Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


301. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur haft fjárlagfrumvarpið til athugunar frá því 2. umr. fór fram 12. desember sl. Við umræðuna voru kallaðar aftur nokkrar breytingartillögur sem nefndin hafði flutt við þá umræðu. Vörðuðu þær eftirtalin viðfangsefni: framlag til Byggðastofnunar, óskiptan lið í grunnskólum, beinar greiðslur til bænda, starfsmenntun í sjávarútvegi, lögreglumál í Reykjavík, málefni Landhelgisgæslunnar, starfsmenntun í atvinnulífinu, sértekjur Hollustuverndar, nýjar sértekjur til hafnamála, niðurgreiðslur á vöruverði og Náttúruhús í Reykjavík, auk hinnar almennu lækkunar á launaliðum og rekstrargjöldum.
    Strax og frumvarpinu hafði verið vísað til 3. umr. hélt nefndin áfram athugun á frumvarpinu. Til viðræðna voru kallaðir forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Pósts og síma, Rarik, Húsnæðisstofnunar ríkisins og Vegagerðar ríkisins. Þá var rætt við fulltrúa frá Ríkisspítölum, Borgarspítala og Landakoti um fyrirhugaða sameiningu sjúkrahúsa. Fulltrúar frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnun komu á fund nefndarinnar til viðræðu um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum. Í máli þeirra kom fram að í júlíbyrjun, þegar ríkisstjórnin markaði þá stefnu að fjárlagahalli ársins 1992 yrði ekki meiri en 4 milljarðar króna, lá fyrir spá Þjóðhagsstofnunar um að þjóðartekjur mundu dragast saman um 1,8% á næsta ári. Helstu ástæður þessa samdráttar voru minnkandi afli, erfiðleikar í útflutningsiðnaði og versnandi viðskiptakjör. Forsendur fjárlagafrumvarps voru heldur lakari þar sem þá var gert ráð fyrir 3% minnkun þjóðartekna árið 1992.
    Í kjölfar frestunar álversframkvæmda og lakari viðskiptakjara hafa efnahagshorfurnar enn versnað. Samkvæmt þeirri þjóðhagsspá, sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að þjóðartekjur minnki um allt að 6,1% á næsta ári eða þrisvar sinnum meira en í júlíspánni.
    Þessi nýja þjóðhagsspá boðar meiri samdrátt í efnahagslífinu á næsta ári en reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu og þrengir þar með enn frekar svigrúmið við fjárlagagerð. Þannig er fyrirsjáanlegt að útgjöld heimilanna dragast verulega saman á næsta ári sem aftur þýðir minni tekjur hjá ríkissjóði. Þá má reikna með að minni tekjubreytingar og aukið atvinnuleysi hafi sömu áhrif. Að öllu samanlögðu er talið að þessi samdráttur skerði tekjur ríkissjóðs um 3–3,5 milljarða króna á næsta ári. Þessu til viðbótar hefur virðisaukaskattur innheimst verr á yfirstandandi ári en áætlað var á fjárlögum, sérstaklega á allra síðustu mánuðum, en það hefur aftur áhrif á áætlun næsta árs.
    Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps hefur nú verið endurskoðuð í ljósi aukins efnahagssamdráttar á næsta ári og fyrirsjáanlegs tekjusamdráttar á árinu 1991. Niðurstaða þessarar endurskoðunar er að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári lækki um rúmlega einn milljarð kr. frá fjárlagafrumvarpi, eða úr 106,4 milljörðum kr. í 105,4 milljarða kr. Skatttekjur lækka svipað eða úr 98,9 milljörðum kr. í 97,8 milljarða kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verða skatttekjur ríkissjóðs sem næst óbreyttar að raungildi á næsta ári frá því í ár, en skatthlutfallið hækkar hins vegar vegna mikils samdráttar í landsframleiðslu. Samdrátturinn í landsframleiðslu sést m.a. af því að hún lækkar í krónum talið um 4,5 milljarða kr. á næsta ári, en að raungildi nemur samdrátturinn 15 milljörðum króna.
    Helstu frávik frá fjárlagafrumvarpi skýrast af fyrirsjáanlegri skerðingu tekna sem stafar af versnandi þjóðhagshorfum 1992 og endurskoðun á tekjugrunni 1991, en þetta tvennt er metið á nálægt 2 milljarða króna til lækkunar. Á móti vega sérstakar aðgerðir til tekjuöflunar sem samanlagt eru taldar skila 1 milljarði króna umfram áætlun frumvarpsins.
    Fjárlaganefnd varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hluti nefndarinnar skila séráliti. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hann gerir tillögur um á nokkrum þingskjölum.

SKÝRINGAR Á BREYTINGARTILLÖGUM

VIÐ 4. GR.

01 Forsætisráðuneyti


101    Forsætisráðuneytið: Viðfangsefni 1.90 Ýmis verkefni hækkar um 1.500 þús. kr. og verður 3.700 þús. kr. Um er að ræða framlag til Þróunarfélags Reykjavíkur.
171    Byggðastofnun: Viðfangsefni 6.01 lækkar um 20.000 þús. kr. og verður 180.000 þús. kr., m.a. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði stofnunarinnar.

02 Menntamálaráðuneyti


319    Framhaldskólar, almennt: Viðfangsefni 1.99 Rekstrarhagræðing í framhaldsskólum. Um er að ræða sértekjur sem felldar eru niður vegna ákvörðunar um að fallið verði frá áformum um hækkun efnis- og innritunargjalda.
601    Héraðsskólinn í Reykholti: Viðfangsefni 1.01 Kennsla hækkar um 5.900 þús. kr. og verður 14.800 þús. kr. og viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 2.800 og verður 7.900 þús. kr., hvort tveggja vegna ákvörðunar um áframhaldandi rekstur.
720    Grunnskólar, almennt: Viðfangsefni 1.90 Grunnskólar, óskipt lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 36.500 þús. kr.
973    Þjóðleikhús: Tekinn er inn nýr liður: Viðfangsefni 6.50 Endurbætur 12.000 þús. kr. Um er að ræða kostnað vegna frágangs á sviðslyftu, fatahengi og ljósabúnaði.
982    Listir, framlög: Viðfangsefni 1.20 Leikfélag Reykjavíkur, framlag lækkar um 14.000 þús. kr. og verður 1.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.30 Íslenska óperan hækkar um 15.000 þús. og verður 41.800 þús. kr., en þessar breytingar eru í samræmi við væntanlegan samning menntamálaráðherra og fjármálaráðherra við Íslensku óperuna.
999    Ýmislegt: Viðfangsefni 1.93 Kvenfélagasamband Íslands hækkar um 400 þús. kr. og verður 1.600 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður: Viðfangsefni 6.90 Kostnaður vegna handboltahallar 30.000 þús. kr., vegna uppgjörs á kostnaði við undirbúning vegna byggingar handboltahallar. Upphæðin skiptist þannig að 20.000 þús. kr. renna til HSÍ, en 10.000 þús. kr. til Kópavogskaupstaðar.

03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.50 Viðskiptaskrifstofa hækkar um 7.500 þús. kr. og verður 82.200 þús. kr. Viðfangsefni 1.51 Úflutningsráð lækkar um 7.500 þús. kr. og verður 10.000 þús. kr. Um er að ræða tilflutning á milli þessara viðfangsefna.

04 Landbúnaðarráðuneyti


201    Búnaðarfélag Íslands: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 5.000 þús. kr. og verður 83.500 þús. kr. Hækkunin er til að mæta greiðslum vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Búnaðarfélagsins.
289    Sérstakar greiðslur í landbúnaði: Viðfangsefni 1.10 Nauta-, svína-, hrossa- og alifuglaafurðir lækkar um 30.000 þús. kr. og verður 460.000 þús. kr.
290    Greiðslur vegna búvöruframleiðslu: Viðfangsefni 1.01 Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Framlag lækkar um 40.000 þús. kr. og verður 1.020.000 þús. kr. Lækkunin er tilkomin vegna endurskoðunar sölu- og birgðaáætlana. Viðfangsefni 1.30 Beinar greiðslur til bænda lækkar um 295.000 þús. kr. og verður 1.475.000 þús. kr. Skýringin er sú að gert er ráð fyrir að þessar greiðslur dreifist á 12 mánuði í stað 10 á tímabilinu 1. mars 1992 til 1. febrúar 1993.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


203    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn verður 1.01 Almenn starfsemi. Viðfangsefnið hækkar um 133.000 þús. kr. og verður 168.700 þús. kr. vegna sameiningar við viðfangsefnin 1.10 Rannsóknasvið og 1.20 Útibú. Viðfangsefni 1.10 Rannsóknasvið fellur brott svo og Viðfangsefni 1.20 Útibú.
290    Veiðieftirlit: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 3.900 þús. kr. og verður 82.600 þús. kr.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


311    Lögreglustjórinn í Reykjavík: Viðfangsefni 1.20 Almenn löggæsla lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 703.700 þús. kr. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði.
395    Landhelgisgæsla Íslands: Viðfangsefni 1.21 V/s Ægir lækkar um 10.200 þús. kr. og verður 112.200 þús. kr. Viðfangsefni 1.22 V/s Óðinn lækkar um 8.800 þús. kr. og verður 96.200 þús. kr. Viðfangsefni 1.23 V/s Týr lækkar um 12.000 þús. kr. og verður 114.600 þús. kr. Um er að ræða lækkun á ofangreindum viðfangsefnum vegna rekstrarkostnaðar skipa. Viðfangsefni 1.30 Fluggæsla lækkar um 19.000 þús. kr. og verður 208.000 þús. kr. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði flugvéla.

07 Félagsmálaráðuneyti


801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Viðfangsefni 1.10 hækkar um 27.000 og verður 1.397.000 þús. kr. vegna endurmats á tekjuútkomu 1991 og á tekjuáætlun fyrir 1992.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.32 Starfsmenntun í atvinnulífinu lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 48.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.40 Kvennaathvarf í Reykjavík hækkar um 700 þús. kr. og verður 12.500 þús. kr. Viðfangsefni 1.41 Stígamót hækkar um 500 þús. kr. og verður 5.500 þús. kr.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


271    Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefni 1.20 Sjúkratryggingar lækkar um 246.400 þús. kr. og verður 9.162.600 þús. kr. Annars vegar er stofnað nýtt viðfangsefni 399 1.50 Tannverndarsjóður, sem úthlutað er 10.000 þús. kr., og hins vegar verða framlög til Heilsuhælis Náttúrulækningafélagsins greidd af föstum fjárlögum af fjárlagalið 08-431, 236.400 þús. kr.
325    Hollustuvernd ríkisins: Fjárveiting lækkar um 10.000 þús. kr. vegna hækkunar sértekna á rannsóknastofu og heilbrigðiseftirliti. Sértekjur verða því 27.800 þús. kr. hjá stofnuninni.
370    Sjúkrahús í Reykjavík: Sértekjur á viðfangsefni 1.91 lækka um 40.000 þús. kr. og verða 82.000 þús. kr. þar sem áform í fjárlagafrumvarpi um lækkun á ferðakostnaði lækna nást ekki að fullu. Viðfangsefni 1.92 Kostnaður vegna endurskipulagningar fellur brott vegna flutnings fjárveitingarinnar á fjárlagaliði 08-372 og 08-373. Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 6.50 Stofnframkvæmdir vegna endurskipulagningar. Framlag á þeim lið verður 195.500 þús. kr. vegna nauðsynlegra framkvæmda við endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
371    Ríkisspítalar: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 36.000 þús. kr. og verður 6.501.000 þús. kr. Hækkunin stafar af sérkjarasamningum við aðstoðarlækna. Viðfangsefni 6.60 Stjórnarnefnd, stofnkostnaður lækkar um 10.000 þús. kr. en viðfangsefni 6.70 Yfirstjórn mannvirkjagerðar á landspítalalóð hækkar um sömu fjárhæð vegna mjög viðkvæmrar stöðu byggingarmála.
372    Borgarspítalinn, nýr liður: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur verður 3.020.100 þús. kr., sértekjur verða 500.500 þús. kr., viðfangsefni 5.01 Viðhald verður 44.000 þús. kr. og viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður verður 25.000 þús. kr. Um er að ræða endurráðstöfun fjárlagaliðar 08-374.
373    St. Jósefsspítali, Landakoti, nýr liður: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur verður 981.100 þús. kr., sértekjur verða 150.000 þús. kr., viðfangsefni 5.01 Viðhald verður 6.500 þús. kr. og viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður verður 10.000 þús. kr. Um er að ræða endurráðstöfun fjárlagaliðar 08-374 auk 80.000 þús. kr. hækkunar fjárveitingar.
374    Borgarspítali og St. Jósefsspítali, Landakoti: Liðurinn fellur brott og er fjárveitingu ráðstafað til fjárlagaliða 08-372 og 08-373, svo sem að framan er rakið.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefni 6.91 St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi. Framlag hækkar um 15.000 þús. kr. og verður 24.000 þús. kr.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Nýr liður, viðfangsefni 1.50 Tannverndarsjóður. Framlag verður 10.000 þús. kr. og lækkar viðfangsefni 08-271 1.20 um sömu fjárhæð.
400    St. Jósepsspítali, Hafnarfirði: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 76.000 þús. kr. og verður 195.800 þús. kr. Sértekjur hækka um 16.000 þús. kr. og verða 20.300 þús. kr.
410    Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun: Númer liðarins breytist og verður 08-430.
430    Vistun geðsjúkra afbrotamanna: Númer liðarins breytist og verður 08-490. Í staðinn færist fjárlagaliðurinn Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun af númer 410 yfir á þetta númer.
431    Náttúrulækningafélag Íslands, nýr liður: Viðfangsefni 1.01 Endurhæfingardeild. Framlag verður 186.400 þús. kr. Viðfangsefni 1.10 Heilsuhælisdeild. Framlag verður 50.000 þús. kr. Viðfangsefni 08-271 1.20 lækkar á móti um 236.400 þús. kr.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt: Viðfangsefni 1.10 hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 91.700 þús. kr. þar sem áform í fjárlagafrumvarpi um lækkun á ferðakostnaði lækna nást ekki að fullu.

10 Samgönguráðuneyti


211    Vegagerð ríksins: Viðfangsefni 6.10 Nýframkvæmdir lækkar um 250.000 þús. kr. og verður 2.597.400 þús. kr. Um er að ræða seinkun á framkvæmdum við Vestfjarðagöng.
333    Hafnamál: Tekinn er inn nýr liður 4 Sértekjur. Um er að ræða framkvæmdagjald til hafna að fjárhæð 125.000 þús. kr.
471    Flugmálastjórn: Viðfangsefni 1.70 Alþjóðaflugþjónustan hækkar um 12.500 þús. kr. og verður 257.200 þús. kr.
485    Ýmis framlög: Tekinn er inn nýr liður, 1.50 GPS-staðsetningarkerfi, og verður framlag til þess liðar 6.000 þús. kr.


11 Iðnaðarráðuneyti


201    Iðntæknistofnun Íslands: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 2.500 þús. kr. og verður 253.100 þús. kr.
203    Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 1.500 þús. kr. og verður 121.100 þús. kr.
240    Iðnaðarrannsóknir: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 12.500 þús. kr. og verður 18.600 þús. kr.
299    Iðja og iðnaður, framlög: Viðfangsefni 1.30 Evreka lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 9.300 þús. kr. Viðfangsefni 1.50 Iðnþróun og markaðsmál lækkar um 2.500 þús. kr. og verður 8.200 þús. kr.
301    Orkustofnun: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 6.000 þús. kr. og verður 345.100 þús. kr.

12 Viðskiptaráðuneyti


201    Niðurgreiðslur á vöruverði: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 100.000 þús. kr. og verður 4.475.000 þús. kr. Hér er að stærstum hluta um að ræða lækkun á niðurgreiðslum á mjólkurdufti.

14 Umhverfisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Stofnað er nýtt viðfangsefni 1.29 Rannsóknir á botndýrum á Íslandsmiðum og verður framlag 3.000 þús. kr. Viðfangsefni 6.91 Náttúruhús í Reykjavík fellur niður vegna frestunar á framkvæmdum við byggingu hússins.
310    Landmælingar Íslands: Viðfangsefni 1.10 Stafræn kortagerð. Framlag hækkar um 8.000 þús. kr. og verður 27.700 þús. kr. Sértekjur lækka um 4.300 þús. kr. og verða 44.900 þús. kr.


Almenn lækkun rekstrargjalda.


    Rekstrarliðir í 4. gr. frumvarpsins eru lækkaðir með almennum hætti í 45. tölul. breytingartillagnanna. Launagjöld lækka um 6,7% og önnur gjöld um 1,3%. Undan er skilinn liðurinn 09-801 1.10 Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Tillagan felur í sér ákvörðun um að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins, m.a. með því að hagræða starfsemi og fækka störfum. Til að veita ráðuneytum svigrúm til útfærslu hagræðingar og samdráttar í starfsemi eru tveir fimmtu hlutar lækkunarinnar færðir á sérstakan safnlið í hverju ráðuneyti til endurráðstöfunar. Í sama skyni eru fjárhæðir á tilteknum viðfangsefnum færðar inn á framangreinda safnliði til að skapa frekara svigrúm. Þá er í breytingartillögum við 6. gr. leitað heimilda (6.11 og 6.22) til að styrkja þessa ráðstöfun.


SKÝRINGAR Á BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 5. GR. (B-HLUTA)



    Þær breytingar, sem gerð er tillaga um vegna B-hluta fjárlagafrumvarpsins, eru einkum af þrennum toga. Í fyrsta lagi er um að ræða breyttar áætlanir vegna nýrra og áreiðanlegri upplýsinga um rekstrarniðurstöðu líðandi árs sem hefur áhrif á afkomu á árinu 1992. Í öðru lagi er um að ræða endurskoðun áætlana vegna breytinga á horfum í efnahagsmálum á næsta ári frá því sem gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrumvarps. Í þriðja lagi hefur áætlunum verið breytt til samræmis við útfærslu ríkisstjórnar og ráðherra á boðuðum aðgerðum í fjárlagafrumvarpi. Alls er gerð tillaga um breytingar á áætlunum 11 fyrirtækja og sjóða í B-hluta.
    Vakin er sérstök athygli á að þessar breytingar hafa ekki í för með sér nein áform um breytingar á gjaldskrám umfram það sem gerð var grein fyrir í fjárlagafrumvarpi. Hér á eftir fara skýringar á þeim breytingum sem gerð er tillaga um við 3. umr. fjárlagafrumvarps.

22-973 Þjóðleikhús.
    Framlag úr ríkissjóði hækkar um 27,5 m.kr. og er við það miðað að stofnunin dragi saman reksturinn og hagræði sem nemur um 55 m.kr. miðað við upphaflega áætlun hennar. Launagjöld hækka um 11 m.kr., eigin tekjur Þjóðleikhússins lækka um 11,5 m.kr. og rekstrargjöld hækka um 5 m.kr. Hækkun framlags úr ríkissjóði var tekin inn við 2. umr., en ekki var gerð breytingartillaga vegna B-hluta við það tækifæri.

23-114 Flugstöð Leifs Eiríkssonar, rekstur.
    Ákvörðun liggur ekki fyrir hjá utanríkisráðuneyti um framtíðarskipan rekstursins þannig að rekstrarjafnvægi verði tryggt til frambúðar. Ráðuneytið mun á næstu mánuðum gera tillögur til ríkisstjórnar um framtíðarskipan rekstursins.
    Fjárvöntun fyrirtækisins samkvæmt fjárlagafrumvarpi nemur um 23 m.kr. Þá er einungis reiknað með að fyrirtækið standi í skilum með vaxtagreiðslur af föstum lánum. Lagt er til að innritunargjald, sem er leigugjald Flugleiða fyrir aðstöðu í flugstöðinni, verði hækkað úr u.þ.b. 300 kr. í tæpar 400 kr. (5 USD í 6,5 USD) á hvern innritaðan farþega til þess að ná endum saman í rekstrinum miðað við framangreindar forsendur.

25-222 Síldarverksmiðjur ríkisins.
    Áætlunum um breytingu á fyrirtækinu í hlutafélag hefur seinkað og er ekki á þessu stigi gert ráð fyrir að af henni geti orðið fyrr en um mitt næsta ár. Því þarf að setja fyrirtækið aftur í fjárlög. Forsendur áætlunarinnar eru að loðnuveiði verði um 600 þúsund tonn og að fjórðungur þess magns verði unninn í verksmiðjum fyrirtækisins. Þá er gert ráð fyrir að fyrirtækið fái skuldbreytt afborgunum af áhvílandi lánum.

27-271 Byggingarsjóður ríkisins.
    Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir jafnvægi milli út- og innstreymis vegna skyldusparnaðar. Að mati stjórnenda Húsnæðisstofnunar ríkisins og í ljósi reynslu síðustu ára er talið að útstreymi umfram innstreymi vegna skyldusparnaðar verði 220 m.kr. Lagt er til að tekið verði tillit til þessa og lántökur hækkaðar sem því nemur.

28-273 Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Áætlað er að atvinnuleysi á næsta ári verði talsvert meira en gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrumvarps. Reiknað er með að kostnaðarauki Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa nemi um 195 m.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Til þess að mæta þessum kostnaðarauka hækkar framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 150 m.kr. Þá er gert ráð fyrir 45 m.kr. af áætluðu 400 m.kr. framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs til Eftirlaunasjóðs aldraðra í fjárlagafrumvarpi geti runnið til atvinnuleysisbóta þar sem nýjar áætlanir gera ráð fyrir að þessar greiðslur til sjóðsins verði ekki hærri en 355 m.kr. Svigrúm Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu atvinnuleysisbóta á næsta ári nemur því samtals tæplega 1.270 m.kr.

29-971 Lánasýsla ríkisins.
    Áætluð launagjöld Lánasýslu ríkisins eru lækkuð um 16,5 m.kr. en önnur rekstrargjöld hækkuð um sömu fjárhæð. Þetta er gert vegna þess að laun starfsmanna Ríkisábyrgðasjóðs eru greidd af Seðlabanka Íslands. Lánasýsla ríkisins endurgreiðir síðan Seðlabankanum þennan kostnað sem aðkeypta þjónustu.

30-101 Póst- og símamálastofnunin.
    Endurskoðuð áætlun fyrirtækisins gerir ráð fyrir betri afkomu sem nemur 80 m.kr. Skýrist það einkum af að greiðsluafgangur á þessu ári verður meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Ætlunin er að þessu fé verði varið til fjárfestingar í tveimur jarðstöðvum fyrir fjarskiptasambönd við Grænland og Færeyjar fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO). Þessi fjarskipti hafa fram til þessa farið um svokallað NARS-kerfi sem bandaríski herinn hyggst leggja niður á fyrri hluta næsta árs. ICAO mun endurgreiða Pósti og síma þessa fjárfestingu með vöxtum á næstu 10 árum.

30-321 Skipaútgerð ríkisins.
    Gert er ráð fyrir að fyrirtækið verði lagt niður á næsta ári og öðrum aðilum falið að sinna nauðsynlegri þjónustu eftir því sem stjórnvöld telja nauðsynlegt og ásættanlegt. Miðað er við að fyrirtækið verði í rekstri einhvern tíma á fyrri hluta næsta árs en starfsemi síðan lögð af og eignir seldar.

30-333 Hafnabótasjóður.
    Samkvæmt breytingunum á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984, er gert ráð fyrir sérstöku 25% álagi á vörugjöld, önnur en vörugjald á sjávarafla. Áætlað er að gjald þetta nemi 125 m.kr. á næsta ári og að það renni í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Skal fé úr deildinni varið til að standa straum af framkvæmdum við almennar hafnargerðir eftir því sem segir í lögum og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Því er gerð tillaga um að tekjuáætlun Hafnabótasjóðs hækki um 125 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi og að þetta fé renni síðan til fyrrgreindra verkefna og færist sem sértekjur á Hafnaframkvæmdalið í A-hluta ríkissjóðs.

31-231 Sementsverksmiðja ríkisins.
    Gert er ráð fyrir um 15% samdrætti í sementssölu miðað við áætlun fjárlagafrumvarps. Þetta þýðir að afkoma Sementsverksmiðjunnar verður lakari sem nemur um 29 m.kr. Ætlunin er að mæta því með skuldbreytingu sem feli í sér frestun á hluta afborgana af viðskiptaskuldum fyrirtækisins.

31-321 Rafmagnsveitur ríkisins.
    Endurskoðuð rekstraráætlun fyrirtækisins gerir ráð fyrir nokkurri aukningu í orkusölu miðað við forsendur fjárlagafrumvarps sem gefur svigrúm til um 64 m.kr. hækkunar á áætlun um fjárfestingu á næsta ári. Þannig geti fyrirtækið að einhverju leyti fjármagnað nauðsynlega fjárfestingu í sveitarafvæðingu sem undanfarin ár hefur verið kostuð af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum.

Alþingi, 18. des. 1991.



Karl Steinar Guðnason,

Pálmi Jónsson.

Sturla Böðvarsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Gunnlaugur Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.





Fylgiskjal I.


Álit



um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin fjallaði í haust á tveimur fundum um forsendur fjárlagafrumvarpsins. Þá komu til fundar við nefndina Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri, Eiríkur Guðnason aðstoðarseðlabankastjóri, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Jóhann Rúnar Björgvinsson og Björn Rúnar Guðmundsson frá Þjóðhagsstofnun, Ásmundur Stefánsson, Lára V. Júlíusdóttir og Guðmundur Gylfi Guðmundsson frá Alþýðusambandi Íslands, Ólafur Hjálmarsson og Hannes G. Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Ögmundur Jónasson og Rannveig Sigurðardóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa hefur nefndin fjallað um tekjugrein (3. gr.) fjárlagafrumvarpsins og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Ber nefndinni að gera fjárlaganefnd grein fyrir áhrifunum áður en 3. umr. fjárlagafrumvarps hefst. Við umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins komu á fund nefndarinnar Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Jóhann Rúnar Björgvinsson frá Þjóðhagsstofnun og Indriði H. Þorláksson, Bolli Þór Bollason og Maríanna Jónasdóttir frá fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin hefur fengið til umfjöllunar fimm frumvörp sem taka til tekjuáætlunar fjárlaga fyrir árið 1992. Tvö þessara frumvarpa hafa fengið afgreiðslu úr nefndinni, lög um aukatekjur ríkissjóðs og um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en sá skattur er talinn gefa 495 m.kr. og er sú tala nánast óbreytt frá tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1991. Þrjú frumvarpanna eru enn til umfjöllunar í nefndinni, en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að eitt þeirra, breyting á lögum um skattskyldu innlánsstofnana, skuli bíða afgreiðslu þar til eftir áramót og hefur nefndin því ekki fjallað um málið. Áhrif þess frumvarps eru því sett innan sviga í upptalningu hér á eftir. Áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs á árinu 1992 eru metin sem hér segir:
    Aukatekjur ríkissjóðs, breyting      350 m.kr.
    Breyting á lögum um tekju- og eignarskatt      720 m.kr.
    Breyting á lögum um jöfnunargjald      360 m.kr.
    Breyting á l. um skattskyldu innlánsstofnana      (80 m.kr.)

Alþingi, 18. des. 1991.



Rannveig Guðmundsdóttir, varaform.


Ingi Björn Albertsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Sólveig Pétursdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.


Fylgiskjal II.



Álit


um tekjuhlið fjárlaga.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samkvæmt 25. gr. þingskapa vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps til efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin skal skila fjárlaganefnd áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárlaganefnd ákveður. Þegar 2. umr. fjárlaga fór fram hafði efnahags- og viðskiptanefnd lítið fjallað um tekjugrein fjárlagafrumvarpsins. Ástæða hefði verið til ítarlegrar umfjöllunar. Var málið ekki nægilega langt komið til að nefndin sæi ástæðu til að eyða miklum tíma í þau störf.
    Minni hluti nefndarinnar benti á þetta mál og var að beiðni hans farið yfir forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins. Skv. 25. gr. þingskapa skal efnahags- og viðskiptanefnd gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Jafnframt kemur fram að álit og tillögur nefndanna skuli prenta sem fylgiskjöl með nefndaráliti fjárlaganefndar eða meiri hluti hennar. Á það var bent af minni hluta nefndarinnar að þessi umfjöllun hefði ekki farið fram. Var þá skyndilega boðað til fundar til þess að hægt væri að fara yfir þessi atriði að því er varðar tekjugrein fjárlagafrumvarpsins. Embættismenn fjármálaráðuneytisins og forstjóri Þjóðhagsstofnunar komu til fundar við nefndina og gerðu grein fyrir stöðu mála. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar gerði grein fyrir þjóðhagshorfum 1992 og vísast í því sambandi til fylgiskjals með nefndarálitinu.
    Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að þjóðartekjur minnki um 6,1% milli áranna 1991 og 1992. Þessari miklu rýrnun þjóðartekna fylgir veruleg rýrnun kaupmáttar en jafnframt mikill viðskiptahalli. Gert er ráð fyrir að viðskiptahallinn á árinu 1992 verði rúmir 15 milljarðar. Það sem er alvarlegast við þennan viðskiptahalla er að rætur hans er fyrst og fremst að rekja til neyslu í þjóðfélaginu en ekki fjárfestinga til uppbyggingar og aukningar framleiðslu. Við þessi skilyrði þrengist afkoma atvinnuveganna verulega og fram kom í máli forstjóra Þjóðhagsstofnunar að hagnaðarhlutfall atvinnuveganna er áætlað lægra á næsta ári en það hefur verið um langa hríð eða tæpum 2% lægra en á síðasta ári og nær 3% lægra en meðaltal síðustu 20 ára. Við þessi skilyrði er afkomurýrnun atvinnuveganna um 6–8 milljarðar. Það er ljóst að þessi þróun mun leiða til vaxandi atvinnuleysis og mikillar fjölgunar gjaldþrota.
    Í áætlun Þjóðhagsstofnunar kemur fram að atvinnuleysi er áætlað 2,6% sem hlutfall af vinnuafli á árinu 1992 en ætla má að þessi tala geti hækkað verulega vegna tapreksturs í atvinnulífinu. Ekki er gert ráð fyrir verðhækkunum á helstu útflutningsafurðum og í reynd talið að nokkurrar verðlækkunar muni gæta. Um þessar mundir er mikill samdráttur í nær öllum útflutningi og má líklegast rekja þann samdrátt fyrst og fremst til minnkandi afla en jafnframt lélegrar afkomu atvinnulífsins og mjög hárra raunvaxta. Þannig er lítill sem enginn áhugi á að fjárfesta í atvinnulífinu og auka framleiðsluna. Háir vextir og taprekstur dregur þróttinn úr atvinnulífinu með þeim áhrifum að framleiðslan minnkar.
    Þótt afkoma ríkissjóðs sé alvarlegt áhyggjuefni er hin mikla afkomurýrnun atvinnuveganna í reynd mun alvarlegra mál. Hætt er við að atvinnuleysi muni aukast af þeim sökum, afkoma heimilanna versna og framleiðslan minnka. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á leið gjaldþrota til að ná fram endurskipulagningu í atvinnulífinu sem í reynd leiðir til minnkandi framleiðslu og þróttminna atvinnulífs.
    Við þessar aðstæður hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka skattlagningu atvinnuveganna verulega. Er nú svo komið að samtök atvinnurekenda í landinu fullyrða að aðför sé gerð að atvinnuvegunum og fulltrúar launþega hafi tekið undir þau sjónarmið. Fulltrúar launþega eru að sjálfsögðu hræddir um atvinnu umbjóðenda sinna við þessar aðstæður og því sjá aðilar vinnumarkaðarins sameiginlega hagsmuni í að hrinda þessari vanhugsuðu árás á atvinnuvegi landsmanna. Í ljósi þessara aðstæðna mun fjárlaganefnd endurskoða tekjuáætlun fyrir árið 1992.
    Á þeim stutta tíma, sem nefndin hefur haft til umráða, er erfitt að láta í ljós álit á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Áætlað er að heildartekjur aukist sem hlutfall af landsframleiðslu úr 28% í 28 1 / 2 %. Skattheimta mun því aukast um tæpa tvo milljarða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Auk þess gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir margvíslegri gjaldtöku sem kemur til viðbótar þessum skattahækkunum. Má í því sambandi nefna verulega íþyngingu á sjávarútveginn en gert er ráð fyrir að hann standi undir öllum útgjöldum Hafrannsóknastofnunar. Auk þess er atvinnurekstrinum gert að greiða fleiri gjöld, m.a. 0,2% af öllum launaútgjöldum til að mæta áföllum launþega af völdum gjaldþrota.
    Vegna hinnar miklu tekjurýrnunar atvinnulífsins er ljóst að þessi skattheimta mun auk mjög hárra vaxta draga allan þrótt úr atvinnulífinu og spilla samskiptum aðila vinnumarkaðarins sem nú eru að reyna að finna leið til að semja um kaup og kjör. Það er jafnframt alvarlegt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar virðast ekkert samráð hafa við aðila vinnumarkaðarins um þessa stöðu. Mikil hætta er á að slík samskipti geti komið af stað miklum óróa á vinnumarkaði með tilheyrandi afleiðingum. Þjóðarbúið má alls ekki við að framleiðslan stöðvist um þessar mundir og því ber að gera allt sem hægt er til að tryggja afkomu atvinnuveganna og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vill koma þessum áhyggjum á framfæri við fjárlaganefnd og hvetja hana til að endurskoða þau fljótræðislegu áform sem ríkisstjórnin hefur sett fram á ýmsum sviðum skattamála.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að fjárlaganefnd verði að taka fullt tillit til þessara aðstæðna og endurskoða áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Með endurskoðun og nánari samvinnu við aðila vinnumarkaðarins má áreiðanlega koma í veg fyrir átök á vinnumarkaði og tryggja það að framleiðslan geti vaxið þannig að þjóðartekjur aukist á nýjan leik.
    Varðandi einstaka liði í tekjugrein fjárlagafrumvarpsins vill minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar taka fram eftirfarandi:
    Eignarskattar. Eignarskattar einstaklinga eru fyrst og fremst áætlaðir með tilliti til fasteignamats og gert er ráð fyrir nokkurri hækkun þeirra. Eignarskattur félaga mun lækka og má rekja þá stöðu til rýrnunar á eigin fé atvinnurekstrarins vegna taprekstrar. Minni hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við þá áætlun sem gerð er um eignarskatta.
    Tekjuskattur. Gert er ráð fyrir verulegri hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Í efnahags- og viðskiptanefnd er til meðferðar frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt og er það mál til meðferðar í nefndinni og bíður þar afgreiðslu. Frumvarp þetta var mjög illa undirbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar og er veruleg vinna eftir í sambandi við frumvarpið. Á þessu stigi er því ekki hægt að meta hvaða áhrif væntanlegar skattalagabreytingar muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur sjómanna verði hækkaður sérstaklega og barnabætur lækkaðar. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að ráðstöfunartekjur barnmargra fjölskyldna muni lækka á sama tíma og barnlausar fjölskyldur munu halda sínu. Minni hluti nefndarinnar telur óeðlilegt að taka sérstaklega fyrir eina stétt launþega, enda hefur ríkt um það sátt á vinnumarkaði að sjómenn nytu sérstaks frádráttar. Óeðlilegt er að skattbyrði barnafjölskyldna verði aukinn sérstaklega. Minni hluti nefndarinnar telur mun eðlilegra ef hækka þarf tekjuskatt að breytingarnar komi jafnt við alla en skattar verði ekki sérstaklega hækkaðir á barnafólki og sjómönnum. Minni hluti nefndarinnar mun taka afstöðu til þessa máls þegar meira liggur fyrir um áform ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Í því sambandi þarf að taka til athugunar athugasemdir launþega um skattleysismörk sem skipta verulegu máli í væntanlegum kjarasamningum. Í því sambandi vísast til athugasemda þar um í fylgiskjölum.
                  Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar á ýmsum greinum er varðar skattlagningu atvinnurekstrarins. Hefur það vakið upp mikil mótmæli, enda margt af því sem fram kemur í þeim tillögum óframkvæmanlegt. Á þessu stigi er ekki hægt að meta hvaða áhrif breytingarnar hafa en rétt er að benda á að ekki er gert ráð fyrir að þær valdi verulegum tekjubreytingum fyrir ríkissjóð. Minni hluti væntir þess að takast muni að ná samstöðu um að falla frá ýmsum óskynsamlegum breytingum sem tillögur eru gerðar um í fullum ófriði við atvinnulífið. Í því sambandi vísast til umsagnar atvinnulífsins.
                  Þá er gert ráð fyrir að hlut sveitarfélaganna í staðgreiðslu verði haldið eftir sem nemur 700 millj. kr. Þessi gjöld á að leggja á sveitarfélögin í nafni löggæslukostnaðar. Þessi breyting hefur ekkert verið undirbúin og ekki verið leitað samráðs við sveitarfélögin um hana. Komið hefur í ljós að mörg sveitarfélög hyggjast ná inn samsvarandi tekjum með því að hækka útsvör. Með því munu mörg sveitarfélög fá framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem mun aftur verða til þess að minna verður til skiptanna til þeirra sveitarfélaga sem höllum fæti standa. Þessi skattlagning ríkisvaldsins kallar því fram skattahækkanir sveitarfélaganna auk þess að raska tekjuskiptingu milli þeirra. Minni hluti nefndarinnar er algerlega mótfallinn þessum hugmyndum og telur þær skapa meiri vandamál en þeim er ætlað að leysa.
    Aðflutningsgjöld og gjöld af innflutningi. Vegna samdráttar í þjóðfélaginu má gera ráð fyrir verulegri lækkun aðflutnings- og innflutningsgjalda. Ekki eru gerðar athugasemdir við áætlanir um þessa skattheimtu en rétt er að benda á að í efnahags- og viðskiptanefnd bíður umfjöllunar frumvarp til laga um jöfnunargjald. Gert er ráð fyrir að gjald þetta muni skila 360 millj. kr. á næsta ári, enda verði það fellt niður um mitt næsta ár. Fram hefur komið að sumir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telja gjald þetta ekki standast skuldbindingar landsins út á við en telja verður að ríkisstjórnin hafi sannreynt það áður en slíkar hugmyndir eru lagðar fram. Minni hluti nefndarinnar telur því að til greina komi að gjald þetta verði lagt á allt næsta ár þannig að það geti skilað álíka miklum tekjum og á árinu 1991, en þá voru tekjur af því 800 millj. kr.
    Virðisaukaskattur. Samkvæmt meðfylgjandi minnisblaði um innheimtu virðisaukaskatts er gert ráð fyrir að innheimta hans á árinu 1992 verði 2 1 / 2 milljarði minni en reiknað hafði verið með. Hér er um mjög alvarlega þróun að ræða sem hefur vissulega mikil áhrif á fjárlagafrumvarpið. Þessari þróun verður ekki mætt nema með almennu aðhaldi í rekstrarútgjöldum ríkisins en taka verður fullt tillit til þessa mikla tekjusamdráttar. Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að herða mjög eftirlit með innheimtu virðisaukaskatts. Minni hluti nefndarinnar telur að auka megi tekjur af virðisaukaskatti með bættri innheimtu og hertu eftirliti. Slíkar aðgerðir ættu að geta skilað ríkissjóði a.m.k. 500 millj. kr. á árinu 1992.
    Skattar af einkasöluvörum. Ekki er gert ráð fyrir því að vörur ÁTVR verði hækkaðar umfram almennt verðlag. Við þær aðstæður, sem nú eru í þjóðfélaginu, er ekki óeðlilegt að þessar vörur verði hækkaðar sérstaklega. Það mikilvægasta af öllu er að koma í veg fyrir hækkun helstu nauðsynjavara og verja ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Ef þessar vörur væru hækkaðar sérstaklega um 6% mun það skila ríkissjóði 400 millj. kr. í tekjur á árinu 1992.
    Aðrir skattar. Ekki er ástæða til að gera sérstaklega að umtalsefni aðra skatta en benda má á að aukatekjur ríkissjóðs hækka verulega en minni hluti nefndarinnar studdi þær hækkanir í ljósi þeirrar stöðu sem nú er í ríkisfjármálum.
    Sala eigna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að eignir skuli seldar fyrir rúman milljarð. Litlar sem engar upplýsingar hafa fengist um hvaða eignir skyldu seldar og samkvæmt hvaða skilmálum. Ríkisstjórnin hefur verið með tilviljanakenndar og óljósar yfirlýsingar í þessu máli. Það er mjög skaðlegt að tala óljóst um sölu ríkiseigna og getur slíkt háttalag haft veruleg áhrif á markaðsverð þeirra. Minni hluti nefndarinnar leggst ekki gegn því að athugun fari fram á því hvort hagkvæmt sé að selja ákveðnar ríkiseignir. Nauðsynlegt er að slíkt sé gert að vandlega yfirveguðu ráði og undirbúningur sé vandaður. Minni hluti nefndarinnar hvetur fjárlaganefnd til að fjalla betur um það mál og senda hugmyndir þar um til umfjöllunar efnahags- og viðskiptanefndar. Ríkisstjórnin hefur með yfirlýsingum sínum sýnt fram á að hún er ekki fær um að stýra þessu máli og má þar sérstaklega nefna yfirlýsingu fjármálaráðherra um að selja Búnaðarbanka Íslands fyrir lítið.
    Aðrar skattabreytingar. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vill benda á að fjármagnstekjur eru nánast ekkert skattlagðar. Margir einstaklingar hafa verulegar tekjur með þessum hætti án þess að borga skatta og skyldur á sama tíma og launþegar með lækkandi kaupmátt mega sætta sig við skattahækkanir. Í því felst mikið óréttlæti sem verður að leiðrétta. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að nú þegar verði að eiga sér stað breytingar í þessu efni þannig að jafna megi skattlagningu launþega og fjármagnseigenda. Þrátt fyrir kröfu launþegasamtakanna og stjórnarandstöðunnar í þessu máli er ekkert gert. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar lýsir sig reiðubúinn til samstarfs um breytingar í þessa átt þannig að þær megi taka gildi á árinu 1992. Slíkar breytingar eru mikilvægt skref í jöfnunarátt sem getur haft veruleg áhrif við gerð kjarasamninga á næstunni.
                  Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar harmar hversu skammur tími hefur unnist til að fjalla um mál þetta en væntir þess að fá betra ráðrúm á næstu dögum til að fjalla um einstaka þætti þess. Það er ekki við það unandi að svo mikilvægt mál sem tekjuhlið fjárlaga sé undirbúið með þeim hætti sem fram hefur komið á undanförnum dögum. Slíkur undirbúningur samrýmist ekki þingsköpum Alþingis og tryggir ekki vandaða fjárlagagerð.
                  Óvandaður fjárlagaundirbúningur getur haft mikil áhrif á rekstrarafkomu ríkissjóðs. Nauðsynlegt aðhald verður ekki skapað nema með vönduðum fjárlögum. Því miður vantar mikið á að þannig sé að málum staðið. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur því breytt vinnubrögð mikilvæga forsendu bættrar afkomu ríkissjóðs. Þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins mun minni hluti nefndarinnar gera grein fyrir öðrum niðurstöðum sínum.
                  Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar væntir þess að tillit verði tekið til þessara ábendinga en mun gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Alþingi, 18. des. 1991.



Halldór Ásgrímsson, frsm.


Steingrímur J. Sigfússon.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.