Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 72 . mál.


773. Nefndarálit



um frv. til barnalaga.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar kom Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu. Einnig komu Hrafn Bragason, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Skarphéðinn Þórisson frá Lögmannafélagi Íslands, Þorvaldur Karl Helgason og Benedikt Jóhannsson frá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Sæmundur Hafsteinsson og Þorgeir Magnússon frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Ármann Snævarr, fyrrv. prófessor, Anna Guðrún Björnsdóttir, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Hjördís Hjartardóttir og María Þorgeirsdóttir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Arthur Morthens, formaður Barnaheilla. Þá bárust nefndinni umsagnir frá biskupi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands, Fóstrufélagi Íslands, Foreldrasamtökunum í Reykjavík, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytinu, Barnaheillum, Kvennaráðgjöfinni og Félagi einstæðra foreldra.
    Frumvarp þetta er heildarfrumvarp til barnalaga. Það felur í sér veigamiklar breytingar frá gildandi barnalögum, nr. 9/1981, og jafnframt mikilvægar réttarbætur. Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
    Í fyrsta lagi er kveðið á um þann möguleika að foreldrar geti samið um sameiginlega forsjá barns, sbr. 32. og 33. gr. frumvarpsins. Í núgildandi lögum er það grunnregla að forsjá barns skuli vera óskipt í höndum annars foreldris en réttur og skylda til umgengni hjá hinu. Frumvarp þetta hróflar ekki við þeirri grunnreglu heldur gefur foreldrum kost á að semja um sameiginlega forsjá. Þegar um sameiginlega forsjá er að ræða fara foreldrar báðir með forsjá barns, lögráðin eru í höndum beggja. Þörf er á samþykki beggja og atbeina til allra meiri háttar ákvarðana er barnið varðar, um persónuhagi og fjármál. Þannig geta foreldraskyldur beggja orðið virkari. Sá aðili, sem þess nýtur, er fyrst og fremst barnið. Það er og í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna sem auka skyldur foreldra. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að sameiginleg forsjá byggist á samkomulagi foreldra. Ef það rofnar er ekki lengur grundvöllur fyrir sameiginlegri forsjá.
    Í öðru lagi eru hugtökin skilgetin og óskilgetin börn afnumin. Kveðið er á um réttarstöðu barna án þessara hugtaka og er það í eðlilegu framhaldi af þeirri þróun sem er mörkuð í gildandi barnalögum þar sem réttarstaða barna sambúðarforeldra og giftra foreldra er í reynd sú sama.
    Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að sú meginstefna er mörkuð að dómstóll sker úr ágreiningsmáli um forsjá. Ef aðilar eru ásáttir um það geta þeir leitað úrlausnar ágreiningsins í dómsmálaráðuneytinu. Þannig kveður frumvarpið á um tvíþætt úrlausnarkerfi. Dómstólaleiðin í frumvarpinu verði aðalreglan en ráðuneytið taki forsjármál ekki til úrlausnar nema fram komi ósk foreldra um það. Aftur á móti þykir ekki rétt að taka fyrir þá leið að aðilar geti leitað úrlausnar í ráðuneytinu ef þeir eru sammála um það.
    Meðferð forsjármála fyrir dómstólum er nokkuð frábrugðin almennri meðferð einkamála vegna séreðlis málanna. Er horft til þess að niðurstaðan eigi að vera barni fyrir bestu. Má þá fyrst nefna að dómari er ekki bundinn af málsástæðum og kröfum aðila. Hann fylgist með öflun sönnunargagna og getur mælt fyrir um öflun þeirra sjálfur ef honum þykir þurfa. Fer m.a. um öflun þeirra sönnunargagna samkvæmt reglum um dómkvadda matsmenn í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá má nefna að aðilar geta komið með nýjar kröfur og málsástæður allt þar til mál er flutt. Þessar reglur miða að því að viðunandi niðurstaða náist í svo vandasömum og margslungnum málum sem forsjármál eru.
    Í fjórða lagi er kveðið á um að úrlausn um umgengnisrétt verði hjá sýslumönnum. Úrlausnum sýslumanna má skjóta til dómsmálaráðuneytisins sem hefur endanlegt úrskurðarvald. Það að bera ágreining fyrst fyrir sýslumann getur horft til réttaröryggis og hagræðis fyrir aðila. Foreldrar eiga oft greiðari aðgang að sýslumönnum, ekki síst úti á landsbyggðinni. Sýslumenn eru oft kunnugir högum aðila eða eiga hægt um vik með að kynna sér þá. Réttaröryggi er aukið með því að fjölga stjórnsýslustigum úr einu í tvö. Þessi skipan mála miðast við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem gengur í gildi þann 1. júlí 1992 .
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að sýslumaður skuli leiðbeina aðilum um réttaráhrif samnings um forsjá, sbr. 4. mgr. 33. gr. Leiðbeiningarskylda hans tekur bæði til samninga um forsjá annars foreldris og samninga um sameiginlega forsjá. Fram hefur komið að dómsmálaráðuneytið mun setja nánari reglur um afskipti sýslumanns af forsjármálum, þar á meðal leiðbeiningarskyldu og sáttaumleitan í forsjármálum sem fara til úrlausnar dómsmálaráðuneytisins og um samninga um forsjá er sýslumaður staðfestir, m.a. hvenær sýslumaður skuli leita umsagnar barnaverndarnefndar.
    Í þessu frumvarpi eru hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi. Nefna má að veita skal barni, sem náð hefur tólf ára aldri, kost á að tjá sig um forsjármál og að rétt er að ræða við yngra barn, miðað við aldur þess og þroska, sbr. 4. mgr. 34. gr. frumvarpsins. Enn fremur er veitt heimild til skipunar sérstaks talsmanns barns í ágreiningsmálum um forsjá, sbr. 5. mgr. 34. gr.
    Nefndin leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
    Lögð er til breyting á 3. mgr. 10. gr. Ekki þykir eðlilegt að kveða á um skyldu til úrskurðar af því tagi sem ákvæðið mælir fyrir um.
    Lögð er til breyting á 3. mgr. 23. gr. sem felur í sér að framlög skv. 21. og 22. gr. frumvarpsins geti bæði runnið til móður barns og opinberrar stofnunar. Vera má að báðir aðilar hafi að einhverju leyti staðið straum af þeim útgjöldum sem hér um ræðir og tilheyra þá framlögin hvoru um sig að því marki sem þau hafa innt útgjöldin af hendi.
    Lagt er til að foreldrar verði nefndir í 4. mgr. 25. gr. í stað barnsfeðra því að hér geta einnig komið til meðlagsúrskurðir á hendur barnsmæðrum og er sjálfgefið að sömu reglur gildi hér um báða foreldra barns.
    Lagt er til að við 1. mgr. 33. gr. bætist ákvæði þess efnis að í samningi um sameiginlega forsjá skuli greina hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Réttarstaða þess foreldris, sem barn á lögheimili hjá, þykir best tryggð með því að kveða á um þetta í texta frumvarpsins. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að barn skuli að jafnaði hafa búsetu þar sem það á lögheimili og undirstrikar það eðli sameiginlegrar forsjár. Ljóst er að barn, sem er í sameiginlegri forsjá foreldra sinna sem ekki eru samvistum, getur ekki verið bundið af því að hafa fasta búsetu hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá. Dvöl barnsins hlýtur að ráðast af samkomulagi foreldra og eftir atvikum í samráði við barnið.
    Lagt er til að 1. mgr. 37. gr. verði breytt þannig að tekin verði af öll tvímæli um það að barn eigi rétt á umgengni við það foreldri sitt sem ekki fer með forsjá og gagnkvæmt þótt forsjá barns sé í höndum annars en hins kynforeldris þess.
    Lagt er til að í 5. mgr. 37. gr. verði einnig kveðið á um þau tilvik þegar foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn vegna vanhæfni eða langvarandi dvalar erlendis. Breytingin þjónar einkum því hlutverki að tryggja almenningi vitneskju um það réttarúrræði sem í þessu felst.
    Lagt er til að 40. gr. falli brott. Greinin tekur í raun til fósturráðstafana og telur nefndin fara best á því að um fóstur verði alfarið fjallað í barnaverndarlögum eins og þau eru hverju sinni. Í þessu sambandi er vert að minna á frumvarp til nýrra laga um vernd barna og ungmenna sem nú er til umfjöllunar í félagsmálanefnd Alþingis, en í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um fóstur og fósturráðstafanir. Jafnframt er lagt til að síðari málsgrein 39. gr. verði að nýrri 40. gr. Er það einkum af hagkvæmnisástæðum. Ekkert virðist mæla því gegn að skipta málsgreinum 39. gr. í tvær sjálfstæðar greinar þar sem fyrri málsgreinin tekur til forsjármála en hin síðari til umgengnismála.
    Lagt er til að orðalagi 2. mgr. 60. gr. verði breytt þannig að tekin séu af öll tvímæli um að skýrslur samkvæmt málsgreininni fari samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um dómkvadda matsmenn eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. apríl 1992.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Helgason.

Drífa Hjartardóttir.


form., frsm.



Magnús Jónsson.

Pétur Bjarnason.

Ingi Björn Albertsson,


með fyrirvara.



Björn Bjarnason,

Bryndís Friðgeirsdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.