Milliliðakostnaður í sölu landbúnaðarafurða

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:56:00 (4526)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Sjömannanefnd var falið að gera tillögur um hagræðingu og dreifingu í afurðastöðvum og hjá bændum á sl. sumri. Nú einbeitir nefndin sér að mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði. Niðurstaðna er að vænta innan tíðar og þar er ekki síst að því stefnt að ná niður kostnaði í vinnslunni. Næsta verkefni er að gera tillögur um sláturhúsin og eiga þær að vera til nógu snemma til að unnt verði að fara eftir þeim í haust. Á vegum sjömannanefndar starfar undirhópur sem er að gera úttekt á smásöluálagningu. Þingmönnum til upplýsingar þá eiga sæti í sjömannanefnd fulltrúar bændasamtakanna og aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusambands, BSRB, Vinnuveitendasambands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, fulltrúar frá afurðastöðvum o.s.frv. Þarna er því hópur sem stendur víða föstum fótum og markmið hans er að leggja fram tillögur um aukna hagræðingu í landbúnaði sem taka bæði til vinnslu á framleiðsluvörum og til framleiðslunnar sjálfrar.
    Ég hafði á hinn bóginn ekki vænst þess, hæstv. forseti, að fyrirspyrjandi gerði að

umtalsefni skýrslu sem nefnd á vegum iðnrn. hefur sent frá sér. Verðlagsstjóri hefur mjög glögglega í öllum fjölmiðlum gert grein fyrir villandi upplýsingum eða við getum bara sagt rangfærslum í þessari skýrslu. Sú nefnd sem skrifar undir hefur farið út fyrir það verksvið sem henni var ætlað. Hún hefur ekki komið með tillögur að gagni um framkvæmd verðjöfnunarkerfis fyrir innflutt súkkulaði og engar tillögur sem varða innflutning annarra vöruflokka. Það er greinilegt á skýrslunni að þar er verið að skapa villandi samanburð gagnvart landbúnaðinum og ég tek undir þann þunga áfellisdóm sem verðlagsstjóri hefur látið falla. Ég vil jafnframt láta þess getið að ég óskaði eftir því þegar mér var kunnugt um efni skýrslunnar að nefndin mundi aðeins hægja á sér, mundi reyna að endurmeta þau markmið sem hún hefði sett sér og skýra fyrir sér þá vinnu sem henni var ætlað að inna af höndum. En því miður kusu sumir nefndarmenn að senda frá sér skýrsluna án þess að hafa gefið skýringar á því hvernig á vinnubrögðum standi og á þeim villandi upplýsingum sem þar koma fram. Línurit bera það með sér að með myndrænum hætti er verið að gera hlut íslensks landbúnaðar verri en ella og á ýmsan annan hátt er skýrslan ámælisverð.