Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 218 . mál.


917. Nefndarálit



um frv. til l. um Háskólann á Akureyri.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk til viðræðna um málið Þorstein Gunnarsson, deildarsérfræðing í menntamálaráðuneytinu og formann nefndar er samdi frumvarpið, Harald Bessason, rektor Háskólans á Akureyri, og Kristján Kristjánsson, sérfræðing við skólann.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingar nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Við 1. gr. Ákvæði frumvarpsins um hlutverk stofnunarinnar er gert fyllra með því að kveða skýrt á um að Háskólinn skuli veita nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum.
    Við 2. gr. Lagt er til að f-liður 2. mgr. falli brott en hann kveður á um að einn fulltrúi Akureyrarbæjar og einn fulltrúi heildarsamtaka sveitarfélaga á Norðurlandi skuli eiga sæti í háskólanefnd. Það er skoðun nefndarinnar að Háskólinn á Akureyri sé, líkt og Háskóli Íslands, skóli allra landsmanna og því sé ekki eðlilegt að í stjórn hans sitji fulltrúar staðbundinna samtaka. Þá er gerð orðalagsbreyting við 1. mgr. greinarinnar.
    Við 9. gr. Orðalagi síðari málsliðar 1. mgr. er breytt til að kveða skýrar að orði um heimild menntamálaráðuneytisins til að stofna fleiri deildir við háskólann að því tilskildu að fyrir liggi tillögur háskólanefndar. Við háskólann eru núna starfandi þrjár deildir, heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Nefndin styður að hið fyrsta verði stofnuð kennaradeild við skólann en ljóst er að verulegur áhugi og stuðningur er við stofnun slíkrar deildar.
    Við 11. gr. Um er að ræða orðalagsbreytingar til að taka af öll tvímæli um að með ákvæði greinarinnar er átt við rannsóknarleyfi en ekki orlof í hefðbundnum skilningi þess orðs.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 1992.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Björn Bjarnason.

Árni Johnsen.



Hjörleifur Guttormsson.

Rannveig Guðmundsdóttir.