Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 167 . mál.


388. Framhaldsnefndarálit



um frv. til. l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur unnið að frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 nær samfellt frá því þing kom saman á nýju ári, 6. janúar sl. Þann 7. janúar barst nefndinni bréf frá forsætisráðherra þar sem lagðar voru til fjölmargar breytingar og/eða viðbætur við frumvarpið og fyrri breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar. Sannaðist því rækilega það sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar héldu fram fyrir jólaleyfi að málið væri á engan hátt hæft til afgreiðslu, sbr. nefndarálit minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar dagsett 18. desember sl. á þskj. 299.
    Á þeim tíma, sem liðinn er síðan nefndin hóf að vinna að málinu á nýjan leik eftir jólaleyfi, hafa síðan enn bæst við tillögur um breytingar frá ríkisstjórninni og einnig hefur skoðun málsins í nefndum getið af sér allmargar tillögur um breytingar.
    Óhjákvæmilegt er að vekja á nýjan leik athygli á þessum handahófskenndu vinnubrögðum, átelja framkomu ríkisstjórnarinnar við hagsmunaaðila og samtök úti í þjóðfélaginu sem ekkert samráð er haft við frekar en fyrr og mótmæla álögum og árásum á marga þá aðila sem síst skyldi. Að öðru leyti vísast til fyrra nefndarálits og frekari rökstuðnings í framsöguræðum.
    Hér á eftir verður farið yfir helstu efnisþætti sem breyst hafa eða bæst við í formi breytingartillagna frá því málið var tekið út úr nefnd 17. desember og stjórnarliðið hugðist afgreiða það. Verður það gert í þeirri röð sem þessir þættir birtast eða raðast inn í hinn alræmda bandorm.

    1.         Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, 1.–3. gr. frumvarpsins og viðeigandi breytingartillögur.

    Minni hlutinn er eins og áður hefur komið fram andvígur þessum breytingum á grunnskólalögunum í heild sinni og leggur til að fyrsta kafla frumvarpsins verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Sú viðbót, sem lögð er til í bréfi forsætisráðherra frá 7. janúar, er síst til að bæta úr en í henni felst að heimila fjölgun nemenda í tilteknum bekkjardeildum í 30.
    Að öðru leyti vísast til álits minni hluta menntamálanefndar sem fer hér á eftir:

Álit minni hluta menntamálanefndar um breytingartillögu


við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


(10. jan. 1992.)


    Menntamálanefnd hefur haft til umsagnar breytingartillögu við fyrsta kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 (bandorminn), sem fram kom við aðra umræðu um málið. Í fyrsta kafla bandormsins eru lagðar til breytingar á grunnskólalögum sem ganga þvert á mótaða skólastefnu og eiga að leiða til þess að „komið verði í veg fyrir um 40 millj. kr. kostnaðarauka“ að sögn ráðuneytismanna. Nefndin ræddi á sínum tíma fyrsta kafla frumvarpsins og skilaði minni hluti nefndarinnar ítarlegu nefndaráliti sem birt er í þskj. 299 þar sem lagt er til að kaflinn verði felldur út úr frumvarpinu.
    
Breytingartillagan, sem nú var rædd, þýðir um 40 millj. kr. sparnað til viðbótar þeim 40 millj. kr. niðurskurði sem frumvarpið felur í sér. Þar að auki er menntamálaráðuneytinu ætlað að skera niður um 180 millj. kr. í grunnskólum landsins vegna hins flata niðurskurðar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar tóku inn í fjárlög ársins 1992. Samtals er hér því um að ræða niðurskurð upp á um 260 millj. kr., en honum fylgja margháttaðar neikvæðar breytingar á skólastarfi. Því má ljóst vera að grunnskólinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegum niðurskurði sem á eftir að valda miklum skaða.
     Tillagan var rædd á þremur fundum og komu á fund nefndarinnar Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra, Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, Kári Arnórsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Viktor Guðlaugsson frá Félagi skólastjóra og yfirkennara, ásamt þeim Svanhildi Kaaber og Eiríki Jónssyni frá Kennarasambandi Íslands.
     Til að samhengið skiljist milli þeirra tillagna sem fyrir liggja og þeirra aðgerða, sem boðaðar hafa verið í grunnskólum landsins, er nauðsynlegt að rifja upp hvað felst í fyrsta kafla bandormsins. Megininntakið er að frestað er gildistöku nokkurra ákvæða í nýju grunnskólalögunum og vegur þar einna þyngst að frestað er fækkun nemenda í bekkjardeildum. Þá er að finna í 3. gr. frumvarpsins tillögu um varanlega heimild til ráðherra til að ákveða vikulegan kennslustundafjölda nemenda.
     Nú er lagt til samkvæmt breytingartillögunni að fjöldi nemenda skuli miðast við 22 í 1. og 2. bekk og 28 nemendur í 3.–10. bekk skólaárið 1992–1993, en auk þess skuli heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að fjölga nemendum upp í 30 í bekk.
    Samkvæmt grunnskólalögum á hámark nemenda í 3.–10. bekk að vera 28, en í bandorminum er gert ráð fyrir 29. Með breytingartillögunni er verið að opna fyrir fjölgun í bekkjardeildum í allt að 30 nemendur í stað gildandi lagaákvæða sem gera ráð fyrir þróun í þveröfuga átt. Bekkir með 28–30 nemendur eru allt of stórir. Með þessum tillögum er verið að veita menntamálaráðherra vald til að skera niður kennslu og fjölga í bekkjum frá því sem nú er. Þess ber að geta að meðalfjöldi nemenda, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, er 23 nemendur í bekk og meðalkennslustundafjöldi 32 stundir á viku, en þær á að skerða samkvæmt því sem boðað hefur verið. Þessar tillögur fela því í sér verri kennslu og verri skóla. Það er ekki það sem þjóðfélag okkar þarf á að halda.
    Eftir að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var breytt standa mál í grunnskólakerfinu þannig að ríkið greiðir kennurum og öðru starfsfólki laun, en annað er í umsjá sveitarfélaganna. Ætli ríkið sér að spara í grunnskólakerfinu er um það eitt að ræða að skera launakostnaðinn niður. Að því er nú stefnt með því að:
    Skera niður kennslustundafjölda.
    Fjölga nemendum í bekkjum þannig að bekkjardeildir verði færri.
    Velta kostnaði yfir á sveitarfélögin, m.a. með akstri á nemendum sem gert væri að nýta húsnæði annarra skóla.
    Menntamálaráðherra hélt því fram er hann kom á fund nefndarinnar að kennslustundum yrði fækkað í efri bekkjum grunnskólans. Tók ráðherra dæmi af því að með því að fækka kennslustundum um tvær á viku í 4.–10. bekk næðist á haustmissiri sparnaður upp á 52 millj. kr.
    Kennarasambandið metur dæmið svo að niðurskurður upp á 40 millj. kr. þýði að 33 bekkjardeildir mundu hverfa og eigi að ná áætluðum sparnaði á árinu 1992 gæti það þýtt að skera verði niður 260–270 kennarastöður. Til samanburðar má nefna að á Vestfjörðum eru stöðugildi kennara í grunnskólum 140!
    Það er ljóst að framkvæmd þessara niðurskurðartillagna mun koma mjög misjafnlega niður á skólum og landshlutum. Erfitt mun reynast að fjölga nemendum í bekkjum í fámennum skólum og niðurskurðurinn mun því bitna harðar á þéttbýlisstöðum og þá einkum höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Ráðherra staðfesti á fundi menntamálanefndar að til umræðu væri að aka nemendum á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu, en sá kostnaður lendir á viðkomandi sveitarfélögum. Í þessu sambandi ber að nefna að það mál hefur ekki verið rætt við sveitarfélögin. Hugmyndir ráðherrans um akstur á nemendum milli skóla sýna svo ekki verður um villst að til stendur að fækka bekkjum og flytja þá nemendur sem „afgangs“ verða í aðra skóla þar sem þeim verður deilt niður á bekki.
    Þetta er fyrirkomulag sem óverjandi er að bjóða börnum upp á. Þær spurningar vakna hvort yfirleitt séu kennslustofur fyrir svo stóra bekki í skólum landsins og hvort virkilega sé ætlunin að troða börnum inn í skólastofur eins og rollum í rétt. Við hljótum einnig að spyrja hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þvinga foreldra til að grípa til sinna ráða með stofnun einkaskóla. Ef svo er standa þeir verst að vígi sem verst hafa kjörin í samfélaginu.
    Fulltrúar skólastjóra og kennara, sem ræddu við nefndina, lýstu harðri andstöðu við fyrirhugaðan niðurskurð og kom fram að verið væri að skapa neyðarástand í skólum og að búast mætti við miklum óróa meðal kennara, foreldra og nemenda. Þá var undirstrikað að alvarlegast væri að með þessum aðgerðum væri fyrst og fremst verið að skerða hag barnanna og verið að ganga þvert á framtíðarhagsmuni þeirra og þjóðfélagsins alls. Hér væri verið að stíga stórt skref til baka í skólamálum og þeim mun tilfinnanlegra þar sem áður hefði verið gripið til skerðinga og stofninn, sem af væri tekið, væri allt of veikburða. Að þessu sinni er seilst til svokallaðra viðbótarstunda sem skólarnir hafa til ráðstöfunar og notaðar eru til þeirra verkefna sem talin eru brýnust, svo sem eflingar íslenskukennslu, stærðfræði og tungumála.
    Þá ber að nefna að þótt einkum sé hér um að ræða hagsmunamál barna þessa lands mun þetta einnig leiða til þess að kennarar verði fyrir verulegri kjaraskerðingu og uppsögnum. Kjör kennara eru til vansa og því óverjandi að ráðast á þá með þessum hætti.
    Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni hafa lýst áhyggjum vegna þess hvernig þetta mál horfir við þeim, en kjaraskerðing kennara kann að kalla á aukinn stuðning sveitarfélaga við kennara í dreifðum byggðum landsins.
    Minni hluti menntamálanefndar mótmælir harðlega því tilræði við skólakerfið sem felst í fyrsta kafla frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 og þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessar tillögur verður að fella! Það er hlutverk Alþingis að setja lög um grunnskóla og það á að vera í höndum þess að ákveða hvaða kennslu ber að veita. Vald til að fjölga eða fækka kennslustundum á ekki að vera í höndum ráðherra og ráðast af því hvernig vindurinn blæs í ríkisfjármálum.
    Góð menntun er fjöregg þjóðarinnar og sá grundvöllur sem framtíð okkar byggist á. Því er niðurskurður af því tagi, sem ríkisstjórnin stefnir að, óverjandi og óþolandi!
    Á samdráttartímum ber að efla menntun og rannsóknir vegna þess að þaðan er helst að vænta nýjunga og nýsköpunar í atvinnulífi. Víða í hinum iðnvædda heimi er verið að efla skóla og auka fjárveitingar til þeirra þar sem mönnum er ljóst að þannig má best búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.
    Því miður hefur núverandi ríkisstjórn markað stefnu sem gengur þvert á æskilega þróun. Hún situr við að saga af alla vaxtarbrodda og höggva á þær rætur sem eiga að næra íslenskt þjóðlíf. Að þessu sinni eru það börnin sem gjalda niðurskurðarins og er þar ráðist á garðinn þar sem hann lægstur. Hér er um ranga stefnu að ræða og aðgerðir sem verður að stöðva áður en alvarlegt tjón hlýst af. Því leggur minni hlutinn til að allar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í skólamálum verði felldar út úr frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Alþingi, 10. jan. 1992.



Kristín Ástgeirsdóttir.


Hjörleifur Guttormsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Valgerður Sverrisdóttir.




Fskj. 1.

Reykjavík, 20. desember 1991.


Kæri alþingismaður.

    Kennarasamband Íslands vekur athygli þína á að ef fyrirhugaður niðurskurður til menntamála verður samþykktur jafngildir það því að:
    2400 grunnskólanemendum í Reykjavík,
    1750 grunnskólanemendum á Reykjanesi,
     450 grunnskólanemendum á Vesturlandi,
     300 grunnskólanemendum á Vestfjörðum,
     350 grunnskólanemendum á Norðurlandi vestra,
     700 grunnskólanemendum á Norðurlandi eystra,
     400 grunnskólanemendum á Austurlandi og
     600 grunnskólanemendum á Suðurlandi
yrði ekki kennt næsta skólaár.
    Kennarasamband Íslands biður þig að hafa þetta í huga þegar gengið verður til atkvæða um fjárlagafrumvarpið og væntir þess að afstaða þín verði í samræmi við vilja foreldra í kjördæmi þínu.
    Kennarasamband Íslands óskar þér gleðiríkrar og friðsællar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.

Svanhildur Kaaber,


formaður.




Fskj. 2.

Reykjavík, 7. janúar 1992.


Ágæti þingmaður.

    Við foreldrar höfum þungar áhyggjur af fyrirhuguðum breytingum á framkvæmd grunnskólalaga. Sérstaklega þykir okkur varasamt að fresta lengingu skóladagsins og að veita framkvæmdarvaldinu heimild til að ákveða með reglugerð vikulegan kennslustundafjölda í bekkjum grunnskólans. Það gengur erfiðlega að tryggja börnum okkar þann tímafjölda sem þeim ber samkvæmt þessum lögum og fráleitt að leggja viðmiðunarstundarskrá alfarið í hendur ráðuneyti/ráðherra.
    Íslensk börn búa að mörgu leyti við lakari kjör en jafnaldrar þeirra annars staðar. Skólinn á Íslandi er eini skólinn í velferðarríki sem ekki er einsetinn. Skólaárið er mun styttra en gerist í nálægum löndum og skóladagurinn einnig, einkum hjá yngri börnum.
    Það er mikilvægt að horfa á málefni barna í heildrænu samhengi. Samfélagið hefur tekið örum breytingum, því fylgir mikið rótleysi og streita. Skilnaðartíðni hefur aukist meira hér en í nálægum löndum og hér eru fleiri einstæðir foreldrar. Atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist úr 20% í 85% á 30 árum en á sama tíma hefur vikulegur skólatími barnanna þó dregist saman.
    Í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna eru því æ meiri kröfur gerðar til skólans og birtist slíkt m.a. í aðalnámsskrá grunnskólans. Skólanum er ætlað að búa börnin undir þátttöku í afar flóknu samfélagi. Framtíð okkar sem þjóðar ræðst ekki síst af því hvernig börnin okkar verða í stakk búin til að takast á við verkefni 21. aldarinnar.
    Samkvæmt könnun sem Samfok gerði í vor er lengdur skóladagur og einsetinn skóli eitt af brýnustu hagsmunamálum foreldra og allir stjórnmálaflokkar hafa það sömuleiðis á stefnuskrá sinni. Okkur er ljóst að á þessum erfiðu tímum verða allir að taka höndum saman til að leysa efnahagsvandann og börnin okkar geta þraukað án skólamáltíða enn um hríð. Það getur hins vegar orðið dýrkeypt að skera niður þá þjónustu sem skólinn veitir.
    Við viljum með þessu bréfi minna ykkur alþingismenn á skyldur ykkar við börn þessa lands og hvetja ykkur til að standa vörð um grunnskólann. Nýársávarp frú Vigdísar Finnbogadóttur ætti einnig að brýna okkur öll til dáða. Bætt uppvaxtarskilyrði íslenskra barna skila margföldum arði fyrir samfélagið í heild.

F.h. SAMFOKS,


Unnur Halldórsdóttir, formaður.




Fskj. 3.

MIÐLUN HF.
FJÖLMIÐLAVAKTIN — LJÓSVAKAHANDRIT
Frétt: Grunnskólalög.
Fréttamaður: Erna Indriðadóttir.
Dagsetning: 07.01.1992.
Miðill: Sjónvarpið — kvöldfréttir.

    Formaður skólastjórafélags Reykjavíkur gagnrýnir harðlega hugmyndir um að fjölga í bekkjum og fækka kennslustundum í grunnskólum.
    Menntamálaráðherra segist þurfa að fylgja fjárlögum og vinna að niðurskurðinum í samvinnu við m.a. skólastjóra.
    Kári Arnórsson, formaður Skólastjórafélagsins, segir það einhverjar hrikalegustu fréttir sem skólamönnum hafi borist að fjölga eigi í bekkjum og fækka kennslustundum til að mæta niðurskurðinum í skólunum. Íslenskir grunnskólar séu með styttri skólatíma en nágrannalöndin og nú eigi enn að stytta hann og lengja þann tíma sem börn í þéttbýli þurfi að vera ein heima á daginn. Auknar kröfur séu gerðar til skólans og það hafi kostað harða baráttu að fá inn ákvæði um lágmarkskennslustundafjölda í grunnskólalögin.
     Kári Arnórsson: Og það má bara ekki gerast að þetta verði tekið út og það verði lagt í hendur ráðherra á hverjum tíma og hann eigi að ákveða það eftir einhverjum hagsveiflum í samfélaginu hvað skólatíminn á að vera langur. Það er líka auðvitað hægt að geta þess að þær þjóðir aðrar sem hafa lent í efnahagsþrengingum, þær hafa nú verið fleiri en Íslendingar, en engin þeirra hefur látið sér detta það í hug að fara að skerða námstíma barnanna. Þvert á móti hafa þeir einmitt aukið fjármagn til skólans.
    Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra lagði á það áherslu í samtali við fréttastofuna að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um það enn þá hvernig farið yrði með málið. Hann sagði að í frumvarpinu, sem nú væri til meðferðar, fengi ráðherra heimild til að skerða vikulegan kennslutíma um allt að 2 klukkustundir hjá eldri bekkjunum en ekkert hjá þremur neðstu bekkjunum.
    Ólafur G. Einarsson: Ég bendi líka á það að þótt ég fengi þessa heimild, þá mundi ég ekki nota hana til þess að skerða það sem námsskrá segir að skuli kennt. Það eru fjórir aukatímar sem eru til ráðstöfunar til þess að bæta við og það eru þá tveir þeirra sem skerðast hjá eldri bekkjunum.
    Hámarksfjöldi í bekk er 22 í yngstu bekkjum grunnskólans en 28 í eldri bekkjunum, samkvæmt grunnskólalögunum. Nú er lagt til að hægt verði við sérstakar aðstæður að fjölga um allt að 2 í bekkjardeildum en með því gætu að sögn menntamálaráðherra sparast tugir milljóna króna í þéttbýlinu. En hvað segir ráðherrann um þá aðferð annarra þjóða að bregðast við efnahagserfiðleikum með því að efla skólana?
     Ólafur G. Einarsson: Ég þekki það og vissulega væri það gott ef við gætum það. En nú er þetta mál einfaldlega svona að Alþingi hefur samþykkt fjárlög og mér ber sem ráðherra yfir þessum málaflokki að framfylgja því sem Alþingi hefur ákveðið og til þess þarf ég samstarf og samvinnu við þá embættismenn sem þarna þurfa að koma að verki og þar á meðal eru skólastjórarnir.


Fskj. 4.

MIÐLUN HF.
FJÖLMIÐLAVAKTIN — LJÓSVAKAHANDRIT
Frétt: Grunnskólar — niðurskurður.
Fréttamaður: Ásgeir Tómasson.
Dagsetning: 07.01.1992.
Miðill: Ríkisútvarpið — kvöldfréttir.

    Samkvæmt fjárlögum þessa árs skerðast framlög ríkisins til grunnskóla landsins um 180 milljónir króna. Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra segir að enn sé ekki búið að ákveða hvort allur niðurskurðurinn kemur fram í haust.
     Ólafur G. Einarsson: Mér sýnist allar líkur benda til að það verði að skipta þessu á skólaárið en ekki almanaksárið, einfaldlega vegna þess að skólinn hefur auðvitað verið skipulagður alveg fram á vor og mér sýnist þetta vera fullstór biti til þess að kyngja á haustmissirinu einu, en þó hefur þetta ekki verið athugað til hlítar. Það er náttúrlega ekki búið að samþykkja heimildirnar sem þarf til þess að bregðast við þessum markmiðum, en ég þykist þó vita hverjar þær verða. Þær verða heimildir til þess að stytta vikulegan kennslutíma og að færa saman í bekkjum.
    Kennarar bíða þess með óþreyju að sjá til hvaða ráða verður gripið til að mæta 180 milljón króna niðurskurðinum. Hjá Kennarasambandi Íslands hefur verið reiknað út að ef hann kæmi allur fram á haustönn gæti hann þýtt að öll kennsla legðist niður í 10 grunnskólum landsins eða að kennslustundum hjá öllum grunnskólanemendum á landinu fækkaði um 3 á viku eða öll tungumálakennsla í grunnskólum félli niður eða kennslustundum í íslensku fækkaði um helming næsta haust eða að engin 6 ára börn og aðeins helmingur 7 ára barna kæmust í grunnskóla næsta haust. Þessi dæmi segir menntamálaráðherra að séu út í loftið og vísar þeim til föðurhúsanna. Hins vegar segist hann aldrei hafa borið á móti því að skera verði niður kennslu í kjölfar 180 milljóna króna niðurskurðarins.
     Ólafur G. Einarsson: Í frumvarpinu núna er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra fái heimild til þess að ákveða vikulegan kennslutíma vegna þess að ákvæði 47. greinarinnar um hinn vikulega kennslutíma eru tekin úr sambandi fyrir skólaárið 1992–93. Ég get alveg sagt það að ég mun aldrei nota þessa heimild þannig að ég færi í það að skera niður t.d. kennslutíma í íslensku, svo ég taki dæmi, eða að útiloka kennslu í tungumálum eða að útiloka kennslu 6 ára barna. Ég veit ekki hvað ég á að telja fleira. Mér sýnist að það sem kæmi til greina væri að draga úr kennslu um 2 klukkustundir í efri bekkjunum, alls ekki snerta við yngstu þremur árgöngunum og það er svona mat okkar í ráðuneytinu eftir að hafa gert fyrstu útreikninga að við munum ná þessum markmiðum með slíkri aðgerð og raunar ýmsum aðhaldsaðgerðum sem eru bara sjálfsagðar.

Fskj. 5.

MIÐLUN HF.
FJÖLMIÐLAVAKTIN — LJÓSVAKAHANDRIT
Frétt: Skerðing — Grunnskólar.
Fréttamaður: Ásgeir Tómasson.
Dagsetning: 08.01.1992.
Miðill: Ríkisútvarpið hádegisfréttir.

    Kennarar eru lítt hrifnir af hugmyndum Ólafs G. Einarssonar menntamálaráðherra um að skera niður kostnað í rekstri grunnskólanna um 180 milljónir króna með því að færa til í bekkjum og fækka kennslustundum um 2 á viku í efri bekkjum. Svanhildur Kaaber er formaður Kennarasambands Íslands.
     Svanhildur Kaaber: Það er ekki hægt að spara í skólastarfi grunnskólanna öðruvísi en með því að minnka kennslu. Það er útilokað að gera það öðruvísi. Fjölgun nemenda í bekkjardeildum er auðvitað það sama og að minnka kennslu. Ráðherra tók dæmi og talaði um 2 stundir hjá efstu bekkjum, ef við lítum á það út frá barni sem er að hefja skólagöngu í 3. bekk, 9 ára gamalt, þá kostar það í rauninni að ef skerðing verður viðvarandi þá er verið að stytta skólagöngu þessa barns um hálft ár.
    Menntamálaráðherra segist ekki hafa í hyggju að hreyfa við kennslustundum þriggja fyrstu árganga í grunnskólum og hann ætlar ekki að skerða tungumálakennslu þar með talda íslenskukennsluna. Hvað telur Svanhildur Kaaber að sé til ráða hjá ráðherra í þessu efni?
     Svanhildur Kaaber: Í máli sínu í gær nefndi hann stundir til ráðstöfunar en hefur greinilega ekki áttað sig á hvað stundir til ráðstöfunar eru. Í reglugerð frá menntamálaráðuneytinu segir orðrétt um stundir til ráðstöfunar: „Hver skóli fyrir sig ákveður hvernig þessum stundum er ráðstafað til kennslu samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla“. Stundir til ráðstöfunar eru til kennslu samkvæmt aðalnámsskrá og það verður þá að ákveða hvað það er sem á ekki að kenna samkvæmt aðalnámsskrá næsta vetur.
    Ásgeir Tómasson: Getur þú ímyndað þér hvað það muni verða?
     Svanhildur Kaaber: Nei, veistu það ég bara get hreint ekki ímyndað mér það því að ég get ekki séð að sé hægt að spara svona í skólastarfinu. Með því erum við að fara aðrar leiðir en nokkur önnur þjóð sem hefur látið sér detta í hug að spara. Það eru þeir liðir sem ekki er hægt að spara á. Ef það vantar 180 milljónir í grunnskólastarfið þá get ég ekki séð annað en þær verði þá bara að vera halli á fjárlögum.



Fskj. 6.

MIÐLUN HF.
FJÖLMIÐLAVAKTIN — LJÓSVAKAHANDRIT
Frétt: Grunnskólar — niðurskurður.
Fréttamaður: Óli Tynes.
Dagsetning: 06.01.1992.
Miðill: Bylgjan — 17:00.

    Kennarasamband Íslands hefur reiknað út að ef niðurskurður á fjárlögum til grunnskóla kemur til framkvæmda á næstu haustönn samsvari það því að öll kennsla legðist af í sem nemur 10 grunnskólum.
    Samkvæmt fjárlögum verður flatur niðurskurður á launaliði í grunnskólum 180 millj. kr. Ljóst er að þessi skerðing kemur ekki til framkvæmda nú á vorönn 1992. Þá er ekki eftir nema haustönnin, nema þá verið sé að taka einnig ákvörðun um niðurskurð á næsta ári. Svanhildur Kaaber, formaður Kennarasambands Íslands, er þeirrar skoðunar að talan ein, 180 milljónir króna, segi ekki alla söguna. Kennarasambandið hefur því reiknað út hvað þetta þýði í raun í minni kennslu.
     Svanhildur Kaaber: Þá getum við líka sagt að þetta svarar til þess að ef allur niðurskurðurinn á að koma fram á haustönninni 1992, þá gæti hann t.d. þýtt að öll grunnskólakennsla legðist niður á ákveðnum stöðum á landinu, þá bara teljum við saman nógu mörg stöðugildi til þess að fylla þann skóla. Og við nefnum þarna — við tókum Akranes, Bolungarvík, Sauðárkrók, Siglufjörð, Húsavík, Eskifjörð, Hornafjörð, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn og Grindavík, dreifðum þessu yfir landið.
    
Óli Tynes: Þetta samsvarar því að leggja niður þessa skóla.
     Svanhildur Kaaber: Leggja niður grunnskólakennslu á þessum stöðum.


Fskj. 7.

Ályktun samþykkt á fundi skólastjóra í Reykjavík.



    Fundur í Skólastjórafélagi Reykjavíkur haldinn í Hagaskóla fimmtudaginn 9. janúar 1992 átelur harðlega þann niðurskurð á kennslustundum nemenda grunnskólans sem boðaður hefur verið í nýsamþykktum fjárlögum Alþingis. Fundurinn bendir á að þessi aðgerð kemur fyrst og fremst niður á nemendum auk þess sem skólunum eru skapaðir ómældir erfiðleikar.
    Það er krafa fundarins og hlýtur að vera krafa foreldra að lágmarksstundafjöldi sé bundinn í lögum en verði ekki reglugerðarákvæði sem hægt sé að breyta með litlum fyrirvara. Þetta er nauðsynlegt fyrir grunnskólann sem ætlað er það stóra hlutverk að sjá um grunnmenntun þjóðarinnar. Á síðasta ári náðist, eftir mikla baráttu, að festa þetta lágmark í lögum. Nú er fyrirhugað að nema það burt um tíma. Með því er skapað fordæmi fyrir hvaða ríkisstjórn sem er að ógilda þetta grundvallarákvæði um lögbundinn lágmarksstundafjölda.
    Frá því grunnskólalögin voru sett 1974 hefur stundafjöldi nemenda verið skertur í tvígang og skerðingin, með þeirri viðbót sem nú er fyrirhuguð, nálgast einn kennsludag á viku. Reynslan hefur sýnt að erfitt er að ná þessum stundum til baka. Við hljótum því að spyrja: Hvernig á grunnskólinn að geta sinnt því hlutverki að halda hér uppi svipuðu menntunarstigi og gerist með nágrannaþjóðum okkar, ef slíkt nær fram að ganga?
    Fjölgun nemenda í bekkjardeildum upp í 30 er ömurleg tilhugsun. Fjölgunin hefur tvöfalt vægi til tjóns þar sem hún á að koma á sama tíma og kennslustundum er fækkað. Flutningur nemenda milli hverfa, sem látið er í veðri vaka, er fráleitur.
    Með þessum aðgerðum, sem boðaðar hafa verið, er horfið áratugi aftur á bak í skólastarfi á Íslandi. Slíkt hlýtur að veikja stöðu okkar í samkeppni þjóðanna.
    Þessi ályktun var samþykkt samhljóða.

Upplýsingar um skerðinguna frá 1974.



6 ára

7 ára

8 ára

9 ára

10 ára

11 ára

12 ára

13 ára

14 ára

15 ára



1974          
22 23 27 33 35 37 39 39 39
1979          
23 23 27 31 34 36 36 36 36
1991          
24
24 24 27 29 32 34 35 35 35
1992          
24
24 24 25 27 30 32 33 33 33

    1974 og 1979 eru 6 ára ekki reiknaðir með því önnur viðmiðunarregla var notuð fyrir þau börn áður en þau urðu skólaskyld. Þó er ekki ofætlað að þær stundir hafi verið að jafnaði 18 á bekkjardeild.
    Inni í þessum tölum eru stundir til ráðstöfunar svo og sundtímar.

Kári Arnórsson, form.




    2.         Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, breytingu á lögum nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum.

    Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og endurteknar yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins, m.a. á fundum með efnahags- og viðskiptanefnd eftir áramótin, um að þessar breytingar torveldi gerð kjarasamninga, heldur ríkisstjórnin þeim til streitu.
    Minni hlutinn ítrekar andstöðu sína við þessar breytingar og bendir á að þær eru enn fráleitari en ella nú á tímum gjaldþrota og vaxandi atvinnuleysis.


    3.         Um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.

    Í frekari viðræðum við sveitarfélögin hefur komið fram að ekkert samkomulag lá fyrir um það ákvæði 12. gr. frumvarpsins að sveitarfélögin skuli greiða sérstakt framlag sem nemi 3,5% af kostnaðarverði hverrar félagslegrar íbúðar. Þessi hugmynd hafði verið kynnt forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga en það enga afstöðu tekið enda ekki formlega eftir því leitað, sbr. bréf Þórðar Skúlasonar framkvæmdastjóra Sambandsins til efnahags- og viðskiptanefndar, dagsett 13. janúar, sem birt er hér á eftir. Samkvæmt upplýsingum í bréfi Þórðar er talið að þetta geti haft í för með sér 128 millj. kr. kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin en í minnisblaði frá félagsmálaráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar um áhrif frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga er talað um 116 millj. kr.
    Minni hlutinn ítrekar því þá afstöðu sína að vísa beri öllum kaflanum um húsnæðismál, 12.–14. gr. frumvarpsins, til ríkisstjórnarinnar.
    Áðurnefnt bréf Þórðar Skúlasonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, um þetta efni er svohljóðandi:
    „Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga komu í haust á fund félagsmálaráðherra þar sem óskað var eftir samráði við sambandið varðandi aukna kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í byggingarkostnaði félagslegra íbúða.
    Þar var gert ráð fyrir að kostnaðaraukinn næmi 3,5% af byggingarkostnaði félagslegra íbúða til viðbótar því 10% láni er sveitarfélög veita Byggingarsjóði verkamanna. Rætt var um að aukin kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga næmi um 128 millj. kr. miðað við byggingu 600 félagslegra íbúða á ári.
    Á fundi stjórnar sambandsins 13. desember sl. lá nánari útfærsla þessa máls ekki fyrir í formi lagafrumvarps, en málið var kynnt þar með sama hætti og á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga 18. nóvember sl. Þar gerði Þórður Skúlason grein fyrir málinu og sagði eftirfarandi orðrétt:
    „Þessi hugmynd hefur verið kynnt fyrir forsvarsmönnum sambandsins og þá í því formi að sveitarfélögin féllu frá innheimtu gatnagerðargjalds af félagslegum íbúðum eða tækju á sig 3,5% kostnaðarhlutdeild í byggingunum með öðrum hætti. Sambandið hefur ekki tekið neina afstöðu til þessara hugmynda, enda ekki formlega eftir því leitað.“
    Í framhaldi þess var ekki um frekara samráð að ræða varðandi mál þetta, enda hafa samskipti ríkis og sveitarfélaga tekið aðra stefnu að undanförnu.
    Að lokum er enn og aftur skorað á efnahags- og viðskiptanefnd að beita sér fyrir því að hætt verði við áform ríkisstjórnarinnar um að leggja 600 millj. kr. álögur á sveitarfélögin í formi „löggæsluskatts“, án nokkurs samráðs við sveitarfélögin.
    Gert í samráði við formann sambandsins.“


    4.         Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og viðeigandi breytingartillögur.


    Í áðurnefndu bréfi forsætisráðherra til nefndarinnar 7. janúar komu fram tillögur ríkisstjórnarinnar um þann sparnað í almannatryggingakerfinu sem áður hafði verið boðaður. Eru þær í formi ákvæða sem skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega, þó þannig að innan þess hóps sem örorkubótanna nýtur yrði um tilfærslu að ræða.
    Við skoðun málsins, bæði í heilbrigðis- og trygginganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd, hafa fjölmörg álitamál komið upp og annmarkar við framkvæmd tillagna stjórnarinnar orðið flestum ljósir. Nokkur atriði hefur tekist að lagfæra, svo sem að tryggja að skerðing grunnlífeyris þessara hópa svipti þá ekki einnig barnalífeyri.
    Einnig var orðið við óskum sem komu frá samtökum öryrkja um að nota það fé, sem skerðing grunnlífeyris öryrkja sparaði, til þess að hækka grunnupphæð tekjutryggingar fremur en frítekjumarkið eins og ætlunin var.
    Eftir stendur það óhaggað að þessar tillögur munu skerða tekjur fjölda ellilífeyrisþega sem einhverjar launatekjur hafa en ekki verður hróflað við þeim sem haft geta margfaldar fjármagns- eða eignatekjur. Þessi breyting mun enn auka á aðstöðumun fólks í þessu sambandi.
    Breytingar þessar hafa það enn fremur í för með sér að jaðarskattprósenta ellilífeyrisþega verður á allbreiðu tekjubili mun hærri en annarra eða 55%.
    Eftirfarandi dæmi sýnir skerðingarprósentur einhleyps ellilífeyrisþega sem nýtur allra bóta fyrir viðkomandi tekjubil eftir að breytingar ríkisstjórnarinnar hafa náð fram að ganga:

Tafla.



0 til 5.215 kr. á mánuði     
100%

5.215 kr. til 16.280 kr. á mánuði     
0%

16.280 kr. til 20.630 kr. á mánuði     
60%

20.630 kr. til 65.847 kr. á mánuði     
76%

65.847 kr. til 114.339 kr. á mánuði     
55%

114.339 kr. á mánuði eða meira     
40%


    Ein er sú stétt sem með alveg sérstökum hætti verður fyrir barðinu á þessari skerðingu á grunnlífeyri ellilífeyrisþega sem fyrirhuguð er en það eru sjómenn. Segja má að með þessum breytingum sé réttur sjómanna til töku lífeyris við 60 ára aldur, sem þeir njóta einir stétta, nánast afnuminn. Efnahags- og viðskiptanefnd aflaði viðbótargagna um þetta efni og ræddi við þá Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandinu og einnig Árna Guðmundsson, forstöðumann Lífeyrissjóðs sjómanna. Kom skýrt fram að þessar breytingar munu hitta þorra sjómanna á lífeyristökualdri mjög þungt þar sem verulegur hluti þeirra er með einhverjar launatekjur og það bætist svo við að lífeyrisréttindi eru mjög misjöfn og yfirleitt lítil hjá öllum sjómönnum sem verið hafa á minni fiskiskipum.
    Þennan lífeyri verður að skoða í ljósi þeirrar staðreyndar að lífeyrisréttindi sjómanna eru almennt lakari en annarra stétta. Stærstur hluti sjómanna byrjaði ekki að greiða í lífeyrissjóð að fullu fyrr en 1985–1987.
    Með þessari breytingu er Alþingi að taka til baka viðurkenningu á sérstöðu sjómanna í þessum efnum. Hér er því enn vegið að réttindamálum sjómanna sem eiga sér langa sögu.
    Að öðru leyti vísast til álits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar sem fer hér á eftir ásamt fjórum fylgiskjölum. Þar fyrir aftan eru svo birtar ýmsar upplýsingar sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust um m.a. atvinnuþátttöku sjómanna á lífeyristökualdri, mismunandi lífeyrisréttindi sjómanna, skerðingarferli og jaðarskattprósentur ellilífeyrisþega, þörf fyrir viðbótarmannafla í Tryggingastofnun til að annast framkvæmd þessara mála o.fl.

Álit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar hefur fjallað um tillögur þær er nefndinni bárust 7. jan. sl. og snerta breytingar á frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992. Breytingartillögur þessar gera ráð fyrir tekjutengingu elli- og örorkulífeyris. Til fundar við nefndina komu Arnþór Helgason og Helgi Seljan frá Öryrkjabandalagi Íslands, Páll Sigurðsson, Þorkell Helgason og Dögg Pálsdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Magnús H. Magnússon, fyrrverandi varaformaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir hönd Samtaka aldraðra, Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambands Íslands, Hilmar Björgvinsson og Haukur Haraldsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólafur Jónsson frá Landssambandi aldraðra, Guðríður Ólafsdóttir frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Sveinn Ragnarsson og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Stefán Jansen frá Þjóðhagsstofnun.
    Minni hlutinn getur ekki fallist á breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og mun greiða atkvæði gegn þeim. Ástæðurnar eru eftirfarandi.
    Tillögurnar eru handahófskenndar, vanhugsaðar, illa undirbúnar og illframkvæmanlegar. Í meðförum nefndarinnar hafa tillögurnar verið að taka sífelldum breytingum vegna ábendinga minni hluta nefndarinnar og þeirra sem til fundar við nefndina hafa komið. Margt af því sem var í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar stóðst ekki og var óframkvæmanlegt. Það kom fram hjá þeim fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins sem nefndina heimsóttu að stofnunin getur ekki framkvæmt tillögurnar miðað við að þær taki gildi 1. febrúar. Því var um tíma í starfi nefndarinnar gengið út frá því að gildistakan yrði 1. mars. Til að Tryggingastofnun ríkisins geti framkvæmt tillögurnar þá þarf hún verulegan viðbótarmannafla. Það kom fram hjá þeim fulltrúum Tryggingastofnunar sem komu til fundar við nefndina að ekkert samráð hafði verið haft við stofnunina um mótun og gerð þessara tillagna. Forráðamenn hennar heyrðu fyrst um tillögurnar sl. föstudag.
    Tillögurnar eru sértækar og ekki liggur ljóst fyrir hvort og þá hversu víðtæk áhrif þær hafa á aðra bótaflokka almannatrygginganna sem tengjast elli- og örorkulífeyrinum. Þó er ljóst að ýmsar bætur til öryrkja, eins og bensínstyrkur og styrkur til kaupa á hjálpartækjum til að breyta bílum, munu falla niður, nema komið verði í veg fyrir það hjá Tryggingastofnun ríkisins með sérstökum ráðstöfunum. Það orkar hins vegar tvímælis hvort stofnunin hafi lagaheimild til að beita slíkum innanhússráðstöfunum. Tryggingayfirlæknir sér um að úrskurða í ýmsum málum sem tengjast örorkulífeyrinum og því hefði verið eðlilegt að kalla hann á fund nefndarinnar eins og minni hluti nefndarinnar óskaði eftir en meiri hlutinn hafnaði. Af hálfu minni hluta nefndarinnar var lögð á það áhersla að horfið yrði frá þeirri fyrirætlan ríkisstjórnar að tekjutengja örorkulífeyrinn, en því var hafnað.
    Með tillögunum er réttur sjómanna til töku lífeyris við 60 ára aldur nánast afnuminn. Það kom fram hjá Hilmari Björgvinssyni, deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar, að langflestir þeirra 600 sjómanna, sem nú njóta sjómannalífeyris, munu verða fyrir verulegri skerðingu eða missa lífeyrinn að fullu. Alls munu um 2.500 ellilífeyrisþegar verða fyrir skerðingu og eru sjómenn á aldrinum 60–67 ára 1 / 5 hluti hópsins. Ríkisstjórnin hefur nýverið staðið fyrir skerðingu á sjómannaafslætti og nú leitar hún aftur fanga hjá þessari sömu þjóðfélagsstétt í viðleitni sinni til að draga úr ríkisútgjöldum. Af þessum sökum óskaði minni hlutinn eftir því að fulltrúar sjómanna yrðu boðaðir til fundar við nefndina, en meiri hlutinn sá sér ekki fært að verða við þeim tilmælum.
    Tillögurnar leiða til þess að nýtt skattþrep verður til sem er hærra en skattþrepið í staðgreiðslu tekjuskatts eða í kringum 55%. Elli- og örorkulífeyrisþegar verða því þeir einu sem verða látnir greiða samkvæmt þessu háa skattþrepi á sama tíma og ríkisstjórnin hafnar tillögum um að leggja á hátekjuskatt og skattleggja eignatekjur.
    Tillögurnar eru ekki hluti af heildarendurskoðun almannatryggingalaganna. Tekjutenging elli- og örorkulífeyris getur verið réttlætanleg, en þá er eðlilegt að það sé gert samtímis heildarendurskoðun almannatryggingalaganna og að sá sparnaður, sem af því hlytist, yrði notaður til þess að hækka bætur, auka bótarétt og tryggja hagsmuni þeirra sem mest þurfa á almannatryggingum að halda.
    Tillögurnar munu gera flókið almannatryggingakerfi enn flóknara. Almannatryggingar þurfa að vera skýrar, einfaldar og auðveldar í framkvæmd þannig að almenningur geti gert sér grein fyrir rétti sínum.
    Þær breytingar, sem ríkisstjórnin er að gera og hefur verið að gera að undanförnu á almannatryggingunum, eru gerðar án nokkurrar fyrirhyggju. Ríkisstjórnina skortir heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og það er ámælisvert að hún skuli meðhöndla jafn flókinn og viðkvæman málaflokk með þeim flumbrugangi sem raun ber vitni. Ríkisstjórnin hyggst spara 260 milljónir króna á tekjutengingu elli- og örorkulífeyris á árinu 1992. Nú þegar er ljóst að a.m.k. 1 / 12 hluti þess sparnaðar muni ekki nást þar sem bætur janúarmánaðar hafa nú þegar verið greiddar út. Það er því með öllu óljóst hver sparnaðurinn muni verða, ekki síst þegar haft er í huga að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu án efa draga úr atvinnuþátttöku elli- og örorkulífeyrisþega. Það gæti aftur leitt til aukinna útgjalda á öðrum stöðum í almannatryggingum eins og í tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót.
    Af þessum ástæðum og öðrum, sem gerð verður grein fyrir í umræðum, mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn frumvarpsákvæðum þeim sem heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um. Minni hlutinn vísar til umsagna sem nefndinni bárust og birtast þær með skilabréfi þessu.

Alþingi, 13. jan. 1992.



Finnur Ingólfsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Ingibjörg Pálmadóttir.


Svavar Gestsson.




Fskj. 1.

Ályktun stjórnar Landssambands aldraðra.


(19. des.

1991.)
    Landssamband aldraðra mótmælir þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar sem fram hafa komið um að hækka ekki skattleysismörk tekjuskatts um næstu áramót til samræmis við verðbólguna eins og föst venja hefur verið.
    Stjórn landssambandsins minnir á að lífeyrisgreiðslur og eftirlaun úr lífeyrissjóðum eru í flestum tilfellum svo knappur lífeyrir að óverjandi er að fyrstu skattahækkanir við gerð nýrra fjárlaga komi á slíkar greiðslur.
    Einnig er minnt á fulla samstöðu stjórnmálamanna fyrir síðustu kosningar um að brýn nauðsyn væri á því að hækka skattleysismörkin verulega.

Samþykkt samhljóða,


ÓJ.




Fskj. 2.

Alþýðusamband Íslands:


Ályktun fundar formanna landssambanda innan ASÍ.


(8. jan. 1992.)


    Að undanförnu hafa stjórnvöld tekið ákvarðanir um skattahækkanir og verðhækkanir á opinberri þjónustu sem samanlagt skerða ráðstöfunartekjur um rúmlega 2%.
    Hér er ekki aðeins um að ræða alvarlega almenna kaupmáttarskerðingu. Álögurnar leggjast með mestum þunga á barnafjölskyldur og sjúklinga. Á sama tíma er ekkert gert til þess að skattleggja fjármagnstekjur.
    Fundur formanna landssambanda ASÍ ítrekar mótmæli sambandsins við þessum skattahækkunum og auknu álögum. Fundurinn mótmælir sérstaklega nýrri tillögu um skerðingu á ellilífeyri.
    Síðustu árin hefur mjög þrengt að atvinnumöguleikum eldra fólks. Grunnlífeyririnn hefur komið sér vel fyrir fjöldamarga sem orðið hafa að draga úr vinnu vegna þverrandi starfsorku eða þrenginga á vinnumarkaði. Með nýju skattþrepi, 55%, er nú ráðist að þessu fólki áður en 66 þús. kr. tekjum er náð. Þessi aðgerð eykur enn á þá mismunun í almannatryggingakerfinu að launatekjur og tekjur úr lífeyrissjóðum umfram lágt mark skerða greiðslur trygginganna en fjármagnstekjur hafa engin áhrif. Hér er augljóslega gengið til öfugrar áttar.
    Fundurinn krefst þess að hætt verði við þessa árás á ellilífeyrisþega. Í stað þess verði hafist handa um heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu eins og samtökin hafa ítrekað gert kröfu til.


Fskj. 3.

Félag eldri borgara:


Athugasemd vegna breytingartillagna við frumvarp til laga


um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992.


(8. jan. 1992.)


    Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni mótmælir þeim hugmyndum sem uppi eru um tekjutengingu ellilífeyris almannatrygginga.
    Félagið telur það orka tvímælis að tekjutengja grunnlífeyri þar sem eftirlaunafólk hefur greitt fast gjald um áratugaskeið til að öðlast rétt til ellilífeyris.
    Verði ellilífeyrir samt sem áður tekjutengdur leggur félagið áherslu á að skerðing hans byrji ekki fyrr en aðrar launatekjur hafa náð 100.000 kr.

Virðingarfyllst,


f.h. Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni,


Guðríður Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri.




Fskj. 4.

Öryrkjabandalag Íslands:

Bréf til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.


(9. jan. 1992.)


    Öryrkjabandalag Íslands mótmælir harðlega þeim handahófskenndu aðgerðum sem ríkisstjórnin beitir til þess að ná endum saman í ríkisfjármálum. Þessar aðgerðir miðast við skerðingu örorku- og ellilífeyris, þannig að lífeyrisþegar eru sviptir grunnlífeyri að hluta til eða að fullu.
    Hvað öryrkja varðar þá hefur það verið grundvallarviðhorf, viðurkennt af samfélaginu, að greiða öryrkjum lífeyri sem nokkra uppbót vegna þeirrar hömlunar og aukakostnaðar sem örorkan veldur. Skerðing grunnlífeyris án tengsla við heildarskoðun tryggingakerfisins er því vægast sagt varhugaverð.
    Ámælisvert er að tekjur fólks, sem eru langt innan við meðaltekjumörk, eru skertar verulega á meðan í engu er hróflað við þeim sem eru hátt yfir þessum meðaltalstekjum.
    Öryrkjabandalag Íslands lýsir sig reiðubúið hvenær sem er til viðræðna um raunverulega jöfnun á kjörum örorkulífeyrisþega, m.a. tekjutengingu grunnlífeyris, ef annað kemur á móti, svo sem viðbótarskattþrep á hærri tekjur, svo og það að fjármagnstekjur séu teknar með, bæði í skattalegu tilliti og hvað varðar lífeyrisgreiðslur.
    Hækkun frítekjumarks nú er góðra gjalda verð fyrir þann hóp öryrkja sem þar nýtur góðs af, en hins vegar er í engu komið til móts við þá sem mesta hafa þörfina, þ.e. þá sem einvörðungu verða að framfleyta sér af tryggingabótum.

Virðingarfyllst,


f.h. Öryrkjabandalags Íslands,


Arnþór Helgason, formaður.




Sjómannasamband Íslands:

Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar.


(14. jan. 1992.)


    Á fundi með nefndinni í morgun var þess farið á leit að nefndarmenn fengju upplýsingar um fjölda ellilífeyrisþega sjómanna sem enn stunda sjómennsku.
    Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði sjómanna eru miðað við október 1991 um 34% ellilífeyrisþega yngri en 65 ára sem enn stunda sjómennsku. 12% til viðbótar eru hættir til sjós en voru á sjó þegar þeir hófu töku ellilífeyris. 54% hafa ekki verið á sjó eftir að taka lífeyris hófst hjá sjóðnum. Ekki kemur fram í þessum tölum hve margir af þeim sem ekki stunda sjómennsku vinna önnur störf í landi.
    Samkvæmt upplýsingum frá öðrum lífeyrissjóðum en Lífeyrissjóði sjómanna (SAL-sjóðunum), þar sem sjómenn eiga lífeyrisrétt, koma sambærilegar upplýsingar fram. Samkvæmt þeim upplýsingum eru tæp 35% lífeyrisþega á aldrinum 60 til 70 ára enn starfandi sjómenn. Tæp 32% eru hættir til sjós, en stunda önnur störf í landi. Rúmlega 33% sjómanna á aldrinum 60 til 70 ára, sem njóta ellilífeyris úr öðrum lífeyrissjóðum en Lífeyrissjóði sjómanna, eru hættir störfum.
    Þessar tölur ættu að gefa nokkra mynd af því hve margir sjómenn, sem fá greiddan grunnlífeyri, eru enn við störf. Þó getur einhver mismunur verið á tölum varðandi fjölda þeirra sem fá greiddan grunnlífeyri annars vegar og lífeyri úr lífeyrissjóði hins vegar. Skekkjan ætti hins vegar ekki að vera mikil.

Virðingarfyllst,


f.h. Sjómannasambands Íslands,


Hólmgeir Jónsson.






Lífeyrissjóður sjómanna:


Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar.


(14. jan. 1992.)


    Samkvæmt beiðni efnahags- og viðskiptanefndar upplýsist eftirfarandi um ellilífeyrisréttindi sjómanna í lífeyrissjóðum:
    Lífeyrisréttindi sjómanna í lífeyrissjóðum eru mjög mismunandi, bæði eftir því í hvaða lífeyrissjóð greitt hefur verið og því hvaða tegund sjómennsku viðkomandi hefur stundað. Hér að neðan verða nefnd helstu atriðin sem skipta máli varðandi rétt sjómanna til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum.
    Lífeyrissjóður togarasjómanna (nú Lífeyrissjóður sjómanna) var stofnaður 1958, en bátasjómenn fengu ekki aðild að sjóðnum fyrr en 1970 og þá voru einnig stofnaðir lífeyrissjóðirnir innan Sambands almennra lífeyrissjóða, en innan SAL eru nokkrir lífeyrissjóðir sem sjómenn greiða til (t.d. Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Lífeyrissjóður Austurlands og Lífeyrissjóður Vestmannaeyinga). Sjómenn á bátum og öðrum skipum en stórum togurum og farskipum hafa því ekki átt aðild að lífeyrissjóði nema frá árinu 1970. Þar að auki voru iðgjöld bátasjómanna allt fram til ársins 1985 mjög lág og réttindamyndun því lítil, en sjómenn á togurum og farskipum hafa ávallt greitt iðgjöld af heildartekjum. Fjárhæð ellilífeyris fer eftir því hversu mikið greitt hefur verið til sjóðanna og því skipta framangreind atriði höfuðmáli í þessu sambandi. Ekkert þak er á þeim fjárhæðum sem sjóðfélagar geta fengið í lífeyri, því meira sem greitt er því hærri lífeyri fær sjóðfélagi.
    Ellilífeyrir frá Lífeyrissjóði sjómanna er mjög mismunandi hár eins og gefur að skilja og er allt frá nokkur hundruðum króna á mánuði upp í rúmar 110.000 kr. Meðaltalsfjárhæð ellilífeyris frá sjóðnum er u.þ.b. 23.000 kr. á mánuði (ellilífeyrisþegar voru 687 í desember 1991).
    Að lokum skal bent á að ekki gilda sömu reglur um almennan ellilífeyrisaldur í lífeyrissjóðum sjómanna. Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð sjómanna er almennur ellilífeyrisaldur 65 ár, en samkvæmt reglugerðum SAL-sjóða er hann 70 ár. Hins vegar gilda sömu reglur hjá þessum sjóðum varðandi sérstakan ellilífeyrisrétt frá 60 ára aldri vegna 25 ára sjómennsku.

Virðingarfyllst,


f.h. Lífeyrissjóðs sjómanna,


Árni Guðmundsson.





repró

repró



repró



repró

Tryggingastofnun ríkisins:


Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar.


(14. jan. 1992.)


    Í framhaldi af umræðum í dag varðandi framkvæmd lífeyristrygginga, ef fyrirhugaðar lagabreytingar á lögum nr. 67/1971 ná fram að ganga, vil ég taka fram eftirfarandi varðandi þörf á auknu starfsliði.
    Ráða þarf tvo starfsmenn í sex mánuði að mínu mati vegna þessa.

Virðingarfyllst,


Tryggingastofnun ríkisins


— lífeyrisdeild —


Hilmar Björgvinsson.



    Minni hlutinn er andvígur þeim aðferðum sem beita á við ofangreinda tekjutengda skerðingu grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega og mótmælir þeirri mismunun sem í þeim felst á launatekjum annars vegar og fjármagns- og eignatekjum hins vegar. Minni hlutinn mun því greiða atkvæði gegn þeim breytingartillögum meiri hlutans sem að þessu lúta (2. tölul. nýrra breytingartillagna meiri hlutans).


    5.         Um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984 (9. tölul. breytingartillagna meiri hlutans og 4. tölul. nýrra breytingartillagna meiri hlutans).

    Stjórnarliðið virðist hafa vaknað upp við vondan draum í jólaleyfinu og áttað sig á því að kveða þyrfti með einhverjum hætti á um innheimtu hins sérstaka vörugjalds sem innheimt skal í höfnum landsins. Sem fyrr varð ríkisstjórninni það fyrst fyrir að fyrirskipa sveitarfélögunum eða höfnum þeirra að innheimta þetta fyrir ríkissjóð, að því er best verður séð, án þess að gert sé ráð fyrir nokkurri þóknun fyrir eða samningum um framkvæmdina. Óþarft er að taka fram að um þessa innheimtukvöð var samkvæmt venju, sem er að festast í sessi hjá ríkisstjórninni, ekkert samráð haft við sveitarfélögin.
    Minni hlutinn telur sem fyrr að þetta mál sé í óhæfum búningi og vísast þar um til rökstuðnings í fyrra nefndaráliti. Sú lagfæring, sem samgöngunefnd leggur til varðandi uppgjörstímabil, er til bóta en breytir engu um andstöðu minni hlutans við aðalefni breytingartillagnanna um hið sérstaka vörugjald.


    6.         Um ráðherranna sérstaka fjárhaldsmenn eður tilsjónar: Breyting á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana (6. tölul. nýrra breytingartillagna meiri hlutans).

    Í bréfi forsætisráðherra, dags. 7. janúar sl., var lagt til að eftirfarandi klausa bættist við 2. gr. ofannefndra laga um eftirlit með ráðningu ríkisstarfsmanna og húsnæðismál ríkisstofnana:
    „Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera fjárhaldsmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn. Starfssvið fjárhaldsmannanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og áætlanagerð stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um starfsmannahald. Kostnaður við starf fjárhaldsmanna greiðist af viðkomandi stofnun.“
    Eins og sjá má var fjárhaldsmönnum þessum ætlað víðtækt verksvið og völd, þar með talið ákvarðanatökuvald um fjárskuldbindingar og starfsmannahald. Enga skilgreiningu var að finna á því við hvaða kringumstæður þessum ákvæðum yrði beitt, engin ákvæði um skörun verkefna eða hver bæri ábyrgð á hverju þegar hinir nýju fjárhaldsmenn hefðu ýtt til hliðar forstöðumönnum eða jafnvel kjörnum stjórnum.
    Fátt var um svör þegar spurst var frekar fyrir um hugsunina á bak við þetta sérstæða ákvæði og engin lögfræðileg úttekt virðist liggja fyrir um skörun þessara ákvæða við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, starfslýsingar og ráðningarsamninga opinberra starfsmanna, ákvæði sérlaga um stjórnkerfi einstakra stofnana o.s.frv.
    Eftir snarpar umræður um málið bæði innan nefndarinnar og utan hefur meiri hlutinn gert nokkrar atrennur að því að lagfæra ákvæðið og var það svohljóðandi í síðustu útgáfu sem minni hlutinn barði augum:
    „Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn, ef sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða. Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds, í samráði við ráðherra, eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni. Ráðherra skal enn fremur í erindisbréfi tilsjónarmanna kveða skýrt á um ábyrgðarsvið þeirra. Kostnaður við starf tilsjónarmanna greiðist af viðkomandi stofnun.“
    Eins og sjá má hafa fjárhaldsmenn nú breyst í tilsjónarmenn og er innsetning þeirra nú miðuð við að sýnt þyki að kostnaður við rekstur viðkomandi stofnunar stefni fram úr fjárveitingum. Eftir stendur að tilsjónarmenn þessir eiga að hafa víðtæk völd til ákvarðanatöku og geta þeir í reynd tekið fram fyrir hendurnar á hinum hefðbundna stjórnanda. Minni hlutinn telur allan þennan málatilbúnað með ólíkindum og afar ólíklegan til að færa hæstvirtri ríkisstjórn bætt andrúmsloft meðal forsvarsmanna opinbers rekstrar og opinberra starfsmanna í hennar garð á næstunni. Enn þá síður munu þessi áform verða til að bæta samskipti ríkisvaldsins við opinbera starfsmenn almennt. Steininn tók úr þegar upplýstist á fundi með vararíkisendurskoðanda fyrir nokkrum dögum að ekkert hafði verið við Ríkisendurskoðun talað áður en þessu ákvæði var skellt fram. Sjá eftirfarandi bréf Ríkisendurskoðunar til efnahags- og viðskiptanefndar dags. 13. janúar 1992 og undirritað af Halldóri V. Sigurðssyni og Sigurði Þórðarsyni.

    „Vísað er til beiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dagsettrar í dag, um að Ríkisendurskoðun geri skriflega grein fyrir þeim atriðum sem fulltrúi hennar reifaði á fundi með nefndinni í sambandi við umfjöllun um frumvarp til laga um ráðstöfun í ríkisfjármálum á árinu 1992, einkum þó hlutverk svonefndra „tilsjónarmanna“ samkvæmt frumvarpinu.
    Af þessu tilefni vill Ríkisendurskoðun benda á að einn mikilvægasti þátturinn í því að tryggja skilvirkni hins opinbera og stofnana þess felst m.a. í því að stjórnsýslan styðjist við skýrar reglur um boðleiðir og ábyrgð stjórnenda og starfsmanna. Hlutverki og skyldum stjórnenda opinberra stofnana er oft lýst í lögum um viðkomandi stofnanir, erindisbréfum, svo og sérstökum fyrirmælum æðra stjórnvalds. Svo þarf þó ekki ætíð að vera. Almennar reglur um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er að finna í samnefndum lögum, nr. 38/1954. Almennt má segja að ríkisvaldið geti vikið þeim starfsmönnum sínum úr starfi sem ekki gegna starfsskyldum sínum og þá t.d. með vísan til ákvæða nefndra laga eða ráðningarsamninga, sbr. t.d. 3. málsl. 1. gr. þeirra. Hins vegar verður ætíð að tryggja að gætt sé réttra aðferða og sjónarmiða við lausn úr starfi, sbr. t.d. ákvæði III. kafla laga nr. 38/1954.
    Reglur þær og fyrirmæli um hlutverk og ábyrgð forsvarsmanna ríkisstofnana, sem að framan greinir, eru engu að síður oftar en ekki um margt brotakenndar, sundurlausar og óljósar. Ríkisendurskoðun hefur í skýrslum sínum oft vakið athygli á þörf á skýrari reglum í þessu sambandi, einkum varðandi stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð yfirmanna ráðuneyta og stofnana.
    Jafnframt má benda á að í frumvarpi til laga um greiðslur úr ríkissjóði, sem hefur verið lagt fyrir Alþingi á sl. tveim þingum án þess að vera afgreitt, er að finna ýmis ákvæði er stefna að því að efla fjárhagslega ábyrgð stjórnenda ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Jafnframt miða ákvæði frumvarpsins að því að efla mjög fjárstjórnarvald og eftirlitshlutverk Alþingis með fjárreiðum framkvæmdarvaldsins.
    Hlutverk svonefndra tilsjónarmanna samkvæmt ofangreindu frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 sýnist vera tvíþætt. Annars vegar að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar stofnana, þar á meðal um umfang starfsmannahalds, og hins vegar að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gera fjárhagsáætlanir fyrir stofnanir.
    Að mati Ríkisendurskoðunar er hæpið að fela nýjum aðila að fara með útgjaldaákvarðanir án þess að sá hinn sami taki ábyrgð á þeim en samkvæmt frumvarpinu er ekki nægjanlega skýrt hver ábyrgð „tilsjónarmanna“ verður í þessu tilliti. Jafnframt sýnist nokkur hætta á að þessi skipan geti valdið óöryggi og óvissu í daglegum rekstri stofnana. Á hinn bóginn telur stofnunin eðlilegt að forstöðumönnum sé veitt aðstoð við að bæta upplýsinga- og áætlanagerð sé þess þörf. Í þessu sambandi má benda á að þau áætlana- og bókhaldskerfi, sem langflestar ríkisstofnanir nota í dag, eru sameiginleg og hönnuð af fjármálaráðuneytinu ásamt Ríkisbókhaldi og starfsmannaskrifstofu ráðuneytisins o.fl. Það er fyrst og fremst í verkahring fjármálaráðuneytisins og stofnana þess að endurbæta umrædd kerfi, kynna einstökum ríkisstofnunum notkun þeirra og eiginleika. Hér má og minna á að ýmsir aðilar, bæði innan ríkiskerfisins og utan þess, vinna að úttekt á stjórnskipulagi ríkisstofnana og tillögugerð í því sambandi með það í huga að auka skilvirkni þeirra.
    Að lokum þykir stofnuninni rétt að ítreka nokkur atriði sem hún telur mjög mikilvæga liði í aðgerðum er miða að bættum fjárreiðum ríkisins og stofnana þess en þau eru:
—    að frumvarp um greiðslur úr ríkissjóði verði lögfest,
—    að skýrt verði kveðið á um hver ábyrgð ber á umframkostnaði þeirra stofnana sem ríkið stendur undir að fullu án þess að fara með stjórn þeirra,
—    að ábyrgð á framkvæmd fjárlaga sé fyrst og fremst í höndum viðkomandi fagráðuneytis og forstöðumanna ríkisstofnana,
—    að tryggt sé að hin sameiginlegu upplýsingakerfi veiti allar nauðsynlegar upplýsingar til stofnana ríkisins svo að þau nýtist sem virk stjórnunartæki.
    Tekið skal fram að mjög skammur tími gafst til þess að svara framangreindri beiðni og ber því að skoða umsögnina í því ljósi.“

    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar er andvígur þessu ákvæði. Allan haldbæran rökstuðning fyrir því skortir. Því er lagt til að 6. tölul. nýrra breytingartillagna meiri hlutans verði felldur.

    7.         Nefskattur — íbúaskattur á sveitarfélög (c-liður 12. tölul. breytingartillagna meiri hlutans og 7. tölul. nýrra breytingartillagna meiri hlutans).

    Við lokaafgreiðslu fjárlaga var ríkisstjórnin knúin til að færa hinn illræmda nefskatt eða íbúaskatt á sveitarfélögin niður um 100 millj. kr. frá fyrstu áformum. Skatturinn á nú að gefa 600 millj. kr. (reyndar rúmlega það samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga) og eru upphæðir á hvern íbúa nú miðaðar við það.
    Hörð mótmæli sveitarstjórnanna í landinu standa hins vegar í fullu gildi og vitna bréfaskriftir Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins, sem birt eru hér aftan við, skýrt um það.
    Í fyrra nefndaráliti var fjallað allítarlega um þetta mál og vísast til þess, svo og fylgiskjala hér aftan við.
    Minni hlutanum þótti ástæða til að krefjast þess að gerð yrði úttekt á stöðu sveitarfélaganna sérstaklega og því var óskað eftir greinargerð þar um frá félagsmálaráðuneytinu. Minnisblað barst sem að vísu metur aðeins þröngt áhrifin af beinum áhrifum þessa frumvarps en staðfestir þó að samþykkt þessa frumvarps muni hafa í för með sér a.m.k. 650–670 millj. kr. útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin.



Bréfaskipti Sambands íslenskra sveitarfélaga
við félagsmálaráðherra:



Til Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(18. des. 1991.)


    Eins og yður mun kunnugt hafa a.m.k. tvö sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur ákveðið að hækka á næsta ári álagningarprósentu útsvara í 7,5%.
    Þetta mun hafa veruleg áhrif á úthlutun tekjujöfnunarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næsta ári. Í nóvember sl. var gerð athugun á því hver áhrif það hefði haft á tekjujöfnunarframlögin á yfirstandandi ári ef Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes hefðu lagt á 7,5% útsvar. Niðurstaðan var sú að þá hefði þurft um 300 millj. kr. hærri upphæð í tekjujöfnunarframlög en var til ráðstöfunar þannig að skerða hefði þurft framlögin um þá upphæð.
    Af þessu tilefni er hér með leitað eftir afstöðu yðar til breytinga á þeim ákvæðum reglugerðar um Jöfnunarsjóðinn sem fjalla um tekjujöfnunarframlögin.

Jóhanna Sigurðardóttir.


Húnbogi Þorsteinsson.




Til félagsmálaráðherra.


(19. des. 1991.)


Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Í bréfi yðar frá því í gær, 18. des. sl., kemur fram að a.m.k. tvö sveitarfélög í „nágrenni Reykjavíkur“ hafi ákveðið að hækka álagningarprósentu útsvara á næsta ári.
    Fram kemur í bréfinu að ef Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes hefðu lagt á 7,5% útsvar mundi það hafa veruleg áhrif á úthlutun tekjujöfnunarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næsta ári.
    Sambandinu er kunnugt um að tvö bæjarfélög í nágrenni Reykjavíkur, þ.e. Hafnarfjörður og Mosfellsbær, hafa ákveðið að leggja á 7,5% útsvar á næsta ári. Jafnframt hefur sambandið aflað sér upplýsinga um að borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð Kópavogs, Garðabæjar og Seltjarnarness hafa lagt til að álagningarprósenta útsvara verði óbreytt frá því sem hún var í ár.
    Með tilliti til ofangreindra staðreynda og þeirra viðhorfa, sem fram koma í bréfi yðar, er hér með spurst fyrir um það hvort félagsmálaráðherra muni beita sér fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði aukið þannig að Jöfnunarsjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu og greitt tekjujöfnunarframlög til sveitarfélaga á næsta ári eins og hann gerði í ár.
    Æskilegt er að afstaða yðar til ofangreinds erindis liggi fyrir áður en stjórn sambandsins tekur efnislega afstöðu til þeirrar málaleitunar sem fram kemur í bréfi yðar, dags. 18. desember sl.
    Að lokum skal minnt á að sveitarfélögin hafa lögvarinn rétt til að leggja á útsvar allt að 7,5% og þegar reglugerð Jöfnunarsjóðs var ákveðin voru engir fyrirvarar gerðir gagnvart einstaka sveitarfélögum, enda ekki heimilt að lögum.

Virðingarfyllst,


Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður.


Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.





Til Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(19. des. 1991.)


    Vísað er til bréfs yðar, dags. í dag, varðandi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Í bréfinu er spurst fyrir um það „hvort félagsmálaráðherra muni beita sér fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði aukið, þannig að Jöfnunarsjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu og greitt tekjujöfnunarframlög til sveitarfélaga á næsta ári eins og hann gerði í ár“.
    Af þessu tilefni vill félagsmálaráðherra taka fram að sjóðurinn mun á næsta ári fá það framlag úr ríkissjóði sem honum ber lögum samkvæmt þannig að hann á að geta greitt tekjujöfnunarframlög sem í heild eru svipuð að verðgildi og þau tekjujöfnunarframlög sem greidd voru á yfirstandandi ári. Öllum ætti hins vegar að vera ljóst að miðað við ástand ríkisfjármála og efnahagsmála almennt eru nú engar forsendur fyrir hækkun á ríkisframlagi til sjóðsins.
    Í framhaldi af þeirri umræðu, sem nú hefur orðið um málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, óskar ráðuneytið eftir samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun á reglugerð Jöfnunarsjóðsins. Í því sambandi er rétt að minna á að við endurskoðun reglugerðarinnar á þessu ári taldi ráðuneytið rétt að taka til athugunar ákvæðin um jöfnunarframlögin. Þessi afstaða ráðuneytisins var vel ljós þeim sem unnu að þessari endurskoðun af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaðan varð hins vegar sú að engar verulegar breytingar voru gerðar varðandi jöfnunarframlögin, enda bárust engar tillögur um slíkt frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

F.h. ráðuneytisins,


Berglind Ásgeirsdóttir.


Húnbogi Þorsteinsson.





Til Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(27. des. 1991.)


    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 var samþykkt að á tekjuhlið bættist nýr liður „Frá sveitarfélögum“ að upphæð 600 millj. kr. Jafnframt var samþykkt að framlag ríkissjóðs á árinu 1992 til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga yrði 100 millj. kr. hærra en lög um tekjustofna sveitarfélaga gera ráð fyrir.
    Afgreiðslu frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 var frestað þar til nú í janúar en breytingartillaga við það frumvarp gerir ráð fyrir að sveitarfélög greiði á árinu 1992 hluta af kostnaði við löggæslu samtals um 700 millj. kr. Þessi upphæð verður lækkuð í 600 millj. kr. til samræmis við fjárlögin. Sveitarfélög með 300 íbúa og fleiri ættu þá að greiða um 2.440 kr. á hvern íbúa og sveitarfélög með færri en 300 íbúa um 1.460 kr. á hvern íbúa.
    Áður en endanlega er frá þessu gengið af hálfu ríkisstjórnarinnar er þó hér með leitað eftir því hvort Samband íslenskra sveitarfélaga hafi aðrar tillögur um hvernig þessa fjár skuli aflað frá sveitarfélögum. Slíkar tillögur þyrftu þá að berast ráðuneytinu í síðasta lagi 3. janúar nk.
    Með vísan til samtals við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag mun félagsmálaráðherra leggja til að 100 millj. kr. aukaframlaginu til Jöfnunarsjóðsins verði varið til jöfnunarframlaga.

Jóhanna Sigurðardóttir.


Húnbogi Þorsteinsson.





Til félagsmálaráðherra.


(30. des. 1991.)


    Með vísan til bréfs yðar, dags. 27. desember sl., um íbúaskatt á sveitarfélög er hér með greint frá viðhorfi Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess máls eins og það nú liggur fyrir og gerð er grein fyrir í áðurnefndu bréfi yðar.
    Miðað við þá heildarniðurstöðu, sem íbúagjaldið á að færa ríkissjóði í tekjuöflun, er gjald það, sem tilgreint er í bréfinu, á hvern íbúa í sveitarfélögunum of hátt og gæfi ríkissjóði um 18 millj. kr. tekjur umfram þær 600 millj. kr. sem þar er gert ráð fyrir.
    Varðandi innheimtu á slíku íbúagjaldi, ef til kæmi, er varað alvarlega við og mótmælt öllum hugmyndum um að nota staðgreiðslukerfi skatta til innheimtu þess hjá sveitarfélögunum.
    Í bréfi yðar er leitað eftir því hvort Samband íslenskra sveitarfélaga hafi aðrar tillögur um hvernig þessa fjár, þ.e. 600 millj. kr., verði aflað frá sveitarfélögunum. Ekki verður séð hvaða tilgangi það þjónar á þessu stigi málsins að óska eftir slíkum tillögum frá sambandinu í framhaldi af þeirri staðreynd að allar grundvallarreglur um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga hafa verið þverbrotnar í aðdraganda þessa máls. Ríkisvaldið virðist líta svo á að undir ákveðnum kringumstæðum geti það einhliða sniðgengið allar yfirlýsingar um samráð, samstarfssáttmála og ákvæði í sveitarstjórnarlögum um samstarf ríkis og sveitarfélaga.
    Ef ríkisstjórnin ætlar sér í framtíðinni að eiga alvörusamstarf við sveitarfélögin í landinu og hafa eðlilegt samráð við þau verða sveitarfélögin að geta treyst því að ríkisvaldið hagi sér í samræmi við þá samninga sem það hefur gert við sveitarfélögin.
    Minnt er á samþykkt stjórnar sambandsins frá 13. des. sl. varðandi þetta mál sem margoft hefur verið ítrekuð af forustumönnum þess við fulltrúa ríkisstjórnarinnar.
    Ríkisstjórninni ætti að vera fullljóst að mörg sveitarfélög búa við mjög erfiða fjárhagsstöðu, m.a. vegna erfiðleika í atvinnulífi, gjaldþrota fyrirtækja og annarra utanaðkomandi áfalla. Á þessu ári hafa bein fjárframlög sveitarfélaga til atvinnulífsins numið hundruðum milljóna króna.
    Samband íslenskra sveitarfélaga skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að falla frá ákvörðun um að sveitarfélögin greiði á árinu 1992 hluta af kostnaði við löggæslu til viðbótar því sem áður hafði verið rætt um við sveitarfélögin og standa jafnframt við gerða samninga um fjármál sveitarfélaga og samskipti við þau.

Virðingarfyllst,


Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður.


Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.





Athugasemd.


Ekkert samráð var haft við Samband íslenskra sveitarfélaga


um 600 milljóna króna íbúaskatt á sveitarfélögin.


(9. jan. 1992.)


    Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir félagsmálaráðherra að samráð hafi verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að leggja svokallaðan lögregluskatt á sveitarfélögin að upphæð 600 millj. kr. Vitnar félagsmálaráðherra til funda ráðherra með forustumönnum sambandsins um málið.
    Rétt er að forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa mætt á fjóra fundi með ráðherrum þar sem umrætt mál var til umfjöllunar en sérkennilegt er að kalla þá fundi samráðsfundi.
    Á fyrsta fundinum, 9. des. 1991, var forustumönnum sambandsins tilkynnt að ríkisstjórnin hefði ákveðið að færa hluta af málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og taka til ríkissjóðs landsútsvar ÁTVR til Jöfnunarsjóðs en sveitarfélögin greiddu 0,1% af útsvarsstofni til Jöfnunarsjóðsins í staðinn. Samtals námu þessar álögur á sveitarfélögin 710 millj. kr. Strax á þessum fundi mótmæltu forustumenn sambandsins þessum hugmyndum mjög harðlega.
    Annar fundurinn er haldinn daginn eftir. Þar er forustumönnum sambandsins gerð grein fyrir útfærslu félagsmálaráðuneytisins á hugmyndum ríkisstjórnarinnar um færslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Forustumenn sambandsins vöruðu mjög við þessum hugmyndum, fyrirvarinn væri allt of stuttur og að verkefnatilfærslu yrði að standa með öðrum hætti og enn var mótmælt hugmyndunum um einhliða inngrip ríkisins í sjálfstæða tekjustofna sveitarfélaganna.
    Á þriðja fundinum, 13. des. 1991, var forustu sambandsins tilkynnt um það að ríkisstjórnin hefði hætt við verkefnatilfærslu og að krukka í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og tekjustofna þeirra, en í staðinn ákveðið að leggja á svokallaðan lögregluskatt sem næmi sömu upphæð eða um 700 millj. kr. Þessi ákvörðun mun hafa verið tekin í framhaldi af hörðum mótmælum sambandsins og annarra við ótímabærri og lítt grundaðri breytingu á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga og einhliða ákvörðun ríkisins um veigamiklar breytingar á sjálfstæðum tekjustofnum sveitarfélaganna. Enn mótmæltu forustumenn sambandsins þessum áformum ríkisstjórnarinnar og lögðu til að hætt yrði við skattlagningu sveitarfélaganna eða að álögurnar yrðu stórlega lækkaðar.
    Fjórði fundurinn er haldinn 27. des. 1991. Þar er tilkynnt um að lögregluskatturinn hafi lækkað í 600 millj. kr. og að 100 millj. kr. aukaframlag yrði greitt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þær breytingar áttu sér stað eftir langar og strangar umræður á Alþingi og að kröfu alþingismanna en ekki í framhaldi af fundum með forsvarsmönnum sambandsins. Á þessum fundi var leitað eftir því hvort Samband íslenskra sveitarfélaga hefði aðrar tillögur um innheimtu 600 millj. kr. upphæðarinnar af sveitarfélögunum og var það áréttað í bréfi til sambandsins sama dag.
    Á ofangreindum fundum var forsvarsmönnum sambandsins einungis tilkynnt um ákvarðanir, sem ríkisstjórnin hafði tekið, um þungar álögur á sveitarfélögin og breytingar á útfærslu álaganna og var þar engu um þokað. Eftir stendur að álögurnar nema 600 millj. kr. Það er broslegt að kalla þessa fundi samráðsfundi og enn fáránlegra að ætlast til þess að sambandið leggi á ráðin um hvernig þessum peningum verði náð af sveitarfélögunum. Um er að ræða íbúaskatt er leggst á alla íbúa landsins og sveitarfélögunum er gert að reiða af hendi til ríkissjóðs. Engu máli skiptir hvort hann er kallaður lögregluskattur, alveg eins hefði verið hægt að kalla hann prestaskatt. Sveitarfélögin munu síðar, ef til þess kemur að þetta umdeilda íbúagjald verður lagt á, taka ákvörðun um það hvort það verður fært undir framfærslukostnað, fjárhagsaðstoð eða aðra útgjaldaliði í bókhaldi þeirra.

Þórður Skúlason

,

framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga

.


Breytingar á útsvari sveitarfélaga.




Var áður

Verður


%

%



Eftirfarandi sveitarfélög tilkynntu hækkun á innheimtuhlutfalli
útsvars á staðgreiðslu 1992.

Hafnarfjörður      6
,7
7 ,5
Mosfellsbær      7
,0
7 ,5
Grindavík      7
,0
7 ,5
Njarðvík      7
,2
7 ,5
Kjalarneshreppur      7
,0
7 ,5
Reykholtshreppur      7
,1
7 ,5
Innri-Akraneshreppur      7
,1
7 ,5
Leirár- og Melahreppur      6
,9
7 ,5
Lundarreykjadalshreppur      7
,1
7 ,5
Hálsahreppur      7
,1
7 ,5
Stafholtstungnahreppur      7
,0
7 ,5
Rauðasandshreppur      6
,7
7 ,5
Gnúpverjahreppur      7
,0
7 ,5

Eftirfarandi sveitarfélög lækkuðu útsvar:
Eyjarhreppur      6
,9
6 ,25
Reykjafjarðarhreppur      7
,5
7 ,0
Snæfjallahreppur      7
,5
6 ,85
Ásahreppur      7
,0
6 ,8


Minnisblað frá félagsmálaráðuneytinu.


(13. jan. 1992.)


    Ráðuneytið hefur athugað lauslega hver áhrif samþykkt frumvarpsins hefði á fjárhag sveitarfélaga á árinu 1992. Er þá miðað við upphaflega frumvarpið, breytingartillögur frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá því í desember og breytingartillögur í bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 7. janúar sl.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu um upphaflega frumvarpið kemur fram að kostnaðarauki sveitarfélaga vegna ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota verði 23 millj. kr. og vegna þátttöku sveitarfélaga í kostnaðar- eða kaupverði félagslegra íbúða um 116 millj. kr. Kostnaður sveitarfélaga vegna þátttöku í löggæslukostnaði verður um 600 millj. kr. en þar á móti kemur 100 millj. kr. aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til viðbótar þessu munu sveitarfélögin verða fyrir einhverjum útgjaldaauka vegna breytinga á lögum um eyðingu refa og minka, minni framlaga ríkissjóðs til skipulagsmála og breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna. Erfitt er á þessu stigi málsins að leggja nákvæmt tölulegt mat á áhrif þessara síðasttöldu breytinga en þar er ekki um háar upphæðir að ræða.
    Með tilvísun til þess sem rakið er hér að framan má ætla að samþykkt umrædds frumvarps með breytingartillögum muni hafa í för með sér 650–670 millj. kr. útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin.


Minnisblað frá félagsmálaráðuneytinu.


(10. jan. 1992.)


    Á árinu 1991 greiddi Jöfnunarsjóðurinn um 520 millj. kr. í tekjujöfnunarframlög til sveitarfélaga og nægði sú upphæð til að fullnægja þörf fyrir slík framlög samkvæmt ákvæðum tekjustofnalaga og reglugerðar um Jöfnunarsjóðinn.
    Allmörg sveitarfélög hafa ekki fullnýtt heimild til útsvarsálagningar og því ekki komið til greina við úthlutun þessara framlaga. Þetta eru einkum sveitarfélögin á Reykjavíkursvæðinu. Á sl. ári var gerð athugun á því hver áhrif það hefði haft á tekjujöfnunarframlögin ef fimm sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur hefðu fullnýtt heimild til útsvarsálagningar á því ári og notið óskerts framlags.
    Þetta voru: Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes.
    Þessi sveitarfélög eru öll með miklu lægri skatttekjur á íbúa en Reykjavík og öll langt undir landsmeðaltalinu. (Sjá nánar álagningarskrá með nefndaráliti 299 frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.)
    Niðurstaða þessarar athugunar var sú að þá hefði þurft um 825 millj. kr. til að fullnægja þörfinni fyrir slík framlög.
    Á yfirstandandi ári ætti sjóðurinn að geta haft til ráðstöfunar um 700 millj. kr. í tekjujöfnunarframlög og er þá með talið 100 millj. kr. aukaframlag sem ákveðið var við afgreiðslu fjárlaga. Það er mat ráðuneytisins að sú upphæð ætti að nægja til að greiða fullt tekjujöfnunarframlag til þeirra sveitarfélaga sem á því munu eiga rétt samkvæmt núgildandi reglugerð Jöfnunarsjóðsins.


    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vill að lokum ítreka enn og aftur mótmæli sín gegn þeirri atlögu að íslenska velferðarkerfinu sem felst í fjölmörgum ákvæðum þessa frumvarps og tillagna meiri hlutans.
    Þá er ekki síður ástæða til að átelja þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur tamið sér en það má heita regla fremur en undantekning að hefðbundnu samráði við utanaðkomandi aðila sé sleppt og góðar og gildar samskiptavenjur að engu hafðar.
    Vonandi verður þess langt að bíða að annað eins frumvarp komi fyrir Alþingi bæði hvað aðdraganda og innihald snertir.

Alþingi, 15. jan. 1992.



Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.


frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.