Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:12:18 (4257)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ég sé þriðji þingmaður Framsfl. sem lýsir því yfir við 2. umr. að ég muni sitja hjá við afgreiðslu málsins. Hins vegar skiptir það ekki máli og aðrir þingmenn flokksins munu auðvitað gera grein fyrir afstöðu sinni í málinu.
    Varðandi það að flokksþing framsóknarmanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána þá var það ekki eindregin niðurstaða heldur að vafi væri á og það er einnig vafi í mínum huga. Ég tel að það séu mikilvægir hlutir í þessum samningi sem snerta íslenskt atvinnulíf, sérstaklega sjávarútveginn. Að ég hygg gerði ég nákvæma grein fyrir því í ræðu minni að þeir hagsmunir eru mjög miklir. Þar að auki var reynt af hálfu stjórnarandstöðunnar að fá fram breytingar á stjórnarskránni í þinginu sem stjórnarmeirihlutinn ákvað að vísa til ríkisstjórnarinnar og því verður meiri hlutinn á Alþingi, sem tók þá ákvörðun, auðvitað að bera þá pólitísku ábyrgð sem því er samfara.
    Varðandi það hvernig ég sjái að þessi stofnanahluti samningsins falli brott get ég ekki hugsað mér það og sé ekki þó það sé margt einkennilegt hjá Evrópubandalaginu að Evrópubandalagið muni gera tilraun til þess að halda öllum stofnanaþætti þessa samnings úti þegar við Íslendingar erum eini aðilinn eftir hjá EFTA. Því lít ég svo á að það verði í raun og veru ekki samningur milli EFTA og Evrópubandalagsins heldur milli Íslands og Evrópubandalagsins og því tel ég að það sé sterkara fyrir okkur að mörgu leyti að hafa staðfest samninginn og þá hafi sá vilji okkar komið fram að við séum hlynntir viðskiptahluta samningsins. Ég tel að það muni gerast þannig að stofnanahlutinn falli frá en engum dettur í hug að reyna að halda því batteríi öllu úti.