Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 14:29:37 (4249)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom út af fyrir sig ekki mjög margt nýtt fram í ræðu hv. þm. sem kannski er ekki von. Þetta er mál sem mikið hefur verið rætt. Ég ætla ekki að fjalla hér um spurninguna um þjóðaratkvæðagreiðslu eða um stjórnarskrárþáttinn. Alþingi hefur tekið afstöðu til þessara þátta eins og þeir hafa verið lagðir fyrir þingið. En vegna spurninga hans sérstaklega um það hvort orð sem eftir mér voru höfð og jafnvel beint flutt eftir því sem mér skilst, hvort afstaða ríkisstjórnarinnar varðandi beiðni um inngöngu í Evrópubandalagið hafi breyst, þá er það ekki svo. Sú afstaða er algerlega óbreytt. Þrátt fyrir að ég vekti athygli á þeim þáttum, sem reyndar hafa komið fram annars staðar og áður, að það hefur verið vilji þeirra talsmanna Evrópubandalagsins, sem eru í forsæti á hverjum tíma, að þegar frekari útvíkkun bandalagsins ætti sér stað og reyndi á að hinar smærri þjóðir leituðu þar eftir inngöngu, eins og þjóðir á borð við Möltu og Kýpur hafa gert, væri ljóst að viljinn stendur ekki til þess innan Evrópubandalagsins að þau ríki fái inngöngu með sama hætti og á jafnréttisgrundvelli miðað við þau ríki sem þar eru fyrir. Það hefur verið vakin athygli á þessu gagnvart Íslandi og hefur komið í fréttum líka. Á það hefur þá verið bent að Ísland hefur fengið tilboð um slíkan aðgang með öðrum EFTA-ríkjum. Þess er ekki að vænta að slíkt muni gerast í framtíðinni. Spurningin um hvort við erum að missa þar tækifæri, eins og hv. þm. spurði um, er þá aftur spurning um það hvort menn líti svo á að það sé fengur yfirleitt í því að ganga í bandalagið. Það er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það hefur ekki breyst.