Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 62 . mál.


216. Nefndarálit



um frv. til l. um nauðungarsölu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið. Á fundi nefndarinnar kom Markús Sigurbjörnsson prófessor. Einnig komu Hrafn Bragason, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, Gestur Jónsson, formaður Lögmannafélags Íslands, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formaður Lögfræðingafélags Íslands, og Rúnar Guðjónsson, formaður Sýslumannafélags Íslands.
    Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði og er sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Felur frumvarpið í sér nokkur nýmæli sem horfa til réttarbóta. Vert er að tiltaka sérstaklega þrjú atriði:
    Í fyrsta lagi er lögð til sú grundvallarbreyting á framkvæmd nauðungarsölu að hún verði stjórnsýsluathöfn í stað dómsathafnar, sbr. ákvæði núgildandi laga, nr. 57/1949. Er það gert í samræmi við þá skipan sem aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði hefur í för með sér, þ.e. að framkvæmd fullnustugerða og búskipta og álíka verka er tekin undan starfssviði dómstóla og færð til sýslumanna.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um heimildir til þess að ákveða að nauðungarsala eignar fari fram á almennum markaði í stað þess að hún verði seld á uppboði. Með þessum heimildum er verið að stuðla að því að sem hæst verð fáist fyrir eign hverju sinni. Enn fremur er stefnt að því að færa skilmála við uppboðssölu um ýmis önnur atriði en greiðslu kaupverðs nær venjubundnum skilmálum við kaup í frjálsum viðskiptum.
    Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir reglum um sérstaka greiðsluáskorun áður en beiðst er nauðungarsölu. Margar beiðnir um nauðungarsölu eru afturkallaðar vegna greiðslu skömmu eftir að þær koma fram og má búast við að þeim fækki við formlega greiðsluáskorun. Í frumvarpinu er og leitast við að einfalda framkvæmd nauðungarsölu frá því sem nú er.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. des. 1991.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson,

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.


með fyrirvara.



Kristinn H. Gunnarsson,

Ólafur Þ. Þórðarson,

Össur Skarphéðinsson.


með fyrirvara.

með fyrirvara.