Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:07:46 (4255)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg það sé af tveimur mismunandi ástæðum sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætla að greiða atkvæði gegn þessum samningi við atkvæðagreiðsluna.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur í sinni ræðu fyrr við umræðuna lýst afstöðu sinni til samningsins. Hann treystir sér ekki til að greiða atkvæði með samningnum vegna þess að hann telur að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána. En ég heyrði ekki betur í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar en hann væri efnislega í andstöðu við samninginn. Þarna er mikill mismunur á vegna þess að efnislega hefur samningurinn sáralítið breyst frá því er fyrri ríkisstjórn var að vinna að honum en stjórnarskrárþáttur málsins var þá ekki kominn eins inn í umræðuna og hann er nú.
    Varðandi það hver afstaða mín er til þessa samnings og til þessarar ríkisstjórnar, þá hygg ég að ég og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson höfum sömu afstöðu til ríkisstjórnarinnar. Ég viðurkenni það fúslega að ég treysti ríkisstjórn undir forustu Framsfl., sem færi með þetta samningsumboð nú, miklu betur til þess að fara með samningsumboðið. Ég er líka sannfærður um að ýmislegt af því sem ég tel að miður hafi farið við samningsgerðina, eins og ég kom inn á áðan, hefði ekki farið með þeim hætti undir forustu Framsfl.