Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 23:53:00 (2462)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Þessi breyting sem hér er verið að greiða atkvæði um á barnabótum felur í sér lækkun á barnabótum um 500 millj. kr. og er í raun sérstök skattlagning á barnafjölskyldur í landinu. Þeim er gert að leggja sérstaklega af mörkum til að greiða úr vanda ríkissjóðs meðan aðrir sem betur eru til þess bærir að leggja eitthvað af mörkum losna undan því.
    Með þessari aðgerð er verið að taka aftur þá hækkun barnabóta sem kom til framkvæmda á árinu 1988 í tengslum við upptöku virðisaukaskatts og sem hugsuð var til að vega upp á móti hækkun matarverðs og átti sérstaklega að koma barnafjölskyldum til góða. Það voru þá 320 millj. sem framreiknað til verðlags næsta árs eru 500 millj. kr. Sem sagt hver einasta króna aftur tekin. Og það eru sömu flokkar sem standa að því þá og nú. Þá voru það Alþfl. og Sjálfstfl. sem m.a. stóðu að þessari breytingu. Nú taka þessir flokkar þetta aftur. Við kvennalistakonur mótmælum þessari óréttlátu skattlagningu, við greiðum atkvæði gegn þessu og því segi ég nei.