Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 79 . mál.


292. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sbr. lög nr. 72/1990 og lög nr. 105/1990.

Frá fjárlaganefnd.



    Nefndin hefur haft frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1990 til athugunar. Frumvarp þetta er þriðja fjáraukalagafrumvarpið sem lagt er fyrir Alþingi til samþykktar á umframgreiðslum úr ríkissjóði frá heimildum fjárlaga 1990. Alþingi samþykkti á árinu 1990 tvenn fjáraukalög, nr. 72/1990 og nr. 105/1990, og voru greiðsluheimildir frá fjárlögum árið 1990 auknar um tæpa 2,5 milljarða króna. Með frumvarpi þessu er sótt um heimildir til endanlegs greiðsluuppgjörs A-hluta ríkissjóðs á árinu 1990.
    Í frumvarpinu kemur fram að greiðslur úr ríkissjóði séu 797,2 milljónum króna lægri en heimildir gerðu ráð fyrir. Sótt er um viðbótarheimildir að fjárhæð 608,5 milljónir króna en á móti eru greiðsluheimildir lækkaðar um 1.405,7 milljónir króna.
    Við afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu gerðu fulltrúar fjármálaráðuneytisins grein fyrir einstaka viðbótargreiðsluheimildum sem óskað var eftir frekari skýringum á. Þá kallaði nefndin til fulltrúa Ríkisendurskoðunar sem gerði grein fyrir athugasemdum stofnunarinnar sem fram komu m.a. í skýrslu hennar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1990.
    Að lokinni athugun fjárlaganefndar á frumvarpinu og að teknu tilliti til þeirra skýringa sem hún hefur fengið frá fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fellst hún á tillögur þær um viðbótargreiðsluheimildir sem fram koma í frumvarpinu. Nefndin gerir hins vegar tillögur um að í fjáraukalög árið 1990 verði tekin inn heimild á fjárlagalið 05-281, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, framlag að fjárhæð 1.458.283 þús. kr.
    Tillaga þessi á rætur að rekja til laga nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, en samkvæmt þeim var Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins m.a. lagður niður. Í ákvæðum til bráðabirgða í nefndum lögum er kveðið á um að ríkissjóður skuli taka við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Meðal skulda, sem ríkissjóður yfirtók, var yfirdráttur á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 1.458.283 þús. kr. Þann 1. nóvember 1990 undirritaði þáverandi fjármálaráðherra skuldabréf til handa Seðlabanka Íslands að sömu fjárhæð til greiðslu á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá bankanum.
    Að teknu tilliti til framangreindra breytinga er afkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu 1990 eftirfarandi:

Fjárlög

Fjáraukalög

Útkoma


Fjárhæðir í m.kr.

1990

72/105/1990

1990

Mismunur



Tekjur          
91.545
1.030 92.453 <122 >
Gjöld          
95.232
2.464 98.357 661
    Gjöld umfram tekjur     
3.687
1.434 5.904 783

Lánahreyfingar, útgreiðslur     
7.290
300 8.913 1.323

Lánsfjárþörf     
10.977
1.734 14.817 2.106
Lántökur     
10.995
1.725 15.531 2.811
    Greiðslujöfnuður     
18
<8> 714 705


    Allir nefndarmenn undirrita nefndarálit þetta, en fulltrúar Alþýðubandalagsins og Kvennalista þó með fyrirvara.

Alþingi, 18. des. 1991.



Karl Steinar Guðnason,

Guðmundur Bjarnason.

Pálmi Jónsson.


form., frsm.



Margrét Frímannsdóttir,

Jón Kristjánsson.

Einar K. Guðfinnsson.


með fyrirvara.



Árni Johnsen.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Sturla Böðvarsson.


með fyrirvara.



Gunnlaugur Stefánsson.

Guðrún Helgadóttir,


með fyrirvara.