Jöfnunargjald

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 22:26:00 (2453)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég ráðlagði hæstv. utanrrh. að láta málið kyrrt liggja þegar lestrinum úr Íslandsklukku væri lokið en því miður þá fór hæstv. utanrrh. ekki að þeim ráðum.
    Það er rangt hjá hæstv. utanrrh. að hið íslenska fjmrn. hafi skrifað eitthvert bréf í þessum efnum eða sent frá sér greinargerð. Það hefur það ekki gert. ( Utanrrh.: Framlagt á ríkisstjórnarfundi.) Það sem framlagt var á ríkisstjórnarfundi, svo ég svari frammíkalli hæstv. utanrrh., var greinargerð sem efnahagsráðgjafi fjmrh., ekki embættismaður, heldur pólitískur samstarfsaðili fjmrh. hafði saman sett en enginn embættismaður í fjmrn. vilja nálægt koma. ( Utanrrh.: Jú, þeir hjá Þjóðhagsstofnun.) Enn fer hæstv. utanrrh. með rangt mál, en af því að hann hætti sér í umræður um þetta mál á grundvelli tilvitnana í þá merku bók Íslandsklukkuna er rétt að greina frá því að Evrópubandalagið hefur kært einu sinni íslenska jöfnunargjaldið og fjmrn. íslenska brást þannig við þeirri kæru að gjalda jáyrði við henni og fella niður jöfnunargjaldið af þeirri vöru sem Evrópubandalagið kærði að á væri jöfnunargjald. Og hver var þessi vara? Það er við hæfi, hæstv. utanrrh., að geta þess í lok umræðunnar, það var snæri.