Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:39:03 (4265)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég endurtek bara það sem ég sagði um risafyrirtækin. Ég tel að ekki þurfi að velkjast lengi með mönnum ef þeir horfa á hvernig útflutningur er saman settur frá þeim löndum sem hér er um að ræða. Til þess að keppa á þessum markaði þurfa fyrirtækin að vera gífurlega stór á okkar mælikvarða. Svoleiðis fyrirtæki eigum við ekki nema í sjávarútvegi. Ég endurtek það.
    Hv. þm. spurði mig hvort ég væri að gefa það til kynna að ég vildi hleypa erlendum fjárfestingum í íslenska sjávarútveginn. Nei, ég er ekki tilbúinn til þess að gera það. En ég tek líka sérstaklega fram að ég er á móti þessum samningi eins og hann liggur fyrir og þar með á móti málinu í heild. Ég var einfaldlega að segja frá því að ég tel það víst og finnst augljóst að um leið og þessi samningur er orðinn að veruleika, ef hann verður það, muni þessi fyrirvari hvað varðar sjálfa fiskvinnsluna í landinu falla af mjög einföldum ástæðum sem ég lýsti hér áðan, þ.e. að á fyrsta stigi munu erlendir aðilar fá möguleika til að kaupa fiskinn. Það verður mjög erfitt að rökstyðja það í framhaldinu að þeir megi ekki vinna fiskinn hér í landinu heldur verði að flytja hann beint út til þess að vinna hann þar. Þannig held ég að sá fyrirvari muni falla mjög fljótt.