Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 04:37:00 (2505)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Það er alkunn staðreynd og flestir sammála um það að með auknu samstarfi sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu megi ná ákveðinni hagræðingu. Það hafa ýmsar hugmyndir og bollaleggingar verið uppi á umliðnum árum um þá hluti en það hefur nákvæmlega ekkert gerst. Áður en farið var að athuga þá hluti af núv. ríkisstjórn var kannaður vilji stjórnenda stofnananna til slíkrar sameiningar. Það liggur fyrir að það er vilji til að kanna það hjá stjórnendum Landakots og Borgarspítala en það er ekki vilji fyrir því hjá stjórnendum Borgarspítala að kanna sameiningarmál við Landspítala, a.m.k. ekki sem sakir standa.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að menn reyni þann kostinn sem stjórnendur sjálfir eru tilbúnir til að skoða en haldi ekki áfram vangaveltum sem skila engum árangri eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Ég segi nei.