Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 02:29:00 (2476)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Þáv. samgrh. Matthías Á. Mathiesen sendi formlegt bréf sam samgrh. ríkisstjórnar Íslands til forseta alþjóðlegu ólympíunefndarinnar, æðsta embættismanns alþjóðlegra íþróttamála. Í því bréfi lýsti þáv. samgrh. því yfir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að reist yrði sérstakt íþróttahús fyrir heimsmeistarakeppni í handbolta og ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að heimsmeistaramót í handbolta yrði haldið hér á Íslandi. Embættismenn þáv. utanrrh. fóru síðan með sérstökum fulltrúa þáv. samgrh. á fund forseta alþjóðlegu ólympíunefndarinnar og afhentu honum formlega og persónulega þetta bréf frá ríkisstjórn Íslands.
    Það er afar dapurlegur endir á þessu máli og vægast sagt mjög ósmekklegur og lítt núv. ríkisstjórn til sóma og reyndar einnig íslenskri þjóð lítt til sóma að hæstv. fjmrh. skuli kveðja sér hér hljóðs þegar umræðu um fjárlögin er lokið og lesa upp bréf með þeim efnisatriðum sem hann las hér upp án þess að verða við þeirri ósk að skýra þingheimi frá því hvenær bréfið er dagsett. Þetta mál er því miður orðið allt hið undarlegasta af hálfu ríkisstjórnar Íslands og getur haft alvarleg áhrif á það hver orðstír Íslendinga verður í hinum alþjóðlega íþróttaheimi.
    Ég tel nauðsynlegt að standa við þær skuldbindingar sem voru gefnar alþjóðlega og tel engar þær málsástæður komnar fram í því bréfi sem hæstv. fjmrh. las hér til þess að hverfa frá fyrri skoðun í þessum efnum og segi því já við tillögunni.