Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 71 . mál.


259. Nefndarálit



um frv. til. l. um meðferð einkamála.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fundi nefndarinnar kom Markús Sigurbjörnsson prófessor. Einnig komu Hrafn Bragason, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, Gestur Jónsson, formaður Lögmannafélags Íslands, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formaður Lögfræðingafélags Íslands, og Rúnar Guðjónsson, formaður Sýslumannafélags Íslands.
    Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði. Því er einkum ætlað að koma í stað laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, en byggir að meginstefnu til á núgildandi réttarfarsreglum þeirra laga og laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 85/1936 að frátöldum þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Með því að fella þegar komnar breytingar og breytingar, sem tillaga er gerð um í frumvarpinu, inn í nýtt heildarfrumvarp til laga um meðferð einkamála eru lögin gerð aðgengilegri. Framsetning laga um meðferð einkamála er og samræmd við lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með þessu frumvarpi. Helstu breytingar, sem frumvarpið hefur í för með sér, eru þessar:
    Í 25. gr. frumvarpsins eru tvenn nýmæli. Annars vegar er sóknaraðila veitt heimild til að leita dóms um viðurkenningu á réttindum sínum þótt þannig standi á að hann geti gert kröfu um að skyldu gagnaðila hans verði fullnægt með aðför. Hins vegar er veitt heimild handa félögum og samtökum til þess að höfða mál í eigin nafni þegar þau ætla að leita dóms um viðurkenningu á réttindum félagsmanna sinna.
    Í 37. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um svokallað neytendavarnarþing. Yrði heimildinni einkum beitt við málsókn neytanda á hendur seljanda vöru eða þjónustu.
    Varðandi sönnun og sönnunargögn má nefna það nýmæli í frumvarpinu að gert er ráð fyrir heimild til að afla þeirra í gegnum síma eða önnur fjarskiptatæki. Einnig er veitt heimild til að leita eftir öflun sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað.
    Lögð er til sú breyting í frumvarpinu að sóknaraðili greini einungis í stefnu sinni frá þeim atriðum sem áður var greint frá bæði í stefnu og greinargerð, en nokkuð hefur verið á reiki í framkvæmd hvaða atriði eigi að koma fram í hvoru skjali um sig.
    Ein veigamesta breytingin, sem lögð er til í frumvarpinu, varðar útivistarmál. Lagt er til að sömu reglur gildi um áskorunarmál skv. XX. kafla laga nr. 85/1936 og um önnur útivistarmál. Mundi þá almenna reglan vera sú að þegar stefndi mætir ekki fyrir dóm geti dómari lokið máli með áritun á stefnu að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Enn fremur er lagt til að í stað málskots til Hæstaréttar eigi stefndi þess kost að fá endurupptöku útivistarmáls fyrir héraðsdómi eftir reglum sem greindar eru í frumvarpinu. Á slík endurupptaka útivistarmáls sér hliðstæðu í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Í frumvarpinu er að finna nýmæli um svokallaða flýtimeðferð einkamála að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, en með henni er verið að opna leið til skjótari meðferðar en ella á málum sem varða athöfn eða ákvörðun stjórnvalds eða atriði í tengslum við vinnudeilur.
    Loks eru í þessu frumvarpi reglur um málskot til Hæstaréttar. Er verið að hverfa að mestu frá þeirri stefnu laga nr. 75/1973 að reglur um málskotsheimildir komi þar fram ásamt heildarfyrirmælum um meðferð mála fyrir æðra dómi.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. des. 1991.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson,

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.


með fyrirvara.



Kristinn H. Gunnarsson,

Ólafur Þ. Þórðarson,

Össur Skarphéðinsson.


með fyrirvara.

með fyrirvara.