Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 31 . mál.


482. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Á undan 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  B-liður 3. gr. laganna orðist svo:
                  Að varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóð er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Gjaldeyrisvarasjóðurinn skal varðveittur, eftir því sem unnt er, í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innlánum og gjaldeyri sem nota má til greiðslu hvar sem er.
    2. gr. orðist svo:
                  18. gr. laganna orðist svo:
                  Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar skuli skilgreint gagnvart einum erlendum gjaldmiðli, meðaltali erlendra gjaldmiðla eða samsettum gjaldmiðli, svo sem evrópsku mynteiningunni (ECU) og sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR). Ákvörðun þar að lútandi skal birt með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Jafnframt er heimilt að ákveða sérstakt hámarks- og lágmarksgengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri erlendu gengisviðmiðun sem valin hefur verið. Seðlabankinn kaupir og selur erlendan gjaldeyri eða beitir öðrum aðgerðum sem hann telur nauðsynlegar og hlutast með þeim hætti til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem þannig kunna að verða ákveðin.
                  Seðlabankinn skal hvern þann dag, sem bankastofnanir eru almennt opnar til viðskipta, skrá sérstaklega, á þeim tíma dagsins sem hann ákveður, gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin.
                  Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn fellt niður eigin gengisskráningu og takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulögðum gjaldeyrismarkaði.
                  Seðlabankanum er heimilt að setja nánari reglur um gengisskráningu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði.