Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:02:14 (4261)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. ítrekaði hér einu sinni enn að mikill og slæmur dráttur væri orðinn á samþykkt Alþingis. En ég held þó að öllum sé ljóst að afgreiðsla Alþingis eða afgreiðsluleysi hefur hingað til ekki tafið neitt framgang þessa máls. Það hafa önnur atriði gert. Mér finnst því að hann þurfi ekki að vera með þessar sífelldu ásakanir um það.
    En ég vildi ítreka spurningar til hæstv. utanrrh. hvort hann hafi yfirlýsingar hinna EFTA-þjóðanna um að þær ætli sér að standa að því að koma upp þessum stofnunum þó að þær verði þegar fer að líða á þetta ár eftir forustu Dana innan EB komnar langt inn í það. Þegar þessar þjóðir eru komnar inn hverfur ekki sá kostnaður allt í einu. Þarna verða ráðnir menn til starfa og því verður ekki breytt fyrr en búið er að leggja þau störf niður aftur og einhvern tíma þar á eftir. Hverjir standa undir þeim kostnaði? Verða þær þjóðir sem að samningnum standa skuldbundnar lengi á eftir að standa undir kostnaðinum eða losna þær við hann um leið og þær ganga inn í EB? Hvernig verður þessu háttað?