Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 02:00:00 (2469)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hvað eftir annað í haust að formaður þingflokks Alþfl. hafi skrifað hæstv. menntmrh. bréf og lýst því yfir að innan þingflokks Alþfl. væri ekki stuðningur fimm þingmanna við að skólagjöld yrðu tekin upp. Það liggur jafnframt fyrir að hæstv. félmrh. lýsti því yfir opinberlega við aðdraganda þess að fjárlagafrv. væri lagt fram að hún væri andvíg því að skólagjöld yrðu tekin upp. Nú hefur það þegar gerst í þessari atkvæðagreiðslu að hæstv. félmrh. hefur greitt því atkvæði að skólagjöld verði á háskólastigi og á hluta framhaldsskólanemenda á næsta ári og einn af fulltrúum þess hóps í Alþfl., sem talinn var andvígur því að skólagjöld yrðu tekin upp, hefur einnig greitt því atkvæði. Þess má vænta að aðrir fulltrúar þess hóps í Alþfl. muni nú ganga hér þessa götu að samþykkja að skólagjöld verði tekin upp. Það er leitt að slík skuli gerast hér og ekki skuli vera meiri hluti fyrir því að koma í veg fyrir að skólagjöld verði tekin upp. Það er hins vegar lexía fyrir okkur mörg og þjóðina að lítið er að marka þær yfirlýsingar sem koma fram með þessum hætti og hægt að óska hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. og einnig hæstv. utanrrh. til hamingju með að hafa beygt þennan hóp í Alþfl. Afstaða okkar er hins vegar skýr. Við viljum koma í veg fyrir að skólagjöld verði tekin upp á þessu stigi og ég segi því já.