Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 432 . mál.


690. Frumvarp til laga



um Fiskistofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



I. KAFLI


1. gr.


    Fiskistofa skal starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Fiskistofa heyrir undir sjávarútvegsráðherra.

2. gr.


    Fiskistofa skal annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Þá skal Fiskistofa hafa með höndum eftirlit með framleiðslu og meðferð sjávarafurða. Fiskistofa skal annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála sem og önnur verkefni sem stofunni verða falin með lögum eða ákvörðun ráðherra.

3. gr.


    Sjávarútvegsráðherra ræður fiskistofustjóra er veitir Fiskistofu forstöðu.
     Sjávarútvegsráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skipulag og starfsemi Fiskistofu.

4. gr.


    Fiskistofa getur með heimild ráðherra og að höfðu samráði við Hagstofu Íslands falið Fiskifélagi Íslands söfnun tiltekinna upplýsinga, úrvinnslu þeirra og útgáfu hagskýrslna á sviði sjávarútvegsmála.

II. KAFLI


Breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða.


5. gr.


    Orðið „ráðherra“ í lok 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna fellur niður.

6. gr.


    Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneytið“ í 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna kemur orðið: Fiskistofa.

7. gr.


    Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneytið“ í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur orðið: Fiskistofa.

8. gr.


    Á 6. mgr. 11. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
    Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.
    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 3. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.
    Í stað orðsins „ráðuneytis“ í 4. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.

9. gr.


    Á 12. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.
    Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneytinu“ í 2. mgr. greinarinnar kemur orðið: Fiskistofu og í stað orðsins „ráðuneytið“ í sömu málsgrein kemur orðið: stofan.
    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 3. mgr. kemur orðið: Fiskistofu.
    1. málsl. 4. mgr. greinarinnar orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 25% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður.

10. gr.


    Á 15. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur orðið: Fiskistofa.
    Í stað orðsins „ráðuneytis“ í lok 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.
    Í stað orðanna „Fiskifélagi Íslands“ í 2. mgr. greinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.

11. gr.


    Á 3. mgr. 16. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofa.
    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 2. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofu.
    Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 3. málsl. málsgreinarinnar kemur orðið: Fiskistofa og í stað orðsins „ráðuneytisins“ í sama málslið kemur orðið: stofunnar.

12. gr.


     Í stað orðsins „Sjávarútvegsráðuneytið“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur orðið: Fiskistofa.

III. KAFLI


13. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 1992. Ákvæði 2. málsl. 2. gr. laganna koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1993. Frá 1. september 1992 falla úr gildi lög nr. 55/1941, um afla- og útgerðarskýrslur.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hefur stjórnsýsla á sviði sjávarútvegsins tekið miklum breytingum bæði að eðli og umfangi. Vega þar þyngst breytingar sem orðið hafa á stjórn fiskveiða og sívaxandi kröfur um aukið og bætt upplýsingastreymi um ýmsa þætti sjávarútvegsmála. Þessum breytingum hefur ekki verið fylgt eftir með skipulagsbreytingum á stjórnsýslunni. Þess í stað hefur nýjum verkefnum verið bætt á þær stofnanir sem fyrir voru. Á það einkum við um sjávarútvegsráðuneytið en þar hafa litlar sem engar breytingar verið gerðar á skipulagi og mannahaldi undanfarin ár. Afleiðing þessarar þróunar er sú að í sjávarútvegsráðuneytinu eru nú unnin fjölmörg afgreiðslu- og eftirlitsverkefni. Mörg þessara verkefna þykja betur komin í sérstakri undirstofnun, bæði vegna þess að réttaröryggi ætti almennt að aukast með tveimur stjórnsýslustigum og eins vegna hins að þá gefst ráðuneytinu betri tími til að sinna stefnumótandi verkefnum.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót Fiskistofu sem yrði lægra stjórnsýslustig á sjávarútvegssviðinu. Fiskistofa yrði opinber stofnun og starfaði á ábyrgð sjávarútvegsráðherra. Tilgangur þeirra skipulagsbreytinga, sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, er að bæta framkvæmd og auka skilvirkni í stjórnsýslu á sviði sjávarútvegsmála.
     Verkefni Fiskistofu verður að annast framkvæmd laga og reglna varðandi ýmsa viðamikla þætti á sjávarútvegssviðinu. Í fyrsta lagi verður Fiskistofu falið að annast daglega stjórn fiskveiðanna og eftirlit með fiskveiðum. Í öðru lagi að annast söfnun og skráningu opinberra upplýsinga um þau atriði sem máli skipta við stjórnsýslu á sjávarútvegssviðinu. Er hér einkum átt við upplýsingar um afla og framleiðslu sjávarafurða. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Fiskistofa fari með mál er tengjast gjaldtöku vegna ólögmæts sjávarafla en sérstakt frumvarp verður lagt fram um það efni á þessu þingi. Í fjórða lagi mun stofunni verða falið að annast opinbert eftirlit með meðferð sjávarafurða og framleiðslu þeirra en frumvarp um það efni mun einnig verða lagt fram á þessu þingi.
     Þau verkefni, sem Fiskistofu verða falin samkvæmt frumvarpi þessu, eru nú unnin í sjávarútvegsráðuneyti, veiðieftirliti, Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnun og Ríkismati sjávarafurða.
     Fiskistofu er samkvæmt frumvarpinu falið að annast útgáfu leyfa til veiða í atvinnuskyni við upphaf hvers fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Enn fremur verður Fiskistofu falið að annast útgáfu veiðileyfa til nýrra skipa er koma í stað eldri skipa sem veiðileyfi hafa. Þá annist Fiskistofa útgáfu ýmissa sérveiðileyfa t.d. leyfa til veiða á hörpuskel, innfjarðarrækju, veiða með dragnót og hrognkelsaveiða. Alls eru það rúmlega 2.600 fiskiskip og bátar sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni en auk þess eru árlega gefin út um 700 sérveiðileyfi.
     Lagt er til að Fiskistofu verði falið að gefa út árlegt aflamark til skipa, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, á grundvelli aflahlutdeildar hvers skips og ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um leyfilegan heildarafla. Í þessu felst að Fiskistofu er falið að senda út allar tilkynningar um aflaheimildir og að annast innheimtu á þeim gjöldum sem tengjast útgáfu veiðileyfa og tilkynningum um aflamark.
     Fiskistofu er samkvæmt frumvarpinu falið að annast allan flutning á aflamarki og aflahlutdeild milli skipa og framfylgja settum reglum um slíkan flutning á hverjum tíma. Með tilkomu laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, hefur umfang varðandi flutning aflaheimilda aukist til muna. Kemur þar einkum tvennt til. Í fyrsta lagi var sóknarmark afnumið og framseljanlegu aflamarki úthlutað til allra fiskiskipa og báta sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, þó með takmarkaðri undanþágu fyrir báta minni en 6 brúttórúmlestir. Í öðru lagi er samkvæmt lögunum heimilt að flytja aflahlutdeild á milli fiskiskipa án þess að það skip, sem flutt er af, hverfi endanlega úr rekstri.
     Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofu verði falið að annast alla öflun upplýsinga um landaðan afla einstakra fiskiskipa. Stofunni verði jafnframt falið að annast allt eftirlit með framkvæmd á vigtun sjávarafla og móttöku og skráningu á þeim upplýsingum. Þá verður Fiskistofu falið að annast söfnun og skráningu allra annarra skýrslna sem krafist er á hverjum tíma, hvort sem það er vegna stjórnunar fiskveiða, söfnunar upplýsinga í þágu hafrannsókna eða öflunar annarra tölulegra upplýsinga um sjávarútvegsmál.
     Þrátt fyrir að Fiskistofu sé með frumvarpinu falið að annast alla söfnun og skráningu á opinberum upplýsingum er gert ráð fyrir að stofan geti falið Fiskifélagi Íslands að vinna tiltekin verkefni á þessu sviði. Er gert ráð fyrir að Fiskifélaginu verði eftir sem áður falið að annast söfnun og skráningu á skýrslum frá kaupendum afla, þ.e. svokölluðum ráðstöfunarskýrslum. Fiskifélagi yrði falið að annast þetta verk eftir nánara samkomulagi við sjávarútvegsráðuneytið og Fiskistofu. Þessar upplýsingar yrðu skráðar í tölvukerfi Fiskistofu og samræmdar að öllu leyti öðrum þeim upplýsingum sem stofan safnar og skráir á sviði sjávarútvegsmála. Með þessari ráðstöfun verður söfnun grunnupplýsinga á einni hendi og betur tryggt að ávallt sé samræmi við alla söfnun og skráningu upplýsinga í þessum efnum. Fiskifélagið mun hins vegar hafa fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem skráð verða í upplýsingakerfi Fiskistofu sem nauðsynlegar eru til að félagið geti áfram sinnt því útgáfustarfi sem það hefur sinnt hingað til.
     Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa annist daglega framkvæmd laga og reglugerða um stjórn fiskveiða. Þá er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti gert tillögur til ráðuneytisins um ýmis atriði sem verða utan valdsviðs stofunnar. Má í því sambandi nefna atriði eins og tillögur um útgáfu reglugerða, um lokun veiðisvæða og breytingar á ákvæðum í sérstökum veiðileyfum vegna breyttra aðstæðna.
     Fiskistofa mun hafa á hendi veiðieftirlit um borð í fiskiskipum og í löndunarhöfnum og annað það eftirlit og athuganir sem þykja nauðsynlegar til að tryggja skilvirka framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar. Verkefni veiðieftirlitsmanna er að fylgjast með veiðum og veiðarfærum skipa. Þeir fara í því skyni í veiðiferðir með skipum, ferðast milli hafna og fylgjast með afla og aflasamsetningu við löndun. Þá annast þeir, í samstarfi við starfsmenn hafnarsjóða, eftirlit með framkvæmd vigtunar og tegundasamsetningu aflans. Veiðieftirlitsmennirnir hafa jafnframt með höndum eftirlit með því að ekki séu stundaðar óæskilegar veiðar innan fiskveiðilögsögunnar. Verði þeir varir við slíkar veiðar, svo sem veiðar á smáfiski, tilkynna þeir það til Hafrannsóknastofnunar, en samkvæmt lögum hefur stofnunin heimild til að loka veiðisvæðum í allt að sjö daga. Auk framangreindra starfa fylgjast veiðieftirlitsmenn með því að fyrirtæki gefi upp réttar skýrslur til stjórnvalda um afla og tegundasamsetningu hans.
     Frá árinu 1990 hafa sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknastofnun rekið í sameiningu tölvudeild. Á vegum tölvudeildarinnar hefur að undanförnu verið unnið að þróun aflaupplýsingakerfis sem m.a. heldur utan um allt kvótabókhald ráðuneytisins. Auk þess hefur ráðuneytið í samvinnu við Hafnasamband sveitarfélaga unnið að viðamiklu verkefni við að samræma vigtun sjávarafla í höfnum landsins og til að bæta upplýsingastreymi um landaðan afla. Hefur verið þróaður sérstakur tölvubúnaður sem gerir höfnunum kleift að senda daglega allar upplýsingar um landaðan afla einstakra skipa til tölvudeildarinnar. Með þessu fyrirkomulagi hefur verið unnið mikið brautryðjendastarf sem mun styrkja mjög alla upplýsingasöfnun um landaðan afla og gera hana skilvirkari en verið hefur. Þá eru allar upplýsingar Hafrannsóknastofnunar úr afladagbókum fiskiskipa og önnur fiskifræðigögn stofnunarinnar skráð í þennan sameiginlega gagnagrunn. Í tengslum við þær skipulagsbreytingar, sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að þessi sameiginlega tölvudeild verði færð til Fiskistofu. Þar með verður öll söfnun og skráning á aflaupplýsingum, sem nú fer fram á vegum Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsráðuneytisins, hjá Fiskistofu.
     Samkvæmt frumvarpi, sem lagt verður fram á þessu þingi, er gert ráð fyrir að hlutverki og rekstrarformi Ríkismats sjávarafurða verði breytt. Er gert ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um ráðgjafar- og skoðunarhlutverk Ríkismatsins um næstu áramót en opinbert vald stofnunarinnar verði fært til Fiskistofu frá sama tíma. Er gert ráð fyrir að Fiskistofu verði falið að veita sjávarútvegsfyrirtækjum vinnsluleyfi og útflutningsnúmer í samræmi við þær reglur sem settar verða um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Sjávarútvegsfyrirtækjum verður gert að uppfylla tiltekin skilyrði um eigið eftirlit með framleiðslu, hreinlæti og búnað og er gert ráð fyrir að sérstakar skoðunarstofur fylgist með þessum þáttum. Með þessum breytingum er því verið að færa hluta af þeim verkefnum, sem verið hafa hjá Ríkismati sjávarafurða, til skoðunarstofa sem þurfa starfsleyfi frá Fiskistofu. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa verða m.a. að skoðunarstofurnar geti framvísað nákvæmri lýsingu á starfsemi sinni, skipulagi, stjórnun, hlutleysi, dreifingu ábyrgðar og upplýsingum um þekkingu og reynslu starfsmanna. Þá er gert ráð fyrir að Fiskistofa fylgist með starfsemi skoðunarstofa og geri reglulegar athuganir hjá einstökum framleiðendum til að ganga úr skugga um að farið sé að settum reglum.
     Á þessu ári mun Ríkismat sjávarafurða skipuleggja viðamikla úttekt á hreinlæti og búnaði allra sjávarútvegsfyrirtækja. Er stefnt að því að henni verði lokið fyrir næstu áramót. Þeim fyrirtækjum, sem ekki standast úttekt Ríkismatsins, verður gefinn hæfilegur frestur til úrbóta og verður Fiskistofu falið að fylgjast með framgangi þessara mála og gefa út vinnsluleyfi og útflutningsnúmer þegar fyrirtækin hafa uppfyllt þessi skilyrði auk skilyrða um innra eftirlit. Þá er gert ráð fyrir að Fiskistofu verði falið að taka út hreinlæti og búnað hjá öllum nýjum fyrirtækjum sem sett verða á stofn eftir næstu áramót. Það yrði hins vegar eins og áður segir hlutverk skoðunarstofa að fylgjast með fyrirtækjum sem fengið hafa vinnsluleyfi og útflutningsnúmer undir eftirliti Fiskistofu.
     Eins og að framan greinir er að því stefnt að breyta Ríkismati sjávarafurða í hlutafélag um næstu áramót. Hlutafélagið yrði fyrst um sinn alfarið í eigu ríkisins en hlutur þess seldur síðar. Hlutverk hlutafélagsins yrði hliðstætt hlutverki annarra skoðunarstofa, þ.e. að veita ráðgjöf og gera úttektir á hreinlæti, búnaði og innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem hafa vinnsluleyfi. Tilgangur þess að breyta starfsemi Ríkismatsins með þessum hætti, í stað þess að leggja þennan þátt starfseminnar niður, er m.a. að tryggja að öll sjávarútvegsfyrirtæki hafi aðgang að þjónustu skoðunarstofu, en það verður skilyrði fyrir veitingu vinnsluleyfis. Er stefnt að því að rekstur fyrirtækisins standi undir sér.
     Með því að setja á fót Fiskistofu er ekki verið að fjölga opinberum stofnunum frá því sem nú er. Hér er eingöngu verið að færa verkefni til Fiskistofu frá sjávarútvegsráðuneytinu, veiðieftirlitinu, Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnun og Ríkismati sjávarafurða sem breytt verður í hlutafélag um næstu áramót. Þá er gert ráð fyrir að opinberum starfsmönnum fækki nokkuð við þessa skipulagsbreytingu. Áætlað er að starfsmenn Fiskistofu verði um 60 talsins á árinu 1993.
     Fskj. I með frumvarpi þessu sýnir áætlaðan rekstrarkostnað Fiskistofu á greiðslugrunni síðustu fjóra mánuði ársins 1992 og fyrir fyrsta heila starfsárið 1993. Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að rekstrargjöld Fiskistofu á árinu 1993 verði um 240 millj. kr. Til að mæta þessum rekstrarkostnaði er áætlað að flytja fjárveitingar frá sjávarútvegsráðuneytinu og stofnunum þess yfir til Fiskistofu. Miðað við fjárlög ársins 1992 er gert ráð fyrir að flytja 10,6 millj. kr. frá ráðuneytinu, 26 millj. kr. frá Hafrannsóknastofnun vegna flutnings á aflaskýrsluverkefni og tölvudeild ásamt 67 millj. kr. framlagi ríkissjóðs til Ríkismats sjávarafurða. Þá verða allar sértekjur veiðieftirlitsins af veiðieftirlitsgjaldi fluttar til Fiskistofu og er gert ráð fyrir að þær verði um 104 millj. kr. á árinu 1993. Enn fremur er fyrirhugað að skipta upp fjárveitingu Fiskifélags Íslands þannig að hluti hennar renni til Fiskistofu. Fiskistofan mun gera samning við Fiskifélagið um verkefni á sviði úrvinnslu upplýsinga og útgáfu hagskýrslna og greiða félaginu fyrir það, svo og fyrir afnot Fiskistofu af húsnæði félagsins. Stjórn Fiskifélags Íslands hefur lýst sig reiðubúna til að ganga til samninga við stjórnvöld um leigu á allt að helmingi af húsnæði félagsins undir starfsemi Fiskistofu verði frumvarp þetta að lögum. Að öllu samanlögðu má gera ráð fyrir að séð sé fyrir rekstarfjárþörf Fiskistofu á árinu 1993 með tilflutningi á fjárveitingum og sértekjum. Hins vegar er rekstarfjárþörf umfram tilflutning áætluð um 14,7 millj. kr. vegna starfsemi Fiskistofu á árinu 1992.
     Á fskj. II er áætlun um stofnkostnað á árinu 1992 og 1993. Er áætlað að stofnkostnaður nemi um 33–38 millj. kr. á árinu 1992 en um 5 millj. kr. á árinu 1993. Heildarstofnkostnaður er því áætlaður um 38–43 millj. kr. Við mat á áætluðum stofnkostnaði hefur verið tekið tillit til þess að lausafé veiðieftirlits, tölvudeildar Hafrannsóknastofnunar og hluti af lausafé Ríkismats sjávarafurða flytjist til Fiskistofu.
     Eins og fram kemur í fskj. I er ekki gert ráð fyrir að kostnaður hins opinbera aukist á árinu 1993 við þá endurskipulagningu á stjórnsýslu sjávarútvegsins sem lögð er til með frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að þessi endurskipulagning muni þegar til lengri tíma er litið leiða til hagræðingar í opinberri stjórnsýslu. Þá mun þessi skipulagsbreyting leiða til aukins réttaröryggis fyrir þegna landsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr. og 2. gr.


    Með þessum greinum er kveðið á um stofnun og meginhlutverk Fiskistofu. Í almennum athugasemdum er gerð grein fyrir þeim skipulagsbreytingum er í frumvarpi þessu felast. Þar er fjallað um verkefni, skipulag og umfang starfsemi Fiskistofu. Eins og þar er rakið er Fiskistofu ætlað fjórþætt meginhlutverk. Í fyrsta lagi að annast daglega framkvæmd við stjórn fiskveiða. Hér er fyrst og fremst um að ræða verkefni sem sjávarútvegsráðuneytinu hafa verið falin fram að þessu. Í öðru lagi að skipuleggja og hafa yfirumsjón með veiðieftirliti sem hingað til hefur verið í höndum sjávarútvegsráðuneytis samkvæmt ákvæðum laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í þriðja lagi að annast öflun, skráningu, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sjávarútvegssviðinu. Þetta eru verkefni sem hingað til hafa verið í höndum margra aðila, þó einkum Fiskifélags Íslands, Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsráðuneytis. Í fjórða lagi verður stofunni falið að annast opinber verkefni varðandi meðferð sjávarafurða og eftirlits með framleiðslu þeirra. Með því flytjast til Fiskistofu mörg verkefni varðandi gæðamál sjávarútvegsins og eftirlit með framleiðslu sem verið hafa hjá Ríkismati sjávarafurða.
     Með stofnun Fiskistofu komast á tvö stjórnsýslustig varðandi stjórn fiskveiða og eftirlit með þeim. Er með þessum tillögum komið til móts við þá gagnrýni sem uppi hefur verið á undanförnum árum að óeðlilegt sé að heimild til setningar almennra reglna og fyrirmæla, sem og dagleg framkvæmd þeirra og eftirlit með því að þeim sé framfylgt, sé hjá sömu stofnuninni. Þá er rétt að benda á að Fiskistofan verður stjórnsýslustofnun er heyrir undir sjávarútvegsráðherra. Ákvörðunum hennar má því skjóta til ráðuneytisins eftir almennum reglum um málskot til æðra stjórnvalds. Þeir sem ekki sætta sig við einstakar ákvarðanir Fiskistofu eiga því kost á fljótvirkri kæruleið. Bæði þessi atriði eru ótvírætt fallin til þess að stuðla að auknu réttaröryggi.

Um 3. gr.


     Hér er kveðið á um ráðningu fiskistofustjóra sem er æðsti yfirmaður Fiskistofu og annast m.a. ráðningu á öðru starfsfólki. Er gert ráð fyrir að hann verði ráðinn en ekki skipaður eins og algengast er með forstöðumenn ríkisstofnana. Ekki þykir rétt að binda skipulag eða deildaskiptingu Fiskistofu í lögum. Breytingar hljóta jafnan að verða á verkefnum stofnunar sem hefur svo vítt starfssvið. Er því eðlilegt að unnt sé að haga þessum málum eftir því sem hagfelldast þykir á hverjum tíma og kostnaðarminnst. Er því lagt til að ráðherra setji reglugerð um megindrætti skipulags og starfsemi Fiskistofu. Í upphafi er hins vegar ljóst að Fiskistofa mun starfa í fjórum deildum eða sviðum er hvert um sig spannar eitt af þeim meginhlutverkum stofunnar sem um er rætt í athugasemdum með 1. og 2. gr. Eru áætlanir um rekstrarkostnað á árinu 1993 á fskj. I byggðar á því skipulagi.
     Þegar svo róttækar breytingar eru gerðar er ljóst að þær snerta störf fjölda fólks. Skiptir miklu um árangur af starfsemi Fiskistofu að vel takist til í starfsmannamálum. Við skipulagsbreytingarnar mun fyrst og fremst stefnt að því að byggja á reynslu og kunnáttu þeirra sem þegar starfa að þessum verkefnum í núverandi stofnunum á sjávarútvegssviðinu. Starfsliði á þessum verkefnasviðum verður því almennt ekki sagt upp störfum heldur gefinn kostur á að sinna áfram sínum fyrri verkefnum á vettvangi Fiskistofu. Ýmsar skipulagsbreytingar eru þó óhjákvæmilegar og munu því margir þurfa að laga sig að breytingum á verksviði og starfsháttum. Róttækastar munu breytingarnar verða á sviði gæðamála sem Ríkismat sjávarafurða hefur nú með höndum. Á því sviði er stefnt að því að draga saman mannahald. Því má búast við allverulegri fækkun opinberra starfa á þeim vettvangi. Hins vegar er gert ráð fyrir að endurskipuleggja starfsemi Ríkismats sjávarafurða og breyta hluta af starfsemi þess í hlutafélag um næstu áramót. Frá sama tíma flytjast opinber verkefni á þessu sviði til Fiskistofu. Þessar breytingar eru nú í undirbúningi og verða nánar kynntar í frumvarpi um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra og í frumvarpi um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða.

Um 4. gr.


    Lagt er til að Fiskistofu verði heimilt að fela Fiskifélagi Íslands verkefni á sviði úrvinnslu upplýsinga og útgáfu hagskýrslna um sjávarútvegsmál. Mun verða haft fullt samráð við Hagstofu Íslands við val og útgáfu á þeim verkefnum sem Fiskifélaginu kunna að verða falin á þessu sviði. Í tengslum við þær skipulagsbreytingar, sem boðaðar eru í frumvarpi þessu, hefur ráðuneytið kynnt stjórn Fiskifélags Íslands hugmyndir þess efnis að það feli félaginu önnur verkefni á sviði sjávarútvegs sýnist það hagfellt. Í því sambandi má t.d. nefna ýmiss konar fræðslu og kynningarmál. Fiskifélag Íslands er hins vegar frjálst félag og mun skipulag og starfsemi þess að sjálfsögðu framvegis sem hingað til fara eftir samþykktum þeim og félagslögum sem í gildi eru á hverjum tíma án opinberra afskipta.

Um 5. gr.


    Í samræmi við breytt skipulag er lagt til að Fiskistofa annist útgáfu svonefndra sérveiðileyfa. Eftir sem áður er það hins vegar hlutverk ráðherra að ákveða með reglugerð hvenær sérveiðileyfa er krafist. Þá er það áfram í verkahring ráðherra að setja almennar reglur um slíkar veiðar og hverjir eigi kost á leyfum til þeirra.

Um 6. gr.


    Eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Fiskistofa annist alla framkvæmd er varðar aflaheimildir einstakra skipa. Í því felst að stofan tekur við skráningu á aflahlutdeild og aflamarki einstakra fiskiskipa og breytingum sem þar kunna að verða, sbr. t.d. 9., 11. og 12. gr. laga nr. 38/1990. Í samræmi við þetta er lagt til að Fiskistofu verði falið að senda árlegar aflamarkstilkynningar til einstakra fiskiskipa.

Um 7. gr.


    Með þessari grein er ekki verið að leggja til að breyting verði gerð á að sjávarútvegsráðherra taki ákvörðun um hvort og að hvaða marki beita skuli ákvæðum 9. gr. laga nr. 38/1990. Hér er hins vegar lagt til að Fiskistofa annist framkvæmd þeirra ákvarðana er teknar kunna að verða, þar á meðal sendingu tilkynninga um breytt aflamark einstakra skipa sem af slíkri ákvörðun hlýst.

Um 8. gr.


    Eins og rakið er í almennum athugasemdum og athugasemdum við 2. gr. verður hlutverk Fiskistofu að annast skráningu aflaheimilda og afla einstakra skipa, með öðrum orðum að halda utan um svonefnt kvótabókhald. Eðlilegt er því að fela stofunni skráningu á flutningi aflahlutdeildar milli skipa og þær ákvarðanir sem taka þarf varðandi flutning í einstökum tilvikum. Ráðherra mundi hins vegar eftir sem áður setja almenn fyrirmæli er að slíkum flutningi lúta, t.d. hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að flytja megi aflahlutdeild til skips sem ekki hefur fyrir aflahlutdeild af þeirri tegund sem flytja á.

Um 9. gr.


    Með þessari grein er Fiskistofu falin framkvæmd við flutning á aflamarki milli skipa sem hingað til hefur verið í höndum sjávarútvegsráðuneytisins. Sú framkvæmd verður þó að sjálfsögðu grundvölluð á almennum framkvæmdareglum sem ráðuneytið kann að setja, sbr. reglugerðarheimild 13. gr. laga nr. 38/1990. Þá er lagt til að orðalag 1. málsl. 4. mgr. laganna verði gert skýrara, en á það hefur verið bent að núverandi orðalag sé til þess fallið að valda misskilningi. Með þessari breytingu eru tekin af öll tvímæli um að skip missi aflahlutdeild sína ef hún er nýtt að minna en fjórðungi með veiðum skipsins sjálfs tvö fiskveiðiár í röð.

Um 10. gr.


    Í samræmi við þá verkaskiptingu, sem verður á milli sjávarútvegsráðuneytis og Fiskistofu, er hér lagt til að stofan annist alla framkvæmd við söfnun og úrvinnslu upplýsinga úr afladagbókum sem skylt er að halda um borð í fiskiskipum. Er gert ráð fyrir að Fiskistofa annist jafnframt skráningu á þeim upplýsingum sem skráðar eru í þessar bækur en Hafrannsóknastofnun hefur annast þá skráningu hingað til.
     Þar sem gert er ráð fyrir að eftirlit með fiskveiðum verði á verkefnasviði Fiskistofu er eðlilegt að allar upplýsingar, sem taldar eru nauðsynlegar til þess að sinna slíku eftirliti, berist stofunni í stað ráðuneytisins.

Um 11. gr.


    Fiskistofu er með þessari grein falið að annast eftirlit með vinnslu sjávarafla um borð í fiskiskipum. Í því skyni skal stofan annast söfnun og skráningu upplýsinga úr vinnsludagbókum skipa sem vinna afla um borð.

Um 12. gr.


    Lagt er til að öll starfsemi veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins verði flutt til Fiskistofu. Eins og rakið er í almennum athugasemdum við frumvarpið eru verkefni eftirlitsmanna m.a. að fylgjast með veiðum og veiðarfærum skipa, vigtun afla og skýrslugjöf fyrirtækja. Samkvæmt því fær Fiskistofa það hlutverk sem 8. gr. laga nr. 81/1976 ætlar trúnaðarmönnum ráðherra við veiðieftirlit. Í tengslum við þær skipulagsbreytingar, sem boðaðar eru í frumvarpinu, er gert ráð fyrir að endurskipuleggja störf veiðieftirlitsins til að auka skilvirkni og gera það markvissara en verið hefur.

Um 13. gr.


    Lagt er til að Fiskistofa taki til starfa 1. september 1992 eða við upphaf nýs fiskveiðiárs verði frumvarp þetta að lögum. Þá er lagt til að verkefni stofunnar á sviði eftirlits með framleiðslu sjávarafurða flytjist ekki frá Ríkismati sjávarafurða fyrr en 1. janúar 1993. Er það í samræmi við tillögu um gildistöku í frumvarpi til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
    Gerð er tillaga um að lög nr. 55/1941, um afla- og útgerðarskýrslur, verði felld úr gildi. Í 15. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er m.a. kveðið á um skil á afla- og útgerðarupplýsingum til sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskifélags Íslands. Þessi ákvæði tryggja að stjórnvöld geta krafist allra þeirra upplýsinga sem þau óska eftir til að annast eftirlit með veiðum og vinnslu sjávarafla. Gert er ráð fyrir að Fiskistofa beri ábyrgð á öflun og úrvinnslu allra upplýsinga fyrir hönd sjávarútvegsráðuneytisins. Eins og rakið er í almennum athugasemdum er hins vegar gert ráð fyrir að Fiskifélagi Íslands verði falið að safna og skrásetja tilteknar upplýsingar samkvæmt nánari samkomulagi við Fiskistofu. Er hér fyrst og fremst átt við svokallaðar ráðstöfunarskýrslur sem berast frá kaupendum fiskafla.



Fylgiskjal I.
Fylgiskjal II.

Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um Fiskistofu.


    Með frumvarpi þessu er ætlað að gera víðtækar breytingar á stjórn og eftirliti fiskveiða. Þetta er liður í gagngerri endurskoðun á stjórnsýslu sjávarútvegs sem verður fylgt eftir með öðrum frumvörpum er lögð verða fram á þessu þingi. Mynduð verði ný stofnun, Fiskistofa, sem tekur við hlutverki fiskveiðistjórnunar, veiðieftirlits og gæðaeftirlits, og verða þessi verkefni flutt að hluta frá sjávarútvegsráðuneyti, veiðieftirliti, Hafrannsóknastofnun og Ríkismati sjávarafurða. Hlutverki Fiskifélags við öflun aflaskýrslna verður haldið áfram en undir stjórn og í samkomulagi við Fiskistofu.
    Ætlað er að stofnunin skiptist í fimm svið, þ.e. veiðieftirlitssvið, fiskveiðistjórnunarsvið, tölvusvið, gæðaeftirlitssvið og stjórnsýslusvið. Fiskistofu eru ætluð um 60 störf og þar af verða 10–12 ný störf umfram þau er flytjast til stofunnar frá öðrum stofnunum. Sé hins vegar litið til þess að ætlunin er að breyta þeim hluta af Ríkismati sjávarafurða sem ekki flyst til Fiskistofu í hlutafélag og telja 34 störf mun sú endurskipulagning, sem felst í þessu frumvarpi og þeim sem á eftir fylgja, leiða til þess að ríkisstarfsmönnum mun fækka.
     Sjávarútvegsráðuneytið hefur gert kostnaðaráætlun um rekstur Fiskistofu sem fylgir með greinargerð þessa frumvarps. Þar kemur fram að á heilsársgrundvelli er rekstur stofunnar talinn muni kosta um 240 m.kr. Þar af muni sértekjur standa undir rúmum 100 m.kr. en það sem á vantar greiðist með tilfærslu á fjárveitingum til Fiskistofu frá þeim aðilum sem verkefni yrðu flutt frá. Í þessu mati felst að rekstur stofunnar í heild muni kosta 20–25 m.kr. meira en þeir einstöku hlutar sem fluttir verða til hennar. Munar þar fyrst og fremst um að stofan fær sérstaka yfirstjórn auk þess sem tölvusvið verður eflt frá því sem nú er. Þeim útgjaldaauka verði mætt með auknum sértekjum, þannig að nettófjárveiting úr ríkissjóði ætti ekki að hækka frá því sem er í fjárlögum 1992, en hún er 137 m.kr.
     Á árinu 1992 er talið að rekstur stofunnar kunni að kosta um 15 m.kr. umfram það sem hægt er að kosta með tilflutningi fjárveitinga frá öðrum stofnunum. Er þá miðað við að starfsemi stofunnar hefjist 1. september. Ekki er gert ráð fyrir þessum kostnaðarauka á fjárlögum yfirstandandi árs og verður að ætla að honum verði mætt með því að stofna til starfsemi á Fiskistofu eftir því sem fjárráð leyfa.
     Áætlun sjávarútvegsráðuneytis yfir stofnkostnað gerir ráð fyrir að hann verði 33–38 m.kr. á þessu ári og til viðbótar þurfi um 5 m.kr. á næsta ári. Þar af er talið að innrétting skrifstofuhúsnæðis muni kosta 10–15 m.kr. og telur fjármálaráðuneytið að innréttingarkostnaður sé nær 15 m.kr. Fyrirhugað húsnæði, um 510 fermetrar, kann að reynast of lítið þegar fram í sækir. Því er ætlað að rúma um 40 starfsmenn af þeim 60 sem hjá stofunni starfa og þeir eiga að komast fyrir á 1. hæð og hluta af 2. hæð. Þess er þó að geta að margir þessara starfsmanna sinna eftirlitsstörfum utan húss.