Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 127 . mál.


820. Nefndarálit



um frv. til l. um Viðlagatryggingu Íslands.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Arnljótur Björnsson prófessor, Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur, Freyr Jóhannesson tæknifræðingur og Erlendur Lárusson og Rúnar Guðmundsson frá Tryggingaeftirliti ríkisins. Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Húseigendafélaginu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Tryggingaeftirliti ríkisins og Viðlagatryggingu Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
    Lagt er til að í 1. gr. verði vísun í 4. gr. frumvarpsins en í þeirri grein er að finna upptalningu þess konar náttúruhamförum sem viðlagatrygging tekur til.
    Lögð er til sú breyting við 3. gr. að stjórn Viðlagatryggingar Íslands annist vörslu og ávöxtun fjár og bókhald stofnunarinnar eða geri samkomulag við tiltekinn aðila um það. Þykir eðlilegt að stofnunin sjálf annist þetta verkefni. Ef hún kýs aftur á móti að semja við utanaðkomandi aðila um þessi mál er kveðið á um að hún skuli leita til aðila á vátryggingarsviði.
    Lagt er til að í 5. gr. sé mælt fyrir um aukna skyldutryggingu frá því sem er í frumvarpinu. Skyldutrygging nái áfram til raforkuvirkja í eigu hins opinbera sem og síma- og fjarskiptamannvirkja í eigu sömu aðila. Tryggja megi þó þessi mannvirki annars staðar en hjá Viðlagatryggingu Íslands.
    Lögð er til breyting í 4. og 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. til samræmis við þá breytingu sem lögð er til við 5. gr. hér á undan. Enn fremur er lagt til að bann við viðlagatryggingu á flotkvíum o.fl. í 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. falli niður þar sem ákvæðið er heimildarákvæði.
    Lagt er til að ákvæði 11. gr. um lækkun iðgjalda falli niður vegna þess að ekki þykir rétt að hafa slíkt ákvæði í lögum á meðan bolmagn stofnunarinnar er ekki meira en raun ber vitni til að mæta stóráföllum vegna náttúruhamfara.
    Lagt er til að sérregla um tveggja ára fyrningarfrest bótakrafna á hendur Viðlagatryggingu Íslands í 17. gr. falli niður. Þess í stað gildi reglur laga nr. 20/1954 og verður fyrningarfrestur þá fjögur ár.
    Lagt er til að í 19. gr. verði kveðið á um úrskurðarnefnd. Samkvæmt því fyrirkomulagi, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, á vátryggður engin önnur úrræði en dómstólaleið ef hann unir ekki niðurstöðu stjórnar Viðlagatryggingar. Lagt er því til að úrskurðarnefnd verði starfandi og skipuð ótímabundið. Nefnd af þessu tagi er tjónþola til hagsbóta auk þess sem tilvera hennar veitir stjórn stofnunarinnar aðhald. Nánari ákvæði um störf nefndarinnar kæmu í reglugerð.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum þessum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 1992.



Sigbjörn Gunnarsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.

Ingibjörg Pálmadóttir,


með fyrirvara.



Finnur Ingólfsson,


með fyrirvara.