Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


323. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1992 er nú komið til lokaumfjöllunar á Alþingi eftir mjög óvenjuleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar seinustu dagana sem málið var til umfjöllunar í fjárlaganefnd.
    Örfáum klukkustundum áður en 2. umr. um frumvarpið var fyrirhuguð komu fram tillögur frá ríkisstjórn og stjórnarflokkunum um veigamiklar breytingar á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins. Tillögur þessar voru að því leyti til óvenjulegar að þær fólu í sér veigamiklar skipulagsbreytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Auk þess er ráðgert að velta verulegum fjárhagsbyrðum yfir á sveitarfélögin og atvinnulífið í landinu.
    Fyrir þessum hugmyndum var gerð ítarleg grein í nefndaráliti og ræðum fulltrúa minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr. um frumvarpið. Þá var ítrekað að fulltrúar minni hlutans hefðu ekki haft nægan tíma til að fá heildaryfirsýn yfir þessar boðuðu aðgerðir og áhrif þeirra á ýmsa þætti þjóðlífsins. Þess vegna var lítið fjallað um frumvarpið sjálft og efnisþætti þess í því nefndaráliti en gert ráð fyrir útgáfu framhaldsnefndarálits við 3. umr.
    Það kom líka fljótt í ljós að gífurleg óánægja var með ýmsa þætti boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar, bæði hjá fulltrúum sveitarfélaganna og atvinnulífsins, sbr. fskj. I og II með nefndaráliti þessu, svo og hjá ýmsum stjórnarliðum sem keppst hafa við að lýsa andstöðu sinni við ýmsar breytingartillögur, bæði við tekjuöflun og niðurskurð útgjalda, svo sem jöfnunargjald, sbr. fskj. III, og sjómannaafslátt og fyrirhugaða frestun á framkvæmdum við Vestfjarðagöng.
    Vegna þessarar miklu andstöðu í þjóðfélaginu hefur ríkisstjórnin verið að hopa og breyta tillögum sínum alveg fram á síðustu stundu og enn er óljóst hvort samstaða er í stjórnarliðinu um einstaka þætti skattalagabreytinga sem enn þá eru til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Því er óhætt að fullyrða að þótt fjárlagafrumvarpið sé komið til lokaumræðu og afgreiðslu eru enn margir þættir óljósir og endar lausir.
    Ríkisstjórnin fullyrti á haustmánuðum þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1992 var lagt fram að hér væri „raunhæft“ frumvarp á ferðinni enda hefði nýjum aðferðum verið beitt við undirbúning þess. Fagráðuneytin hefðu sjálf unnið grunnvinnuna og því væru áætlanir um fjárveitingar til ráðuneyta og stofnana nær raunveruleikanum en oft áður og fullyrt að nú mundi allt standast. Talað var um takmörkuð ríkisumsvif og að dregið skyldi úr ríkisútgjöldum.
    Við nánari athugun kom þó fljótt í ljós að þessar fullyrðingar voru rangar. Fjölmargir útgjaldaliðir frumvarpsins voru vanáætlaðir og þó aðeins hafi verið reynt að berja í brestina með tillögum ríkisstjórnarinnar er það í flestum tilvikum gert með því að velta kostnaði og útgjöldum yfir á aðra aðila en ríkissjóð, svo sem að framan greinir, en ekki með raunverulegum sparnaði eða niðurskurði. Gleggsta dæmið um þetta eru „feluskattarnir“, hin svokölluðu þjónustugjöld, þar sem kostnaði við menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna er varpað á notendur þessarar þjónustu, þ.e. á barnafólk, unglinga, sjúka og aldraða. Hér er um algjörlega nýja stefnu að ræða þar sem gefist er upp við skipulags- og kerfisbreytingar sem leitt geta til hagræðingar og sparnaðar. Dregið er úr samfélagslegri ábyrgð og lagt inn á braut kaldrar markaðshyggju.
    Í greinargerð frumvarpsins er státað af því að skatttekjur verði svipaðar eða heldur lægri að raungildi en á þessu ári. Þetta er auðvitað alrangt þegar tekið er tillit til „feluskattanna“ eða þjónustugjaldanna sem dregnir eru frá útgjaldahlið frumvarpsins og lækka þannig heildartölu fjárlaganna í stað þess að færa þá tekna megin eins og aðra skatta.
    Séu þjónustugjöldin lögð saman við skatttekjurnar í frumvarpinu kemur í ljós að heildarskattbyrðin er 99,8 milljarðar króna og hefur aukist um 5,9 milljarða króna eða 6,3% miðað við árið 1991 og er því heildarskattbyrðin 27% af vergri landsframleiðslu saman borið við 25,4% í ár samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins, dags. 17. desember 1991. Atvinnulífinu er gert að taka á sig stórar upphæðir, svo sem 525 millj. kr. til reksturs Hafrannsóknastofnunar og 278 millj. kr. vegna ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota.
    Þótt ef til vill megi færa viss rök fyrir því að atvinnuvegirnir greiði í auknum mæli fyrir þá þjónustu sem hið opinbera veitir þeim er jafnljóst að nú er ekki rétti tíminn fyrir auknar álögur á atvinnulífið í landinu. Þvert á móti þyrftu stjórnvöld að leita allra leiða til að létta af því álögum og aðstoða það við að fleyta sér yfir þá örðugleika sem nú er vissulega við að glíma. En ríkisstjórnin heldur sig fast við „kemur-mér-ekki-við-stefnu“ forsætisráðherra og bætir stöðugt við klyfjarnar.
    Ef litið er á hinar ýmsu stofnanir er víða vanáætlað. Kom það mjög glöggt í ljós í viðtölum fjárlaganefndar við fjölmarga forsvarsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana. Hin „raunhæfa“ fjárlagagerð virðist einkennast af vanáætlunum og óraunhæfum sparnaðarhugmyndum ráðherra sem forsvarsmennirnir áttu engar skýringar á og sáu fáar eða engar leiðir til úrbóta. Meiri hluti fjárlaganefndarinnar og ríkisstjórnin hafa skellt skollaeyrum við flestum þessum beiðnum og stefna því út í óvissuna. Hugsanlegt er að með svona aðgerðum sé hægt að neyða fram einhvern sparnað en líklegra þó að draga þurfi úr þjónustu eða loka stofnunum. Þegar svo við þetta bætist flatur niðurskurður á launakostnað og önnur rekstrargjöld, 5% að jafnaði, er alveg ljóst að útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins er stórlega vanáætluð, trúlega svo milljörðum króna skiptir. Það mun koma í ljós áður en langt verður liðið á næsta ár.
    Sé litið á tekjuhlið frumvarpsins kemur strax í ljós að þar er einnig við vanda að glíma. Vissir veikleikar eru í tekjuáætlun varðandi einstaka skatta fyrir utan óvissuna sem enn ríkir um stuðning nokkurra stjórnarliða við ákveðna þætti.
    Á lokamínútum síðasta fundar nefndarinnar voru kynntar reglur um arðgreiðslur ríkisfyrirtækja og talið nægjanlegt að þær reglur væru staðfestar af Alþingi ásamt samþykkt á tekjugrein frumvarpsins. Arðgreiðslur þessar eiga að skila 150 millj. kr. í ríkissjóð.
    Minni hluti telur vafasamt að hægt sé að ákveða greiðslur í ríkissjóð með þessum hætti og bendir á að bankastofnanir greiða að sjálfsögðu skatt samkvæmt lögum um skatt á innlánsstofnanir og arðgreiðslur hlutafélaga eru ákveðnar á aðalfundum félaganna samkvæmt tillögu stjórnar. Þá má benda á að ríkið er minni hluta eignaraðili að ýmsum þeim fyrirtækjum sem hér er ráðgert að greiði arð í ríkissjóð.
    Samkvæmt 25. gr. þingskapa skal efnahags- og viðskiptanefnd gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar barst á síðustu stundu á lokafund fjárlaganefndar og er í raun ekki annað en upptalning á frumvörpum sem fyrir nefndinni liggja.
    Meiri hluti fjárlaganefndar taldi ekki ástæðu til að bíða eftir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og ákvað að ljúka afgreiðslu frumvarpsins án þess að það nefndarálit lægi fyrir. Nú hefur það álit borist nefndarmönnum og er þar að finna ýmsar upplýsingar og ábendingar um þau frumvörp sem fyrir liggja og tillögur til viðbótartekjuöflunar fyrir ríkissjóð.
    Minni hluti fjárlaganefndar getur tekið undir allt það sem þar kemur fram og vill til frekari áréttingar vitna til nokkurra atriða í því áliti. Þar segir m.a.:
    „Tekjuskattur. Gert er ráð fyrir verulegri hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Í efnahags- og viðskiptanefnd er til meðferðar frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt og er það mál til meðferðar í nefndinni og bíður þar afgreiðslu. Frumvarp þetta var mjög illa undirbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar og er veruleg vinna eftir í sambandi við frumvarpið. Á þessu stigi er því ekki hægt að meta hvaða áhrif væntanlegar skattalagabreytingar muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur sjómanna verði hækkaður sérstaklega og barnabætur lækkaðar. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að ráðstöfunartekjur barnmargra fjölskyldna muni lækka á sama tíma og barnlausar fjölskyldur munu halda sínu. Minni hluti nefndarinnar telur óeðlilegt að taka sérstaklega fyrir eina stétt launþega, enda hefur ríkt um það sátt á vinnumarkaði að sjómenn nytu sérstaks frádráttar. Óeðlilegt er að skattbyrði barnafjölskyldna verði aukin sérstaklega. Minni hluti nefndarinnar telur mun eðlilegra ef hækka þarf tekjuskatt að breytingarnar komi jafnt við alla en skattar verði ekki sérstaklega hækkaðir á barnafólki og sjómönnum. Minni hluti nefndarinnar mun taka afstöðu til þessa máls þegar meira liggur fyrir um áform ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Í því sambandi þarf að taka til athugunar athugasemdir launþega um skattleysismörk sem skipta verulegu máli í væntanlegum kjarasamningum. Í því sambandi vísast til athugasemda þar um í fylgiskjölum.
    Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar á ýmsum greinum er varða skattlagningu atvinnurekstrarins. Hefur það vakið upp mikil mótmæli, enda margt af því sem fram kemur í þeim tillögum óframkvæmanlegt. Á þessu stigi er ekki hægt að meta hvaða áhrif breytingarnar hafa en rétt er að benda á að ekki er gert ráð fyrir að þær valdi verulegum tekjubreytingum fyrir ríkissjóð. Minni hluti væntir þess að takast muni að ná samstöðu um að falla frá ýmsum óskynsamlegum breytingum sem tillögur eru gerðar um í fullum ófriði við atvinnulífið. Í því sambandi vísast til umsagnar atvinnulífsins.
    Þá er gert ráð fyrir að hlut sveitarfélaganna í staðgreiðslu verði haldið eftir sem nemur 700 millj. kr. Þessi gjöld á að leggja á sveitarfélögin í nafni löggæslukostnaðar. Þessi breyting hefur ekkert verið undirbúin og ekki verið leitað samráðs við sveitarfélögin um hana. Komið hefur í ljós að mörg sveitarfélög hyggjast ná inn samsvarandi tekjum með því að hækka útsvör. Með því munu mörg sveitarfélög fá framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem mun aftur verða til þess að minna verður til skiptanna til þeirra sveitarfélaga sem höllum fæti standa. Þessi skattlagning ríkisvaldsins kallar því fram skattahækkanir sveitarfélaganna auk þess að raska tekjuskiptingu milli þeirra. Minni hluti nefndarinnar er algerlega mótfallinn þessum hugmyndum og telur þær skapa meiri vandamál en þeim er ætlað að leysa.
    Aðflutningsgjöld og gjöld af innflutningi. Vegna samdráttar í þjóðfélaginu má gera ráð fyrir verulegri lækkun aðflutnings- og innflutningsgjalda. Ekki eru gerðar athugasemdir við áætlanir um þessa skattheimtu en rétt er að benda á að í efnahags- og viðskiptanefnd bíður umfjöllunar frumvarp til laga um jöfnunargjald. Gert er ráð fyrir að gjald þetta muni skila 360 millj. kr. á næsta ári, enda verði það fellt niður um mitt næsta ár. Fram hefur komið að sumir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telja gjald þetta ekki standast skuldbindingar landsins út á við en telja verður að ríkisstjórnin hafi sannreynt það áður en slíkar hugmyndir eru lagðar fram. Minni hluti nefndarinnar telur því að til greina komi að gjald þetta verði lagt á allt næsta ár þannig að það geti skilað álíka miklum tekjum og á árinu 1991, en þá voru tekjur af því 800 millj. kr.
    Virðisaukaskattur. Samkvæmt meðfylgjandi minnisblaði um innheimtu virðisaukaskatts er gert ráð fyrir að innheimta hans á árinu 1992 verði 2 1 / 2 milljarði króna minni en reiknað hafði verið með. Hér er um mjög alvarlega þróun að ræða sem hefur vissulega mikil áhrif á fjárlagafrumvarpið. Þessari þróun verður ekki mætt nema með almennu aðhaldi í rekstrarútgjöldum ríkisins en taka verður fullt tillit til þessa mikla tekjusamdráttar. Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að herða mjög eftirlit með innheimtu virðisaukaskatts. Minni hluti nefndarinnar telur að auka megi tekjur af virðisaukaskatti með bættri innheimtu og hertu eftirliti. Slíkar aðgerðir ættu að geta skilað ríkissjóði a.m.k. 500 millj. kr. á árinu 1992.
    Skattar af einkasöluvörum. Ekki er gert ráð fyrir því að vörur ÁTVR verði hækkaðar umfram almennt verðlag. Við þær aðstæður, sem nú eru í þjóðfélaginu, er ekki óeðlilegt að þessar vörur verði hækkaðar sérstaklega. Það mikilvægasta af öllu er að koma í veg fyrir hækkun helstu nauðsynjavara og verja ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Ef þessar vörur væru hækkaðar sérstaklega um 6% mun það skila ríkissjóði 400 millj. kr. í tekjur á árinu 1992.
    Aðrir skattar. Ekki er ástæða til að gera sérstaklega að umtalsefni aðra skatta en benda má á að aukatekjur ríkissjóðs hækka verulega en minni hluti nefndarinnar studdi þær hækkanir í ljósi þeirrar stöðu sem nú er í ríkisfjármálum.
    Sala eigna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að eignir skuli seldar fyrir rúman milljarð. Litlar sem engar upplýsingar hafa fengist um hvaða eignir skyldu seldar og samkvæmt hvaða skilmálum. Ríkisstjórnin hefur verið með tilviljanakenndar og óljósar yfirlýsingar í þessu máli. Það er mjög skaðlegt að tala óljóst um sölu ríkiseigna og getur slíkt háttalag haft veruleg áhrif á markaðsverð þeirra. Minni hluti nefndarinnar leggst ekki gegn því að athugun fari fram á því hvort hagkvæmt sé að selja ákveðnar ríkiseignir. Nauðsynlegt er að slíkt sé gert að vandlega yfirveguðu ráði og undirbúningur sé vandaður. Minni hluti nefndarinnar hvetur fjárlaganefnd til að fjalla betur um það mál og senda hugmyndir þar um til umfjöllunar efnahags- og viðskiptanefndar. Ríkisstjórnin hefur með yfirlýsingum sínum sýnt fram á að hún er ekki fær um að stýra þessu máli og má þar sérstaklega nefna yfirlýsingu fjármálaráðherra um að selja Búnaðarbanka Íslands fyrir lítið.“
    Af þessu má ljóst vera að í tekjuhlið frumvarpsins eru veikleikar sem benda til þess að hún muni ekki standast. Má í því sambandi sérstaklega árétta óljósar hugmyndir um sölu ríkisfyrirtækja, slaka innheimtu skatta, en þar er nauðynlegt að gera stórátak, og svo að lokum það ástand sem nú er í atvinnumálum. Það mun leiða til meira atvinnuleysis, tekjuskerðingar og kaupmáttarrýrnunar sem síðan hefur áhrif á tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs. Núverandi ríkisstjórn fylgir þeirri efnahagsstefnu að ekki beri að hjálpa þeim atvinnugreinum sem eiga í erfiðleikum heldur láta þau einfaldlega fara á hausinn. Gjaldþrotastefnan er því í dag viðurkennd hagstjórnaraðferð til að ná fram endurskipulagningu í atvinnulífinu. Hún leiðir í reynd til minnkandi framleiðslu og þróttminna atvinnulífs ásamt gífurlegum erfiðleikum sem fylgja í kjölfar aukins atvinnuleysis.

Laun og kaupmáttur.


    Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1992 var lagt fram í byrjun október var boðað að vegna samdráttar í efnahagslífinu og lækkandi þjóðartekna mundi kaupmáttur ráðstöfunartekna lækka verulega, eða um 3% á milli ára. Boðað var lakara atvinnuástand og samdráttur í atvinnulífi. Í þeirri þjóðhagsáætlun, sem forsendur frumvarpsins byggðu á, var spáð að atvinnuleysi gæti farið í rúmlega 2% af vinnuafli á næsta ári. Samningar eru lausir en í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum.
    Þetta var fyrir tveimur mánuðum. Frá því að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1992 var lagt fram hefur það tekið gífurlegum breytingum og eru þær ekki til bóta fyrir launafólk í landinu. Nú er gert ráð fyrir enn meiri samdrætti, enn minni kaupmætti launa, sem nemur um 5,5%, atvinnuleysi verði enn meira eða 2,6% af vinnuafli og þjóðartekjur dragist saman um 6,1% á móti á 3,1% eins og gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga. Ný spá Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagshorfur fyrir árið 1992 sýnir þessa þróun vel.

Þjóðhagshorfur 1992.




(repró í gut)


    Skýringar á þessum miklu breytingum á þjóðhagshorfum eru m.a. að álver er ekki lengur á næsta leiti. Þetta hafði þær afleiðingar að stór göt mynduðust í fjárlagagerð og ríkisstjórnin settist á rökstóla eina nótt. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur nú fyrir. Skerða á kjör launafólks enn meir en áður var ætlað. Hækka á skatta beina og óbeina enn meir en áður. Þó voru í frumvarpinu í október boðaðir hærri skattar en nokkru sinni. Barnabætur skulu skertar. Skattafsláttur sjómanna einnig. Fresta á greiðslum til bænda.
    Stóraðgerð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er þó einkum fólgin í tvennu: Annars vegar flatur niðurskurður á laun og önnur gjöld upp á tæpa tvo og hálfan milljarð króna og fækkun starfa hjá ríkinu um 600 störf. Hin aðgerðin er að láta sveitarfélögin greiða skatt í ríkissjóð að fjárhæð 700 millj. kr.
    Flatur niðurskurður á laun og annan kostnað um 5% er ráð sem gripið er til vegna úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar. Niðurskurðurinn kemur misjafnlega niður á stofnunum ríkisins, t.d. sleppa sumar stofnanir sem fá greiðslur frá ríkinu í formi tilfærslna. Þannig munu flestar stofnanir menntamála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyta lenda í niðurskurði. Þá munu stofnanir fatlaðra sem heyra undir félagsmálaráðuneytið einnig lenda innan þessa flata niðurskurðar. Þessi niðurskurður á launalið mun bitna verulega á þessum málaflokkum.
    Heildarskerðing á greiðslum til grunnskóla landsins nemur rúmum 300 millj. kr. sem samsvarar því að fimmtándi hver barnakennari í landinu hætti störfum. Laun starfsfólks heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa lenda líka að fullu í þessari skerðingu. Á móti þeirri upphæð, sem flati niðurskurðurinn á að skila, fær ríkisstjórnin um milljarð í ráðstöfunarfé til þess að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum. Ekkert er enn vitað með hvaða hætti verður staðið að úthlutun þessara fjármuna eða með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að standa að endurskipulagningu stofnana til að ná þeim niðurskurði sem áætlaður er. Til viðbótar má svo nefna að framlög á fjárlögum til þeirra stofnana, sem í niðurskurðinum lenda, höfðu í mörgum tilvikum verið skorin niður frá því sem áður var. Þessu til áréttingar eru hér birtar tvær töflur sem sýna hvernig þessi flati niðurskurður kemur við einstök ráðuneyti (tafla 1) svo og tíu stærstu ríkisstofnanirnar (tafla 2).




Tafla 1.


sett í gut.














Tafla 2





















Sveitarfélögin.


    
Við 2. umr. fjárlaga lágu fyrir tillögur um að færa ákveðin verkefni í málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Þessu var harðlega mótmælt af fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Það kom líka fljótlega í ljós að ekkert samráð hafði verið haft við fulltrúa sveitarfélaganna eða fulltrúa fatlaðra. Ríkisstjórnin varð því að draga þessa tillögu sína til baka.
    En þar með var ekki öll sagan sögð. Ný tillaga birtist stuttu fyrir 3. umr. fjárlaga. Nú á að færa hluta af löggæslukostnaði yfir á sveitarfélögin. 700 millj. kr. átti að halda eftir af staðgreiðsluskilum útsvars. En nú í dag, 19. desember, klukkustund áður en 3. umr. átti að hefjast, breyttist sú útfærsla. Hér verður um að ræða sérstakt framlag í formi fastrar krónutölu (nefskattur) á hvern íbúa frá sveitarfélögum til ríkis án tengingar við útsvarstekjur. Þessi skattheimta á sveitarfélögin mun snerta þau afar illa, sérstaklega minni sveitarfélögin sem hafa fullnýtt tekjustofna sína. Það er líka ljóst að stærri sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki hafa fullnýtt útsvarsstofn sinn, munu nú einhver gera það. Þar með eiga þau rétt á framlagi úr Jöfnunarsjóði sem aftur mun skerða framlag sjóðsins til minni sveitarfélaganna. Þess eru jafnvel dæmi að tekjur lítilla sveitarfélaga skerðist um 20–30%.

Atvinnumálastefna fjárlagafrumvarps.


    Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá dragast þjóðartekjur saman um 6,1% á árinu 1992. Ljóst er að framkvæmdir hefjast ekki við nýtt álver á næsta ári né heldur virkjunarframkvæmdir þeim tengdar.
    Undirstöðuatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, standa frammi fyrir miklum vanda vegna samdráttar og þær vonir, sem voru bundnar við iðnaðaruppbyggingu í stóriðju á næsta ári, hafa brugðist. Þetta leiðir til þess að Þjóðhagsstofnun spáir nú 2,6% atvinnuleysi á næsta ári.
    Það er skoðun minni hluta fjárlaganefndar að við þessar aðstæður þurfi fjárlög ríkisins að miða að því að halda atvinnulífinu gangandi og stuðla að fullri atvinnu. Slíka atvinnustefnu er ekki að finna í frumvarpinu að dómi minni hluta fjárlaganefndar og gildir það bæði um tekju- og gjaldahlið þess.

Sjávarútvegsmál.


    Sjávarútvegsráðuneytið gaf út í septembermánuði sl. aflaheimildir næsta kvótaárs. Þar var um 17–20% niðurskurð á aflaheimildum bolfisks að ræða miðað við tímabilið 1. janúar til 31. desember 1990, þar af í þorski um 17%. Einnig er vandi annarra greina í sjávarútvegi mikill vegna aflabrests á loðnuveiðum, verðfalls á rækju og markaðsörðugleika og tregrar veiði á síld. Þrátt fyrir þessar staðreyndir felur fjárlagafrumvarpið og hliðarráðstafanir þess í sér íþyngjandi ráðstafanir fyrir þennan atvinnuveg sem gerir erfiðara að bregðast við þessum sveiflum. Stærstu atriðin verða hér rakin:
 —    Gert er ráð fyrir að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs, sem nema 12.000 þorskígildum, verði fénýttar í þágu ríkissjóðs og gangi andvirðið til hafrannsókna eða 525 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Hlutverk Hagræðingarsjóðs var tvenns konar: 1) að stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi og 2) að aðstoða einstök byggðarlög sem missa frá sér aflaheimildir. Hér er einnig um að ræða skref til auðlindaskatts að mati minni hlutans. Minni hluti fjárlaganefndar undirstrikar mikilvægi hafrannsókna en telur þessa aðferð til að fjármagna þær stórhættulega við núverandi aðstæður.
 —    Gert er ráð fyrir að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Ríkismat sjávarafurða hækki gjaldskrá til þess að standa undir útgjöldum. Þetta þýðir 104,6 millj. kr. sértekjur fyrir Rannsóknastofnunina og 37,2 millj. kr. fyrir Ríkismat sjávarafurða eða samtals 141,8 millj. kr. sem leggst á sjávarútvegsfyrirtæki sem eru viðskiptavinir þessara stofnana.
 —    Ríkisframlag fellur niður til Veiðieftirlits ríkisins og sértekjur þeirrar stofnunar eiga að nema 80,7 millj. kr.
    Nýjar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru við 2. umr. fjárlaga, gera ráð fyrir nýjum álögum á sjávarútveginn. Þar er innifalin skerðing sjómannaafsláttar en ákvæði um hana er að finna í frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er um 180 millj. kr. álögur að ræða:
 —    Gert er ráð fyrir að innheimta 125 millj. kr. í Hafnasjóð með vörugjaldi sem leggst m.a. á fullunnar sjávarafurðir.
 —    Framlag til starfsmenntunar í sjávarútvegi er lækkað um 10 millj. kr.
 —    Þar að auki er framlag til Landhelgisgæslunnar lækkað um 50 millj. kr. sem dregur úr öryggi og leiðir til verri þjónustu við sjávarútveginn.
    Þessi atriði samanlögð leiða til aukinna útgjalda fyrir sjávarútveginn sem nema um 1 milljarði króna.
    Minni hluti fjárlaganefndar er andvígur þessum álögum og telur þær rýra starfsskilyrði sjávarútvegsins stórlega og draga úr möguleikum þessa undirstöðuatvinnuvegar til þess að varðveita lífskjörin og atvinnuöryggi.

Landbúnaðarmálin.


    Landbúnaðarnefnd Alþingis fjallaði um þau ákvæði sem snertu landbúnaðinn í fjárlagafrumvarpinu og skilaði samhljóða áliti eftir mjög ítarlega umfjöllun. Minni hluti fjárlaganefndar tekur undir það álit. Landbúnaðurinn á við mikla erfiðleika að etja sem stafa af markaðsörðugleikum og gerð hefur verið áætlun með búvörusamningnum um stórfelldan samdrátt í framleiðslu sem stofnar byggð í sveitum í hættu og hefur gífurleg áhrif á atvinnuástand í þéttbýli vegna þess að þjónusta við landbúnaðinn dregst saman á þéttbýlisstöðum.
    Við þessar aðstæður telur minni hluti fjárlaganefndar það mikilvægt að skerða ekki þá sjóði sem stuðla að nýjum atvinnugreinum í sveitum. Fjárlagafrumvarpið gengur í öfuga átt. Framleiðnisjóður landbúnaðarins er skorinn stórlega niður, en hlutverk hans var einmitt að stuðla að hagræðingu í búskap og efla nýjar atvinnugreinar í sveitum landsins. Fjárframlag til sjóðsins er 340 millj. kr., en hefði samkvæmt lögum átt að nema 640 millj. kr. Ljóst er að sjóðurinn veldur hvergi nærri verkefnum sínum með þessum fjármunum.
    Fjárframlög til Búnaðarfélags Íslands til launagreiðslna eru nú þannig upp sett að þau munu eftirleiðis ekki taka verðlagsbreytingum. Framlag til jarðræktar og búfjárræktar er dregið saman. Með þessu er leiðbeiningar- og þjónustustarfseminni í landbúnaðinum stefnt í hættu en hún er forsenda fyrir að halda honum á þróunarbraut.
    Dregið er úr niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum sem leiðir til enn meiri erfiðleika í sölu afurða. Þá er ótalin sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að fresta beinum greiðslum til bænda tvo síðustu mánuði ársins 1992 og velta þeim á undan sér yfir á árið 1993. Þarna er tekin ákvörðun um að borga einni stétt manna ekki laun tvo síðustu mánuði ársins. Framlag til sveitarafvæðingar 10 millj. kr. er þurrkað út.
    Minni hluti fjárlaganefndar er andvígur þessum aðgerðum og telur þær hættulegar landbúnaðinum og vandséð að þær leiði til sparnaðar fyrir ríkissjóð þegar afleiðingar þeirra fara að koma í ljós.

Iðnaður og þjónusta.


    Ein af forsendunum fyrir blómlegum iðnaði í landinu er gott menntakerfi og rannsóknir. Undir iðnaðarráðuneytið fellur fjárlagaliðurinn framlög til iðju og iðnaðar. Sá liður lækkar um 22% og falla þar undir ýmis verkefni eins og smáiðnaður í dreifbýli, stuðningur við skipasmíðaiðnað, iðnþróunarverkefni, iðnþróun og markaðsmál o.fl. Laun iðnráðgjafa greiðast nú ekki af þessum lið heldur falla undir Byggðastofnun í samræmi við nýja löggjöf um stofnunina. Með því að fjárframlög til Byggðastofnunar eru skorin niður er málefnum iðnráðgjafa stefnt í stórhættu.
    Ekki bólar heldur á því að vilji sé til að efla rannsóknastarfsemi sem einnig er forsenda iðnþróunar.

Byggðamál.


    Eitt af því sem hættulegast er við fjárlagafrumvarpið er að það stóreykur hættuna á byggðaröskun í landinu. Byggðastofnun á að taka á sig aukin verkefni, en jafnframt eru fjármunir skornir niður til hennar svo að hún verður allsendis ófær um að sinna þeim. Íþyngjandi ráðstafanir fyrir sjávarútveg og landbúnað koma hart niður á landsbyggðinni. Fjöldi einstakra aðgerða hefur slæm áhrif á byggðamálin og nægir að nefna stórfelldar álögur á sveitarfélögin, álagningu hafnagjalda og áform um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins. Með þessum aðgerðum er samkeppnisstaða verslunar og þjónustu á landsbyggðinni skert stórlega og verðmunur aukinn með beinum opinberum aðgerðum. Benda má á að með nýjum vörugjöldum í höfnum verða aðföng til landsbyggðarinnar margsköttuð. Í kjölfar þess að Skipaútgerð ríkisins verður lögð niður eftir þrjá mánuði eins og frumvarpið gerir ráð fyrir er algjör óvissa í flutningamálum á landsbyggðinni og hætta á því að flutningataxtar hækki verulega.
    Hinar nýju álögur á sveitarfélögin í landinu veikja stöðu þeirra mjög til þess að veita þá þjónustu sem lögboðin er og skapa atvinnulífinu það umhverfi sem nú er höfuðnauðsyn á.
    Heildarframlög til vegagerðar eru skorin niður úr 6.080 millj. kr. sem gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir í 5.565 millj. kr. Þetta mun hafa í för með sér um 20% niðurskurð nýframkvæmda.
    Áformað er að fresta hluta Vestfjarðaganga um eitt ár. Þetta setur framhald verksins í hættu, enda hafa þingmenn Vestfjarða mótmælt þessari aðgerð. Auk þess verður Vegagerð ríkisins fyrir fjárútlátum vegna þess að þetta verk er samningsbundið miðað við ákveðið fjárstreymi til verktaka.

Mennta- og menningarmál.


    Í frumvarpi til fjárlaga er boðuð afgerandi stefnubreyting í skólamálum með álagningu skólagjalda. Þótt boðað hafi verið að tillögur um skólagjöld á framhaldsskólastigi verði að mestu dregnar til baka er enn fyrirhugað að taka upp nemendaskatt á háskólastigi og í öldungadeildum framhaldsskólanna. Eiga háskólanemar nú að greiða allt að 17.000 kr. til viðbótar þeirri upphæð sem nemendur greiða nú til félagsstarfa sinna.
    Þeir nefndarmenn, sem undir þetta rita, eru alfarið á móti því að skólagjöld séu innheimt í ríkisskólum og telja það brjóta í bága við þá grundvallarreglu um jafnrétti til náms sem ríkt hefur í íslensku skólakerfi. Þá bendum við á að slíkt kallar á aukin námslán. Verra er þó að framlög til Háskóla Íslands eru skert verulega sem getur haft í för með sér að takmarka verður inntöku nýrra nemenda í skólann.
    Sama gildir um framlög til framhaldsskóla. Þau eru einnig skert þrátt fyrir mikla aukningu nemenda og ekki séð hvernig hægt er að mæta því nema með því að vísa nemendum frá. Ekkert er bætt úr brýnni þörf iðnmenntunar í landinu þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að verk- og listgreinar þurfi að efla sem forsendur fyrir þróun íslensks iðnaðar á mörgum sviðum. Þeir framhaldsskólar, sem hyggjast auka framboð verkmenntagreina, geta það ekki sökum fjárskorts. Og ekki bólar á framkvæmdafé til uppbyggingar dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar í landinu. Þá er ekki í frumvarpinu mótuð nein stefna í málefnum héraðsskólanna, heldur er það alfarið undir ráðherra komið hver framtíð þeirra verður.
    Gert er ráð fyrir að fresta að framkvæma breytingar á grunnskólalögum sem samþykktar voru á sl. vetri. Það teljum við mjög óeðlilegt þar sem hér er ekki um verulega fjármuni að ræða í heildarpakka fjárlaga en hins vegar mundu þessar breytingar horfa mjög til bóta fyrir allt skólastarf í grunnskólum. Einnig er í frumvarpinu verið að skerða lögbundinn tekjustofn Ríkisútvarpsins og stofnuninni þar með gert ókleift að sinna lögboðnu hlutverki sínu svo vel sé. Sömu sögu er að segja um Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn, byggðasöfnin og flestar aðrar menningarstofnanir í landinu. Menningarminjar verða einnig illa úti og virðast lítils virtar.
    Ástæða væri til að gera áhugaleikfélögunum sérstök skil því að í engri listgrein í landinu er jafnalmenn þátttaka og víða eru leikfélögin uppistaða menningar- og félagslífs í hinum dreifðu byggðum landsins. Þessa starfsemi hefur ríkisstjórnin kosið að verðlauna með ónógum fjárveitingum til Bandalags íslenskra leikfélaga.
    Tónlist og myndlist eru hvorki forgangsviðfangsefni þessarar ríkisstjórnar né meiri hluta fjárlaganefndar. Fé til kynningar á íslenskri list erlendis er lítið og seinlegt verk að sannfæra stjórnvöld um að list og menning þjóðar geti verið arðbær í beinhörðum peningum ef rétt er á málum haldið.
    Mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu er ferðaþjónusta í landinu. Í fjárlagafrumvarpinu er hún skorin niður að því marki að erfitt er að sjá hvað um það verk verður sem þegar hefur verið unnið.
    Framlag til rannsóknastofnana er skert verulega og þeim gert að afla sér aukinna sértekna sem alls óvíst er að takist. Það mun verða til að draga úr nauðsynlegri tilrauna- og þróunarstarfsemi.
    Ofan á þetta allt kemur svo flöt skerðing sem er 6,7% á launagreiðslur og 1,3% á annan kostnað. Er það til viðbótar þeirri skerðingu sem fyrir var og engin útfærsla á hvernig á að ná henni fram.
    Við teljum að sú mennta- og menningarstefna, sem núverandi ríkisstjórn boðar, sé okkur hættuleg. Þar er ekki verið að laga skólastarf í landinu að þeim breytingum sem eiga sér stað í nútímaþjóðfélagi. Við teljum vaxtarbrodd þjóðfélagsins liggja í menntun æskunnar og auknum rannsóknum.
    Með lögum nr. 72/1982, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, var jafnrétti íslenskra ungmenna til náms tryggt. Frá upphafi var ljóst að verulegt fjármagn þyrfti að koma til frá ríkinu fyrstu árin, en síðan yrði sjóðurinn sjálfum sér nógur þegar endurgreiðslur tækju að skila sér. Á sl. áratug hefur ríkisframlag sveiflast frá 50% til 90% og þess vegna verið gripið til lántöku. Mikill vaxtamunur er á námslánum sem einungis eru verðtryggð og lánum sem bera vexti og hefur það skaðað sjóðinn verulega. Er nú talið að 66% af námsaðstoðinni á næsta ári þurfi að koma frá ríkinu og því vantar enn 600 millj. kr. í fjárlögum svo að ekki þurfi að koma til frekari lántöku.
    Nauðsynlegt er að það komi fram að Lánasjóður íslenskra námsmanna getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum sínum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu sjóðsins frá því í apríl 1991 segir svo:
    „Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar króna um síðustu áramót. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarakröfu verður útkoman 3 milljarðar króna.“
    Lánasjóður íslenska námsmanna er því enginn þurfalingur og ætti að verða sjálfum sér nógur eftir örfá ár.
    Núgildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru dæmi um lög sem friður hefur verið um að mestu. Endurgreiðslur nema nú um 60%, eru tekjutengdar og því greiða menn skuldir sínar við sjóðinn betur en almennt gerist og eru skil um 91% af gjaldföllnum skuldum. Sjóðurinn þarfnast aðstoðar í örfá ár í viðbót og ef hún fengist hefði verið byggt upp í landinu eitt besta námslánakerfi í heiminum.
    Fyrir Alþingi hefur nú verið lagt nýtt frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með því, ef að lögum verður, eru kjör íslenskra námsmanna skert verulega, enda kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að höfundar þess vona að úr eftirspurn eftir námslánum verði dregið. Stjórnarandstaðan er einhuga um að verja sem kostur er Lánasjóð íslenskra námsmanna og lítur á hann sem forsendur öflugs mennta- og menningarlífs í landinu, grundvallarskilyrði fyrir rannsóknastarfi á öllum sviðum í þágu lands og lýðs. En sú deila bíður umræðu um það frumvarp.
    Á erfiðleikatímum á ekki að ala á svartsýni heldur horfa fram á við og efla baráttu og viljaþrek þjóðarinnar. Það verður best gert með góðri og fjölbreyttri menntun þegnanna, stuðningi við menningu og listir og auknum rannsóknum í þágu atvinnuveganna. Það teljum við vegvísi til framtíðar.

Heilbrigðismál.


    Ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra hafa haft uppi nokkra tilburði við að draga úr útgjöldum ríkisins til heilbrigðis- og tryggingamála. Mest hefur það þó verið í því formi að láta einstaklingana, notendur þjónustunnar, greiða kostnaðinn með nýjum þjónustugjöldum. Í fjárlagafrumvarpinu er haldið áfram á sömu braut. Tekin er á ný upp gjaldtaka fyrir þjónustu á heilsugæslustöðvum og þar með horfið frá þeirri stefnu að heilsuvernd og frumheilsugæslan sé ókeypis en það var liður í þeirri stefnu fyrrverandi heilbrigðisráðherra að leggja aukna áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi starf í heilbrigðisþjónustunni. Minni hluti er andvígur þessari nýju gjaldtöku.
    Ekkert bólar á tillögum eða hugmyndum um breytingar á skipulagi lyfjainnflutnings og dreifingar. Þó er gert ráð fyrir enn frekari sparnaði í lyfjaútgjöldum svo hundruðum milljóna króna skiptir. Sá „sparnaður“ hlýtur því að eiga að nást með aukinni gjaldtöku af sjúklingum. Minni hluti leggur áherslu á nauðsyn þess að grípa hið fyrsta til annarra aðgerða til að ná fram sparnaði í lyfjaútgjöldum en þeirra að auka kostnaðarþátttöku notendanna. Þar verða að koma til róttækar skipulagsbreytingar hvort heldur þær eru byggðar á fyrirliggjandi eldri tillögum eða nýjum hugmyndum um breytt skipulag.
    Áætlað er að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 250 millj. kr. Engin skýring hefur fengist á því hvernig þessum sparnaði skuli náð. Í fyrri ríkisstjórn voru uppi hugmyndir um tekjutengingu grunnlífeyris en þær náðu ekki fram að ganga vegna andstöðu þingflokks Alþýðuflokksins. Ef það viðhorf er enn óbreytt er ekki hægt að álykta annað en gert sé ráð fyrir almennri lækkun á lífeyri öryrkja og aldraðra til að ná fram þessum áætlaða sparnaði.
    Þó tekur fyrst steininn úr þegar kemur að hugmyndum og tillögum um sparnað í rekstri sjúkrahúsa. Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um sparnað í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og hafa þær byggst á aukinni hagræðingu með samstarfi eða sameiningu stóru sjúkrahúsanna þriggja í Reykjavík. Slíkar breytingar taka því miður langan tíma og þarf að undirbúa vel svo að þær nái tilætluðum árangri. Með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem samþykkt voru á Alþingi 21. desember 1990, var stofnað svokallað samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og er hlutverk þess m.a. að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu sjúkrahúsanna, flokkun þeirra og starfssvið, þróunar- og fjárfestingaráætlanir og stuðla að sem hagkvæmastri verkaskiptingu þeirra. Í stað þess að þróa málin áfram eftir þessum farvegi ákveður heilbrigðisráðherra að skynsamlegasta leiðin til að ná fram skjótum sparnaði — svo hundruðum milljóna króna skiptir — sé að sameina Borgarspítala og St. Jósefsspítalann að Landakoti í eina stofnun. Sett er á laggirnar nefnd sem hefur það hlutverk eitt að kanna hvort þetta sé hægt og hvort ná megi fram þeim sparnaði sem fjárlagafrumvarpið ráðgerir. Niðurstaða nefndarinnar, sem kemur fram á síðustu stundu, rétt fyrir afgreiðslu fjárlaga, er í stuttu máli þessi orðrétt úr inngangi nefndarálitsins:
    „Nefndin telur mögulegt að sameina rekstur Borgarspítala og St. Jósefsspítala undir eina stjórn og telur líklegt að það leiði til sparnaðar ef til lengri tíma er litið og aukinnar skilvirkni í þjónustu. Það skipulag, sem hér er sett fram, er algjörlega háð því að tryggt verði fé til þeirra framkvæmda sem gerð er grein fyrir í skýrslunni.“
    Síðar segir í nefndarálitinu að nauðsynlegar framkvæmdir árið 1992 muni kosta um 400 millj. kr. og jafnframt orðrétt:
    „Þar sem mestur hluti ársins 1992 mun fara í almennan undirbúning og í stofnframkvæmdir, sem eru forsenda fyrir tilfærslum verkefna yfirleitt, er vart hægt að gera ráð fyrir sparnaði í rekstri á árinu 1992.“
    Af þessu má ljóst vera að áætlaður sparnaður frumvarpsins á næsta ári með sameiningu Borgarspítala og St. Jósefsspítala að Landakoti næst alls ekki en kallar þess í stað á viðbótarfjárframlög.
    Það er skoðun fjölmargra aðila innan heilbrigðiskerfisins að sameining Borgarspítala og St. Jósefsspítala að Landakoti muni aldrei geta leitt til sparnaðar, jafnvel ekki á lengri tíma, ef litið er á heilbrigðisþjónustuna í heild. Jafnframt er fullyrt að sameining af þessu tagi muni leiða til stóraukinna útgjalda og þar með kostnaðar og tjóns fyrir alla aðila er fram í sækir. Er þessi skoðun studd af áliti erlendra rekstrarráðgjafa, Moret Ernst & Young, sem unnu að hagræðingarstörfum fyrir Ríkisspítala fyrr á þessu ári. Í skýrslu þeirra, sem birtist í september sl., kemur m.a. fram það álit að sameina beri Ríkisspítala og Borgarspítalann. Það sé skynsamlegasta leiðin og áhrifaríkust til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna. Jafnframt kemur fram það álit að fyrirhuguð sameining Borgarspítala og St. Jósefsspítala að Landakoti sé óskynsamleg því þá verði tvöföldunin mest, kostnaður muni hækka og sóun verða í hámarki.
    Minni hluti varar því við hugmyndum af þessu tagi og lýsir undrun sinni á vinnubrögðum heilbrigðismálaráðherra er hann nánast neyðir fulltrúa St. Jósefsspítala til að samþykkja áframhaldandi samningagerð af þessu tagi með því að skerða framlag til spítalans um nær 400 millj. kr. eins og nú er gerð tillaga um, úr 1.214,4 millj. kr. miðað við óbreyttan rekstur í 831,1 millj. kr. samkvæmt breytingartillögum meiri hluta. Þetta mun algjörlega lama starfsemi spítalans, en í tillögum Ernst & Young kemur einnig fram það álit að hin minni sjúkrahús eigi fullkomlega rétt á sér og geti verið hagkvæmur kostur til að sinna ýmsum sérverkefnum við hliðina á einu stóru meginsjúkrahúsi.
    Minni hluti nefndarinnar leggur því til að samstarfsráði sjúkrahúsanna í Reykjavík, ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, verði falið að taka skýrslu þessara erlendu rekstrarráðgjafa til ítarlegrar umfjöllunar og leita allra leiða til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna með hliðsjón af þeim tillögum sem þar eru settar fram.

Lokaorð.


    Af framansögðu má ljóst vera að frumvarpið var óraunhæft í upphafi, svo sem stjórnarandstæðingar hafa haldið fram, og er það enn. Frumvarpið er illa unnið og ýmis stefnumál, sem sett eru fram í greinargerð með frumvarpinu um nýja útgjaldastefnu og takmörkuð ríkisumsvif, eru ekki á rökum reist.
    Tillögur frá ríkisstjórn seinustu daga hafa nánast skapað ringulreið í þjóðfélaginu og breyst dag frá degi. Ógjörningur hefur verið að átta sig á til hvers þær leiddu. Þær hafi ekki fengist ræddar í fjárlaganefnd svo neinu nemur. Ósk minni hlutans um að fá nokkra aðila til viðtals við nefndina til að ræða þessar tillögur, þegar þær komu fram, var hafnað og mun það fátítt í nefndum þingsins að beita þannig meiri hluta valdi gegn óskum stjórnarandstæðinga um eðlilegt upplýsingastreymi, sjá fskj. IV. Röksemdir um tímaskort til að geta orðið við slíkri beiðni eru ekki marktækar í svo viðamiklu og mikilvægu máli sem frumvarp til fjárlaga er og meira um vert að vanda vinnubrögð og gefa sér þann tíma sem þarf til verksins.
    Minni hluti nefndarinnar flytur ekki sameiginlegar breytingartillögur við frumvarpið en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 19. des. 1991.



Guðmundur Bjarnason,

Guðrún Helgadóttir.

Jón Kristjánsson.


frsm.



Margrét Frímannsdóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.






Fylgiskjal I.


Yfirlýsing stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga


vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að brjóta samkomulag ríkis og sveitarfélaga


um tekjustofna og verkaskipti og stórfelldar álögur á sveitarfélögin.


(Samþykkt á stjórnarfundi 11. des. 1991.

)
    Ríkisstjórnin hefur nú einhliða og án alls samráðs við sveitarfélögin og samtök þeirra lagt fram tillögur um breytingar á tveimur af veigamestu tekjustofnum sveitarfélaganna, útsvari og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt felast í tillögunum stórfelldar nýjar álögur á sveitarfélögin. Samtals leiða þessar tillögur til a.m.k. eins milljarðs króna útgjaldaauka eða tekjuskerðingar fyrir sveitarfélögin.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar og telur þau alvarlegt brot á nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og verkaskipti.
    Í tillögunum er enn fremur gert ráð fyrir misnotkun á sameiginlegu innheimtukerfi ríkis og sveitarfélaga, „staðgreiðslukerfinu“, og ganga þær hugmyndir þvert á samkomulag fjármálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. apríl 1990 um það efni.
    Samráðsfundur stjórnar sambandsins með ríkisstjórninni var haldinn 18. nóvember sl. Árleg fjármálaráðstefna sambandsins var síðan haldin 21. og 22. nóvember sl. Á þessa fundi komu sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar og gerðu grein fyrir stefnu sinna ráðuneyta og ríkisstjórnarinnar í heild í málefnum sveitarfélaganna. Þar kom ekkert fram sem benti til þess að ríkisstjórnin hefði í hyggju þær stórfelldu breytingar á tekjustofnum og verkaskiptum og fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem tillögurnar gera ráð fyrir.
    Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaganna né Samband íslenskra sveitarfélaga um þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram þrátt fyrir skýr ákvæði samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga um samráð þessara aðila varðandi sameiginleg hagsmunamál og ákvæði í 116. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, þar sem segir: „Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.“
    Samningsbundið og lögformlegt samstarf er þannig rofið og það einskis virt af ríkisstjórninni.
    Slík vinnubrögð leiða til alvarlegs trúnaðarbrests milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Nú liggja fyrir nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga og endurskoðun á verkefnum, tekjum og öðrum samskiptum þeirra við ríkisvaldið sem góð samstaða gæti náðst um. Framgangur þess máls byggist á því að trúnaður ríki milli aðila og að því sé hægt að treysta að samningar og lög um samskipti þeirra séu virt.
    Mörg sveitarfélag standa nú frammi fyrir miklum fjárhagsvanda. Gerðar eru kröfur á hendur þeirra hringinn í kringum landið um fjárhagslega þátttöku í atvinnulífinu. Einnig hefur ríkisvaldið að undanförnu aukið fjárhagslegar skyldur sveitarfélaganna með lögbindingu nýrra verkefna og hertum reglugerðarákvæðum.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur ríkisstjórnina til að falla frá áformum sínum og að efnt verði til samráðs ríkis og sveitarfélaga á jafnréttisgrundvelli svo sem samningar og lög gera ráð fyrir.




Fylgiskjal II.


Samþykkt framkvæmdastjórnar VSÍ 16. desember 1991:

Aðför að atvinnurekstri.


    Framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands varar alvarlega við því ákvæði í frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem miðar að sérstakri skattlagningu arðgreiðslna af hlutafé. Samþykkt þess væri hörmuleg mistök sem fæli í sér grófa aðför að atvinnurekstri og þeim þúsundum einstaklinga sem á liðnum árum hafa fest fé í fyrirtækjum.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er látið að því liggja að hér sé á ferðinni samræming skattlagningar í hátt við það sem gerist í öðrum löndum. Vinnuveitendasamband Íslands er því mjög fylgjandi að skattlagning atvinnurekstrar hér á landi verði samræmd því sem algengast er í Evrópu, en er algerlega mótfallið þeirri samræmingu sem takmarkast við íþyngjandi atriði ein. Sérstaða íslenska skattkerfisins felst ekki í því að arðgreiðslur að ákveðnu hámarki séu undanþegnar skatti heldur því að fjármagnstekjur almennt eru undanþegnar frá skatti og að skatthlutföll eru hærri en víðast gerist. Það þekkist heldur ekki að arður af hlutafé sé skattlagður þyngra en vaxtatekjur.
    Fjármagnskostnaður telst til rekstrargjalda í skattauppgjöri fyrirtækja. Greiddur arður hefur með sama hætti talist til kostnaðar, en hefur þó lengst af verið bundinn við tiltekið hámark, 10% af nafnvirði hlutafjár. Síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir hækkun þessara marka úr 10% í 15%. Það var gert til að hvetja almenning til að leggja áhættufé í atvinnurekstur og auka þann veg eigið fé fyrirtækjanna. Þetta var einnig liður í því að draga úr skattalegri mismunun sparnaðarforma, en vaxtaberandi sparnaður hefur notið mikillar skattalegrar ívilnunar umfram hlutafé á liðnum árum. Þessar breytingar miðuðu þannig að því að styrkja hlutabréfamarkaðinn og efla trú fólks á því að fjárfesting í atvinnulífinu væri raunhæfur kostur. Til þess þyrftu fyrirtækin að geta greitt arð sem stæðist samanburð við aðra ávöxtun peninga og því var hámark frádráttarins hækkað. Fyrirtækin þyrftu þá ekki að gjalda þess í hærri sköttum ef þau væru fjármögnuð með hlutafé en ekki lánsfé.
    Nú bregur svo við að ný ríkisstjórn leggur til að þessi takmarkaða heimild til að telja arðgreiðslur af hlutafé til rekstrargjalda verði felld niður með öllu. Með þeim hætti væri hlutafé enn sett skör lægra en lánsfé því að arðgreiðslur skattlegðust því í raun með skatthlutfalli fyrirtækja, 45%, meðan vextir af lánsfé eru með öllu skattfrjálsir. Lánsfé verður þannig ódýrari kostur en hlutafé og áhugi fyrirtækja á þessari fjármögnunarleið hlýtur að dofna verulega.
    Arður af hlutafé er í reynd vextir sem þeim greiðast sem lagt hafa fé í hlutafélög, en þó því aðeins að reksturinn gangi vel. Ella gerðist ekkert því að hlutaféð er áhættufé sem engin veð tryggja andstætt því sem gildir um lánsfé í flestum tilvikum. Arðurinn er skattfrjáls að vissu marki en þó greiðist skattur af öllum arðgreiðslum umfram 115 þús. kr. hjá einstaklingi og eins af þeim arði sem umfram er 15% af nafnverði hlutafjár. Engin slík takmörk eru fyrir skattfrelsi vaxtatekna.
    Í skýringum frumvarpsins kemur fram að af heildararðgreiðslum íslenskra fyrirtækja á síðasta ári hafi liðlega 44% verið skattlagðar hjá eigendum hlutafjár með tekjuskattshlutfallinu sem er tæp 40%. Þetta svarar til þess að tekjuskattsgreiðslur af arði hafi verið nær 17,5% á síðasta ári að meðaltali. Þar við bætast eignarskattar sem geta orðið allt að 2,2% af nafnverði hlutafjár. Eignarskattar hér á landi sem hlutfall af landsframleiðslu eru raunar með því alhæsta sem gerist enda hefur það um langt skeið verið viðurkennd nálgun að skattlagningu eignatekna. Sé miðað við þá arðgreiðslu sem algengust hefur verið, 10% af nafnverði hlutafjár, getur eignarskatturinn svarað til allt að 22% arðsins. Skatturinn getur þannig orðið yfir 60% þegar saman fara hæstu eignarskattar og tekjuskattur af arðinum. Ef arðgreiðslan er minni verður skatthlutfallið hærra því að eignarskatturinn greiðist án tillits til arðs. Sé arðurinn t.d. 5% getur skatturinn þannig orðið yfir 80%.
    Á undanförnum mánuðum hefur veruleg tregða ríkt í viðskiptum með hlutabréf og verð farið lækkandi. Þar ber margt til, en mestu veldur mikil hækkun vaxta samfara versnandi horfum í atvinnulífinu. Fjárfestar horfa til þess að eignarskattsfrjáls skuldabréf ríkissjóðs, húsbréf o.fl. bera milli 8 og 9% raunvexti með ótakmörkuðu skattfrelsi og öruggum endurgreiðslum. Hlutabréf hafa átt undir högg að sækja í þessari samkeppni og augljóst er að nái tillögur fjármálaráðherra fram að ganga er mjög höggvið á möguleika fyrirtækja til að greiða hluthöfum arð.
    Að öllu samanlögðu telur framkvæmdastjórnin umrædda tillögu hættulega aðför að tilraun undangenginna ára til að þróa hér eiginfjármögnun hlutafélaga á almennum markaði og undarlegt framlag til hugmynda ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu opinbers rekstrar í hlutafélagsformi. Raunar má fullyrða að samþykkt tillögunnar geti upprætt þessa möguleika ef allt fer á versta veg.
    Vinnuveitendasamband Íslands telur brýnt að samræma skattareglur atvinnurekstrarins því sem annars staðar gerist. Skattlagning eigna- og fjármagnstekna hlýtur einnig að koma til endurskoðunar og að öllu þessu er Vinnuveitendasambandið reiðubúið að vinna. Þetta verk má þó ekki hefja með einstökum fljótræðislegum breytingum sem skaða atvinnulíf og koma illilega í bak þeirra þúsunda sem tekið hafa hvatningu stjórnvalda og keypt hlutabréf á liðnum árum. Kaupum á hlutabréfum fylgir vissulega áhætta um verðþróun hlutabréfa og viðgang fyrirtækjanna og það má kaupendum hlutabréfa vera ljóst. Kaupendur gátu hins vegar með engu móti búist við því að mögulegar arðgreiðslur yrðu skertar um allt að 45% vegna skyndilegrar hugdettu um nauðsyn þess að ráðast sérstaklega á þetta form sparnaðar.
    Vinnuveitendasambandið varar því alvarlega við samþykkt þessarar tillögu og lítur á hana sem ógrundaða atlögu að atvinnurekstri, mistök sem ekki megi eiga sér stað.
Fylgiskjal III.


Umsögn Verslunarráðs Íslands.


(12. desember 1991.)


    Framkvæmdastjórn Verslunarráðs Íslands fjallaði á fundi sínum í morgun um fram komið lagafrumvarp um framlengingu á jöfnunargjaldi um sex mánuði til 30. júní 1992.
    Gjald þetta er í ósamræmi við þá fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert við EFTA og EB. Jöfnunargjald, sem leggst á innfluttar vörur, var hugsað til þess að vega upp á móti uppsöfnunaráhrifum söluskatts. Nú þegar virðisaukaskattur hefur þegar verið við lýði í nálægt tvö ár eru lagalegar forsendur fyrir gjaldinu löngu brostnar.
    Verslunarráð Íslands sér ekki að greiðendur jöfnunargjalds eigi önnur úrræði verði gjaldið enn framlengt en að leita réttar síns fyrir dómstólum og láta reyna á það hvaða réttarstöðu fríverslunarsamningarnir veita. Verslunarráð Íslands mun veita félögum sínum aðstoð í þessu skyni.



Fylgiskjal IV.



Bréf fulltrúa stjórnarandstöðunnar til fjárlaganefndar.


(9. desember 1991.)


    Vegna nýframkominna tillagna frá ríkisstjórninni um verulegar breytingar á tekju- og gjaldahlið frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1992 telja fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd nauðsynlegt að fulltrúar frá eftirtöldum aðilum komi til viðtals við nefndina fyrir 2. umr. um frumvarpið:
—    Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
—    Hafnasambandi sveitarfélaga,
—    Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
—    Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna,
—    Stéttarsambandi bænda,
—    Öryrkjabandalagi Íslands,
—    Landssambandi íslenskra útvegsmanna,
—    Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands,
—    Sjómannasambandi Íslands,
—    Landhelgisgæslunni,
—    Vegagerð ríkisins.
    Jafnframt telja fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd nauðsynlegt að fulltrúar tekjudeildar fjármálaráðuneytisins geri nánari grein fyrir útfærslu á breytingum á barnabótum, sértekjum Hafnamálastofnunar og áhrifum lækkaðra niðurgreiðslna og jöfnunargjalds á innflutt sælgæti á samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og vísitölu framfærslukostnaðar.
    Þá er óskað álits menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis á áhrifum niðurskurðar launa og rekstrarkostnaðar á þjónustu í viðkomandi málaflokkum.
Fylgiskjal V.



Bréf formanns Bandalags starfsmanna ríkis og

bæja.

(19. desember 1991.)


    Alþingi stendur frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum þessa síðustu daga fyrir jól. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, stefnir að því að minnka umsvif ríkisins á fjölmörgum sviðum og eru niðurskurðaráform hennar nú sem óðast að koma til kasta þingsins. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fyllsta aðhalds sé jafnan gætt, en þá að því tilskildu að slíkar tiltektir komi réttlátlega niður á þjóðfélagsþegnana.
    Hefur þú sett það niður fyrir þér, ágæti þingmaður, hversu mjög niðurskurður ríkisstjórnarinnar kemur við fjárhag venjulegs launafólks í landinu? Álögur á sjúklinga hafa verið auknar, barnabætur á að skerða þannig að meðaltekjufjölskylda með þrjú börn missir um 4.000 kr. á mánuði, skólagjöldum er komið á, námslán á að skerða og nú síðast berast fréttir um að persónuafsláttur hækki ekki 1. janúar þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða, en með þessu eru skattleysismörk í raun lækkuð um áramótin.
    BSRB snýr sér til þín, þingmaður góður, í trausti þess að þú hugleiðir þá röskun á kjörum almennings sem þessar aðgerðir hafa í för með sér. Ótal sparnaðaraðgerðir eru nærtækari en þær að seilast alltaf og ævinlega í vasa þess fólks sem gerir ekki meira en að komast af á launum sínum, svo sem hátekjuskattur, fleiri skattþrep og fjármagnsskattur.
    Talsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur orðið tíðrætt um að allir þurfi að axla sameiginlegar byrðar þjóðarinnar. Þær ráðstafanir, sem kynntar hafa verið, eru ekki í þessum anda. Þær byggja á mismunun í þágu hinna efnameiri í þjóðfélaginu.