Jólakveðjur

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 04:46:00 (2508)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna þakka ég hæstv. forseta hlý orð og góðar óskir okkur og fjölskyldum okkar til handa. Ég vil þakka forseta samstarfið á því haustþingi sem nú er að ljúka. Við höfum á þessu haustþingi starfað eftir nýjum þingskapalögum. Þessi tími hefur verið sviptingasamur á stundum en vonandi lærdómsríkur okkur öllum.
    Veg og virðingu Alþingis berum við öll fyrir brjósti. Okkur ber að standa vörð um lýðræðið og um það erum við meðvituð og mun það verða haft að leiðarljósi er við tökumst á við það erfiða verkefni að endurskoða áfram og þróa þingsköp.
    Fyrir hönd okkar þingmanna óska ég hæstv. forseta og fjölskyldu hennar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þá vil ég þakka skrifstofustjóra og starfsfólki öllu fyrir góð og vel unnin störf, oft undir miklu álagi. Ég vil einnig fyrir hönd okkar þingmanna óska því og fjölskyldum þess friðsælla og gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
    Ég vil biðja hv. þm. að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]