Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 30 . mál.


226. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



     Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki mælt með afgreiðslu frumvarps til lánsfjárlaga við þær aðstæður sem uppi voru þegar stjórnarmeirihlutinn ákvað að afgreiða málið úr nefnd á fundi að morgni mánudags 9. des. sl.
     Enn ríkir fullkomin óvissa um veigamikla þætti efnahagsmálanna, stjórnarflokkarnir hafa enn ekki komið sér saman um breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs, en boðaður er milljarða niðurskurður. Þrátt fyrir gerbreyttar þjóðhagsforsendur samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá hefur enn engin vinna farið fram í efnahags- og viðskiptanefnd hvað snertir endurskoðun á tekjuhlið fjárlaga. Þannig er enn, þegar lánsfjárlagafrumvarp ársins 1992 er afgreitt úr nefnd, fullkomin óvissa ríkjandi um bæði tekju- og útgjaldahlið fjárlaga og þar með einnig að sjálfsögðu lánsfjárþörf ríkisins.
     Á síðustu dögum hafa einnig komið fram nýjar upplýsingar í vaxta- og peningamálum sem einar sér gæfu fullt tilefni til að endurmeta allar forsendur lánsfjáráætlunar, ekki síst áform um innlenda fjáröflun ríkissjóðs og annarra fyrirferðarmikilla aðila. Er þar m.a. átt við skýrslu Seðlabankans frá 4. des. sl. um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum. Of skammur tími hefur unnist til að vinna úr upplýsingum Seðlabankans en þar er því m.a. haldið fram að mikil útgáfa húsbréfa og aðrar lánveitingar til húsnæðismála séu meginorsakavaldur hinna svimandi háu vaxta sem við búum nú við, einnig að vandséð sé að útgáfa húsbréfa upp á áætlaða 12 milljarða kr. á næsta ári og samtals um 20 milljarðar kr. í heildarlántökur til húsnæðismála samrýmist því markmiði að bæta jafnvægi á lánsfjármörkuðum og ná niður raunvöxtum. Hæfilegt væri að mati Seðlabankans að heildarlánveiting til húsnæðismála væri 16 milljarðar kr. Án þess að tekin sé afstaða er augljóslega hér á ferðinni svo mikill munur milli skoðana Seðlabankans annars vegar og áforma ríkisstjórnarinnar hins vegar að óhjákvæmilegt er að fara betur ofan í saumana á þessum málum. Hjá fulltrúum Seðlabankans kom einnig fram að þar hafi áætlun um peningalegan sparnað á næsta ári nú verið endurskoðuð til lækkunar um 2 milljarða kr. Ekki hefur komið fram að ríkisstjórnin hafi tekið minnsta tillit til þessara breytinga.
     Fjölmörg atriði liggja óljóst — eða jafnvel alls ekki — fyrir enn, nú þegar málið er afgreitt. Má þar nefna málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en allt og sumt, sem nefndarmenn hafa í höndum um fyrirkomulag þeirra mála á næsta ári, er örstutt bréf frá menntamálaráðherra dags. 6. des. sl. þar sem segir að „markmiðið sé að ný löggjöf um LÍN verði sett á yfirstandandi þingi og þar með dugi sú fjárhæð sem fjármálaráðherra er heimilað að endurlána LÍN samkvæmt frumvarpi til lánsfjárlaga 1992“. Sem sagt í nefndinni liggur ekkert fyrir um þessar breytingar og hvernig þær eiga að koma til með að hafa áhrif á fjárhag sjóðsins og snerta viðskiptavini hans.
     Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að ræða einstök efnisatriði frumvarpsins frekar við þessar aðstæður þar sem allt hangir í lausu lofti varðandi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og aðgerðir í ríkisfjármálum, efnahagsmálum og atvinnumálum eru boðaðar í fjölmiðlum dag eftir dag án þess að nokkuð birtist í reynd.
     Eðlilegast hefði verið að fresta allri frekari vinnu þar til stjórnarflokkarnir væru búnir að koma sér saman og niðurstöður lægju fyrir um undirstöðuþætti ríkisfjármála og efnahagsmála. Þá fyrst er hægt að endurmeta og ákvarða forsendur tekna og gjalda hins opinbera á næsta ári og ganga frá trúverðugum áætlunum um lántökur innan lands og utan.
     Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísar því allri ábyrgð á afgreiðslu málsins frá sér og mun ekki greiða því atkvæði.
     Jón Helgason sat fund nefndarinnar í stað Halldórs Ásgrímssonar skv. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.

Alþingi, 9. des. 1991.



Steingrímur J. Sigfússon,

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jón Helgason.