Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 262 . mál.


439. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1991.

    Í maí 1991, við upphaf nýs kjörtímabils, tilnefndu þingflokkarnir fimm þingmenn í nýja stjórn Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í samræmi við 3. gr. starfsreglna Íslandsdeildarinnar. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins voru tilnefndir Geir H. Haarde og Einar K. Guðfinnsson, Framsóknarflokkurinn tilnefndi Ólaf Þ. Þórðarson, Alþýðuflokkurinn tilnefndi Gunnlaug Stefánsson og Alþýðubandalagið Margréti Frímannsdóttur. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var Geir H. Haarde kjörinn formaður og Ólafur Þ. Þórðarson varaformaður. Þá var jafnframt samþykkt ósk þingflokks Kvennalistans um að Anna Ólafsdóttir Björnsson yrði áheyrnarfulltrúi á fundum stjórnarinnar.
    Á árinu 1991 tók Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins þátt í 86. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldið var dagana 7.–12. október 1991 í Santíagó í Síle. Þingið í Síle var hið síðara af þeim tveimur þingum sem haldin eru á ári hverju á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í vorþinginu í Pyongyang í Norður-Kóreu féll niður vegna kosninga til Alþingis sem haldnar voru á sama tíma. Þá tók Íslandsdeildin þátt í RÖSE-ráðstefnu Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldin var í Vín 1.–3. júlí 1991. Einnig var haldinn í Reykjavík 20. september 1991 samráðsfundur norrænu þjóðdeildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu.

A. RÖSE-RÁÐSTEFNA ALÞJÓÐAÞINGMANNASAMBANDSINS Í VÍN


    Dagana 1. til 3. júlí 1991 var haldin í Vínarborg ráðstefna um málefni RÖSE (ráðstefna um öryggi og samvinnu í Evrópu) á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Afskipti Alþjóðaþingmannasambandsins af þessum málum má rekja allt til 1970 þegar þing sambandsins hvatti stjórnvöld í austri og vestri til að efna til fundar um samvinnu og öryggi í Evrópu. Alþjóðaþingmannasambandið steig sjálft fyrsta skrefið í þessa átt með því að halda slíka ráðstefnu í Helsinki 1973 tveimur árum áður en hið fræga Helsinki-samkomulag var undirritað 1975. Alþjóðaþingmannasambandið hefur síðan 1973 haldið reglulega ráðstefnur um málefni RÖSE og hafa þær verið sóttar af þingmönnum frá ríkjunum sem aðild eiga að Helsinki-samkomulaginu. Það hefur verið skoðun Alþjóðaþingmannasambandsins að mikilvægt væri að þingmenn ræddust við um þessi mál sín í milli samhliða hinum opinberu viðræðum stjórnvalda.
    Ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins í Vínarborg var hin sjöunda í röðinni og sótt af þingmönnum frá þeim 35 ríkjum sem aðild eiga að RÖSE-samstarfinu. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu ráðstefnuna Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, og Ólafur Þ. Þórðarson varaformaður, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Ráðstefnan var haldin í skugga innanlandsátakanna í nágrannaríkinu Júgóslavíu og settu atburðirnir þar mjög svip á alla umræðu á ráðstefnunni. Sérstök ályktun var gerð um Júgóslavíumálið þar sem m.a. var hvatt til þess að ráðherraráð RÖSE kæmi saman til aukafundar til að fjalla um ófriðarástandið sem skapast hefur þar í landi. Í ræðum margra þingmanna kom fram beinn og óbeinn stuðningur við sjálfstæðiskröfur Slóvena og annarra þjóða Júgóslavíu. Þá samþykkti ráðstefnan einnig ítarlega ályktun um RÖSE-samstarfið þar sem m.a. var voru settar fram ýmsar ábendingar um þau verkefni sem fjalla þyrfti um á vettvangi RÖSE.
    Sérstök ávörp fluttu á ráðstefnunni Franz Vranitsky, kanslari Austurríkis, Jósef Antall, forsætisráðherra Ungverjalands, Alois Mock, utanríkisráðherra Austurríkis, Félix Pons Irazazabal, forseti spænska þingsins, og Claudio Vitalone sem flutti ræðu Andreottis, utanríkisráðherra Ítalíu, sem forfallaðist á síðustu stundu. Þeir þrír fyrstnefndu fjölluðu um RÖSE og stjórnmálaþróunina í Evrópu en sá síðastnefndi ræddi um hlutverk þingmannasamkundu RÖSE sem aðildarríki RÖSE hafa samþykkt að koma á fót og sem hefja mun störf á næsta ári. Formaður íslensku sendinefndarinnar, Geir H. Haarde, tók þátt í umræðum á ráðstefnunni. Hann fjallaði m.a. um framhald RÖSE-samstarfsins og málefni Eystrasaltsríkjanna og sagðist vona að þau gætu sem fyrst tekið fullan þátt í RÖSE-samstarfinu sem fullvalda ríki. Þá ræddi hann einnig um ástandið í Júgóslavíu og lagði á það áherslu að allar þjóðir, litlar sem stórar, ættu rétt á að ákvarða sjálfar framtíð sína.
    Á ráðstefnunni varð nokkur umræða um RÖSE-starf Alþjóðaþingmannasambandsins í framtíðinni. Ljóst er að eftir að sérstök þingmannasamkunda RÖSE hefur árlega fundi (sbr. skýrslu Björns Bjarnasonar til Alþingis 14. janúar 1992) er ekki lengur grundvöllur fyrir reglulegum ráðstefnum Alþjóðaþingmannasambandsins um RÖSE-málefni. Í þeim kafla Vínarályktunar er varðar RÖSE-starf Alþjóðaþingmannasambandsins í framtíðinni er þó gert ráð fyrir að á þingum sambandsins haldi sendinefndir frá RÖSE-ríkjunum einn fund til að skiptast á skoðunum um málefni RÖSE líkt og verið hefur. Jafnframt er lögð áhersla á náið samstarf Alþjóðaþingmannasambandsins við væntanlegt RÖSE-þing og bent á að sambandið geti verið mikilvægur tengiliður milli RÖSE-þingsins og þinga í öðrum heimsálfum þar sem enn er glímt við vandamál sem hugsanlega mætti leysa á svipaðan hátt og með RÖSE-samstarfinu. Í þessu sambandi er sérstaklega lagt til að ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kanni möguleika á að komið verði á fót stofnun fyrir Miðjarðarhafssvæðið er byggi á reynslu RÖSE-ríkjanna. Þá er í ályktuninni hvatt til að sambandið fái áheyrnarfulltrúa á þingi RÖSE líkt og Evrópuráðsþingið og Norður-Atlantshafsþingið.

B. NORRÆNT SAMSTARF


1.     Stuðningur við Eystrasaltsríkin.
    Í janúar 1991 beitti Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, er þá fór með forustu í norræna samstarfinu, sér fyrir sameiginlegum aðgerðum norrænu þjóðdeildanna til að mótmæla valdbeitingu sovéskra stjórnvalda í Litáen. Formenn norrænu deildanna skrifuðu Ivan D. Laptev, formanni Sovétdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, bréf þar sem atburðirnir í Litáen voru harðlega fordæmdir og hann og aðrir sovéskir þingmenn voru hvattir til að beita áhrifum sínum til að stöðva blóðbaðið í landinu og stuðla að friðsamlegri lausn er tryggði sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.
    Í apríl 1991 stóðu norrænu deildirnar fyrir ráðstefnu í Stokkhólmi til að kynna þingmönnum í Eystrasaltsríkjunum starf Alþjóðaþingmannasambandsins. Talið var að slík ráðstefna gæti verið gagnleg í ljósi þess að farið væri að styttast í það að Eystrasaltsríkin hlytu sjálfstæði og gætu þar með tekið þátt í starfi sambandsins. Ráðstefnan stóð frá 10.–12. apríl og var sótt af þingmönnum og embættismönnum frá öllum þremur þingunum í Eystrasaltsríkjunum auk þingmanna og embættismanna frá norrænu þingunum. Þar sem þingmenn á Íslandi voru bundnir af undirbúningi alþingiskosninganna sótti Þorsteinn Magnússon, ritari Íslandsdeildarinnar, ráðstefnuna af hálfu íslensku deildarinnar.

2.     Samráðsfundur norrænu deildanna í Reykjavík.
    Föstudaginn 20. september 1992 var samráðsfundur norrænu þjóðdeildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu haldinn í Reykjavík. Slíkir fundir eru ætíð haldnir stuttu fyrir þing Alþjóðaþingmannasambandsins og þar er farið yfir þau mál er liggja fyrir þinginu hverju sinni. Á Reykjavíkurfundinum var farið yfir dagskrá Santíagó-þingsins og rætt um afstöðu Norðurlandaþinganna til einstakra mála. Fundinn sátu formenn allra norrænu þjóðdeildanna, Ole Espersen frá Danmörku, Eino Siuruainen frá Finnlandi, Sigurd Holemark frá Noregi og Sture Ericson frá Svíþjóð auk starfsmanna. Af hálfu Íslandsdeildar sátu fundinn Geir H. Haarde, er stjórnaði honum, Einar K. Guðfinnsson og Þorsteinn Magnússon, ritari Íslandsdeildarinnar.

C. ÞING ALÞJÓÐAÞINGMANNASAMBANDSINS Í SANTÍAGÓ


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 84. þing í Santíagó í Síle dagana 7.–12. október 1991. Þingið sóttu fulltrúar frá 95 þjóðþingum, en aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga þingmenn á þjóðþingum 116 ríkja auk tveggja fjölþjóðaþinga, Evrópuþingsins og Andes-þingsins. Á þinginu voru einnig áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðinu. Forseti Síle, Patricio Aylwin Azocar, var við setningu þingsins og flutti ræðu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður deildarinnar, Gunnlaugur Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir og Einar K. Guðfinnsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Síleska þinginu var veitt aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu 1990 þegar lýðræðislegir stjórnarhættir voru teknir upp að nýju, en aðild þess að sambandinu féll niður í kjölfar valdaráns hersins 1973 þegar þingið var leyst upp. Með því að velja Santíagó sem fundarstað vildi Alþjóðaþingmannasambandið styrkja og lýsa stuðningi við lýðræðisþróunina í Síle.
    Skýrslan um þingið í Síle skiptist í fjóra meginþætti. Fyrst er fjallað um störf og ályktanir þingsins. Þá er gerð grein fyrir störfum og ákvörðunum ráðs sambandsins sem fundaði tvívegis meðan á þinginu stóð. Síðan er fjallað um störf óformlegra hópa á þinginu. Að síðustu eru nokkrar stuttar fréttir frá þinginu.

II. Störf og ályktanir þingsins.


1.     Umræðuefni þingsins.
    Á dagskrá þingsins í Santíagó voru að vanda tvö aðalumræðuefni. Hið fyrra var lýðræði sem almenn forsenda hagþróunar. Seinna umræðuefnið var aðgerðir til að koma í veg fyrir þjóðarmorð í ríkjum þar sem þjóðarbrot og minnihlutakynþættir sæta ofsóknum. Fyrir þinginu lágu jafnframt tillögur um viðbótarumræðuefni, en þingið getur tekið á dagskrá eitt viðbótarumræðuefni sem ákveðið er á þinginu sjálfu. Tillaga Ástrala um að fjallað yrði um mikilvægi fríverslunar í heiminum hlaut mest fylgi og var samþykkt. Þá voru einnig að vanda almennar stjórnmálaumræður.
    Almennt mótuðust umræður á þinginu mjög af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í alþjóðastjórnmálum, ekki síst lýðræðisbyltingunni í Austur-Evrópu og framsókn lýðræðishreyfinga í öðrum heimsálfum. Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í þessum umræðum sem og öðrum störfum þingsins. Nefna má m.a. að Geir H. Haarde flutti ræðu í umræðum um lýðræði og hagþróun og Gunnlaugur Stefánsson og Einar K. Guðfinnsson fluttu ræður í almennu stjórnmálaumræðunum. Geir ræddi m.a. um tengslin milli lýðræðislegra stjórnarhátta og velmegunar þegnanna og tók undir kröfu Eystrasaltsríkjanna um að sovéskur her hyrfi úr löndunum. Einar fjallaði m.a. um viðskiptafrelsi í heiminum og þá þýðingu sem það hefur fyrir bætt samskipti ríkja. Gunnlaugur fjallaði í ræðu sinni um mannréttindamál og kom sérstaklega inn á málefni pólitískra fanga í Síle en hann hafði áður átt fund með síleskum mannréttindasamtökum um það mál. Þá flutti Geir einnig ræðu í almennu stjórnmálaumræðunum fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs, auk þess sem það kom í hans hlut að gegna um tíma störfum þingforseta.

2.     Nefndastörf og ályktanir þingsins.
    Fyrir þinginu lágu frá ýmsum þjóðdeildum fjölmargar álitsgerðir og drög að ályktunum um tvö áðurgreind aðalefni sem þingið fjallaði um. Þá lágu einnig fyrir drög að ályktun frá Áströlum um viðbótarumræðuefnið. Að loknum löngum almennum umræðum um aðalumræðuefnin var ályktunardrögum og álitsgerðum vísað til hlutaðeigandi nefnda. Með hliðsjón af þeim gögnum gengu nefndirnar frá ályktunartillögum sem samþykktar voru einróma á síðasta degi þingsins. Við gerð ályktunarinnar um þjóðarmorð var lögð til grundvallar tillaga frá norrænu þjóðdeildunum sem danska deildin hafði haft veg og vanda af að undirbúa. Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessar ályktanir, sem og aðrar ályktanir og gögn frá þinginu, er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildarinnar.
    Um viðbótarumræðuefnið, fríverslun, urðu ekki almennar umræður, enda ekki venja, heldur var því strax vísað til einnar af fastanefndum þingsins. Að lokinni umræðu um málið í nefndinni var kjörin undirnefnd (drafting committee) til að vinna að ályktun nefndarinnar um málið. Geir H. Haarde var kjörinn í undirnefndina sem skipuð var fulltrúum tíu þinga. Undirnefndin kaus Geir formann og framsögumann sinn. Ályktunartillaga nefndarinnar var samþykkt af þinginu án mótatkvæða. Í ályktuninni voru ríkisstjórnir m.a. hvattar til að ljúka fyrir áramót hinum svokölluðu Úrúgvæ-viðræðum um nýjar GATT-reglur.
    Auk þeirra ályktana, sem nefndar hafa verið, voru samþykktar sérstakar ályktanir um ástand mála á Haíti og í Júgóslavíu.

3.     Kosningar í framkvæmdastjórn.
    Framkvæmdastjórn sambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum, auk forseta ráðsins, fundaði einnig meðan þingið stóð yfir. Veruleg breyting varð á skipan hennar á þinginu því að kjörtímabil fimm framkvæmdastjórnarmanna rann út á þinginu og voru nýir kjörnir í þeirra stað. Þeir voru frá Síle, Þýskalandi, Marokkó, Indónesíu og Japan.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Ráðið er hin formlega stjórn sambandsins og eiga í því sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Gunnlaugur Stefánsson í ráðinu. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu málum sem komu til umræðu og ákvörðunar ráðsins.

1.     Ný aðildarþing.
    Ráðið samþykkti að veita sex þjóðþingum, sem áður höfðu verið aðilar að sambandinu, aðild að því á ný. Þar var um að ræða þjóðþing Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litáen, auk þjóðþinga Kúvæt, Líberíu og Gana. Jafnframt var þingi Madagaskar vikið úr Alþjóðaþingmannasambandinu þar sem það uppfyllti ekki lengur aðildarskilyrði sambandsins. Eru aðildarþing sambandsins nú 116 en auk þess eiga Evrópuþingið og Andes-þingið aukaaðild að sambandinu. Eystrasaltsþingin sendu hvert einn fulltrúa á þingið og í ræðum, sem þeir fluttu við þetta tækifæri, var Norðurlöndum sérstaklega þakkaður stuðningur þeirra í sjálfstæðisbaráttunni og athygli vakti að Ísland var þar nefnt fyrst.

2.     Kosning forseta Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á þinginu rann út þriggja ára kjörtímabil D. Sow (frá Senegal), forseta ráðsins og þar með sambandsins. Í framboði voru tveir menn, annars vegar Sir Michael Marshall frá Bretlandi og Gohar Ayab Khan frá Pakistan. Sir Michael, sem einkum naut stuðnings fulltrúa Evrópu- og Ameríkuríkja, var kjörinn forseti með 60% atkvæða.

3.     Næstu þing og ráðstefnur.

    Ráðið tók ákvörðun um næstu þing og ráðstefnur á vegum sambandsins.
     a.     Þing Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Næstu þing verða sem hér segir:
    87. þing: Í Yaoundé í Kamerún 6.–11. apríl 1992.
    88. þing: Í Stokkhólmi 7.–12. september 1992.
    89. þing: Væntanlega í apríl 1993. Staður ekki ákveðinn.
    90. þing: Í Ástralíu, væntanlega í október 1993.
    91. þing: Í París 21.–26. mars 1994.
    92. þing: Í Kaupmannahöfn 12.–17. september 1994.
    93. þing: Í Madríd í apríl 1995.
    b.     Ráðstefna um öryggi og samvinnu á Miðjarðarhafssvæðinu.
    Ráðstefna um öryggi og samvinnu á Miðjarðarhafssvæðinu verður haldið í Malaga á Spáni 22.–27. júní 1992. Ekki er fyrirhuguð þátttaka á vegum Íslandsdeildar í þessari ráðstefnu.
    c.     Umhverfisráðstefna í Brasilíu.
    Ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins um umhverfismál er fyrirhuguð í október í Brasilíu. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þátttöku Íslandsdeildarinnar í þeirri ráðstefnu. Benda má hins vegar á að annað aðalumræðuefni þings sambandsins í Yaoundé í apríl 1992 verður umhverfismál og mun Íslandsdeildin senda fulltrúa á það þing.

4.     Mannréttindamál þingmanna.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins starfar sérstök fastanefnd sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Hefur verulegur árangur náðst í þessu efni á undanförnum árum. Í ráðinu var lögð fram ítarleg skýrsla þessarar nefndar og gerð grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum, sem nefndin hefur haft til rannsóknar, á þingmönnum í átta ríkjum . Ríkin, sem hér er um að ræða, eru Síle, Kólombía, Miðjarðarbaugs-Gínea, Hondúras, Indónesía, Maldív-eyjar, Mjanma (áður Burma) og Tyrkland. Þeim sem vilja kynna sér skýrslu mannréttindanefndarinnar sem er 95 síður er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildarinnar.

5.     Skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins lagði að vanda fram ítarlega ársskýrslu um störf sambandsins. Skýrslan er fróðleg lesning fyrir alla þá er vilja kynna sér starfsemi sambandsins.

6.     Fjárhagsáætlun Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á fundi ráðsins var lögð fram fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið 1991 og var hún samþykkt samhljóða. Í áætluninni er m.a. kveðið á um nýjar reglur við ákvörðun árgjalds einstakra aðildarþinga og er gert ráð fyrir að þær taki gildi smátt og smátt á næstu sex árum. Samkvæmt nýju reglunum lækkar framlag Alþingis úr 0,27% í 0,23%. Framlag Alþingis til rekstrar sambandsins á árinu 1992 er 21.252 svissneskir frankar sem næst 850.000 íslenskar krónur.

7.     Skýrslur sérnefnda.
    Fyrir ráðinu lágu skýrslur ýmissa sérnefnda. Þar er um að ræða skýrslu um ástand mála á Kípur, skýrslu um ástand mála í Mið-Austurlöndum og skýrslu um fjárhagsvanda og skuldir þriðja heimsins. Þessar skýrslur má fá hjá ritara Íslandsdeildarinnar.

8.     Samskipti við Sameinuðu þjóðirnar.
    Framkvæmdastjórn sambandsins lagði fram skýrslu um tengsl sambandsins við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

9.     Lagabreyting.
    Ráðið samþykkti breytingu á reglum er gilda varðandi fastanefndir þingsins. Sett var inn ákvæði þess efnis að við val í þær skuli reynt að gæta þess að þær séu skipaðar jafnmörgum konum sem körlum.

10.      Rannsókn á þátttöku kvenna í stjórnmálum.
    Á fundi ráðsins voru kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar á þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þær niðurstöður, sem kynntar voru, vörðuðu hlut kvenna á þjóðþingum. Skýrsluna má fá hjá ritara Íslandsdeildarinnar.

IV. Störf óformlegra hópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannsambandsins er mikið um fundi óformlegra hópa sem þingfulltrúar skiptast í. Verður hér gerð grein fyrir fundum þessara hópa og þátttöku Íslandsdeildarinnar eftir því sem við á.

1.     Fundir Norðurlandahópsins.
    Þjóðdeildir Norðurlanda í Alþjóðaþingmannasambandinu hafa með sér náið samstarf og skiptast á um að stýra þessu samstarfi. Íslendingar höfðu á hendi formennsku í hópnum frá haustþinginu 1990 í Punta del Este og fram til loka haustþingsins í Santíagó 1991. Sendinefndir Norðurlanda, samtals um 35 norrænir þingmenn, hittust tvívegis á meðan þingið í Santíagó stóð yfir og stýrði Geir H. Haarde þeim fundum. Í lok þingsins tóku Svíar við formennsku í norræna hópnum.

2.     Fundir Vesturlandahópsins (12-plúshópsins).
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum Vesturlandahópsins sem fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var afstaða til einstakra mála og þátttaka í nefndastarfi rædd. Við lok þingsins tóku Tyrkir við formennsku í hópnum en Svisslendingar höfðu þar formennsku á hendi á árinu 1991.
    Á fundi Vesturlandahópsins var lögð fram skýrsla nefndar sem falið var að gera tillögur um skipulag og starfshætti hópsins, sem og hvernig best megi aðstoða nýju lýðræðisþingin í Austur-Evrópu. Sumir þættir tillagnanna voru samþykktir en ákvörðun um aðra þætti var frestað til næsta þings.

3.     Fundir alþjóðasamtaka stjórnmálaflokka.
    Venja er að aðilar að alþjóðasamböndum stjórnmálaflokka hittist meðan þing sambandsins stendur. Á þessu þingi boðuðu bæði íhaldsmenn og jafnaðarmenn til slíks fundar. Geir H. Haarde og Einar K. Guðfinnsson sóttu fund þingmanna íhaldsflokka og Gunnlaugur Stefánsson sótti fund Alþjóðasambands jafnaðarmanna.

4.     Fundur kvenfulltrúa á þinginu.
    Konur, sem sitja þing Alþjóðaþingmannasambandsins, hafa síðan 1975 haldið með sér sérstakan fund á þinginu til að ráða ráðum sínum. Hópur sá, sem stendur fyrir þessum fundum, hefur með árunum orðið æ betur skipulagður og látið meira að sér kveða í starfi sambandsins. Á þinginu í Santíagó hélt hópurinn að venju fund með flestum kvenfulltrúanna.

V. Ýmislegt.


1.     Fundur um umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
    Í tengslum við þingið var efnt til sérstaks fundar með Maurice Strong, framkvæmdastjóra umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Rio De Janeiro í júní á þessu ári. Maurice Strong flutti fróðlegt erindi um umhverfismál og undirbúning ráðstefnunnar og svaraði fyrirspurnum þingmanna. Af hálfu íslensku sendinefndarinnar sóttu Margrét Frímannsdóttir og Gunnlaugur Stefánsson fundinn. Nefna má í þessu sambandi að þingið samþykkti tillögu frá norrænu þjóðdeildunum um að á næsta þingi sambandsins í Yaoundé í apríl nk. yrðu umhverfismál annað meginumræðuefna þingsins. Fyrirhugað er að þingið álykti um efnið og komi á framfæri við ráðstefnuna í Rio De Janeiro sjónarmiðum þingmanna í umhverfimálum.

2.     Ritari Íslandsdeildar í stjórn Rannsókna- og fræðslustofnunar sambandsins.
    Á fundinum í Santíagó skipaði framkvæmdastjórn sambandsins Þorstein Magnússon, ritara Íslandsdeildarinnar, í stjórn Rannsókna- og fræðslustofnunar sambandsins (Centre for Parliamentary Documentation), en í nefndinni sitja tveir þingmenn og fjórir embættismenn frá aðildarþingunum.

3.     Fjölmenn samkunda.
    Þing Alþjóðaþingmannasambandsins eru fjölmennustu þingmannasamkundur sem haldnar eru. Á þinginu í Santíagó voru saman komnir 460 þingmenn frá 95 þjóðþingum. Starfsmenn og aðrir fylgdarmenn voru 297 þannig að í heild sóttu þingið 757 manns.

4.     Umræður þýddar á spænsku.
    Á þinginu var samþykkt að umræður verði framvegis túlkaðar á spænsku. Fram að þessu hafa aðeins enska og franska verið hin opinberu tungumál sambandsins en þeir sem hafa viljað láta túlka umræður á öðrum tungumálum hafa orðið að gera það á eigin kostnað og hafa Japanir, Kínverjar, Rússar og Arabar gert slíkt. Gert er ráð fyrir að Arabar muni sækja það stíft á næstunni að arabíska verði einnig eitt af opinberum tungumálum sambandsins.

Alþingi, 20. febr. 1992.



Geir H. Haarde,

Ólafur Þ. Þórðarson.

Margrét Frímannsdóttir.


form.



Gunnlaugur Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.