Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 04:21:00 (2502)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Þær þrjár jarðir sem hér er verið að leita eftir heimild til að seldar verði samkvæmt óskum frá sveitarstjórn á Reyðarfirði voru Kristfjárjarðir til skamms tíma. Kristfjárjarðir höfðu og hafa alveg sérstaka stöðu, höfðu það a.m.k., og voru m.a. ætlaðar til fátækraframfærslu. Þegar undirbúin var stofnun og bygging kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð, þá var yfir þetta mál farið mjög vandlega af iðnrn. á árunum 1980--1982. Niðurstaðan varð sú að breyta afgjaldi þessara jarða um leið og ríkissjóður yfirtók þær á þann hátt, og þetta segi ég eftir minni, að andvirðið rynni til styrktar Dvalarheimilis aldraðra í Reyðarfjarðarhreppi hinum forna en þar voru þessar Kristfjárjarðir og Reyðarfjarðarhreppur hinn forni var fyrst aflagður og honum skipt upp að mig minnir 1897. Þá voru þar mynduð þrjú sveitarfélög.
    Ég held að það væri óráðlegt að rasa um ráð fram varðandi sölu þessara jarða nú og hvet hæstv. iðnrh. sérstaklega til að fara yfir þetta mál og koma áliti á framfæri að skoðun lokinni. Að öðru leyti tek ég ekki afstöðu til þessarar heimildar sem hér er leitað eftir.