Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 205 . mál.


350. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna Indriða H. Þorláksson og Bolla Þór Bollason frá fjármálaráðuneytinu, Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra, Þórarin V. Þórarinsson, Hannes G. Sigurðsson, Þórð Magnússon og Ólaf Nilsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jóhann Þorvarðarson frá Verslunarráði Íslands, Árna Benediktsson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga, Ögmund Jónasson, Björn Arnórsson og Garðar Hilmarsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Pál Halldórsson og Birgi Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Ásmund Stefánsson, Láru V. Júlíusdóttur og Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Benedikt Valsson og Ragnar Hermannsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Rúnar B. Jóhannsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Guðmund Arnaldsson frá Landvara, Sigfús Bjarnason frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Gunnar Jóhannsson og Ólaf H. Ólafsson frá ríkisskattanefnd, Ólaf Davíðsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Unni Halldórsdóttur frá Samtökum foreldra og kennara, Hörð Svavarsson frá Foreldrasamtökunum, Gunnar Helga Hálfdanarson frá Landsbréfum, Sigurð B. Stefánsson frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka og Eirík Guðnason frá Verðbréfaþingi Íslands. Bárust nefndinni margvísleg gögn frá þessum aðilum varðandi málið.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar, sem meiri hlutinn gerir tillögur um, eru eftirfarandi:
    Breytingin á 2. gr. felur í sér að horfið er frá því að fella brott 27. gr. laganna sem felur í sér heimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðar þegar greitt er með skuldaviðurkenningu. Með breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er lagt til að ákvæði 27. gr. laganna verði látin standa með þeim breytingum að sá söluhagnaður, sem skattgreiðslu er frestað af, taki verðbreytingum samkvæmt almennum reglum laganna og að við sölu skuldaviðurkenningar, á þeim tíma sem heimilt er að dreifa söluhagnaði, falli niður heimildin til að fresta skattlagningu söluhagnaðar.
                  Sú grein, sem samkvæmt frumvarpinu átti að verða 27. gr. laganna og fjallar um samvinnuhlutabréf, verður skv. 6. tölul. breytingartillagnanna ný grein í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, 124. gr.
    Breytingin á 6. gr. frumvarpsins felur í sér að samræming skattalegrar meðferðar samvinnufélaga og hlutafélaga verði nokkru meiri en frumvarpið gerði ráð fyrir með því að heimila flutning skattalegra réttinda og skyldna við sameiningu félaga með þessi mismunandi félagsform. Ekki er ástæða til að gera greinarmun á reglum um þetta efni eftir því hvort hlutafélag sameinast öðru hlutafélagi eða samvinnufélagi.
    Breytingin á 7. gr. felur í sér nokkra rýmkun á þeim skilyrðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði fyrir yfirfærslu taps við sameiningu félaga.
    Breytingin á 9. gr. varðar sjómannaafslátt. Í fyrsta lagi er bætt í upptalningu skipa, sem falla undir ákvæði greinarinnar, sanddæluskipum, og er þar átt við þau skip sem notuð eru til efnistöku á sjó en ekki t.d. dýpkunarpramma sem notaðir eru innan hafna. Í öðru lagi er breytt skilgreiningu á þeim dögum sem veita afslátt. Í stað þess að miða við daga á sjó er nú miðað við þá daga sem skylt er að lögskrá áhöfn á skip og stærri báta. Sjómaður, sem skráður er í a.m.k. 260 daga á ári, fær reiknaðan afslátt fyrir allt árið, en að öðrum kosti hlutfallslega. Úthaldstímabil sjómanna á minni bátum miðast við almenna vinnudaga. Ef sjómaður á þeim bátum hefur minna en 30% tekna sinna af sjósókn á hann ekki rétt á skattafslætti.
    Breytingin á 15. og 16. gr. felur í sér að ákvæði, er varða ríkisskattanefnd, eru felld brott úr frumvarpinu. Nefndin var sammála um að breyting á skipan og starfsháttum ríkisskattanefndar þurfi rækilegrar skoðunar við sem ekki var unnt að framkvæma samhliða afgreiðslu þessa frumvarps. Nefndin er einnig sammála um nauðsyn þess að taka til endurskoðunar ákvæði um ríkisskattanefnd á vorþinginu.
    Lagt er til að á eftir 17. gr. komi ný grein. Hér er um að ræða breytingu á númeri greinar sem flyst til í frumvarpinu, sbr. 1. tölul. hér að framan.
    Breytingin á 18. gr. felur í sér að gerð er tillaga um sérstakt gildistökuákvæði sem frestar gildistöku og framkvæmd ákvæðis b-liðar 4. gr. frumvarpsins um að útborgun arðs verði ekki frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Ákvæðið er, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, tengt fyrirhuguðum breytingum á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga, þar á meðal þeirri breytingu að fjármagnstekjur verði skattskyldar. Talið er rétt að lögfesta nú ákvæði frumvarpsins um að útborgun arðs verði ekki frádráttarbær þar sem það eitt og sér er íþyngjandi og kynni að verða talið afturvirkt verði það lögfest um leið og aðrar áformaðar lagabreytingar sem tengjast þessari. Þær eru hins vegar ívilnandi að mestu og geta því dregist nokkuð án hættu á gagnrýni um afturvirkni því þörf er frekari undirbúnings. Lögð er áhersla á að tryggja samræmi í tímasetningu þeirrar breytingar sem lögin kveða á um og þeirrar löggjafar sem síðar kemur, þ.e. skattlagningar fjármagnstekna, og að komið verði í veg fyrir tvísköttun arðs. Auk þess að setja slíka tryggingu er breytingin ásamt upphaflegu ákvæði til þess fallin að eyða óvissu sem gæti reynst skaðleg í atvinnulífinu.
    Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að a-liður 4. gr., sem takmarkar þann tíma sem unnt er að geyma uppsafnað tap, verður ekki til þess að áhrif ákvæðisins verði afturvirk.

Alþingi, 20. des. 1991.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Sólveig Pétursdóttir.

Vilhjálmur Egilsson.


varaform., frsm.



Ingi Björn Albertsson.

Guðjón A. Kristjánsson.