Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


304. Nefndarálit



um framlög til flóabáta, fólks- og vöruflutninga.

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um framlög á fjárlögum til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum. Þessir bátar eru í förum á Faxaflóa, á Breiðafirði, á Ísafjarðardjúpi, frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja, milli hafna á Eyjafirði og til Grímseyjar og milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Er gerð sérstök grein fyrir styrkjum til einstakra báta og rekstrarstöðu þeirra síðar í áliti nefndarinnar.
    Jafnframt hefur nefndin tekið fyrir og rætt erindi sem borist hafa vegna vetrarsamgangna á landi, svo sem beiðni um styrki til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Þótt snjómokstursreglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa framlög verið veitt á fjárlögum hvers árs til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti. Nefndin stefnir að því við úthlutun á næsta ári að styrkir vegna vetrarsamgangna verði ekki veittir einstaklingum heldur sveitarfélögum eða samtökum þeirra og stjórn sveitarfélags falið að ráðstafa veittu fjármagni. Hefur nefndin þegar hafist handa við að sameina styrki sem fara til margra aðila innan sama sveitarfélags og veita alla upphæðina til sveitarfélagsins í þeim tillögum sem nefndin gerir við fjárlög 1992.
    Við úthlutun stofnstyrkja vegna samgangna á landi hefur að jafnaði verið við það miðað að styrkur verði ekki hærri samtals en helmingur kostnaðar við kaup á vélum og tækjum. Einnig miðar nefndin við það að sé stofnstyrkur veittur dreifist hann á þriggja ára tímabil en sé ekki veittur lengur en það. Af þessum sökum falla nokkrir stofnstyrkir út þar sem þeir hafa verið veittir í þrjú ár. Að þessu sinni leggur nefndin til að veittir verði tveir nýir stofnstyrkir, annars vegar til Hólmavíkurhrepps vegna tækjakaupa í snjóbíl og hins vegar stofnstyrkur til kaupa á snjóbíl í Höfðahreppi.

Mjóafjarðarbáturinn Anný.


    Báturinn heldur uppi áætlunarferðum á milli Mjóafjarðar, Dalatanga og Neskaupstaðar. Farnar eru áætlunarferðir tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Farið er með fisk frá Mjóafirði en komið með ýmsar nauðsynjavörur til baka. Í Mjóafirði er lítill landbúnaður annar en til heimilisþarfa en fiskveiðar í smáum stíl eru aðalatvinnugreinin. Til Dalatanga er farið með vistir til vitavarðar. Þessar ferðir eru mjög tímafrekar og vegna þeirra hefur reynst nauðsynlegt að eiga jeppa til ferða á landi og gúmmíbát til að taka á land við vitann. Með viðdvöl í Neskaupstað fara á milli 10 og 12 klst. í hverja ferð. Ekki er um annan möguleika í vetrarsamgöngum að ræða fyrir Mjófirðinga.
    Auk reglubundinna ferða fer Anný aukaferðir með ferðamenn og í sjúkraferðir þegar á þarf að halda.
    Vélbáturinn Anny er 12 tonn og er notaður til fiskveiða á milli áætlunarferða. Á síðasta ári voru gerðar á honum töluverðar endurbætur. Stýrishús var stækkað og í hann sett ný aflvél. Sama ár keypti Jóhann Egilsson hlut Egils Jóhannssonar sem áður sá um þessa flutninga.
    Jóhann Egilsson sækir um rekstrarstyrk að upphæð 4.140 þús. kr. og stofnstyrk til að kaupa hlut fyrri rekstraraðila að upphæð 1.000 þús. kr.

Anný — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur:
Stofnstyrkur     
1.000
1.000
Rekstrarstyrkur     
3.600
4.140
Aflaverðmæti     
1.946
3.149
Póstferðir     
924
1.100
    Samtals     
7.470
9.388

Gjöld:
Laun og aflahlutir     
3.298
4.800
Afborganir     
1.853
1.580
Viðhald     
1.133
1.078
Annað          
1.598
1.931
    Samtals     
7.882
9.389


Fagranesið.


    Fagranesið siglir á Ísafjarðardjúpi. Skipið er eina samgöngutæki ýmissa bæja við Djúpið stóran hluta ársins auk þess sem það þjónar þeim eyjum sem byggð er á. Skipið siglir reglulega frá Ísafirði, þaðan sem það er gert út, og inn Djúpið, leið sem á landi mælist um 220 km.
    Fyrr á þessu ári var hætt að nota gamla Fagranesið sem var orðið um 25 ára gamalt. Í stað þess var farið að nota tæplega 300 tonna skip sem keypt var notað frá Noregi. Nýja skipið fullnægir nútímakröfum um aðbúnað og öryggi auk þess sem það er betur búið til að anna umferðaraukningu í kjölfar nýrra jarðganga á Vestfjörðum.
    Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs fór Fagranesið 132 ferðir. Í þeim flutti skipið um 3.900 farþega og 135 bíla. Mjólkurflutningar eru stór þáttur í þjónustu Fagranessins. Á umræddu tímabili flutti það um 84 þús. lítra af mjólk, að mestu til Ísafjarðar. Flestar ferðir eru farnar á tímabilinu júní–ágúst en á þeim tíma er mikið um að farnar séu aukaferðir með ferðamenn, m.a. inn í Jökulfirði. Sé miðað við rauntölur fyrstu tíu mánuði þessa árs og áætlun síðustu tveggja má gera ráð fyrir að hátt í 80% af rekstrartekjum skipsins sé aflað með aukaferðum.
    Gert er ráð fyrir um 13,6% hækkun gjalda á milli áranna 1991 og 1992. Gjöld verði samkvæmt því um 30 m.kr. á næsta ári. Almennur útgerðarkostnaður hækkar þó meira eða um 39%. Veldur þar mestu að tryggingar eru töluvert hærri af stærra og fullkomnara skipi auk þess sem olíueyðsla nýja skipsins er ríflega helmingi meiri en þess gamla. Þessu til viðbótar var viðhaldskostnaður færður sem stofnkostnaður í ár en allt viðhald á næsta ári færist til gjalda.
    Tekjur eru taldar hækka um 5% og verða um 10,5 m.kr. Ríkisframlag þarf því að vera, að mati rekstraraðila Fagranessins, um 19,5 m.kr. á næsta ári til að endar nái saman.
    Að auki fer Djúpbáturinn hf., útgerðaraðili Fagranessins, fram á að veittur verði stofnstyrkur á næsta ári að upphæð 11,5 m.kr. vegna afborgana og vaxta af lánum sem tekin voru vegna nýja skipsins. Alls er því leitað eftir 31 m.kr. framlagi úr ríkissjóði.

Fagranesið — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur     
10.049
10.521

Gjöld:
Laun áhafnar     
12.338
13.128
Útgerðarkostnaður     
6.321
8.791
Skrifstofa og afgreiðsla     
5.598
5.878
Annað          
2.180
2.223
    Samtals     
26.437
30.021

Afkoma án styrks     
–16.388
–19.500
Styrkur     
17.600
19.500



Baldur.


    Ferjan heldur uppi föstum áætlunarferðum á milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Ávinningurinn af ferðum Baldurs er tvíþættur. Annars vegar styttist leiðin til Vestfjarða verulega. Landleiðin frá Stykkishólmi til Patreksfjarðar er til að mynda um 350 km. Frá Brjánslæk eru hins vegar um 50 km á Patreksfjörð. Á sama hátt styttist leiðin frá Reykjavík til Patreksfjarðar um tæpa 200 km.
    Hins vegar er um lausn á samgöngumálum sunnan til á Vestfjörðum yfir vetrarmánuðina að ræða. Á leiðinni á milli Kollafjarðar í Austur-Barðastrandarsýslu og Vatnsfjarðar í Vestur-Barðastrandarsýslu er oft verulega snjóþungt. Vegum þar á milli er ekki haldið opnum lengur en fram á haustið enda auðveldari kostur að fara með Baldri yfir til Stykkishólms.
    Snemma árs 1990 var tekin í notkun ný ferja á Breiðafirði. Hún var smíðuð hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi og er 645 rúmlestir, um 38 m löng og um 9 m á breidd. Rúm er fyrir um 200 farþega og um 20 fólksbíla. Fyrirtækið sjálft er skráð eigandi skipsins og lán vegna þess eru tekin í þess nafni.
    Rekstraraðili Baldurs gerir ráð fyrir að gjöld á næsta ári verði um 78 m.kr. Það er hækkun um tæp 11%. Tekjur eru taldar verða um 45,7 m.kr. en verða samkvæmt áætlun um 38,3 m.kr. á þessu ári. Til að brúa bil tekna og gjalda þarf því ríkisframlag að vera 32.428 þús. kr.
    Lán þau, sem tekin voru vegna smíði Baldurs, nema samkvæmt efnahagsreikningi fyrirtækisins í lok september um 428 m.kr. Hugmyndir eru uppi um að heildarlánið verði endurgreitt á 12 árum og hefjist endurgreiðslur og greiðslur vaxta á árinu 1993.
    Heildarríkisframlag til Baldurs þyrfti því að vera um 32,4 m.kr.

Baldur — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur:
Fargjöld     
12.700
23.336
Bílar          
16.800
13.936
Annað          
8.800
8.418
    Samtals     
38.300
45.690

Gjöld:
Laun          
31.250
37.811
Rekstur og viðhald skips     
38.100
35.257
    Samtals     
69.350
73.068

Vaxtagjöld     
1.200
5.050
Afkoma án styrks     
–32.250
–32.428
Styrkur     
24.400
32.428



Sævar og Sæfari.


    Sævar og Sæfari eru báðir reknir af Hríseyjarhreppi. Sævar siglir milli Hríseyjar og lands en Sæfari siglir um Eyjafjörðinn og til Grímseyjar. Sæfari var tekinn í notkun 21. maí 1990. Fyrir þann tíma sá Sævar um flutninga til Hríseyjar en eftir að Sæfari kom tók hann yfir alla þyngri flutninga.
    Fram hefur komið í samtölum við forsvarsmenn Hríseyjarhrepps að tekjur af rekstri Sævars höfðu fyrir komu Sæfara dugað nokkurn veginn fyrir rekstrarkostnaði. Í innsendum gögnum má sjá að á árinu 1990, fyrsta ári Sæfara í rekstri, minnkaði flutt magn úr 3.155 tonnum, eins og það hafði verið 1989, í 1.337 tonn. Á árinu 1991 lítur út fyrir að magnið verði tæp 500 tonn. Farþegaflutningar hafa hins vegar aukist á móti, úr tæpum 47 þús. árið 1989 í rúm 56 þús. á þessu ári.
    Í áætlun um rekstur næsta árs kemur fram að tap er talið verða um 7,7 m.kr. Á fjárlögum þessa árs eru veittar 6,8 m.kr. til Sævars.
    Sæfari hefur nú verið í rekstri í rúmlega eitt ár. Sé miðað við rauntölur fyrstu tíu mánuði þessa árs og áætlun síðustu tveggja mánaða má reikna með að hann flytji um 12 þús. tonn af vörum og um 5 þús. farþega. Samanlagðar tekjur af farþega og vöruflutningum eru taldar verða um 25 m.kr.
    Rekstraráætlun Sæfara gerir ráð fyrir 21,8 m.kr. tapi á næsta ári eftir greiðslu vaxta. Í ár er ríkisframlag til rekstrar 14,3 m.kr. en að auki var veittur stofnstyrkur til byggingar farþegahúss, 6 m.kr.
    Í vanskilum hjá Ríkisábyrgðasjóði eru nú um 12,5 m.kr. og 1. desember bætast við aðrar 6 m.kr.
    Afborganir lána og vextir verða á næsta ári um 21,6 m.kr.

Sæfari — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur:
Flutningstekjur     
25.000
25.000
Vörusala     
400
500
   Samtals     
25.400
25.500

Gjöld:
Laun          
21.400
22.000
Rekstur og viðhald skips     
17.000
18.000
Annað          
3.700
4.300
    Samtals     
42.100
44.300

Vaxtagjöld     
2.400
3.000
Afkoma án styrks     
–19.100
21.800
Styrkur     
14.300
21.800



Sævar — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur:
Flutningstekjur     
10.800
12.000
    Samtals     
10.800
12.000

Gjöld:
Sameiginlegur kostnaður     
11.100
12.400
Rekstur     
5.700
6.300
    Samtals     
16.800
18.700

Vaxtagjöld     
900
1.100
Afkoma án styrks     
–6.900
–7.700
Styrkur     
6.500
7.700


Herjólfur.


    Um miðjan júnímánuð er ætlunin að taka í notkun nýja ferju á hinni 70 km leið milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Nýja skipið, sem smíðað er í Noregi, verður um 2.000 rúmlestir, um 70 m langt og um 16 m á breidd.
    Rekstraráætlun sú, sem Herjólfur sendir frá sér fyrir næsta ár, ber merki þessa. Annars vegar er byggt á framreiknuðum rekstrartölum gamla skipsins en hins vegar á áætlun nýs skips. Áætlun gamla skipsins er gerð með hefðbundnum hætti en þó er gert ráð fyrir að viðhaldi verði haldið í lágmarki.
    Rekstraráætlun nýja skipsins byggir á grunni rauntalna áranna 1986–1990. Frá þessum grunni er síðan reiknað með aukningu í flutningum. Farþega- og bifreiðaflutningar eru taldir aukast um 40% á árinu 1992, vöruflutningar um 60% og vöruafgreiðsla um 10% og veitingasala er talin verða um 21,5% af fargjaldatekjum eins og undanfarin ár. Forsendur aukins flutnings eru í megindráttum þær að eftir að nýja ferjan kemur er hægt að anna öllum fólks- og fólksbílaflutningum. Vísa þarf frá töluverðum fjölda fólks á fjórum umferðarþyngstu mánuðunum, þ.e. yfir sumarið. Þá er gert ráð fyrir að flutningar með ferjunni stóraukist frá því sem nú er. Núverandi Herjólfur tekur einungis sérsmíðaða gáma. Gert ráð fyrir að nýja skipið verði mikið notað til að flytja fisk til hafnar í landi í frystigámum þaðan sem hann yrði fluttur út í heim. Hægt verður að aka með frystigámana um borð. Heildartekjur eru taldar munu verða á ársgrundvelli um 200 m.kr. Samanborið við gömlu ferjuna er það um 58% hækkun. Heildargjöld eru áætluð um 187 m.kr. eða um 3% meira en hefði kostað að reka eldra skipið á næsta ári.
    Á næsta ári mun þurfa um 57 m.kr. til reksturs Herjólfs. Á þessu ári er tapið talið verða um 5,2 m.kr. Um 25 m.kr tap mun verða á rekstri gömlu ferjunnar á næsta ári. Á næsta ári verða vextir 53,3 m.kr. vegna lána á byggingartíma. Um helmingur er talinn falla til eftir að ferjan hefur verið tekin í notkun og færist sem rekstrarkostnaður.
    Tekið hefur verið 720 m.kr. lán vegna smíði skipsins. Ætlunin er að það verði fært á skuldabréf til 15 ára en greiðist á 12 árum. Áfallnir vextir munu þó þurfa að greiðast á næsta ári og miðað við 8% vaxtafót má ætla að þeir verði um 57,5 m.kr. Til frádráttar reiknast andvirði gamla skipsins en það er talið munu verða um 50 m.kr. Alls mun því verða þörf á um 64,5 m.kr. ríkisframlagi til Herjólfs á næsta ári. Í ár veitir ríkið 50 m.kr. til rekstrarins.

Gamla skipið Nýja skipið
Herjólfur — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992

1992



Tekjur:
Farþegar     
44.078
48.485 74.263
Bifreiðar     
13.711
15.082 21.077
Flutningar     
36.100
37.544 72.525
Veitingasala o.fl.     
9.200
9.703 15.967
Vöruafgreiðslur     
13.016
13.537 16.651
Aðrar tekjur     
2.283
2.374
    Samtals     
118.388
126.725 200.483

Gjöld:

Laun          
63.147
65.041 65.374
Olíur          
16.247
17.141 27.067
Eldhús, kaffitería     
11.571
12.207 16.338
Vöruafgreiðslur     
32.995
34.637 16.651
Annað          
47.239
49.589 61.852
    Samtals     
171.199
178.615 187.282
Vaxtagjöld     
2.341
2.470
Afkoma án styrks     
–55.152
–54.360 13.201
Styrkur     
50.000
98.800



Akraborgin.


    Nokkur samdráttur hefur orðið í flutningum á milli Reykjavíkur og Akraness. Sé litið til fyrstu tíu mánaða áranna 1990 og 1991 hafa farþegaflutningar dregist saman um 4,7%, fólksbílaflutningur um 6,1% og flutningur á vöruflutningabifreiðum um 5,2%. Við samanburð á fyrstu átta mánuðum áranna 1990 og 1991 sést að tekjur standa að mestu leyti í stað þrátt fyrir umtalsverðar gjaldskrárhækkanir. Gjöld hækkuðu hins vegar um 12% aðallega vegna óhagstæðs olíuverðs og íþyngjandi áhrifa virðisaukaskatts eins og kemur fram í greinargerð frá forsvarsmönnum Skallagríms, rekstraraðila Akraborgarinnar.
    Á næsta ári er reiknað með að tekjur verði um 140 m.kr. en gjöld um 151 m.kr. Gjöld munu þannig standa að mestu í stað á meðan tekjur munu aukast um 10 m.kr. eða 7,5%.
    Miðað við lok ágústmánaðar sl. námu skuldir fyrirtækisins um 186 m.kr. en eignir rúmlega 51 m.kr. Skammtímaskuldir voru tæpar 53 m.kr. en veltufjármunir rúmlega 4 m.kr.
    Á næsta ári mun þurfa 25 m.kr. rekstrarstyrk en það er sama upphæð og í ár. Þá mun lánum verða skuldbreytt og verða greiðslur vegna þess um 25,8 m.kr. eða alls um 50,8 m.kr.

Akraborgin — Rekstrarreikningur (í þús. kr.)

1991

1992



Tekjur     
130.268
140.075

Gjöld:

Rekstrargjöld Akraborgar     
113.045
114.302
Stjórnun, afgreiðsla o.fl.     
27.205
26.802
    Samtals     
140.250
141.104

Vaxtagjöld     
16.663
15.000
Afkoma án styrks     
–26.645
–16.029
Styrkur     
25.000
25.000


    Málefni annarra báta verða ekki rakin hér, enda er þar um smáar upphæðir að ræða.
    Ekki verða heldur tilgreindar sérstakar umsóknir um fjárveitingar til vetrarsamgangna á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.
    Um 52. lið, óráðstafað, er það að segja að hann er fyrst og fremst hugsaður sem sjóður sem hægt yrði að grípa til þegar samgöngur á landi teppast og notast þarf við dýrari flutningstæki. Slíkir flutningar yrðu síðan greiddir samkvæmt reikningi að höfðu samráði við formann samgöngunefndar Alþingis.
    Rúnar Guðjónsson frá samgönguráðuneytinu mætti á fundi nefndarinnar og veitti henni margvíslegar upplýsingar um ferjur og flóabáta. Þá hafði samgöngunefnd samstarf við vinnuhóp fjárlaganefndar um afgreiðslu málsins.
    Pálmi Jónsson og Sturla Böðvarsson voru fjarstaddir lokaafgreiðslu málsins en í þeirra stað sátu Sigríður A. Þórðardóttir og Árni R. Árnason fundinn, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.
    Samgöngunefnd gerir tillögu á sérstöku þingskjali um að á fjárlögum 1992 verði veittar samtals 304.100 þús. kr. í staðinn fyrir 173.200 þús. kr. samkvæmt fjárlögum 1991.

Alþingi, 16. des. 1991.



Árni M. Mathiesen,

Stefán Guðmundsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Guðni Ágústsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Sigbjörn Gunnarsson.



Jóhann Ársælsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Árni R. Árnason.