Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:54:00 (2497)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt til skýringar að láta það koma hér fram að brtt. 345 felur það í sér að framlag til Neytendasamtakanna verði hækkað um 2,5 millj. Framlagið yrði þá, ef tillagan yrði samþykkt, samtals 5 millj. kr. eða jafnmikið að krónutölu og það er í ár.
    Tillagan felur í sér viðleitni til þess að tryggja það að starfsemi Neytendasamtakanna geti verið óbreytt á nýju ári þar eð við flm., sem ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, teljum nauðsynlegt að búa þannig að neytendum í landinu á þeim erfiðu tímum sem fara í hönd að tryggt sé að þau samtök, frjálsu samtök sem gæta hagsmuna þeirra geti starfað með eðlilegum hætti. Ég vildi skýra þetta, virðulegi forseti, af því að þetta kemur ekki fram í því hvernig tillagan er orðuð og vil síðan óska eftir því að nafnakall fari fram um hana.