Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 188 . mál.


938. Nefndarálit



um frv. til l. um brunavarnir og brunamál.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk um það umsagnir frá Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Landssambandi slökkviliðsmanna, Arkitektafélagi Íslands, starfsfólki Brunamálastofnunar ríkisins, Verkfræðingafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi byggingarfulltrúa, stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, brunamálastjóra og Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Þá komu á fund nefndarinnar Bergsteinn Gizurarson brunamálastjóri, Guðmundur Vignir Óskarsson, formaður Landssambands slökkviliðsmanna, Kristján Jóhannsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Guðmundur Gunnarsson, Árni Árnason og Guðmundur Bergsson, fulltrúar starfsmanna Brunamálastofnunar ríkisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Fjölmargar athugasemdir bárust nefndinni frá umsagnaraðilum og hefur nefndin tekið tillit til margra þeirra í breytingum sínum. Breytingartillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Við 2. gr. Sú breyting er gerð á 1. mgr. að í stað þess að Brunamálastofnun hafi á hendi „yfirumsjón“ með öllum brunamálum hafi hún „eftirlit“ með þessum málum. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af því að samkvæmt sveitarstjórnarlögum eru eldvarnir og eldvarnaeftirlit verkefni sveitarfélaga. Þá eru gerðar breytingar á 4. mgr. þar sem skilgreind eru verkefni Brunamálastofnunar. Breytingarnar taka mið af því að óeðlilegt er talið að Brunamálastofnun ríkisins sinni verkefnum í samkeppni við starfandi ráðgjafa en á síðustu árum hefur verið að byggjast upp þekking á brunamálum á íslenskum ráðgjafarmarkaði, einkum fyrir tilstuðlan Brunamálastofnunar ríkisins. Lögð er því til breyting á a-, f- og g-liðum. Enn fremur er í d-lið kveðið á um að Brunamálastofnun skuli hafa forgöngu um að fyrirmælum reglugerðar um skyldubundna menntun verði framfylgt en slíkt ákvæði var ekki fyrir hendi. Breyting á e-lið er orðalagsbreyting.
    Við 3. gr. Í fyrri málsgrein er í fyrsta lagi lögð til sú breyting að niður falli ákvæði um að stjórn stofnunarinnar fari með yfirstjórn brunamála. Hlutverk stjórnar ætti fremur að vera það að marka stefnu stofnunarinnar og jafnframt hafa nokkurs konar rammaeftirlit með því að stofnunin gegni hlutverki sínu. Í öðru lagi er lögð til sú breyting við fyrri málsgrein að í stað Arkitektafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands tilnefni Brunatæknifélag Íslands mann í stjórn, en síðastnefnt félag er sameiginlegur vettvangur allra hönnuða sem og annarra sem hafa aukna þekkingu á brunahönnun og brunavörnum að markmiði. Þá er í síðari málsgrein lögð til breyting á stöðu brunamálastjóra. Hlutverk hans samkvæmt frumvarpinu er að sjá um daglegan rekstur í umboði stjórnar. Eðlilegra þykir að hann veiti stofnuninni forstöðu og sé ábyrgur gagnvart stjórninni. Hvað varðar menntun hans virðist ekki vera ástæða til að breyta verulega skilyrðum gildandi laga og er gerð breytingartillaga til samræmis við það.
    Við 4. gr. Breytingin er með hliðsjón af 5. mgr. 27. gr. frumvarpsins.
    Við 5. gr. Greininni er breytt vegna þess að fortakslaus skylda allra sveitarfélaga til að tryggja vatn og vatnsþrýsting fyrir slökkvibúnað og sérstakan búnað, t.d. vatnsúðakerfi í meiri háttar byggingar, getur reynst óraunhæf vegna kostnaðar. Eðlilegt þykir að heimilt verði að leita annarra lausna til að tryggja nauðsynlegar brunavarnir þar sem vatnsöflun er erfið.
    Við 6. gr. Ákvæði síðari hluta 2. mgr. greinarinnar um sérstaka almannahættu, t.d. af völdum vatnsflóða og fárviðris, fellur út. Það hlýtur ávallt að vera mat slökkviliðsstjóra hvenær nota beri tækjakost slökkviliðs og hvenær ekki og ekki hægt að binda það við sérstaka almannahættu.
    Lagt er til að 12. gr. falli brott þar sem ákvæðið þykir óþarft.
    Við 15. gr. Þar sem ekki er alltaf þörf fyrir löggæslu við slökkvistörf og sjaldnast við æfingar slökkviliðs þykir rétt að slökkviliðsstjóri eigi sjálfur frumkvæði að því að meta hvort þörf sé á löggæslu.
    Við 18. gr. Lagt er til að ákvæði greinarinnar verði rýmkað þannig að það nái til byggingarefna, tækja og annars varnings. Mjög brýnt er fyrir Brunamálastofnun að geta fylgst með innflutningi og sölu ýmissa efna, tækja og varnings sem eldhætta getur stafað af. Enn fremur er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein til að tryggt sé að einungis verði notuð viðurkennd efni þar sem ákveðnar kröfur eru gerðar samkvæmt byggingar- og brunamálareglugerðum. Það er og nauðsynlegt að upplýsingum um slíkar viðurkenningar sé komið á framfæri með skipulögðum hætti við þá sem á þurfa að halda.
    Við 19. gr. Breyting á 4. mgr. greinarinnar er orðalagsbreyting. Þá er lögð til sú breyting við 5. mgr., er fjallar um húsnæði sem þegar er byggt og í rekstri, að ótvírætt sé að slökkviliðsstjórar eða byggingarfulltrúar hafi heimild til að fara fram á brunatæknilega hönnun eða úttekt á slíku húsnæði sé brunavörnum þess ábótavant í veigamiklum atriðum. Í 6. mgr. er sú breyting lögð til að þegar gerðar eru breytingar á mannvirki eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru auknar eða nýjar kröfur um brunavarnir í þeim skuli eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarnefndar og slökkviliðsstjóra. Í 7. mgr. er gert ráð fyrir að Brunamálastofnun, í stað félagsmálaráðherra í frumvarpinu, geti gert sérstakar ráðstafanir til brunavarna í þeim mannvirkjum sem kveðið er á um í 5. mgr. Í 8. mgr. er gerð sú breyting að eiganda eða forráðamanni mannvirkis eða tryggingafélagi beri að gera viðeigandi ráðstafanir til björgunar verðmæta eftir bruna.
    Við 23. gr. Lagt er til að í greininni verði kveðið á um að Brunamálastofnun sjái um að rannsókn fari fram á orsökum eldsvoða eftir brunatjón. Hjá stofnuninni er tæknileg þekking mikil og óhagkvæmt vegna fámennis að byggja upp þessa sérþekkingu hjá öðrum stofnunum. Ef grunur leikur á um refsiverðan verknað skal Rannsóknarlögregla ríkisins sjá um lögreglurannsókn í samráði við Brunamálastofnun.
    Við 24. gr. Lagt er til að b- og c-liðir greinarinnar falli brott. Sömu ákvæði eru í gildandi lögum um brunamál en ekki hefur þurft að beita þessum ákvæðum og er ekki talin ástæða til halda þeim í greininni.
    Við 26. gr. Lögð er til breyting á 2. mgr. greinarinnar þar sem núverandi orðalag stangast hugsanlega á við 66. gr. stjórnarskrárinnar.
    Við 27. gr. Gert er ráð fyrir að meira samráð verði en áður milli sveitarstjórna og slökkviliðsstjóra. Þá er kveðið á um að dagsektir, sem heimilaðar eru ef eigandi mannvirkis framkvæmir ekki nauðsynlegar úrbætur, skuli renna í sveitarsjóð í stað ríkissjóðs áður.
    Við 28. gr. Lagt er til að greininni verði breytt þannig að vanræki sveitarfélag skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu geri Brunamálastofnun ráðuneytinu viðvart sem þá veiti sveitarfélagi áminningu og áskorun um að bæta úr vanrækslunni. Sinni sveitarfélag því ekki sé heimild til þess að grípa til dagsekta.
    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. maí 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Eggert Haukdal.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.