býsna staðfastur og það var að láta ekki halda undan fyrir mér gögnum sem vörðuðu mál sem væri til skoðunar í einni af nefndum Alþingis. Það, eins og ég vitnaði í í efh.- og viðskn., hafði ég ekki áður upplifað á minni þingveru hér sem er nú komin á níunda ár og hef aldrei látið neita mér um gögn þau sem ég tel að varðað gætu mál sem til skoðunar væru við lagasetningarstörf á Íslandi. Enda er það eðli málsins samkvæmt þannig að ég tel að enginn aðili þjóðfélagsins hafi í raun og veru réttmætar forsendur til þess að neita nefndum Alþingis um upplýsingar og þurfi þá að vera einhverjar sérstakar ástæður sem ég hef í raun ekki enn komið auga á. Ef um trúnaðargögn er að ræða ber að að sjálfsögðu virða slíkan trúnað enda þekkja menn þess fjölmörg fordæmi, samanber utanrmn. að þar séu hlutir jafnvel að fullu og öllu ræddir í trúnaði og lokaðir þar inni. Hið sama hlýtur að geta átt við fagnefndir þingsins. Í hlutarins eðli liggur að undir vissum kringumstæðum, t.d. í efh.- og viðskn. þar sem viðskiptaleg mál eru til umfjöllunar sem geta verið viðkvæm og nauðsynlegt að fari leynt, verður nefndin að geta kynnt sér slíka hluti.
    Auðvitað hefði ekki verið boðlegt að efh.- og viðskn. hefði afgreitt frá sér ákvörðun um það hvort sem hún mælti með því eða á móti að framlengja þetta jöfnunargjald að hún hefði ekki haft undir höndum bréflegar upplýsingar sem gátu varðað stöðu okkar í málinu á erlendri grund. Þess vegna gerði ég úr því þó nokkurt mál að bréfunum yrði ekki undan haldið og óskaði fyrst eftir að fá þau í hendur. Því var synjað. Þá óskaði ég eftir því að fá þau í hendur í trúnaði en því var sömuleiðis synjað. Að lokum bar formaður nefndarinnar þau skilaboð frá utanrrh. að hann hefði mælt fyrir um að þessi gögn yrðu ekki afhent. Þá óskaði ég eftir hæstv. utanrrh. á fund nefndarinnar og krafðist þess að fá að heyra af hans eigin munni að þessum gögnum yrði haldið fyrir nefndinni. En sem betur fer rann ljósið upp fyrir hæstv. utanrrh. og hann sá að þetta var óhæfa og gekk ekki og féllst á það að senda embættismann sinn með þessi bréflegu gögn og afhenda efh.- og viðskn. til skoðunar, en að vísu ekki til afhendingar þannig að við hefðum þau undir höndum eftir nefndarfundi. Á þetta var sæst sem eðlilegt mátti teljast og lauk þar með skoðun efh.- og viðskn. á þessum bréfum. Hef ég svo sem ekki fleira um þetta að segja, aðrir hafa rakið afstöðu okkar til málsins fyrir hönd minni hlutans.
    En af því að bréfaskriftir þessar hafa verið til umræðu og bréf þessi og af því að hér hefur verið vitnað í það góða skáld Halldór Laxness og lesið upp úr bók hans Íslandsklukkunni nokkrum sinnum á undanförnum sólarhringum, finnst mér ekki hægt að ljúka þessum kafla öðruvísi en að lesa hér framarlega úr sögunni þar sem segir frá gamla manninum og viðskiptum hans við kóngsins bífalíngsmann og prófoss. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta, sem ég veit að góðfúslega sé vitnað í þetta göfuga rit:
    ,,Gamall maður kemur með hundi sínum innanúr hrauni og geingur í veg fyrir lestamenn:
    Og hverjir eru mennirnir?
    Hinn feiti svarar: Ég er hans majestets bífalíngsmaður og prófoss.
    Óekkí, muldraði gamli maðurinn hás einsog rödd úr fjarska. Skaparinn er nú samt sá sem ræður.
    Ég hef bréf uppá það, sagði bífalíngsmaður konúngsins.
    Og það veit ég, sagði gamli maðurinn. Bréfin eru orðin mörg. Og það er margt bréfið.
    Vænir þú mig um lygi gamli fjandi, spurði bífalíngsmaður konúngsins.
    Þá hætti öldúngurinn sér ekki nær lestamönnum, en settist á garðbrotið kríngum Lögréttuhúsið og horfði á þá. Hann var í aungu frábrugðinn öðrum gömlum mönnum: grátt skegg, rauð augu, stromphúfa, hnýttir fætur, kreppti bláar hendurnar um stafprik sitt og hallaðist fram á það tinandi. Hundurinn hans fór innfyrir garðinn og þefaði af mönnunum án þess að gelta, sem siður er laungrimmra hunda.
    Í fornöld voru eingin bréf, tuldraði öldúngurinn fyrir munni sér.
    Þá gall við Surtur, fylgdarmaður hins bleika:
    Rétt segir þú lagsmaður. Gunnar á Hlíðarenda hafði ekkert bréf.
    Hver ert þú? spurði öldúngurinn.
    O þetta er snærisþjófur af Akranesi, hann er búinn að liggja í Þrælakistunni á Bessastöðum síðan um páska, svaraði bífalíngsmaður konúngsins og sparkaði vonskulega í hundinn.
    Hinn svarti tók til máls og glotti við svo skein í hvítar tennurnar:
    Hitt er kónsböðullinn frá Bessastöðum. Það míga utaní hann allir hundar.``