Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 180 . mál.


458. Nefndarálit



um till. til þál. um fráveitumál sveitarfélaga.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna samhliða þingsályktunartillögu um skolphreinsun, 194. mál. Fékk nefndin á sinn fund Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og ræddi við hann um efni tillagnanna. Einnig bárust umsagnir frá Fjórðungssambandi Norðlendinga, Hollustuvernd ríkisins, Iðntæknistofnun Íslands, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.
    Báðar þær þingsályktunartillögur, sem hér um ræðir, voru lagðar fram á haustþingi. Tillagan um fráveitumál sveitarfélaga, 180. mál, gerði ráð fyrir því að umhverfisráðherra yrði falið að gera úttekt á stöðu fráveitumála hjá sveitarfélögum í landinu, meta kostnað við úrbætur og gera tillögur um hvernig sveitarfélögum yrði auðveldað að standa undir kostnaði við úrbætur. Tillagan um skolphreinsun, 194. mál, gerði ráð fyrir hönnun skolphreinsibúnaðar sem hæfði íslenskum aðstæðum og möguleika á framleiðslu slíks búnaðar hérlendis.
    Þann 12. febrúar 1992 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að gera úttekt á ástandi fráveitumála, móta stefnu og gera tillögur um bætta skipan fráveitumála í landinu, svo og semja kostnaðaráætlun þar að lútandi. Nefndinni er ætlað að kanna ástand fráveitumála um land allt og benda á leiðir til úrbóta sem bæði taka mið af sérstöðu Íslands og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar hafa tekið á sig eða líklegt er að þeir muni gera. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, Siglingamálastofnunar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Samtaka tæknimanna sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndinni er ætlað að skila áfangaskýrslu fyrir 15. september 1992 og tillögum um nauðsynlegar úrbætur ásamt greinargerð í upphafi árs 1993.
    Umhverfisnefnd fagnar því að umhverfisráðherra hafi skipað starfshóp til að gera úttekt á ástandi fráveitumála sem byggir m.a. á efni þeirra tillagna sem fyrir umhverfisnefnd lá að afgreiða. Nefndin telur þó nauðsynlegt að árétta nokkur atriði um leið og hún vill styðja þetta framtak með því að leggja til að Alþingi álykti um það. Hefur verið valin sú leið að flytja breytingartillögu við 180. mál en með hliðsjón af efni 194. máls og lítur nefndin svo á að afgreiðslu beggja þessara mála sé þar með lokið.
    Umhverfisnefnd vill benda á nauðsyn þess að nefnd sú, sem gerir úttekt á ástandi fráveitumála, skili tillögum sínum í upphafi árs 1993. Einnig að nefndin kanni hvaða íslensk tækniþekking og útbúnaður er fyrirliggjandi varðandi skolphreinsun. Þá telur umhverfisnefnd mjög mikilvægt að metinn verði kostnaður við úrbætur og að gera þurfi tillögur um hvernig megi auðvelda sveitarfélögum að standa undir honum. Umhverfisnefnd leggur sérstaka áherslu á að úrbótatillögur nefndarinnar taki mið af að fráveitumál byggðanna verði leyst til frambúðar frá sjónarhóli umhverfisverndar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingartillögu sem flutt er á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 20. febr. 1992.



Gunnlaugur Stefánsson,

Tómas Ingi Olrich.

Hjörleifur Guttormsson.


form., frsm.



Árni Ragnar Árnason.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristín Einarsdóttir.



Ólafur Ragnar Grímsson.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Árni M. Mathiesen.