Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 147 . mál.


227. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillögu þessa sem felur í sér að Alþingi heimili ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um takmörkun vígbúnaðar á sviði hefðbundinna vopna í Evrópu sem undirritaður var í París 19. nóvember 1990. Samningurinn tekur gildi tíu dögum eftir að öll aðildarríki samningsins hafa fullgilt hann.
    Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Gunnar Pálsson sendiherra og Arnór Sigurjónsson varnarmálaráðunaut og gerðu þeir m.a. grein fyrir skuldbindingum íslenskra stjórnvalda varðandi eftirlit með framkvæmd samningsins á Íslandi.
    Nefndin telur að samningur þessi sé í samræmi við þá stefnu sem Íslendingar hafa markað í afvopnunarmálum, sbr. ályktun Alþingis þar að lútandi frá 23. maí 1985. Samningurinn markar tímamót í öryggismálum Evrópu og með honum er lagður hornsteinn að nýrri skipan öryggismála í álfunni þar sem samkeppni á hernaðarsviðinu víkur fyrir samvinnu ríkja í öryggismálum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. des. 1991.



Ey. Kon. Jónsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Steingrímur Hermannsson.


form., frsm.



Ólafur Ragnar Grímsson.

Björn Bjarnason.

Jón Helgason.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Geir H. Haarde.