Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – . mál.


809. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um tillöguna og þeim umræðum sem fylgdu í kjölfar hennar í nefndinni um mannréttindabrot stjórnvalda í Tyrklandi og árásir þeirra á byggðir Kúrda. Er minni hlutinn þeirrar skoðunar að ekki hafi fengist viðunandi niðurstaða í málið innan nefndarinnar og flytur því tillögu á sérstöku þingskjali um að íslensk stjórnvöld beiti sér með afgerandi hætti til stuðnings Kúrdum í deilum þeirra við tyrknesk stjórnvöld.
    Minni hlutinn bendir á að Íslendingar hafa verið í fararbroddi meðal þjóða heims í stuðningi sínum við sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu smáþjóða og þjóðabrota. Er í því sambandi skemmst að minnast þess frumkvæðis sem Alþingi átti í desember á síðasta ári þegar það samþykkti stuðningsyfirlýsingu við sjálfstæðisbaráttu þjóðanna við Eystrasalt og sem síðar var fylgt eftir með eftirminnilegum hætti þegar Íslendingar, fyrstir þjóða heims, viðurkenndu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáen. Þá hafa íslensk stjórnvöld sýnt þeim þjóðum, sem byggðu ríki Júgóslavíu, stuðning sinn í verki með því að viðurkenna sjálfstæði þeirra.
    Með þessum hætti hafa Íslendingar mótað sér sjálfstæða stefnu gagnvart smáþjóðum sem byggir á siðferðilegum grunni og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Í þessari stefnu þarf að vera samsvörun og samfella og þar af leiðir að Íslendingar hljóta að nota það tækifæri sem gefst þegar fyrir dyrum stendur fríverslunarsamningur við Tyrkland og gera það sem í þeirra valdi stendur til stuðnings Kúrdum sem eiga við ofurefli að etja á mörgum vígstöðvum.
    Það er alkunna að víðtæk mannréttindabrot hafa lengi átt sér stað í Tyrklandi og eru það ekki síst Kúrdar sem fyrir þeim verða. Þá hafa byggðir þeirra orðið fyrir árásum tyrkneskra hersveita, nú síðast í mars sl. Þá hafa borist fréttir um að flugher Tyrkja hafi gert árásir á byggðir Kúrda í Norður-Írak. Liggur nokkuð beint við að líta svo á að gagnrýnislaus undirritun fríverslunarsamnings á sama tíma og þessir atburðir eiga sér stað sé nokkurs konar syndakvittun fyrir tyrknesk stjórnvöld.
    Þá má benda á að sá fríverslunarsamningur, sem hér er til afgreiðslu, er í raun samningur milli einstakra aðildarríkja EFTA og Tyrklands og mun öðlast gildi milli þeirra ríkja sem hann undirrita þó að önnur haldi að sér höndum. Það er því vægast sagt óeðlilegt ef það er rétt sem fram kemur í bréfi frá fastanefnd Íslands hjá EFTA til utanríkisráðuneytisins dags. 2. apríl sl. að staðfesti Ísland ekki samninginn geti það „haft þær afleiðingar að samstaða EFTA-ríkjanna með kröfu Íslands um að allur fiskur falli undir fríverslunarsamninga, sem EFTA stendur að, mundi bresta“, sbr. fylgiskjal. Slíkar hótanir eru þá slæmur fyrirboði um það sem koma skal ef EES verður að veruleika og EFTA-ríkin eiga að tala þar einum rómi.
    Í ljósi þess sem að framan er sagt leggur minni hluti nefndarinnar til að tillagan verði afgreidd með rökstuddri dagskrártillögu sem lögð er fram á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 1992.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Ólafur Ragnar Grímsson.


frsm.



Fylgiskjal.


Bréf Kjartans Jóhannssonar til utanríkisráðuneytisins.



    Tyrkland ásamt öðrum EFTA-ríkjum en Íslandi og Austurríki hafa staðfest ofangreindan samning. Fulltrúar þessara ríkja komu saman til óformlegs fundar í dag til að ræða gildistöku samningsins. Ákveðið var að fulltrúar þeirra ríkja, sem staðfest hafa samninginn, komi til fundar 10. þ.m. í samræmi við 2. mgr. 34. gr. samningsins og ákveði að samningurinn taki gildi 17. þ.m., nema varðandi Sviss 1. þ.m. Ástæða þess að ekki var tekin formleg ákvörðun um gildistökuna í dag var að rétt þótti að gefa Íslandi og Noregi tækifæri til að hafa sama gildistökudag og Finnland og Svíþjóð. Noregur hefur staðfest samninginn á Stórþinginu en þarf nokkra daga til að ganga formlega frá staðfestingarskjalinu.
    Það væri mjög miður ef Ísland gæti ekki staðfest samninginn fyrir 10. þ.m. og haft sama gildistökudag og hin Norðurlöndin í EFTA. Gæti þetta haft þær afleiðingar að samstaða EFTA-ríkjanna með kröfu Íslands um að allur fiskur falli undir fríverslunarsamninga, sem EFTA stendur að, mundi bresta. Slík krafa náðist í gegn vegna samstöðu EFTA-ríkjanna gagnvart Tyrklandi og Tékkóslóvakíu og næst vonandi gagnvart Póllandi og Ungverjalandi.