Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 04:35:00 (2504)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegur forseti. Á þskj. 342 hef ég leyft mér að flytja sérstaka brtt. Sú tillaga er breyting við tillögu meiri hluta fjárln. og gerir ráð fyrir því að meira svigrúm og fleiri möguleikar séu til að semja um nánara samstarf eða sameiningu sjúkrahúsa í Reykjavík. Tillaga meiri hlutans gerir aðeins ráð fyrir því að heimilt sé að semja um sameiningu Borgarspítalans og St. Jósefsspítala, Landakoti en þessi tillaga gerir ráð fyrir að mögulegt sé að skoða með einum eða öðrum hætti nánara samstarf sjúkrahúsanna í Reykjavík, þarf ekki endilega að verða samruni þeirra allra heldur nánara samstarf eða sameiningu þeirra allra sem getur líka komið til ef menn gefa sér tíma til þess að skoða málið í heild. Samningsgerðin verði í höndum tveggja ráðherra, þ.e. fjmrh. sem hefur þessa heimild, ef samþykkt verður, eins og aðrar heimildir í 6. gr., og heilbrrh. eða fulltrúa þessara ráðherra og samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík sem lögum samkvæmt hefur það hlutverk að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu áðurgreindra sjúkrahúsa. Ég tel nauðsynlegt að hafa heimildina rýmri heldur en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hlutans. Ég leyfi mér því að flytja þessa tillögu og vonast til þess að hv. alþm. séu mér sammála um það að hafa heimildina ekki svo þrönga eins og gert er ráð fyrir í tillögu meiri hlutans heldur samþykkja þessa brtt. sem hér er lögð fyrir.