Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 214 . mál.


776. Nefndarálit



um frv. til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Guðmundur Magnússon prófessor, Gunnar I. Birgisson, formaður stjórnar LÍN, Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri LÍN, Guðjón Valdimarsson, fjármálastjóri LÍN, Ingólfur H. Bender frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Grétar Guðmundsson og Vigdís Hreinsdóttir frá Húsnæðisstofnun ríkisins og fulltrúar námsmannahreyfinganna: Steinunn V. Óskarsdóttir og Pétur Þ. Óskarsson frá stúdentaráði HÍ, Arnór Þ. Sigfússon og Ingibjörg Jónsdóttir frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Bjarni Ingólfsson og Almar Eiríksson frá Bandalagi íslenskra sérskólanema og Kristinn Einarsson og Ólafur Þórðarson frá Iðnnemasambandi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá eftirtöldum aðilum: ASÍ, BHM, BHMR, BSRB, skólastjórn Bændaskólans á Hólum, Bændaskólanum á Hvanneyri, Fósturskóla Íslands, skólanefnd Fósturskóla Íslands, nemendaráði Fósturskóla Íslands, Háskóla Íslands, háskólaráði Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Húsnæðisstofnun ríkisins, Iðnnemasambandi Íslands, nemendaráði Kennaraháskóla Íslands, skólaráði Kennaraháskóla Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Leiklistarskóla Íslands, Nemendafélagi Verkmenntaskóla Austurlands, Rannsóknaráði ríkisins, Ríkisendurskoðun, Sambandi iðnmenntaskóla, Sambandi ungra jafnaðarmanna, Samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna, skólafélagi Samvinnuháskólans á Bifröst, Sjómannaskólanum, Tæknifræðingafélagi Íslands, Nemendafélagi Tækniskóla Íslands, skólastjórn Tækniskóla Íslands, vinnuhópi um málefni LÍN, vísindaráði og Nemendafélagi Þroskaþjálfaskóla Íslands. Loks bárust gögn frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Frumvarpið er heildarfrumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það felur í sér veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum og miða þær að því að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins til frambúðar. Áhersla er lögð á að styðja við menntun í landinu og tryggja áfram tækifæri til náms án tillits til efnahags.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
    Lagt er til að 1. gr. verði breytt þannig að hún kveði á um tækifæri til náms án tillits til efnahags.
    Lagt er til að fellt verði niður það skilyrði 2. gr. að námsmenn í sérnámi þurfi að ná 20 ára aldri til þess að fá námslán.
    Lagt er til að 3. gr. mæli fyrir um að tekið verði tillit til fjölskyldustærðar og að sjóðstjórn sé heimilt að hafa hliðsjón af búsetu við mat á framfærslukostnaði.
    Lagðar eru til þrjár eftirtaldar breytingar á 6. gr.:
                  Í fyrsta lagi er lagt til að ábyrgðarmaður á námsláni sé a.m.k. einn og að sjálfskuldarábyrgð hans nemi tiltekinni hámarksfjárhæð.
                  Í öðru lagi er lagt til að sæki námsmaður um hærra námslán en ábyrgð er fyrir í skuldabréfi leggi hann fram nýtt skuldabréf með nýrri ábyrgðaryfirlýsingu.
                  Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við þá breytingartillögu sem gerð er um fjölda ábyrgðarmanna.
    Lagt er til að 7. gr. kveði á um að lánstími verði ótilgreindur og greitt verði af láni skv. 8. gr. þangað til lán er að fullu greitt. Endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok í stað eins árs. Hundraðshluti vaxta af láni verði breytilegur, allt að 3%.
    Lögð er til sú breyting á 8. gr. að árleg endurgreiðsla verði annars vegar föst greiðsla að ákveðinni upphæð eins og kveðið er á um í núgildandi lögum um námslán. Hins vegar komi til viðbótar greiðsla sem miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni skuldara, 5% fyrstu fimm árin og 7% eftir það. Útfærsla á endurgreiðslureglum er sú sama og í gildandi lögum.
    Lögð er til breyting á 9. gr. í samræmi við breytingartillögu við 7. gr.
    Lögð er til sú breyting í 18. gr. að greiðslur af eldri námsskuldum frestist þar til lán samkvæmt frumvarpinu er að fullu greitt.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. apríl 1992.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Drífa Hjartardóttir.

Árni R. Árnason.