Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 260 . mál.


437. Skýrsla


um störf Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1991.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.



1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Á fundi í sameinuðu Alþingi 28. nóvember 1990 voru eftirtaldir fulltrúar kjörnir til setu í Vestnorræna þingmannaráðinu: Alexander Stefánsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Árni Gunnarsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Ragnar Arnalds og Ásgeir Hannes Eiríksson. Varamenn voru kjörnir Stefán Guðmundsson, Pálmi Jónsson, Eiður Guðnason, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Kosningin gilti þar til ný kosning fór fram á næsta reglulegu þingi að því tilskildu að fulltrúar sætu á Alþingi þann tíma. Íslandsdeild þingmannaráðsins kaus Árna Gunnarsson formann.
    Í febrúar 1991 lét Birgir Ísleifur Gunnarsson af þingmennsku og við alþingiskosningar 20. apríl 1991 létu þingmennirnir Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Málmfríður Sigurðardóttir og Ásgeir Hannes Eiríksson af þingmennsku. Þingflokkar tilnefndu þá eftirgreinda þingmenn til setu í ráðinu þar til ný kosning færi fram á næsta reglulegu þingi: Árna Johnsen, Jón Helgason, Gunnlaug Stefánsson og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Steingrímur J. Sigfússon settist þá einnig í þingmannaráðið, tilnefndur af þingflokki Alþýðubandalagsins í stað Ragnars Arnalds. Á fundi 17. júlí kaus Íslandsdeild þingmannaráðsins Árna Johnsen formann og Steingrím J. Sigfússon varaformann.
    Kosning á Alþingi til setu í ráðinu fór fram á ný 24. október 1991. Kosningu hlutu Árni Johnsen, Jón Helgason, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Þann 7. nóvember sama ár kaus Íslandsdeild þingmannaráðsins Steingrím J. Sigfússon formann og Árna Johnsen varaformann.

2. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Störf Íslandsdeildar á árinu hafa markast nokkuð af undirbúningi Vestnorræna ársins 1992. Ákveðið var að afla upplýsinga og fá yfirlit yfir helstu þætti vestnorrænnar samvinnu í byrjun starfsins og hefur Íslandsdeildin í því skyni fjallað um starfsemi vestnorrænu nefndarinnar, Vestnorræna sjóðsins og vestnorrænu ferðamálanefndarinnar og kynnt sér samgöngur á vestnorræna svæðinu.
    Á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Stykkishólmi 1989 var ákveðið að árið 1992 yrði sérstakt vestnorrænt ár. Í því tilefni var ákveðið á sama þingi að þrjár ráðstefnur yrðu haldnar, ein í hverju landi: um umhverfismál á Grænlandi, um æskulýðsmál í Færeyjum og um jafnréttismál á Íslandi. Undirbúningsnefnd fyrir kvennaráðstefnuna var skipuð á árinu af félagsmálaráðherra og starfsmaður nefndarinnar, Ragnheiður Harðardóttir, kom á fund nefndarinnar 17. júlí og lýsti þeim undirbúningi sem þá var hafinn. Ritari Íslandsdeildar hefur síðan haft samstarf við framkvæmdastjóra ráðstefnunar, Guðrúnu Ágústsdóttur sem var ráðin haustið 1991.
    Til að kynna Vestnorræna þingmannaráðið, Vestnorræna árið og kvennaráðstefnuna lét Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins prenta bækling sem kemur út í febrúar 1992. Einnig stóð Íslandsdeild undir kostnaði við gerð merkis og bréfsefnis fyrir kvennaráðstefnuna. Fyrirhugað er svo kynningarátak um störf ráðsins og um ráðstefnuna í mars 1992. Ráðstefnan vestnorrænt kvennaþing verður haldin á Egilsstöðum 20.–23. ágúst nk. og verða atvinnumál kvenna höfuðviðfangsefni hennar. Áætluð er þátttaka 150 íslenskra kvenna, 100 færeyskra og 50 grænlenskra kvenna.
    Ákveðið hefur verið að halda vestnorrænt æskulýðsþing í Færeyjum í september 1992 með þátttöku 30 fulltrúa æskulýðssambanda og stjórnmálasamtaka í Færeyjum, á Grænlandi og á Íslandi. Viðfangsefni þingsins verður opinber stefna í æskulýðsmálum, þýðing félagsstarfsemi ungmenna og atvinnuleysi meðal unglinga.
    Einnig hefur verið ákveðið að halda vestnorrænt umhverfisþing í Qaqortoq 6.–11. ágúst nk. með þátttöku 60–70 stjórnmálamanna, sjómanna og vísindamanna. Aðalviðfangsefni þingsins verður samspil manns og náttúru og nýting lífrænna auðlinda.
    Til fundar við Íslandsdeild komu á starfsárinu stjórnarformaður Vestnorræna sjóðsins, Jónas Hallgrímsson, og forstjóri sjóðsins, Steinar Jakobsson, Bjarni Einarsson, formaður vestnorrænu nefndarinnar, og Reynir Adolfsson, starfsmaður vestnorrænu ferðamálanefndarinnar. Kom þar m.a. fram að stofnfé sjóðsins væri 13,5 milljónir Bandaríkjadala en helstu vandkvæði á starfsemi hans væri að óheimilt er að veita úr honum áhættulán, en erfitt væri að fá veð í eignum með nægilega háu markaðsverði til tryggingar flestum þeim verkefnum sem sótt er um til og því væru lánveitingar mjög fáar þótt umsóknir væru margar. Þess vegna ákvað Íslandsdeild að leggja fyrir ársfund þingmannaráðsins tillögu um að reglum sjóðsins yrði breytt þannig að unnt yrði að veita áhættulán úr honum.
    Fram kom að vestnorrænar ferðakaupstefnur hefðu verið haldnar fimm sinnum, þær hafi verið mikilvægur þáttur í starfi vestnorrænu ferðamálanefndarinnar og gefið góða raun. Upplýst var að framhald yrði á þessari starfsemi þótt óvisst væri um framtíð starfsemi ferðamálanefndarinnar en kaupstefnurnar yrðu ef til vill hér eftir haldnar annað hvert ár. Fram kom að mikilvægt væri að gerðar yrðu sameiginlegar markaðskannanir því að hagkvæmt væri í sumum tilvikum að kynna Ísland, Færeyjar og Grænland sameiginlega.
    Fjárskortur háir starfi ferðamálanefndarinnar og framtíð hennar er óljós en rætt hefur verið um að ferðamálaráðin í löndunum þremur tækju að sér þau störf sem ferðamálanefndin hefur sinnt.
    Fram kom að viðskipti milli Íslands, Færeyja og Grænlands hafa aukist mikið undanfarin ár en að þeim væri þannig háttað að Íslendingar hefðu haft langmestan hag af.
    Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins hefur ákveðið að kynna sér samgöngumál á vestnorræna svæðinu og hefur því boðið á fundi sína fulltrúum ýmissa samgöngufyrirtækja og hefur þegar hitt nokkra þeirra.
    Á fundi með nefndinni hafa komið fulltrúar flugfélagsins Óðins, Flugfélags Norðurlands og Skipaútgerðar ríkisins til að kynna og ræða við Íslandsdeild þingmannaráðsins um þessi mál. Í þeim umræðum kom fram að skipaflutningar Skipaútgerðar ríkisins milli Færeyja og Íslands hefðu skilað hagnaði og flutningar farið vaxandi. Talsverðir flutningar hafi verið milli Akureyrar og Sauðárkróks og Færeyja, bæði með laxafóður og tæki vegna útgerðar og landbúnaðar. Ljóst væri þó að þessum flutningum lyki um áramót 1991/1992. Upplýst var að Skipaútgerð ríkisins hefði ekki gert athugun á möguleikum á skipaflutningum til og frá Grænlandi.
    Flugfélagið Óðinn heldur uppi vikulegum ferðum milli Íslands og austurstrandar Grænlands á veturna en tíðari ferðum á sumrin. Flugfélagið býður og upp á fraktflug þangað. Nýtingin er léleg á veturna en góð á sumrin. Það hefur háð starfinu að verslun á Grænlandi er enn þá í raun einokunarverslun. Nú mun grænlenska landsstjórnin hafa í hyggju að gefa hana frjálsa. Allar mjólkurvörur á Grænlandi eru innfluttar og öll mjólk, sem kemur frá Danmörku, er geymsluþolin mjólk. Frá Íslandi væri hins vegar hægt að flytja nýmjólk og ferskar mjólkurafurðir.
    Flugfélag Norðurlands flýgur aðallega til svæðisins kringum Scoresbysund. Félagið hefur flogið mikið fyrir danskar stofnanir og með ferðamenn. Þetta eru nyrstu byggðir austurstrandarinnar og þar er veðurathugunarstöð og dönsk herstöð og skip kemur þangað einu sinni á ári. Flugfélag Norðurlands er eina félagið sem flýgur til þessara svæða í einhverjum mæli. Fluginu er sinnt í samstarfi við Grønlandsfly enda óheimilt að sinna áætlunarflugi þangað án samstarfs við þá. Grænlandsflugið er upp undir fjórðungur veltu félagsins og er það mest vegna leiguflugs.
    Til að ræða við Íslandsdeild þingmannaráðsins um þá könnun, sem var verið að gera á möguleikum þess að styrkja vestnorrænt samstarf á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, kom Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, á fund Íslandsdeildar þingmannaráðsins ásamt Einari Karli Haraldssyni sem hefur sinnt verkefnum tengdum þessari könnun. Tilgangur fundarins var annars vegar að fá upplýsingar frá Íslandsdeild um óskir um uppbyggingu starfsins og afstöðu til tillagna þeirra sem til umræðu voru og hins vegar var tilgangurinn að skýra samstarfsráðherranum frá þeim tilmælum sem Vestnorræna þingmannaráðið hefur samþykkt, að samstarfsráðherrar Norðurlanda verði einnig vestnorrænir samstarfsráðherrar og sinni vestnorrænum málefnum betur en hingað til.
    Þann 21. nóvember 1991 var haldinn í Reykjavík fundur formanna landsdeilda Vestnorræna þingmannaráðsins. Þann fund sátu formaður Íslandsdeildar, Steingrímur J. Sigfússon, og Jón Helgason, formaður Grænlandsdeildar, Jonathan Motzfeldt, og formaður Færeyjadeildar, Henrik Old, og Signar Hansen ásamt embættismönnum. Fundurinn var haldinn til samráðs um undirbúning ráðstefnanna þriggja til að ræða um hvernig samþykktum ráðsins hefði verið fylgt eftir og fleira sem varðar framgang vestnorrænnar samvinnu.
    Í tilefni Vestnorræna ársins fór Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins þess á leit við stjórn Pósts og síma að gefið yrði út sameiginlega sérstakt frímerki af póst- og símamálastjórnunum á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Íslandsdeild fór þess á leit við hinar landsdeildirnar að sams konar erindi yrði sent til póst- og símamálastjórnanna þar. Það svar hefur borist frá Pósti og síma að erindið hafi komið það seint að ekki væri unnt að sinna því að svo stöddu en að ákveðið hefði verið að sérstakur póststimpill verði notaður á pósthúsinu á Egilsstöðum í tilefni af og til heiðurs vestnorræna kvennaþinginu í sumar.

3. Sjöundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1991.
    Sjöundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins var haldinn í Qaqortoq á Grænlandi 7. ágúst 1991. Hann sóttu af hálfu Íslandsdeildar þingmannaráðsins eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Steingrímur J. Sigfússon, Jón Helgason, Sigbjörn Gunnarsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Í allt sóttu hann 16 vestnorrænir þingmenn. Grænlenski þingmaðurinn Jonathan Motzfeldt tók við formennsku í ráðinu af færeyska þingmanninum Karin Kjölbo. Sjálfur þingfundurinn stóð í átta klukkustundir. Þar voru samþykkt sex tilmæli og tvær yfirlýsingar. Íslandsdeildin lagði 6. desember 1991 fram tillögu til þingsályktunar um að skorað verði á ríkisstjórnina að hrinda í framkvæmd ályktunum þeim sem Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti í Qaqortoq 7. ágúst 1991. Tillögurnar voru eftirfarandi:
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að reglum þeim, sem gilda um Þróunarsjóð Vestur-Norðurlanda, verði breytt í því skyni að unnt verði að veita áhættulán til atvinnustarfsemi í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi,
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að áframhaldandi starfsemi ferðamálanefndar Vestur-Norðurlanda verði tryggð með norrænum fjárframlögum og fjárframlögum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi,
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að staða vestnorrænu nefndarinnar innan skipulags norræns samstarfs verði metin í því skyni að gera nefndina eins hæfa og mögulegt er til að sinna þeim störfum sem fylgja auknu samstarfi Vestur-Norðurlanda,
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands feli þeim ráðherrum, sem fara með norræn samstarfsmál, meðferð vestnorrænna samstarfsmála ríkis- og landsstjórnanna og framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins,
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands tryggi fjármögnun vegna þeirra þriggja ráðstefna sem Vestnorræna þingmannaráðið ályktaði árið 1989 um að haldnar yrðu árið 1992. Vísað er til ályktunar Vestnorræna þingmannaráðsins nr. 4/1989, en þar ályktaði Vestnorræna þingmannaráðið um að árið 1992 yrði vestnorrænt ár og þá yrði sérstök áhersla lögð á jafnrétti kvenna og karla, umhverfismál og ungt fólk. Ráðstefnur yrðu haldnar um jafnréttismál á Íslandi, um umhverfismál á Grænlandi og ungmennaráðstefna yrði haldin á Færeyjum. Fjármagn til þessa yrði tryggt og fulltrúar landanna þriggja tilnefndir til að undirbúa Vestnorræna árið,
    að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands mundu sjá um að samningur sá, sem samgönguráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands gerðu í desember 1990 um samstarf um samgöngumál, kæmi strax til framkvæmda.
    Efni yfirlýsinga ráðsins var:
    að þeirri reglu yrði fylgt að sú stofnun eða atvinnustarfsemi, sem umhverfismengun berst frá, greiði það tjón sem af mengun hlýst, en ekki sá sem fyrir tjóni verður,
    að með tilliti til samningsviðræðna EFTA- og Evrópubandalagsríkjanna væri þörf á frekari beinum viðræðum milli vestnorrænu landanna um lausn vandamála tengdum fiskveiðum og aðgangi að mörkuðum Evrópubandalagsins þar sem fiskveiðar væru undirstöðuatvinnugrein í þeim löndum sem aðild eiga að Vestnorræna þingmannaráðinu. Vestnorræna þingmannaráðið fól, með tilliti til þess hve umræður um þessi mál milli ríkisstjórna og þingmanna landanna væru nauðsynlegar, skrifstofu sinni að kanna möguleika á því að ráðstefna verði haldin um þá þýðingu og þau áhrif sem „innri markaðurinn“ muni hafa fyrir vestnorrænu löndin með sérstakri hliðsjón af sjávarútvegi. Þátttakendur ráðstefnunnar skyldu vera jafnt úr hópi utanríkis- og sjávarútvegsráðherra sem og fulltrúa í þeim þingnefndum sem fjalla um samskiptin við Evrópubandalagið, ásamt öðrum aðilum sem hafa þekkingu og áhuga á þessum málum hvort sem þeir eru með eða á móti tengslum við Evrópubandalagið.

    Það kemur nú á þessu ári í þriðja sinn í hlut Íslands að halda ársfund Vestnorræna þingmannaráðsins og hefur þegar verið ákveðið að hafa fundinn á Akureyri 14.–16. júní 1992.

Alþingi, 21. febr. 1992.



Steingrímur J. Sigfússon,

Árni Johnsen,

Jón Helgason.


form.

varaform.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.