Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 434 . mál.


975. Nefndarálit



um frv. til l. um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda, og Jón Höskuldsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Meginbreyting nefndarinnar felst í því að breytt er framsetningu frumvarpsins og því er öllum greinum frumvarpsins breytt. Telur nefndin nýju framsetninguna skýrari og markmið laganna komist betur til skila þannig.
    Nefndin leggur einnig til nokkrar efnisbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um að réttur til forfallaþjónustu sé bundinn við bóndann, en starfsmenn hans hafi ekki sjálfstæðan rétt til hennar. Ef starfsmenn bónda forfallast á hann rétt á afleysingamanni að skilyrðum laganna uppfylltum, en um rétt starfsmannsins í veikindaorlofi fer eftir ráðningarsamningi hans og almennum reglum sem gilda um launþega.
    Í öðru lagi er lagt til að búnaðarsamböndum verði skylt að starfrækja forfallaþjónustu en sambönd geta sameinast um framkvæmd þjónustunnar ef það þykir hentugt. Stjórn afleysingaþjónustunnar gerir í samráði við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands árlega áætlun um greiðslur fyrir forfallaþjónustuna til hvers búnaðarsambandssvæðis. Lagt er til að Búnaðarfélagi Íslands verði falið að annast um bókhald og reikningsskil forfallaþjónustunnar með líkum hætti og verið hefur og skulu endurskoðaðir reikningar og ársskýrsla stjórnar lögð fram á búnaðarþingi.
    Í þriðja lagi er lögð áhersla á að þessi þjónusta tekur fyrst og fremst til forfalla vegna slysa eða veikinda. Stjórn forfallaþjónustunnar er þó heimilt að ráða starfsmenn hennar til afleysinga ótímabundið enda greiði viðkomandi bóndi laun þeirra. Til að leggja enn frekari áherslu á hlutverk forfallaþjónustunnar leggur nefndin til að í heiti frumvarpsins komi eingöngu fram að þau séu um forfallaþjónustu í sveitum.
    Í fjórða lagi er nánar kveðið á um hvað eigi að ákveða í reglugerð sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar forfallaþjónustunnar og er m.a. skilyrði fyrir aðstoð að sá sem hennar óskar hafi staðið skil á gjöldum sínum til Búnaðarmálasjóðs.
    Að lokum er lagt til að inn í frumvarpið verði bætt nýrri grein er varðar búgreinafélög sem segja sig frá forfallaþjónustunni. Ef Stéttarsamband bænda nýtir þá heimild, sem veitt er í 3. mgr. 4. gr. laga um Búnaðarmálasjóð, að óska eftir því við landbúnaðarráðherra að búgreinafélag verði undanþegið því að greiða til forfallaþjónustunnar þá nær sú undanþága aðeins til þeirra félagsmanna sem undirrita yfirlýsingu um að þeir séu ekki lengur aðilar að forfallaþjónustunni. Er þetta gert til þess að bændur, sem kjósa að njóta þeirra réttinda sem í forfallaþjónustunni felast, glati ekki þeim rétti vegna ákvörðunar félags þeirra. Þessir bændur eru ábyrgir fyrir greiðslu á búnaðarmálasjóðsgjaldi sínu ef félag þeirra greiðir ekki til forfallaþjónustunnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. maí 1992.



Egill Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Guðni Ágústsson.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Einar K. Guðfinnsson.

Árni M. Mathiesen.

Sigurður Hlöðvesson.