Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 264 . mál.


442. Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1991.

I. ALMENN STARFSEMI ÞINGMANNANEFNDAR EFTA ÁRIÐ 1991


    Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, hefur á undanförnum árum aukið verulega gildi sitt innan EFTA og hafa verkefni nefndarinnar stöðugt aukist. Meginverkefni nefndinnar á árinu 1991 voru tvö. Hið fyrra var að fylgjast með samningagerð EFTA og Evrópubandalagsins, EB, um myndun Evrópska efnahagssvæðisins, EES, og gera tillögur að samstarfi þingmanna EFTA og EB á grundvelli samningsins í samvinnu við þingmenn Evrópuþingins í Strassborg. Hið síðara var að koma á samstarfi við þingmenn í þeim ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem EFTA hefur gert eða hyggst gera fríverslunarsamninga við á grundvelli samstarfsyfirlýsinga þessara ríkja og EFTA.
    Á 113. löggjafarþingi áttu Matthías Á. Mathiesen og Jón Sæmundur Sigurjónsson sæti í Íslandsdeild þingmannanefndarinnar og var Matthías jafnframt varaformaður þingmannanefndar EFTA. Á 114. löggjafarþingi voru Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson, Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeildinni á yfirstandandi kjörtímabili. Vilhjálmur Egilsson var kjörinn formaður deildarinnar. Eftir þessa breytingu eiga allir þingflokkar fulltrúa í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA, en deildin má senda fimm aðalmenn og tvo áheyrnarfulltrúa á fundi þingmannanefndarinnar þótt heimildin sé alla jafna ekki nýtt til fulls. Ritari Íslandsdeildarinnar er Þórður Bogason nefndaritari.
    Jón Helgason sat 22. fund þingamannanefndarinnar í Vínarborg þar sem ekki höfðu verið tilnefndir fulltrúar til setu í Íslandsdeildinni fyrir þann fund.
    Vilhjálmur Egilsson var á fundi þingmannanefndarinnar, sem haldinn var í Vínarborg í maí, kjörinn varaformaður nefndarinnar í stað Matthíasar Á. Mathiesen og mánuði síðar, á aðalfundi sem haldinn var í Reykjavík, var hann kjörinn formaður til eins árs.

1.     20. fundur nefndarinnar og ráðstefna um samstarf Evrópuríkja.
    Dagana 4.–5. febrúar 1991 hélt þingmannanefnd EFTA ráðstefnu þingmanna frá EFTA-ríkjunum, EB og lýðræðisríkjum Austur-Evrópu þar sem fjallað var um þróun samstarfs ríkja í Evrópu. Bar ráðstefnan heitið „Europe in Transition from Co-operation to Integration“. Til ráðstefnunnar var einnig boðið fulltrúum tíu alþjóðastofnana sem starfa í Evrópu. Fulltrúar Austur-Evrópuríkjanna fjögurra lýstu ástandi efnahagsmála í sínum ríkjum. Öll þessi ríki eiga við verulegan efnahagsvanda að etja og kom fram ósk þeirra eftir aðstoð Vestur-Evrópuríkja, bæði fjárhagslegri sem og tæknilegri. Fyrir ráðstefnuna var haldinn 20. fundur þingmannanefndarinnar. Á honum var Herbert Schmidtmeier frá Austurríki kosinn formaður nefndarinnar í stað dr. Peter Jankowitsch en hann tók sæti í ríkisstjórn Austurríkis í desember 1990. Í millitíðinni gegndi Matthías Á. Mathiesen, varaformaður nefndarinnar, störfum formanns. Á þeim fundi var ákveðið að senda formanni utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins, REX-nefndarinnar (the European Parliament's Committee on External Economic Relations), bréf þar sem stungið var upp á stofnun vinnuhóps sem kannaði hvernig samstarfi þingmanna EFTA og EB innan EES gæti verið háttað. Er gerð nánari grein fyrir störfum þessa vinnuhóps í lið 3.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Matthías Á. Mathiesen, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Þórður Bogason ritari.

2.     21. fundur nefndarinnar og 5. fundur með ráðherrum EFTA-ráðsins.
    Á fundi EFTA-ráðsins í desember 1989 var ákveðið að auka samráð ráðsins við þingmannanefndina með því að halda sameiginlega fundi eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Árið 1990 voru þessir samráðsfundir haldnir ársfjórðungslega. Fimmti samráðsfundur EFTA-ráðsins og þingmannanefndarinnar var haldinn í Genf 1. mars 1991. Meginefni fundarins var sem fyrr staða samningaviðræðna EFTA og EB um myndun Evrópska efnahagssvæðisins og samskipti EFTA við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Var ráðherrum gerð grein fyrir niðurstöðum ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var 4.–5. febrúar. Þingmannanefndin kom á framfæri við ráðherrana tillögu um stofnun sameiginlegs EFTA-sjóðs til að styrkja umhverfisverndandi framkvæmdir í Mið- og Austur-Evrópu vegna brýnnar nauðsynjar þessara landa á efnahagslegu og tæknilegu samstarfi við þjóðir Vestur-Evrópu. Einnig benti þingmannanefndin á nauðsyn þess að styrkja stöðu og hlutverk nefndarinnar innan EFTA með því að setja ákvæði um hana inn í Stokkhólmssáttmálann, stofnsamning EFTA, við næstu endurskoðun hans.
    Á 21. fundi þingmannanefndarinnar, sem haldinn var sama dag og ráðherrafundurinn, voru fundir vinnuhóps nefndarinnar og Evrópuþingsins um samstarf þingmanna innan EES undirbúnir.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Matthías Á. Mathiesen og Jón Sæmundur Sigurjónsson.

3.     Vinnuhópur um samstarf þingmanna innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í framhaldi af bréfi þingmannanefndarinnar til formanns REX-nefndarinnar í byrjun febrúar var ákveðið að koma á fót vinnuhópi sem móta átti tillögur til samningamanna EFTA og EB um hvernig haga mætti ákvæðum EES-samningsins um samstarf þingmanna. Í vinnuhópnum áttu sæti fulltrúar þingmannanefndarinnar, REX-nefndarinnar og stjórnmálanefndar Evrópuþingsins (European Parliament's Political Affairs Committee). Vinnuhópurinn hittist tvisvar í Strassborg dagana 18. apríl og 16. maí 1991. Kom hópurinn sér saman um tillögur til þess að leggja fyrir þingmannanefndina og nefndir Evrópuþingsins. Í tillögunum var gert ráð fyrir að inn í EES-samninginn yrðu sett ákvæði um þingmannaráðstefnu EES (The Parliamentary Conference for the EEA). Meginefni tillagnanna gerði ráð fyrir því að ráðstefnan kæmi saman fjórum sinnum á ári og skyldi hún skipuð jafnmörgum þingmönnum frá hvorum samningsaðila. Helsta hlutverk hennar átti að vera að tryggja lýðræðislegt eftirlit með framkvæmd EES-samningsins og vera EES-ráðinu til ráðgjafar.
    Vegna kosninga til Alþingis sótti Þórður Bogason, ritari Íslandsdeildarinnar, fundina sem áheyrnarfulltrúi.

4.     22. fundur nefndarinnar og 6. fundur með ráðherrum EFTA-ráðsins.
    Á 22. fundi nefndarinnar, sem og 6. ráðherrafundinum, voru aðalumræðuefnin staða EES-samningaviðræðnanna og tillögur vinnuhóps nefndarinnar um samstarf þingmanna EFTA og EB. Voru tillögur vinnuhópsins samþykktar á fundi þingmannanefndarinnar og þær kynntar á ráðherrafundinum. Á sérstökum fundi með þingmannanefndinni flutti dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins, erindi um stjórnmál þar í landi og uppbyggingu þingsins.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu fundina Vilhjálmur Egilsson, Jón Helgason og Þórður Bogason ritari.

5.     Vinnuhópur um landbúnað, fisk og unnin matvæli.
    Í tengslum við fundi þingmannanefndarinnar í Vínarborg kom vinnuhópurinn um landbúnað, fisk og unnin matvæli saman. Vinnuhópurinn ákvað að kanna sérstaklega landbúnaðarákvæði EES-samningsins og fylgjast með framgangi GATT-samningaviðræðna að því er þennan málaflokk varðar. Þá ákvað vinnuhópurinn einnig að fylgjast sérstaklega með gerð fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna og ríkja Mið- og Austur-Evrópu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn Vilhjálmur Egilsson, Jón Helgason og Þórður Bogason ritari.

6.     23. fundur, aðalfundur nefndarinnar, og 6. fundur með Evrópuþingmönnum.
    Aðalfundur þingmannanefndarinnar var haldinn í Reykjavík dagana 18.–20. júní 1991. Í upphafi fundarins var Viljálmur Egilsson kjörinn formaður þingmannanefndarinnar til eins árs og Lennart Pettersson frá Svíþjóð varaformaður. Því næst fjallaði Berndt Olof Johansson, varaframkvæmdastjóri EFTA, um stöðu EES-samninganna og starfsmenn EFTA lýstu helstu þáttum samningsins. Rætt var um samstarf þingmanna EFTA og EB sérstaklega með tilliti til komandi fundar með Evrópuþingmönnum. Nefndin ræddi að lokum um vinnuhóp hennar um landbúnaðarmál, fisk og unnin matvæli. Að tillögu formanns vinnuhópsins, Johan C. Løken frá Noregi, var ákveðið að endurnýja umboð hópsins í samræmi við þær ákvarðanir sem hann tók á fundinum í Vínarborg mánuði áður. Sama dag og þessi fundur fór fram funduðu ráðherrar EFTA og EB í Lúxemborg um EES. Sendi þingmannanefndin EFTA-ráðherrum skeyti þar sem ítrekuð var afstaða nefndarinnar til ákvæða EES-samningsins er varða samstarf þingmanna.
    Þann 19. júní var haldinn fundur með þingmönnum Evrópuþingsins. Fyrst var rætt um samstarf þingmanna EFTA og EB en Evrópuþingið samþykkti ályktun um það 14. júní 1991. Sú ályktun var ekki í fullu samræmi við niðurstöður vinnuhópsins sem kom saman um vorið og þótti þingmannanefnd EFTA nokkuð vanta á til þess að þingmannasamstarf innan EES hefði eitthvert gildi. Náðist sameiginleg niðurstaða um atriði sem bæta þyrfti við ályktun Evrópuþingsins til þess að báðir aðilar gætu vel við unað og gerði formaður þingmannanefndarinnar forseta Evrópuþingsins bréflega grein fyrir því. Berndt Olof Johansson, varaframkvæmdastjóri EFTA, og Robert Cohen, skrifstofustjóri EFTA-málefna hjá framkvæmdastjórn EB, fóru því næst yfir niðurstöður ráðherrafundar EFTA og EB frá því deginum áður. Á fundinum var nokkuð rætt um samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu og þingmenn Evrópuþingsins reifuðu hugmyndir um breytingar á EB. Í lok fundarins var samþykkt að senda ályktun til ráðherra EFTA og EB til að ítreka samstöðu fundarmanna um nauðsyn samstarfs þingmanna innan EES.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn Vilhjálmur Egilsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson, Össur Skarphéðinsson og Þórður Bogason ritari.
    Að fundum loknum fóru fundargestir í eins dags skoðunarferð. Fjölmargir aðilar lögðu sitt af mörkum til þess að þessir fundir heppnuðust sem best og er óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til varðandi skipulag fundanna. Einnig ríkti almenn ánægja með efnislega niðurstöðu þeirra. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA vill þakka þeim mörgu sem lögðu sitt af mörkum til þess að fundirnir heppnuðust sem best. Ekki spillti fyrir að alla þrjá dagana var einstaklega fallegt sumarveður á Íslandi.

7.     Aukafundur dagskrárnefndar.
    Í dagskrárnefnd þingmannanefndarinnar mega sitja tveir fulltrúar frá hverju landi og er hlutverk nefndarinnar, eins og nafnið bendir til, að gera tillögur að dagskrá og verkefnum þingmannanefndarinnar. Ástæða þótti til að kalla dagskrárnefndina saman til aukafundar 9. september. Farið var yfir stöðu mála frá Reykjavíkurfundi og rætt um bréf sem formaður þingmannanefndarinnar ritaði formanni EFTA-ráðsins í júlí og ágúst en í þeim var bent á mikilvægi þess að farið yrði að tillögum þingmannanefndarinnar þegar gengið yrði frá ákvæðum EES-samningsins um samstarf þingmanna. Rætt var um þann samningstexta sem var fyrirliggjandi og mættu fulltrúar samningahóps V, sem fjallar um stofnanamál EES, á fundinn og fjölluðu um ákvæðin. Nokkur umræða spannst um rétt til tilnefningar af hálfu EFTA til setu í þingmannanefnd EES. Þingmannanefnd EFTA hafði mælt með því að nefndin tilnefndi menn til setu í samstarfsnefndinni þar sem svo náin tengsl yrðu milli þingmannanefndar EFTA og væntanlegrar þingmannanefndar EES að nauðsynlegt væri að sömu þingmenn sætu í báðum nefndum af hálfu EFTA. Þessu höfnuðu samningamenn EFTA og gerðu ráð fyrir því í samningstexta að hvert þjóðþing tilnefndi þingmenn í nefndina. Studdu finnsku þingmennirnir þessa niðurstöðu en aðrar þjóðdeildir vildu halda sig við fyrri texta. Fundarmenn voru þó sammála um að nauðsynlegt væri að þjóðþing EFTA-ríkjanna tilnefndu sömu þingmenn bæði í þingmannanefnd EFTA og EES. Þingmannanefnd EFTA lýsti á fundinum þeirri skoðun sinni að þar sem hún hefði átt áralangt samstarf við þingmenn Evrópuþingsins og væri eðlilegur mótaðili þeirra bæri ríka nauðsyn til þess að nefna hana á nafn í EES-samningnum. Á fundinum var einnig rætt um hauststarf þingmannanefndarinnar.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Guðrún Helgadóttir.

8.     24. fundur nefndarinnar og fundur með formanni EFTA-ráðsins.
    Fimmtudaginn 24. október 1991 var 24. fundur þingmannanefndar EFTA haldinn í aðalstöðvum samtakanna í Genf í Sviss. Fyrir fundinn kom dagskrárnefnd saman til að undirbúa fundinn. Í beinu framhaldi af 24. fundinum átti nefndin fund með Pertti Salolainen, formanni EFTA-ráðsins. Á fundi þingmannanefndarinnar var rætt um niðurstöðu samningaviðræðna um Evrópskt efnahagssvæði, EES, að því er varðar samstarf þingmanna EFTA og EB. Var lögð áhersla á að sömu þingmenn verði tilnefndir af hálfu EFTA-ríkjanna til setu í báðum nefndunum samtímis þar sem starf nefndanna verður samofið og augljóst það óhagræði sem hlýst af því ef tveir mismunandi þingmannahópar fjalla um sömu málefnin. Í framhaldi af þessum umræðum var nokkuð rætt um framtíðarstöðu nefndarinnar innan EFTA og hugsanlega breytingu á Stokkhólmssáttmálanum. Þá var rætt um undirbúning fyrir fund sem nefndin mun eiga með REX-nefndinni í desember. Var samþykkt að gera ekki frekari athugasemdir við ákvæði EES-samningsins um samstarf þingmanna en hefja viðræður við þingmenn Evrópuþingsins um fundarsköp fyrir þingmannanefnd EES. Á fundinum var einnig rætt um samskipti EFTA við önnur ríki en þau sem aðild eiga að Evrópubandalaginu. Samtökin höfðu skömmu fyrir þennan fund ritað undir fríverslunarsamning við Tyrkland og unnið er að gerð fríverslunarsamninga við Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland. Þingmannanefndin hefur átt fundi með þingmönnum frá þremur síðastnefndu ríkjunum og hyggst auka samstarf við þá á grundvelli yfirlýsingar sem EFTA-ríkin og þessi ríki gáfu í Gautaborg 1990 og fríverslunarsamningarnir eru byggðir á. Rætt var um að í framtíðinni gætu fylgt tengsl þingmannanefndarinnar við Eystrasaltsríkin og önnur lönd sem EFTA kann að gera fríverslunarsamninga við. Undir liðnum önnur mál var rætt um niðurstöður nýafstaðinna kosninga í Sviss og Svíþjóð. Á fundinum var Nic Grönvall frá Svíþjóð kjörinn varaformaður nefndarinnar í stað Lennart Pettersson sem ekki gaf kost á sér í kjöri til sænska þingsins.
    Á fundi nefndarinnar með Pertti Salolainen, formanni EFTA-ráðsins, gerði hann grein fyrir þeirri niðurstöðu sem náðst hafði í samningum um EES og því starfi sem fram undan væri varðandi samþykkt samningsins í hinum einstöku EFTA-ríkjum. Salolainen var ánægður með hlut EFTA í samningunum þegar EES-samningur væri metinn í heild sinni. Að loknum fyrirspurnum til Salolainen og umræðum tók Antti Hynninen sendiherra, fastafulltrúi Finnlands hjá EFTA, til máls og lýsti tengslum EFTA við önnur ríki en EB-ríkin og hvers væri að vænta í því sambandi. Auk þeirra fríverslunarsamninga, sem áður voru tilgreindir, við Tyrkland, Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland er unnið að samningum við Ísrael og samningaumleitanir hafa þegar hafist við Búlgaríu og Eystrasaltsríkin. Vegna ófriðar í Júgóslavíu hefur ekki verið unnt að vinna að frekara samstarfi í bili.
    Fundina sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Páll Pétursson, Össur Skarphéðinsson og Þórður Bogason ritari.

9.         25. fundur nefndarinnar, 7. fundur með þingmönnum EB, 7. fundur með ráðherrum EFTA-ráðsins og fundur með þingmönnum frá Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi.
    Þingmannanefndin hélt dagana 9. og 10. desember 1991 nokkra fundi þar sem fjallað var annars vegar um samstarf þingmanna EFTA og Evrópuþingsins með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar um aukið samstarf við þingmenn frá Mið- og Austur-Evrópu með tilkomu fríverslunar- eða samstarfssamninga EFTA við æ fleiri ríki á þessu svæði. Fyrsti fundur nefndarinnar var óformlegur og haldinn til undirbúnings fyrir fund með þingmönnum frá Evrópuþinginu. Georg Reisch, framkvæmdastjóri EFTA, gaf nefndarmönnum skýrslu um nýjustu stöðu samningamála og umfjöllun dómstóls Evrópubandalagsins um samninginn. Strax að loknum þessum fundi hófst 7. samráðsfundur þingmannanefndarinnar og REX-nefndarinnar í Strassborg. Aðalumræðuefni fundarins voru nýgerður samningur um Evrópskt efnahagssvæði og samstarf þingmanna innan svæðisins. Auk nefndarmanna í þessum tveimur nefndum sátu fundinn Pertti Salolainen, formaður ráðherraráðs EFTA, Georg Reisch, framkvæmdastjóri EFTA, Robert Cohen frá framkvæmdastjórn EB, Marie Jepsen, talsmaður stjórnmálanefndar Evrópuþingisins í málefnum EFTA, og nokkrir embættismenn. Rætt var sérstaklega um þá grein samningsins um EES sem fjallar um samstarf þingmanna Evrópuþingsins og þingmanna EFTA-ríkjanna. Þingmenn EFTA og EB höfðu rætt um á Reykjavíkurfundi sínum hvernig þessi grein skyldi orðuð og formaður þingmannanefndar EFTA kom athugasemdum nefndarinnar á framfæri við aðalsamningamenn um EES. Eins og fram hefur komið áður var ekki tekið tillit til allra þeirra athugasemda sem þingmenn komu á framfæri en á 24. fundi sínum samþykkti þingmannanefndin að gera ekki athugasemdir við ákvæði um samstarf þingmanna EFTA og EB í endanlegri mynd sinni. Ákvað nefndin enn fremur að hefja viðræður við REX-nefndina um reglur fyrir þingmannanefnd EES. Efni fundarins 9. desember snerist hins vegar meira um efni ákvæðis EES-samningsins um samstarf þingmanna og voru skoðanir Evrópuþingmanna um ágæti greinarinnar og samningsins í heild mjög skiptar. Þingmannanefnd EFTA breytti ekki afstöðu sinni til þessa ákvæðis samningsins á fundinum með Evrópuþingmönnum enda var ekki unnt að fá fram samræmda afstöðu Evrópuþingsmanna. Töldu þingmenn frá EFTA-ríkjunum að leiðtogafundur EB í Maastricht sem fram fór um svipað leyti og sú ákvörðun dómstóls EB að taka stofnanaþátt EES-samningsins til endurskoðunar gætu hafa valdið einhverju um ómarkvissa afstöðu þingmanna Evrópuþingsins. Í lok fundarins var ákveðið að halda næsta fund nefndanna í Linkøping í Svíþjóð 23.–25. júní 1992. Einnig var skipaður samstarfshópur nefndanna til að vinna að reglum um samstarf þingmanna innan EES. Evrópuþingmenn tilnefndu talsmann REX-nefndarinnar um EFTA-málefni, Giorgio Rosetti, og Marie Jepsen, en þingmannanefnd EFTA tilnefndi formann nefndarinnar, Vilhjálm Egilsson, varaformann hennar, Nic Grönvall frá Svíþjóð, og fyrrverandi formann, Herbert Schmidtmeier frá Austurríki.
    Daginn eftir, 10. desember, hélt þingmannanefndin sinn 25. fund og var hann haldinn í Genf. Aðalumræðuefni þess fundar var tillögur að breytingu á störfum nefndarinnar með tilliti til aukinnar umfjöllunar um málefni EES og EFTA. Samkvæmt tillögunum gegnir nefndin enn sem fyrr ráðgefandi hlutverki innan EFTA en unnt verður að afgreiða ályktanir um efnisatriði með meiri hluta atkvæða nefndarmanna en álit minni hluta skal fylgja áliti meiri hluta. Áður þurfti samþykki allra. Breyting á skipulagi nefndarinnar og fundarsköpum þarf hins vegar samþykki tveggja þriðju hluta þeirra sendinefnda frá þjóðþingum sem sæti eiga í nefndinni. Samkvæmt tillögunum mun Íslandsdeildin eiga þrjá aðalmenn og þrjá til vara í nefndinni, en heimilt verður að hafa tvo áheyrnarfulltrúa á fundum. Tillögurnar voru samþykktar og framsendar EFTA-ráðinu með ósk um að ákvæðin yrðu tekin upp í Stokkhólmssáttmála EFTA. Einnig var á þessum fundi fjallað um þau málefni sem efst voru á baugi á fundinum með Evrópuþingmönnum og undirbúning undir fund með ráðherrum EFTA-ráðsins síðar um daginn.
    Á fundi þingmannanefndarinnar með ráðherrum EFTA-ráðsins var fjallað nokkuð um EES-samninginn og þátt þingmanna í eftirliti með framkvæmd samningsins. Einnig var fjallað um samstarf EFTA við ríki sem ekki eru í EB en nefndin ræddi þessi mál á 24. fundi sínum.
    Síðdegis 10. desember átti þingmannanefndin fund með þingmönnum frá Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi, en þess er vænst að ríkin undirriti bráðlega fríverslunarsaminga við EFTA. Var rætt um hvernig auka mætti samstarf milli þingmannanefndar EFTA og þingmanna frá þessum ríkjum. Var samþykkt að þingmenn samtakanna og þingmenn frá Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og væntanlega Póllandi hittist tvisvar á ári á samráðsfundum.
    Fundina sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson og Þórður Bogason ritari.

II. ÖNNUR STARFSEMI


1.     Ráðstefna þingmanna um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu.
    Finnska þingið bauð til ráðstefnu þingmanna um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu (Parliamentary Conference on Co-operation in the Baltic Sea Area) dagana 7.–9. janúar 1991. Sat Matthías Á. Mathiesen ráðstefnuna fyrir hönd þingmannanefndar EFTA.

2.     Aukaþing Norðurlandaráðs í Maríuhöfn.
    Þingmannanefnd EFTA átti áheyrnarfulltrúa á aukaþingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn á Álandseyjum sem haldið var 13. nóvember 1991.

3.     Ráðstefna Kengúruhópsins í Madríd.
    Innan Evrópuþingsins starfar svokallaður Kengúruhópur (The Kangaroo Group, The Movement for Free Movement) sem vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum innan Evrópu. Hópurinn hélt 6. ársfund sinn í Madríd 4. og 5. nóvember 1991. Bauð hópurinn Vilhjálmi Egilssyni, formanni þingmannanefndarinnar, til fundarins og hélt hann fyrirlestur um Evrópska efnahagssvæðið.

Alþingi, 24. febr. 1992.



Vilhjálmur Egilsson,

Eyjólfur Konráð Jónsson.

Guðrún Helgadóttir.


form.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Páll Pétursson.

Össur Skarphéðinsson.