Meðferð einkamála

58. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 00:03:00 (2464)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. hefur náðst ágæt samstaða um að afgreiða það mál sem hér er til umræðu. Ég vil hins vegar að það komi fram að af hálfu Alþb. höfðum við nokkrar áhyggjur af því ákvæði sem hæstv. dómsmrh. vék hér að. Við höfum hins vegar ákveðið að standa að málinu hér á Alþingi í trausti þess að sú yfirlýsing sem hér var gefin leiði til raunhæfrar athugunar á því hvort það nýmæli sem hér er verið að festa í lög muni ekki brjóta gegn þeim almennu venjum og skilningi sem samtök launafólks hafa lagt í þessi mál á undanförnum áratugum. Það er afar mikilvægt að um þessi ákvæði ríki góð samstaða í samfélaginu. Það er ekki okkar ætlan með samstöðu okkar hér um afgreiðslu þessa máls að stuðla að því að skerða réttindi eða möguleika samtaka launafólks til þess að gæta hagsmuna félaga sinna.
    Í trausti þess að það bréf sem hæstv. dómsmrh. las hér upp verði til þess að raunhæft mat fari fram á því hvaða breytingar hér hafi orðið og í trausti þess að góð samvinna verði höfð við samtök launafólks um framkvæmd þeirra ákvæða, sem að réttindum og möguleikum samtaka þeirra snúa, munum við styðja það frv. sem hér er til umfjöllunar.
    Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, óska eftir því að umræðu um þetta mál verði ekki lokið hér og nú, heldur muni það verða geymt þar til kemur að endanlegri afgreiðslu fjárlaga.