Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – . mál.


915. Nefndarálit

222.

um frv. til l. um málefni fatlaðra.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fjölmörgum fundum og fengið um það umsagnir frá fræðslustjóra Vesturlandsumdæmis, stjórnarnefnd málefna fatlaðra, Foreldra-og vinafélagi Kópavogshælis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, félagsmálastjóra Akureyrarbæjar, fræðslustjóra Reykjavíkurumdæmis, héraðslækninum í Suðurlandshéraði, bæjarstjórn Ísafjarðar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Vestfjörðum, stjórn Sólheima í Grímsnesi, Félagi framkvæmdastjóra svæðisstjórna málefna fatlaðra, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Austurlandi, Blindrafélaginu, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra, menntamálaráðuneytinu, héraðslækninum í Reykjaneshéraði, fræðslustjóra Suðurlandsumdæmis, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, Þroskaþjálfaskóla Íslands, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Austurlandi, bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ráðningarskrifstofu Reykjavíkurborgar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Suðurlandi, bæjarstjórn Siglufjarðar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra, héraðslækninum í Austurlandshéraði, bæjarstjórn Akraness, svæðisstjórn málefna fatlaðra í Reykjavík, biskupi Íslands, Þroskahjálp, Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Reykjanesi, bæjarstjórn Egilsstaðabæjar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Vestmannaeyja, Félagi sérkennara, bæjarstjórn Selfoss, Félagi þroskaþjálfa, Félagi heyrnarlausra, Sjálfsbjörg, bæjarstjórn Húsavíkur, Samstarfshópi um málefni daufblindra, Sálfræðingafélagi Íslands, bæjarstjórn Njarðvíkur, borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Dalvíkur, stjórn Skálatúnsheimilisins í Mosfellsbæ, Geðhjálp, Kópavogshæli, bæjarstjórn Sauðárkróks, Geðverndarfélagi Íslands, landlækni, Ingimar Sigurðssyni, í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, Umsjónarfélagi fatlaðra, Félagi nýrnasjúkra og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Þá fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um frumvarpið Braga Guðbrandsson, aðstoðarmann félagsmálaráðherra, Þórð Skúlason og Vilhjálm S. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bjarna Kristjánsson og Soffíu Lárusdóttur frá Félagi framkvæmdastjóra svæðisstjórna fatlaðra, Birgi Guðmundsson, Ólaf Kristinsson og Jóhann Arnfinnsson frá Foreldra- og vinafélagi Kópavogshælis, Sigfús Jónsson, formann sveitarfélaganefndar, Tómas Grétar Ólafsson, frá stjórn Sólheima í Grímsnesi, og Ingimar Sigurðsson, framkvæmdastjóra heilsugæslustöðva í Reykjavík.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingartillögum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingartillögurnar miða einkum að því að draga úr þeirri auknu miðstýringu sem margir umsagnaraðilar hafa talið einkenna frumvarpið. Í þessu felst að dregið er úr valdi félagsmálaráðuneytisins og jafnframt leitast við að auka áhrif heimamanna. Til viðbótar eru allnokkrar breytingartillögur sem flestar eru tilkomnar í ljósi athugasemda umsagnaraðila. Breytingartillögur við frumvarpið eru eftirfarandi:
    Lagt er til að síðasti málsliður 3. gr. falli brott. Í fyrsta lagi hefur ákvæðið verið efnislega umdeilt. Í öðru lagi þykir vafasamt að kveða á um skipan Stjórnarráðsins í sérlögum.
    Lagðar eru til þrjár breytingar við 6. gr. Sú fyrsta lýtur að því að svæðisráð geti gert tillögur bæði til svæðisskrifstofa og beint til ráðuneytis. Er þannig lagt til aukið vægi svæðisráðs. Önnur breytingartillagan felur í sér að svæðisráð hafi frumkvæði að aukinni ábyrgð sveitarfélaga í málefnum fatlaðra. Er hér um mjög mikilvægt atriði að ræða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta sé verkefni ráðuneytisins en telja verður æskilegt að fela heimamönnum þetta viðfangsefni. Í þriðju tillögunni felst að fulltrúum í svæðisráði verði fjölgað um tvo. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins er felldur út en héraðslæknir og fræðslustjóri taka sæti í svæðisráðinu. Jafnframt er fulltrúum sveitarfélaga fjölgað um einn og skal sá fulltrúi vera félagsmálastjóri innan svæðisins. Telja verður að svæðisráðið sé betur fallið til að sinna samræmingu þjónustu innan svæðis með setu héraðslækna, fræðslustjóra og félagsmálastjóra í því. Stuðlar þetta og að aukinni samvinnu og samráði félags-, heilbrigðis- og menntakerfis í málefnum fatlaðra. Þá felur þessi skipan í sér aukin áhrif heimamanna og aukið vægi svæðisráðsins.
    Lagt er til að 8. gr. falli brott. Er það í samræmi við óskir margra umsagnaraðila. Með þeirri breytingu, sem lögð er til á 6. gr., ætti samráð að vera leyst á hverju svæði fyrir sig og nefnd ráðuneyta að vera óþörf.
    Við 10. gr. er annars vegar lögð til sú breyting að 4. tölul. falli niður þar sem orðið „þjónustumiðstöð“ er einungis samheiti þjónustu sem frumvarpið kveður að öðru leyti á um. Ef hagkvæmt þykir að reka fleiri en einn þjónustuþátt saman ætti að vera óþarft að kveða sérstaklega á um það. Hins vegar er lögð til breyting í 4. mgr. sem kveður á um að umsögn stjórnarnefndar er ekki nægileg ein sér og undirstrikar það aukið vægi svæðisráða.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt til þess að útrýma misskilningi sem orðið hefur vart vegna orðalags greinarinnar. Skipulagt svæði samkvæmt skipulagslögum er ýmist íbúðabyggð, stofnanasvæði eða atvinnusvæði.
    Lagðar eru til tvær breytingar við 12. gr. Fyrri breytingin felur í sér aukna áherslu á vilja hins fatlaða. Sú seinni lýtur að því að breyta orðalagi sem þykir bera vott um of mikið forræði.
    Lagðar eru til fjórar breytingar við 13. gr. Lögð er í fyrsta lagi til breyting við 1. málsl. 1. mgr. sem ætti að taka af tvímæli um að óþarft sé að starfrækja svæðisskrifstofu þegar sveitarfélög taka yfir þjónustu við fatlaða að öllu leyti. Færi um slíkan rekstur samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá er annars vegar lögð til breyting á 1. tölul. 1. mgr. og hins vegar er lögð til viðbót við 2. tölul. 1. mgr. Þessar breytingar þykja nauðsynlegar til að taka af tvímæli um að ekki er ætlunin að svæðisskrifstofur hafi yfirumsjón með þjónustu, framkvæmdum og rekstri sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana. Í fjórða lagi er lagt til að 2. málsl. 2. mgr. falli brott. Ákvæðið er óþarft og hefur valdið misskilningi. Um ráðningu starfsfólks fer samkvæmt almennum reglum, þ.e. framkvæmdastjóri ræður starfsfólk enda er ráðningin staðfest af ráðuneyti.
    Lögð er til breyting við 14. gr. og vísast um það til seinni athugasemdar við 6. gr.
    Lagt er til að síðari málsliður 15. gr. falli brott. Veruleg andstaða hefur komið fram hjá mörgum aðilum vegna þessa heimildarákvæðis.
    Lagt er til að 6. tölul. 1. mgr. 17. gr. falli á brott. Sjá má af mörgum umsögnum að menn óttast þá miðstýringu á þjónustu sem í ákvæðinu felst. Umsagnaraðilar láta og í ljós efasemdir um gildi göngudeildar fullorðinna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í ljósi þessa þykir ekki rétt að stofnað verði til slíkrar deildar einkum þegar haft er í huga að hún hefði talsverð útgjöld í för með sér. Enn fremur eru lagðar til leiðréttingar við misritun í 7. og 9. tölul. 1. mgr. greinarinnar.
    Lagt er til að 18. gr. verði breytt vegna þess að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sérhæfir sig fyrst og fremst í þroskafrávikum. Því er í mörgum tilvikum eðlilegra að vísa til annarra aðila, svo sem Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands eða Sjónstöðvarinnar.
    Lagt er til að í 20. gr. verði mælt fyrir um að fötluð börn skuli eiga rétt til leikskóladvalar á vegum sveitarfélaga og skuli veita hana á almennum leikskóla með nauðsynlegri stuðningsþjónustu eða á sérhæfðum deildum, sbr. leikskólalög.
    Breytingin, sem lögð er til við 25. gr., felur ekki í sér efnislega breytingu.
    Lögð er til sú breyting við 26. gr. að heimaaðilar taki þær ákvarðanir sem um er að ræða í stað félagsmálaráðuneytis.
    Lagt er til að 31. gr. verði breytt á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er lagt til að eftir 1. málsl. komi nýr málsliður til fyllri skýringar á efni greinarinnar. Þá eru lagðar til breytingar á tveimur síðustu málsliðum til að taka af öll tvímæli um að ákvæði greinarinnar vísar til launaðra starfa.
    Lagt er til að 32. gr. verði breytt vegna þess að ekki þykir rökrétt að binda í lög að könnun skuli gera á ákveðnu árabili.
    Lögð er til breyting á 36. gr. vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um akstur fatlaðra en gert er ráð fyrir að ferðaþjónusta fatlaðra, sem kveðið er á um í greininni, greiðist af sveitarfélögum.
    Lögð er til breyting á tilvísun í 49. gr. vegna breytingartillögu við 36. gr. Þá er bætt við greinina ákvæði þess efnis að ríkissjóður greiði þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur vegna fatlaðra barna á leikskólum.
    Lögð til breyting á 52. gr. og vísast til athugasemda við breytingartillögu á 36. gr.
    Lagt er til að 53. gr. verði breytt til samræmis við þá breytingu sem lögð er til við 8. gr. frumvarpsins.
    Lögð er til sú breyting við 57. gr. að ákvæði 36. og 52. gr., sem byggjast á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um akstur fatlaðra, öðlist gildi 1. janúar 1993. Þá er gerð breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins er verður 1. september í stað 1. júní.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða III falli brott með hliðsjón af breytingum við 49. gr. Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði IV falli niður með hliðsjón af því að síðari málsliður 15. gr. falli niður.
    Meiri hluti nefndarinnar vill að fram komi að hann telji mikilvægt vegna þeirrar óskýru réttarstöðu sem íbúar Kópavogshælis búa við að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra beiti sér þegar fyrir skipan fimm manna nefndar sem hafi það verkefni að gera tillögur um framtíðarhlutverk og skipan Kópavogshælis. Meiri hluti nefndarinnar telur eðlilegt að félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og stjórnarnefnd í málefnum fatlaðra tilnefni sinn fulltrúa hver og að jafnframt skipi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra formann án tilnefningar.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.

Alþingi, 12. maí 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form., frsm.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Einar K. Guðfinnsson.

Eggert Haukdal,


með fyrirvara.



Jón Kristjánsson,

Ingibjörg Pálmadóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.