Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 205 . mál.


352. Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um frumvarp þetta á mjög mörgum fundum. Að mati minni hluta nefndarinnar er frumvarpið illa undirbúið og í ljós hefur komið að ekkert samráð hefur verið haft við aðila vinnumarkaðarins um málið. Það er mjög ámælisvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa kynnt frumvarpið þeim aðilum sem breytingarnar koma fyrst og fremst við. Þetta á jafnt við atvinnurekendur, sjómenn og alla aðra launþega. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að mikillar reiði hefur gætt meðal allra aðila vinnumarkaðarins. Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar í því ljósi að kjarasamningar eru á afar viðkvæmu stigi er engin leið að skilja hvað að baki býr. Greinilegt er að ríkisstjórnin telur sig ekki þurfa að hafa samráð við þessa aðila um úrræði í efnahagsmálum.
    Að undanförnu hefur komið skýrt fram að ríkisstjórnin vill að engu hafa ráð minni hluta Alþingis. Minni hluti nefndarinnar hefur því reynt að gera sitt besta til að kalla fram viðbrögð hinna ýmsu aðila þjóðfélagsins við þessum vanhugsuðu ráðstöfunum. Þeir sem komið hafa til fundar við nefndina hafa í reynd staðfest framsöguræður aðila minni hlutans við 1. umr. frumvarpsins nema hvað þeir hafa notað mun sterkari orð til að tjá skoðanir sínar. Fram hefur komið í máli þeirra að þeir telja að ríkisstjórnin sýni beinan fjandskap við ýmsa hópa launafólks og atvinnulífið og hafa haft þau orð að hér væri um dæmalaust rugl að ræða.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur gert nokkrar leiðréttingar á frumvarpinu sem eru til bóta, en það er langt frá því að frumvarpið í núverandi mynd geti stuðlað að framförum í þjóðfélaginu og eðlilegum samskiptum á vinnumarkaði. Allt bendir til þess að samþykkt frumvarpsins muni torvelda gerð kjarasamninga og líklega skapa ófrið á vinnumarkaði. Þrátt fyrir augljós merki þessa hefur meiri hlutinn hafnað því að fresta málinu og gefa sér betri tíma til undirbúnings. Jafnvel gengur meiri hlutinn svo langt að leggja til að ákvæði, sem engu máli skipta fyrir ríkissjóð, verði lögfest. Fulltrúar atvinnulífsins líta á lögfestingu þessara atriða sem staðfestingu á því að ríkisstjórnin vilji lögfesta vondan hug til atvinnurekstrarins í landinu. Þetta er svo alvarlegt mál að það má furðu sæta að ráðherrar í ríkisstjórninni skuli ekki taka rökum. Þvermóðska og jafnvel vankunnátta virðist stjórna gerðum þeirra.
    Minni hluti nefndarinnar gerir ekki beinar breytingartillögur á frumvarpinu. Minni hlutinn telur að frumvarpið sé svo gallað að það sé engin leið að taka ábyrgð á því. Réttast er að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti lagt það fyrir á nýjan leik eftir eðlilegt samráð við launþega og atvinnurekendur í landinu. Það ætti að vera ríkisstjórninni kappsmál að ná skynsamlegri niðurstöðu í komandi kjarasamningum. Minni hlutinn telur að með því að afturkalla frumvarpið sýni ríkisstjórnin vilja til þess.
    Minni hluti nefndarinnar vill þó gera grein fyrir sjónarmiðum að því er varðar einstaka efnisþætti frumvarpsins eftir þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að verði gerðar.
    1. Samvinnuhlutabréf. Minni hlutinn telur að breytingartillaga, sem meiri hlutinn leggur fram að því er varðar samvinnuhlutabréf skv. 2. gr. frumvarpsins, sé til bóta. Mikilvægt er að hin mismunandi form félaga í íslensku atvinnulífi geti sameinast með eðlilegum hætti en breytingartillagan gerir ráð fyrir að greiða nokkuð fyrir því.
    2. Eftirstöðvar rekstrartapa. Skv. 4. og 7. gr. frumvarpsins er hugmyndin að draga úr möguleikum til að draga frá tap fyrirtækja frá fyrri árum. Minni hluti nefndarinnar er sammála þeim sjónarmiðum að ekki eigi að vera hægt að framkvæma málamyndagjörninga til þess að lækka skatta einstakra fyrirtækja. Breytingar mega þó ekki koma í veg fyrir sameiningu fyrirtækja og hagræðingu í atvinnurekstri. Það er mikilvægt að skapa atvinnulífinu skilyrði til að bæta kjör þjóðarinnar. Það verður ekki síst gert með því að hagræða í atvinnulífinu, m.a. með því að sameina fyrirtæki. Skattalög eiga ekki að koma í veg fyrir slíka þróun. Fulltrúar atvinnulífsins hafa haldið því fram að ákvæði frumvarpsins muni koma í veg fyrir nauðsynlega framþróun á þessu sviði. Samkvæmt þeim breytingartillögum, sem meiri hlutinn leggur til, hafa upphaflegar hugmyndir verið lagfærðar verulega en þó liggur ekki ljóst fyrir hvaða afleiðingar breytingarnar muni hafa í för í sér. Nauðsynlegt er að fara betur yfir málið í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins. Hér er jafnframt um afturvirk ákvæði að ræða sem þarfnast betri lögfræðilegs undirbúnings.
    3. Sjómannaafsláttur. Ákvæði frumvarpsins um sjómannaafslátt gengu út á að skerða hann verulega. Í greinargerð frumvarpsins koma fram furðuleg sjónarmið um eðli þessa frádráttar sem á sér langa sögu í skattalögum. Í viðtölum við nefndina hefur komið fram að fulltrúar launþega eru almennt sammála um sérstöðu sjómanna á þessu sviði. Minni hluti nefndarinnar hefur haldið uppi harðri gagnrýni á þessar fyrirætlanir í störfum nefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar hefur kosið að fjalla um breytingar á þessu atriði utan nefndarinnar.
    Nú hafa verið lagðar fram breytingartillögur sem lagfæra nokkuð upphaflegar hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Dregið er úr þeirri miklu skerðingu sem ætlunin var að sjómenn yrðu fyrir. Þrátt fyrir það munu sjómenn verða fyrir sérstakri skerðingu þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir fjárhæðum í því sambandi. Aðstæður sjómanna eru mjög misjafnar og því óljóst hvaða áhrif breytingarnar munu hafa.
    Minni hlutinn telur að ekki eigi að rýra kjör sjómannastéttarinnar sérstaklega við þessar aðstæður. Afli hefur dregist mikið saman og því munu kjör sjómanna rýrna mikið á næstunni. Kjarasamningar eru lausir um þessar mundir og ljóst að breytingarnar munu hafa þar veruleg áhrif. Minni hluti nefndarinnar telur rétt að koma í veg fyrir misnotkun þessara ákvæða en engin rök mæla með því að kjör sjómanna rýrni umfram það sem verður vegna minnkandi afla. Í ljósi þess sem að ofan greinir væri réttast að taka framkvæmd þessara mála til endurskoðunar og herða skilmála sem að þessum réttindum lúta. Virðist óhætt að áætla að þannig megi ná nokkrum sparnaði með sanngjörnum hætti.
    4. Almenn hækkun tekjuskatts og barnabætur. Fulltrúar ASÍ halda því fram að vegna breytinga á skattleysismörkum muni tekjuskattur launþega hækka um 1.200 milljónir króna umfram það sem verðlagsþróun segir til um. Þessi ágreiningur við launþega mun áreiðanlega koma skýrar fram í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Þar fyrir utan er ætlunin að skerða barnabætur sérstaklega um rúmar 500 milljónir króna. Þessi skerðing mun sérstaklega minnka ráðstöfunartekjur hjóna með miðlungstekjur og þar fyrir ofan. Ráðstöfunartekjur munu lækka í hlutfalli við barnafjölda.
    Minni hluti nefndarinnar er andvígur því að skerða ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna sérstaklega. Við þær aðstæður, sem nú eru í þjóðfélaginu, er nauðsynlegt að þeir sem hæstar tekjur hafa leggi nokkuð af mörkum við úrlausn mála. Það er hins vegar fráleitt að þeir sem hafa miðlungstekjur og hærri leggi sitt af mörkum í hlutfalli við barnafjölda. Þannig munu hjón með miðlungstekjur og hærri, sem ekki hafa fyrir börnum að sjá, ekki leggja sérstaklega af mörkum.
    Ríkisstjórnin leggur þessa lausn fram til að reyna að fela hækkun á tekjuskatti. Stjórnarflokkarnir eru bundnir af fyrri yfirlýsingum en í stað þess að standa við þær eru fundnar leiðir til að blekkja almenning. Það er mjög alvarlegt að þessi blekkingarleikur skuli bitna sérstaklega á fjölskyldum sem hafa fyrir mörgum börnum að sjá.
    5. Ríkisskattanefnd. Fallið hefur verið frá fyrirhuguðum breytingum á ríkisskattanefnd og var ákveðið að fjalla nánar um þetta atriði á næsta ári.
    6. Skattaleg meðferð á arði. Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á skattalegri meðferðs arð á hlutabréfum. Þessar tillögur hafa vakið sterk viðbrögð hjá fólki í atvinnulífinu. Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki komið til móts við sjálfsagðar kröfur atvinnulífsins í þessu máli. Þessar hugmyndir hafa þegar haft slæm áhrif á hlutabréfamarkað og munu áreiðanlega verða til þess að stefna uppbyggingu þess markaðar í mikla hættu. Engin leið er að skilja samhengið í máli þessu þar sem breytingarnar munu ekki færa ríkissjóði tekjur og því útlátalaust að hverfa frá þessum fyrirætlunum.
    Minni hluti nefndarinnar er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að taka upp skattlagningu á fjármagnstekjum og telur sjálfsagt að þetta mál bíði þeirrar umfjöllunar. Minni hlutinn telur að samræmi þurfi að vera í skattlagningu fjármagnstekna og arðs. Því er haldið fram að hér sé stigið fyrsta skref í þá átt. Það er ekki rétt enda ganga hugmyndir um skattalega meðferð arðs þvert á þær hugmyndir sem uppi eru um skattlagningu fjármagnstekna. Þessi áform munu hafa það í för með sér að lífeyrissjóðir landsmanna munu ekki sjá sér fært að efla eiginfjárstöðu atvinnulífsins og jafnvel ganga svo langt að snúa sér að kaupum á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum. Þessar fyrirætlanir þjóna engum öðrum tilgangi en að eyðileggja viðkvæman markað sem hefur verið í uppbyggingu og draga fjármagn út úr landinu á erfiðum tímum.
    Minni hluti nefndarinnar mun gera frekari grein fyrir áliti sínu í framsögu. Minni hlutinn telur frumvarpið vera svo gallað að það sé nánast ekki umræðuhæft þrátt fyrir nokkrar breytingar. Umfjöllun í máli þessu er staðfesting á því að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar taka ekki rökum. Öll umfjöllun er staðfesting á þeim málflutningi stjórnarandstöðunnar á þessu hausti að ríkisstjórnin hafi engan vilja til að taka tillit til minni hlutans og rökstuddra skoðana sem fram koma af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Þótt minni hluti nefndarinnar hafi að vísu takmarkað traust á því að ríkisstjórnin muni undirbúa þetta mál betur vill hann samt gera henni kleift að bæta ráð sitt. Í þeirri von að frumvarpið verði lagt fram að nýju a næsta ári í umfjöllunarhæfu formi leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.


Alþingi, 20. des. 1991.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.





Fylgiskjal I.


Samþykkt framkvæmdastjórnar VSÍ:



Aðför að atvinnurekstri.


(16. des. 1991.)


    Framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands varar alvarlega við því ákvæði í frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem miðar að sérstakri skattlagningu arðgreiðslna af hlutafé. Samþykkt þess væri hörmuleg mistök sem fæli í sér grófa aðför að atvinnurekstri og þeim þúsundum einstaklinga sem á liðnum árum hafa fest fé í fyrirtækjum.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er látið að því liggja að hér sé á ferðinni samræming skattlagningar í hátt við það sem gerist í öðrum löndum. Vinnuveitendasamband Íslands er því mjög fylgjandi að skattlagning atvinnurekstrar hér á landi verði samræmd því sem algengast er í Evrópu, en er algerlega mótfallið þeirri samræmingu sem takmarkast við íþyngjandi atriði ein. Sérstaða íslenska skattkerfisins felst ekki í því að arðgreiðslur að ákveðnu hámarki séu undanþegnar skatti heldur því að fjármagnstekjur almennt eru undanþegnar frá skatti og að skatthlutföll eru hærri en víðast gerist. Það þekkist heldur ekki að arður af hlutafé sé skattlagður þyngra en vaxtatekjur.
    Fjármagnskostnaður telst til rekstrargjalda í skattauppgjöri fyrirtækja. Greiddur arður hefur með sama hætti talist til kostnaðar en hefur þó lengst af verið bundinn við tiltekið hámark, 10% af nafnvirði hlutafjár. Síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir hækkun þessara marka úr 10% í 15%. Það var gert til að hvetja almenning til að leggja áhættufé í atvinnurekstur og auka þannig eigið fé fyrirtækjanna. Þetta var einnig liður í því að draga úr skattalegri mismunun sparnaðarforma, en vaxtaberandi sparnaður hefur notið mikillar skattalegrar ívilnunar umfram hlutafé á liðnum árum. Þessar breytingar miðuðu þannig að því að styrkja hlutabréfamarkaðinn og efla trú fólks á því að fjárfesting í atvinnulífinu væri raunhæfur kostur. Til þess þyrftu fyrirtækin að geta greitt arð sem stæðist samanburð við aðra ávöxtun peninga og því var hámark frádráttarins hækkað. Fyrirtækin þyrftu þá ekki að gjalda þess í hærri sköttum ef þau væru fjármögnuð með hlutafé en ekki lánsfé.
    Nú bregður svo við að ný ríkistjórn leggur til að þessi takmarkaða heimild til að telja arðgreiðslur af hlutafé til rekstrargjalda verði felld niður með öllu. Með þeim hætti væri hlutafé enn sett skör lægra en lánsfé þar sem arðgreiðslur skattlegðust því í raun með skatthlutfalli fyrirtækja, 45% meðan vextir af lánsfé er með öllu skattfrjálst. Lánsfé verður þannig ódýrari kostur en hlutafé og áhugi fyrirtækja á þessari fjármögnunarleið hlýtur að dofna verulega.
    Arður af hlutafé er í reynd vextir sem þeim greiðast sem lagt hafa fé í hlutafélög, en þó því aðeins að reksturinn gangi vel. Ella greiðist ekkert því hlutaféð er áhættufé sem engin veð tryggja andstætt því sem gildir um lánsfé í flestum tilvikum. Arðurinn er skattfrjáls að vissu marki, en þó greiðist skattur af öllum arðgreiðslum umfram 115 þús. kr. hjá einstaklingi og eins af þeim arði sem umfram er 15% af nafnverði hlutafjár. Engin slík takmörk eru fyrir skattfrelsi vaxtatekna.
    Í skýringum frumvarpsins kemur fram að af heildararðgreiðslum íslenskra fyrirtækja á síðasta ári hafi liðlega 44% verið skattlagðar hjá eigendum hlutafjár með tekjuskattshlutfallinu sem er tæp 40%. Þetta svarar til þess að tekjuskattsgreiðslur af arði hafi verið nær 17,5% á síðasta ári að meðaltali. Þar við bætast eignarskattar sem geta orðið allt að 2,2% af nafnverði hlutafjár. Eignarskattar hér á landi sem hlutfall af landsframleiðslu eru raunar með því alhæsta sem gerist enda hefur það um langt skeið verið viðurkennd nálgun að skattlagningu eignatekna. Sé miðað við þá arðgreiðslu sem algengust hefur verið, 10% af nafnverði hlutafjár, getur eignarskatturinn svarað til allt að 22% arðsins. Skatturinn getur þannig orðið yfir 60% þegar saman fara hæstu eignarskattar og tekjuskattur af arðinum. Ef arðgreiðslan er minni verður skatthlutfallið hærra því eignarskatturinn greiðist án tillits til arðs. Sé arðurinn t.d. 5% getur skatturinn þannig orðið yfir 80%.
    Á undanförnum mánuðum hefur veruleg tregða ríkt í viðskiptum með hlutabréf og verð farið lækkandi. Þar ber margt til en mestu veldur mikil hækkun vaxta samfara versnandi horfum í atvinnulífinu. Fjárfestar horfa til þess að eignarskattsfrjáls skuldabréf ríkissjóðs, húsbréf o.fl. bera milli 8 og 9% raunvexti með ótakmörkuðu skattfrelsi og öruggum endurgreiðslum. Hlutabréf hafa átt undir högg að sækja í þessari samkeppni og augljóst er að nái tillögur fjármálaráðherra fram að ganga er mjög höggvið á möguleika fyrirtækja til að greiða hluthöfum arð.
    Að öllu samanlögðu telur framkvæmdastjórnin umrædda tillögu hættulega aðför að tilraun undangenginna ára til að þróa hér eiginfjármögnun hlutafélaga á almennum markaði og undarlegt framlag til hugmynda ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu opinbers rekstrar í hlutafélagsformi. Raunar má fullyrða að samþykkt tillögunnar geti upprætt þessa möguleika ef allt fer á versta veg.
    Vinnuveitendasamband Íslands telur brýnt að samræma skattareglur atvinnurekstrarins því sem annars staðar gerist. Skattlagning eigna- og fjármagnstekna hlýtur einnig að koma til endurskoðunar og að öllu þessu er Vinnuveitendasambandið reiðubúið að vinna. Þetta verk má þó ekki hefja með einstökum fljótræðislegum breytingum sem skaða atvinnulíf og kemur illilega í bak þeirra þúsunda sem tekið hafa hvatningu stjórnvalda og keypt bréf á liðnum árum. Kaupum á hlutabréfum fylgir vissulega áhætta um verðþróun hlutabréfa og viðgang fyrirtækjanna og það má kaupendum hlutabréfa vera ljóst. Kaupendur gátu hins vegar með engu móti búist við því að mögulegar arðgreiðslur yrðu skertar um allt að 45% vegna skyndilegrar hugdettu um nauðsyn þess að ráðast sérstaklega á þetta form sparnaðar.
    Vinnuveitendasambandið varar því alvarlega við samþykkt þessarar tillögu og lítur á hana sem ógrundaða atlögu að atvinnurekstri — mistök sem ekki megi eiga sér stað.




Fylgiskjal II.


Bréf Samtaka fiskvinnslustöðva.


(21. des. 1991.)


    Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva mótmælir harðlega öllum áformum um aukna skattheimtu á fiskvinnsluna, jafnt frá ríki og sveitarfélögum.
    Íslensk fiskvinnsla stendur höllum fæti í samkeppni við fiskvinnslu Evrópubandalagsins sem nýtur margs konar styrkja auk verndartolla og auknar álögur á fiskvinnsluna munu enn auka á þennan aðstöðumun.
    Um þessar mundir er fiskvinnslan rekin með verulegum halla og eru líkur á því að staða hennar verði svo einnig á næsta ári. Fiskvinnslumenn binda vonir við að með samvinnu allra aðila, stjórnvalda, launþegasamtaka og atvinnurekenda takist að halda verðbólgu í algjöru lágmarki þannig að raungengi lækki á næstu missirum.
    Allar kostnaðarhækkanir vinna gegn þessum áformum og stuðla að lakari afkomu og gildir einu hvort þær birtast í stórhækkun vörugjalda til ríkisins, hækkun gjaldskráa ríkisfyrirtækja, álagningu launatryggingargjalds vegna gjaldþrota eða hvers konar annarri gjaldtöku á atvinnureksturinn í landinu.




Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneytið,
efnahagsskrifstofa:



Minnisblað um skattleysismörk einstaklinga á árinu 1992.


(17. des. 1991.)


    Í forsendum fjárlagafrumvarps var gengið út frá þeirri meginviðmiðun að skattbyrði tekjuskatts héldist óbreytt milli áranna 1991 og 1992. Þetta jafngildir því að persónuafsláttur og þar með skattleysismörk hækki um sama hlutfall og laun að meðaltali milli ára.
    Í þjóðhagsspá er gengið út frá því að laun hækki um 2,5% á mann milli áranna 1991 og 1992. Eigi skattbyrði tekjuskatts að haldast óbreytt milli ára þarf að hækka skattleysismörkin samsvarandi, eða um 2,5%. Miðað við fyrirliggjandi spá um þróun lánskjaravísitölu mun persónuafslátturinn hækka sjálfkrafa um 1,2% um mitt ár 1992 sem þýðir strangt til tekið að lækka þyrfti persónuafsláttinn í upphafi næsta árs eigi meðalhækkun hans frá fyrra ári að vera 2,5%. Þetta er í raun afleiðing af tæplega 5% hækkun á skattleysismörkum tekjuskatts um mitt þetta ár sem kemur fram að fullu á næsta ári.
    Í áætlun fjárlaga er hins vegar miðað við að persónuafsláttur haldist óbreyttur frá því sem hann er nú á fyrri hluta árs 1992, en hækki síðan um mitt ár um 1,2% eins og lög mæla fyrir. Þetta þýðir að skattleysismörkin hækka um tæp 3% milli ára. Í þeirri forsendu felst eilítið léttari skattbyrði hjá einstaklingi á næsta ári en í ár, sbr. meðfylgjandi dæmi:

Skattbyrði tekjuskatts hjá einstaklingum 1991–1992.



Ársmeðaltöl (í kr.)

Breyting


1991

1992

milli ára (%)



Mánaðarlaun     
100.000
102.500 2,5

Tekjuskattur, brúttó     
39.790
40.785 2,5
   frá dregst persónuafsláttur     
23.376
24.060 2,9
Tekjuskattur, nettó     
16.414
16.725 1,9

Ráðstöfunartekjur     
83.586
85.775 2,6

Skattbyrði     
16,4%
16,3% –0,1%
Skattleysismörk     
58.750
60.470 2,9%


    Á þessu ári er mánaðarlegur persónuafsláttur einstaklings 23.376 krónur að meðaltali sem þýðir að meðalmánaðarlaun undir 58.750 krónum hafi verið skattfrjáls 1991. Árétta þarf að hér er um að ræða meðaltöl en á síðari hluta ársins eru skattleysismörkin talsvert hærri eða 60.120 krónur á mánuði. Á næsta ári er gert ráð fyrir að skattleysismörkin verði 60.470 krónur á meðaltali og hækki þannig um tæp 3% milli ára.



Fylgiskjal IV.


Bréf formanns Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.



    BHMR hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti. Afar stuttur tími hefur gefist til að kanna efni frumvarpsins og leggja mat á almenn skattaáhrif þess.
    BHMR vill þó koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við hæstvirta þingnefnd:

     1. Persónuafsláttur.
    Með skattalagabreytingum í árslok 1988 var fallið frá því kerfi að binda grunntölur skattalaga, svo sem persónuafslátt, barnabætur o.fl., við vísitölur og þess í stað voru upphæðirnar tengdar skattvísitölu fjárlaga. BHMR taldi sýnt að þetta mundi skerða þessar grunntölur og hefur sú spá ræst. Með fyrirliggjandi frumvarpi er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á persónuafslætti og vaxtabótum og er þá gengið enn þá lengra en fyrr í skerðingarátt á kjörum launamanna.

     2. Barnabætur og barnabótaauki.
    Tillagan felur í sér að barnabætur eru lækkaðar en barnabótaauki hækkaður að sama skapi. Þetta þýðir, vegna tekjutengingar og barnabótaaukans, að heildargreiðslur til barnafjölskyldna munu dragast saman. Upplýsingar með frumvarpinu um dreifingu tekna miðað við fjölskyldustærð gefa tilefni til að álykta að skerðingin verði mjög almenn. Mat fjármálaráðuneytis er að skerðingin nemi rúmlega 500 millj. kr. en BHMR telur það vanáætlað.

     3. Sjómannaafsláttur.
    Fyrirhugaðar breytingar á sjómannaafslætti þýða að mati fjármálaráðuneytis 180–200 millj. kr. í hækkaðan tekjuskatt af sjómönnum. Mat sjómanna er verulega hærra. Af þessu tilefni vill BHMR taka fram að lækkun sjómannaafsláttar þýðir verulega tekjuskerðingu fyrir þessa einstaklinga og á slíka tekjuskerðingu verður ekki fallist. Hins vegar telur BHMR að það sé raunverulega útgerðarinnar að standa undir launakostnaði starfsmanna og því eðlilegt að þessi launakostnaður verði færður þangað.

     4. Skattlagning lögaðila.
    BHMR styður tilraunir ríkisstjórnarinnar í þá veru að draga úr möguleikum lögaðila að færa tap á milli fyrirtækja í því skyni að lækka með óeðlilegum hætti skatta. BHMR vill í þessu sambandi benda á að einungis 37% lögaðila greiða tekjuskatt.

     5. Skattastefna.
    BHMR ítrekar áður gerðar kröfur til Alþingis að tekið verði tillit til menntunarkostnaðar langskólagenginna annað tveggja með sérstökum námsafslætti eða með sérstökum frádrætti.
    BHMR ítrekar einnig kröfur til Alþingis um að sérsköttun á launamenn linni og skattkerfið verði endurskoðað þannig að eigendur fjármagnstekna og fyrirtækja taki fullan þátt í rekstri samfélagsins.
    BHMR hefur áður bent á að ríkisstarfsmenn hafa borið óeðlilega stóran hluta af tekjuskattsbyrðinni og krefst þess að Alþingi tryggi eðlilega og jafna skattheimtu af öllum þegnum þjóðfélagsins.
    BHMR vill, vegna fyrirliggjandi frumvarps, mótmæla þeim áformum sem í því felast og leiða til lakari kjara almenns launafólks. Þar er sérstaklega mótmælt áformum um persónuafslátt og barnabætur. Allir hljóta að sjá óréttlætið sem flest í sérstöku „hátekjuskattþrepi“ barnafjölskyldna og BHMR varar við þessari aðför að barnafjölskyldum í landinu.



Fylgiskjal V.



Frétt frá Alþýðusambandi Íslands

.

(16. des. 1991.)


    Samkvæmt núgildandi skattalögum á persónuafsláttur og þar með skattleysismörk að hækka til samræmis við hækkun lánskjaravísitölu undangengna sex mánuði. Persónuafsláttur ætti samkvæmt þessari reglu að hækka um 3,4% 1. janúar nk. eða sem nemur 813. kr. á mánuði. Skattleysismörkin, sem nú eru 60.121 kr. á mánuði, ættu að hækka í 62.164 kr. um áramótin.
    Í frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er hins vegar ekki gert ráð fyrir neinni hækkun persónuafsláttar eða skattleysismarka um áramótin. Ríkisstjórnin hefur þannig ákveðið að fyrsta skrefið í framkvæmd þeirra loforða, sem stjórnarflokkarnir gáfu fyrir kosningar um hækkun skattleysismarka, skuli vera að lækka skattleysismörkin að raungildi um rúmlega 2.000 kr. á mánuði miðað við óbreytt skattalög.



Fylgiskjal VI.


Bréf formanns Bandalags starfsmanna ríkis og

bæja.

(19. des. 1991.)


    Alþingi stendur frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum þessa síðustu daga fyrir jól. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, stefnir að því að minnka umsvif ríkisins á fjölmörgum sviðum og eru niðurskurðaráform hennar nú sem óðast að koma til kasta þingsins. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fyllsta aðhalds sé jafnan gætt, en þá að því tilskildu að slíkar tiltektir komi réttlátlega niður á þjóðfélagsþegnana.
    Hefur þú sett það niður fyrir þér, ágæti þingmaður, hversu mjög niðurskurður ríkisstjórnarinnar kemur við fjárhag venjulegs launafólks í landinu? Álögur á sjúklinga hafa verið auknar, barnabætur á að skerða þannig að meðaltekjufjölskylda með þrjú börn missir um 4.000 kr. á mánuði, skólagjöldum er komið á, námslán á að skerða og nú síðast berast fréttir um að persónuafsláttur hækki ekki 1. janúar þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða, en með þessu eru skattleysismörk í raun lækkuð um áramótin.
    BSRB snýr sér til þín, þingmaður góður, í trausti þess að þú hugleiðir þá röskun á kjörum almennings sem þessar aðgerðir hafa í för með sér. Ótal sparnaðaraðgerðir eru nærtækari en þær að seilast alltaf og ævinlega í vasa þess fólks sem gerir ekki meira en að komast af á launum sínum, svo sem hátekjuskattur, fleiri skattþrep og fjármagnsskattur.
    Talsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur orðið tíðrætt um að allir þurfi að axla sameiginlegar byrðar þjóðarinnar. Þær ráðstafanir, sem kynntar hafa verið, eru ekki í þessum anda. Þær byggja á mismunun í þágu hinna efnameiri í þjóðfélaginu.



Bréf Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.


(17. des. 1991.)


    BSRB mótmælir því að skattleysismörk skuli lækkuð að raungildi um áramótin. Þetta stríðir gegn loforðum um hið gagnstæða.
    Ef verður af þeirri ákvörðun stjórnvalda að hækka ekki persónuafslátt 1. janúar í samræmi við hækkun lánskjaravísitölu mun það fela í sér lækkun skattleysismarka og þar með skattahækkun.
    Persónuafsláttur hefur verið hækkaður tvisvar á ári og hafa samtök launafólks jafnan lagt áherslu á að lágmarkskrafa sé að hann hækki í samræmi við verðlag. Það vekur furðu að svo skuli ekki eiga að gera nú. Samkvæmt hækkun lánskjaravísitölu frá því á miðju þessu ári ætti persónuafsláttur að hækka nú um 3,4%. Að öðrum kosti rýrna kjörin.



Fylgiskjal VII.


Bréf framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands.


(12. des. 1991.)


    Framkvæmdastjórn Verslunarráðs Íslands fjallaði á fundi sínum í dag um framkomið frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru gerðar tvær breytingar. Önnur breytingin felst í því að takmarka yfirfærslu rekstrartapa við fimm ár. Þetta mun koma afar illa við ýmis fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi og stóriðjurekstri, en í þessum greinum hefur jafnan verið þrálátur taprekstur. Má því búast við enn fleiri gjaldþrotum í sjávarútvegi, sem og öðrum atvinnugreinum, verði þessi breyting gerð.
    Hin breytingin felst í því að frá og með næsta tekjuári mega félög í atvinnurekstri ekki draga útgreiddan arð frá tekjum. Í greinargerð kemur fram að hugmyndin sé að leggja síðar fram frumvarp sem komi í veg fyrir tvísköttun arðsins. Með þessari breytingu er verið að þrengja möguleika fyrirtækja til þess að afla sér eigin fjár og gera hlutafjáreign að enn þá lakari kosti en nú er. Því vill Verslunarráð Íslands vara sérstaklega við samþykkt breytingar af þessu tagi án þess að fyrir liggi jafnframt hvernig skattlagningu eigna og eignatekna í heild muni verða háttað.
    Í 7. gr. frumvarpsins er þrengt mjög svigrúm til yfirfærslu rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja. Ákvæði greinarinnar eru með mörgum skilyrðum og ýmsum svo óljósum en öðrum svo hörðum að ekki verður betur séð en að yfirfærsla rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja sé ómöguleg. Með samþykkt slíkrar breytingar er verið að torvelda mjög eðlilega þróun atvinnulífs og fjölga gjaldþrotum í atvinnurekstri. Ljóst er að finna verður betri leiðir til þess að koma í veg fyrir misnotkun þessara heimilda til yfirfærslu rekstrartaps en fram kemur í frumvarpinu.



Fylgiskjal VIII.


Bréf Samtaka lífeyrissjóðanna

.

(19. des. 1991.)


    Samtök lífeyrissjóðanna mótmæla mjög eindregið þeim áformum stjórnvalda að þrengja ríkisábyrgð á launum eins og gert er ráð fyrir með stofnun sérstaks ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota, sbr. 9. og 10. gr. í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.
    Ljóst er að með þrengingu ríkisábyrgðar lífeyrissjóðsiðgjalda er tryggingavernd sjóðfélaga stefnt í verulega óvissu. Í örorku- og makalífeyrismálum, þar sem öllu máli getur skipt að iðgjöld berist lífeyrissjóði vegna undanfarandi mánaða fyrir orkutap eða andlát, er ótvírætt um að ræða réttindamissi sjóðfélaga sem getur skipt verulegum fjárhæðum og í mörgum tilvikum svo milljónum króna skipti á einstakling.
    Samtök lífeyrissjóðanna vilja því vara eindregið við ofangreindum áformum og benda jafnframt á að afnám ríkisábyrgðar á lífeyrissjóðsiðgjöldum munu m.a. geta komið í veg fyrir að samskipti stjórnvalda og sjóðanna geti þróast með eðlilegum hætti. Hitt er þó í reynd öllu alvarlegra að afnám ríkisábyrgðarinnar á lífeyrissjóðsiðgjöldum mun eins og áður segir geta haft í för með sér stórfelldan réttindamissi fyrir sjóðfélaga, einkum þó þeirra sem síst mega við því að verða af bótum, þ.e. örorku- og makalífeyrisþega.
    Þá vilja samtök lífeyrissjóðanna lýsa yfir fullum stuðningi við þau eindregnu mótmæli fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands sem þeir hafa komið á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd.


Bréf stjórnar Lífeyrissjóðs byggingamanna

.

(17. des. 1991.)


    Á fundi sínum í dag fjallaði stjórn Lífeyrissjóðs byggingamanna m.a. um fram komið frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, sbr. þskj. 181.
    Í 9. og 10. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot fyrirtækja.
    Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a. svo um 10. gr.:
    „Felld verði niður ábyrgð á kröfum lífeyrissjóða.“
    Þessari ætlan vill stjórn Lífeyrissjóðs byggingamanna mótmæla mjög harðlega, ekki síst þar sem fyrirsjáanlegt er að nú stefnir í mikla erfiðleika í rekstri margra byggingarfyrirtækja og því sýnilegt að auk mikils aukakostnaðar við hertar innheimtuaðgerðir sjóðsins vegna samdráttarins þá muni mikið af iðgjöldum beinlínis tapast við samþykkt þessa frumvarps.
    Einnig er líklegt að sjóðfélagar Lífeyrissjóðs byggingamanna og annarra lífeyrissjóða verkafólks, sem starfar á almennum vinnumarkaði, muni verða fyrir verulegum áföllum vegna þessa. Hins vegar mun áhrifa þessa lítið gæta hjá sjóðfélögum annarra lífeyrissjóða og þar með væri enn aukið það misrétti sem viðhaldið er af opinberri hálfu í ávinnslu lífeyrisréttinda fólks eftir því hjá hvaða atvinnurekendum það starfaði.




Fylgiskjal IX.


Frá Vélstjórafélagi Íslands.



    Almennur fundur vélstjóra á fiskiskipum haldinn 20. des. 1991 að Borgartúni 18, Reykjavík, mótmælir harðlega framkomnum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um breytingar á sjómannaafslætti. Verði þær að veruleika er verið að skerða sjómannaafsláttinn a.m.k. um 10–11,5%, ekki bara til þeirra sem hafa sjómennsku að hlutastarfi, heldur einnig til hinna sem hafa hana að aðalstarfi, eru lögskráðir í 230–236 daga á ári sem er viðurkennt vinnuár.
    Eins og áður hefur komið fram er sjómannaafslátturinn hluti af kjörum sjómanna. Verði hann skertur er verið að ganga á kjör þeirra umfram kjör annarra landsmanna. Því mótmælir fundurinn harðlega.
Neðanmálsgrein: 1
Samkvæmt gildandi lögum breytist persónuafsláttur um mitt ár í takt við lánskjaravísitölu, en frá því í árslok 1988 hefur ákvörðun persónuafsláttar um áramót verið sjálfstæð aðgerð, þ.e. án vélrænnar tengingar við lánskjaravísitölu.