Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 14:31:43 (4250)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég tek þau góð og gild og ég tel mikilsvert að þá sé eytt allri óvissu um að einhver stefnubreyting hafi þarna orðið. Ég vona að hér sé talað fyrir ríkisstjórnina alla og stjórnarflokkana báða. Annað hefur stundum mátt ráða af ýmsum ummælum, m.a. úrræðum flokks hæstv. utanrrh. en hæstv. forsrh. svarar hér fyrir ríkisstjórnina og það gildir vonandi fyrir hana alla. Þó svo einhverjir einstakir angar hennar kunni að hafa aðra skoðun þá er hæstv. forsrh. væntanlega myndugur þegar hann gefur þetta svar.
    Um rökstuðninginn fyrir því hvort Ísland sé á einhvern hátt að missa af tækifæri sem því bjóðist ekki aftur, ef tækifæri skyldi kalla, verður það tæplega rökrætt innan tímamarka andsvara. Ég held ég geymi mér það til betri tíðar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þarna sé farið tækifæri yfirleitt sem okkur sé hagstætt og það er þess vegna röng orðanotkun að mínu mati að líta svo á. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að það væri jafnóhagstætt Íslandi og ekkert síður nú en á næstu árum að þurfa yfir höfuð að ganga inn í þetta samstarf með því afsali og þeim kvöðum sem því fylgja. Staða annarra ríkja þó smá séu suður í Evrópu er gjörólík og ekki sambærileg við okkar.
    En ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég tel mikilvægt út af fyrir sig að það liggi alveg ljóst fyrir að eitthvað sem heitir umsókn um aðild að Evrópubandalaginu af hálfu Íslands er ekki á dagskrá í ríkisstjórnartíð hæstv. forsrh. og breytir þá væntanlega engu hver afdrif samningsins um Evrópskt efnahagssvæði verða.